20.11.1952
Sameinað þing: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2575)

15. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég þarf nú í raun og veru sárafáu að bæta við það, sem ég áður sagði, af því að hv. 7. landsk. staðfesti alla mína frásögn, eins og líka var ekki hægt annað að gera. En hans frásögn í fyrri ræðu var lituð af því, og ég veit, að þm., sem hafa á hann hlustað, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að brezkir og vestur-þýzkir jafnaðarmenn væru andvígir því, að Þýzkaland tæki þátt í varnarsamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins beint eða óbeint með samtökum við nágrannaríkin, sem hefðu svo náin tengsl aftur við Norður-Atlantshafsbandalagið, eða beinlínis með inngöngu í varnarbandalag Norður-Atlantshafsríkjanna, þegar þar að kæmi. Það er því talsvert ólíku saman að jafna frásögn þeirri, sem ég hef nú hér gefið, og frásögn hv. 7. landsk. í fyrri ræðu hans, enda var tilgangurinn með frásögn hans sá að reyna að koma því inn, að — jafnaðarmenn í Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi væru að verða andvígir varnarsamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins. En því fer víðs fjarri, eins og ég hef nú þegar skýrt frá.

Það kann að verða, því miður, nokkur dráttur á því, að Þýzkaland allt sameinist í eitt lýðræðisríki, og ég veit það með vissu, að þýzkir jafnaðarmenn vilja ekki bíða í það óendanlega eftir því, að Rússum þóknist að ganga til samninga við Vesturveldin um sameiningu alls Þýzkalands, en þeir vilja, eins og öll vestur-þýzka þjóðin, gera allt það, sem í þeirra valdi stendur til þess að gera nú tilraun, þó að hún taki einhvern tíma, til þess að sameina alla þjóðina í eitt ríki. Ég veit það af æðimörgum viðtölum við þýzka jafnaðarmenn, að þeir gera sér ekki of háar hugmyndir um, að þetta takist, en þeir hafa sagt: Við þurfum að hafa þolinmæði, eins og nú verður að beita þolinmæði í 18 mánuði eða þar um bil í friðar- eða vopnahléssamningunum í Kóreu. Og Sameinuðu þjóðirnar hafa sýnt, að þær eiga til slíka þolinmæði, þegar á liggur. Við viljum enn með þolinmæði prófa, eftir því sem við mögulega getum, að beita áhrifum okkar til þess, að Þýzkaland verði allt sameinað í eitt ríki, af því að við óttumst, að ef það verður ekki, muni það leiða til bróðurvíga innan þýzku þjóðarinnar, ef þessi tvö ríki, Vestur- og Austur-Þýzkaland, verða endanlega sundurgreind.

Það var líka annað og meira, sem þýzki Jafnaðarmannaflokkurinn lýsti yfir á nýafstöðnu þingi sínu og hv. 7. landsk. þm. gat ekki um, að hann setti stefnu sína þá, að landamæri Þýzkalands yrðu þau sömu og voru 1937. Ég hygg, að það verði við ramman reip að draga hvað snertir Rússland, þar sem Pólland hefur fengið verulegan hluta af því, sem var Þýzkaland 1937, og aftur Rússar verulegan hluta af því, sem var Pólland 1937. En þetta er stefna þýzkra jafnaðarmanna, og stefna þýzkra jafnaðarmanna er einnig sú, að frjálst og sjálfstætt lýðræðisríki, sameinað í eina heild í Þýzkalandi, verði einn hlekkurinn í varnarkeðju Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þeir eru í meginreglum fylgjandi Norður-Atlantshafsbandalagi, og veit ég það bæði —eins og ég sagði áðan — af mörgum viðtölum við m. a. núverandi formann flokksins, Ollenhauer, og fleiri um þetta atriði.

Varðandi afstöðu brezka Jafnaðarmannaflokksins á nýafstöðnu þingi hans nú, þá finnst mér ekkert benda til þess, að flokkurinn breyti til um stefnu sína í utanríkismálum yfirleitt. Og stefna hans í utanríkismálum er að vera öflugur þátttakandi í varnarsamtökum Norður-Atlantshafsbandalagsins og að láta brezka ríkið hervæðast á þann hátt, að það geti orðið fyrir sitt leyti þar sterkur hlekkur í keðjunni. Hitt er annað mál, alveg eins og Churchill hefur orðið að fara inn á með sína stjórn, að sú áætlun um hervæðingu í Bretlandi, sem flokkarnir tveir voru að verulegu leyti sammála um, verði örðugt að framkvæma á þann hátt, að ekki gangi út yfir félagsleg gæði alþýðunnar í landinu. Brezkir jafnaðarmenn munu aðeins vilja hafa þá einu takmörkun á hervæðingu Bretlands, að hún gangi ekki út yfir félagsleg gæði alþýðunnar. Það hefur ekkert komið fram, hvorki á flokksþinginu né í yfirlýsingum Attlees og annarra, sem bendi til nokkurra stefnubreytinga. Og þó að Bevan væri kosinn í miðstjórnina ásamt 6 félögum sínum, þá bendir það ekki heldur til þess, að Jafnaðarmannaflokkurinn brezki breyti um stefnu í utanríkismálum yfirleitt. Það er oft blæmunur á skoðunum manna innan flokksins varðandi t. d. Bandaríkin og þátttöku þeirra í heimsmálunum. Ég hef lesið nokkuð ýtarlega ræður, sem hafa verið fluttar á seinasta brezka Alþýðuflokksþinginu, og vil leyfa mér að benda á, að einn af höfuðmönnum brezka Jafnaðarmannaflokksins sagði þar, að baráttan gegn Bandaríkjunum, sem væri jafnvel uppi hjá sumum flokksmönnum, væri algerlega ósósíalistísk og að það væri víðs fjarri því, að brezki Jafnaðarmannaflokkurinn mundi hefja þann fána við hún.

Ég held þess vegna, að það sé víðs fjarri réttu lagi að vitna til andstöðu brezkra og vestur-þýzkra jafnaðarmanna, bæði út af Atlantshafsbandalaginu yfirleitt og út af þátttöku Þýzkalands, þegar þar að kemur, í frjálsum varnarsamtökum Vestur-Evrópu.