12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2595)

27. mál, smáíbúðarhús

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst það satt að segja koma úr hörðustu átt, ef hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) fer að ráðast hér á Sósfl. fyrir afskipti hans af byggingarmálunum. Ég vil minna hv. þm. Reykv. á, hverjir það voru, sem höfðu framtak með það að reyna að fá leysta fjötrana af íbúðarhúsabyggingunum hér á Íslandi, hverjir það voru, sem áttu uppástungu að því í fjhn. Nd., sem við sitjum báðir í, að Íslendingar fengju frjálst að byggja sæmilegar íbúðir, ekki neinar óhófsíbúðir. Ég vil minna hann á, hvernig fjhn.

Nd. flutti lagafrv. um þetta, hvernig Sjálfstfl. gekk þar með okkur sósíalistum, þegar við höfðum stungið upp á því, hvernig þetta frv. var sett í gegn hér í Nd., einróma, um að gefa frjálsar íbúðabyggingar á Íslandi, svo að við gætum frjálsir fengið að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, sem hér eru. Ég vil minna hv. þm. á, hvernig fór fyrir þessu frv., þegar það kom til Ed. Það var samþ. við 1. umr. í Ed. Það var samþ. af fjhn. Ed. Hún mælti með því í sinu nál. — og hvað gerðist svo? Það, sem gerðist svo, var, að fjárhagsráð í nafni erlendra aðila greip inn í og lýsti því yfir, að Bandaríkjamenn mundu fara að beita refsiráðstöfunum viðvíkjandi mótvirðissjóðnum, svo framarlega sem Alþ. Íslendinga ætlaði að dirfast að fara að samþ. önnur eins lög og það, að Íslendingar mættu byggja yfir sig sjálfir eins og þeir vildu. Man þá hv. 5. þm. Reykv., hvað gerðist í Ed.? Hverjir voru það, sem guggnuðu fyrir litla fingri fjárhagsráðs? Það voru Sjálfstfl. og Framsfl., að undanteknum einum manni úr Sjálfstfl., hv. þm. Vestm. (JJós), sem guggnuðu, breyttu frá þeirri stefnu, sem þeirra eigin fjhn. hafði markað í sínu áliti, og samþykktu að vísa frv. frá. Það er sú einstæðasta meðferð, sem nokkurn tíma hefur þekkzt á nokkru lagafrv. á Alþ. Íslendinga. Við sósíalistar höfðum átt upptök að því og fengið menn, sem vildu þarna vel, eins og hv. 5. þm. Reykv., til þess að gefa frjálsar íbúðarhúsabyggingar á Íslandi, þegar um smáar íbúðir væri að ræða. En hvað gerðist svo? Það gerist þetta, að Sjálfstfl. guggnar, þegar kemur að því að eiga að fylgja þessu frv. fram. Og hv. 5. þm. Reykv. veit ósköp vel, að smáíbúðalögin, sem síðan hafa svo verið sett, eru eins konar sárabót, sem sett hefur verið til þess að reyna að þurrka ofur lítið af Sjálfstfl. smánina af því, hvernig fór, þegar hann ætlaði að fara að samþ. lög hér í þinginu um það, að Íslendingum skyldi vera frjálst að byggja íbúðarhús sín. Þess vegna held ég, að fulltrúar Sjálfstfl. ættu ekki að tala neitt djarflega viðvíkjandi þessu máli og fara að álasa okkur sósíalistum sérstaklega í því.

Það er vitanlegt, að öll afskipti fjárhagsráðs af byggingarmálum á Íslandi eru hneyksli frá upphafi til enda. Sá fjötur, sem fjárhagsráð hefur verið Íslendingum um fót og hönd í viðleitni manna til þess að reyna að bæta úr húsnæðisvandræðunum á Íslandi, er svo hataður af öllum almenningi á Íslandi, að það þyrfti fyrir löngu að vera búið að höggva á hann. Og það var vilji á Alþ. Íslendinga til þess að höggva á þann fjötur. En meiri hluti þingmanna kiknaði, þegar hann sá, að bak við þennan fjötur fjárhagsráðs bjó eitthvað meira, eitthvert sterkara vald. Það er vitanlegt, að það er verið nú sem stendur að neyða menn til þess að búa í algerlega óviðunandi íbúðum hér á Íslandi, í íbúðum, sem eru heilsuspillandi og eyðileggjandi bæði fyrir sál og líkama. Þessu er við haldið í krafti laga frá Alþ. Íslendinga, sem Alþ. Íslendinga hefur ekki þorað að afnema, af því að útlent vald hefur bannað það, og fjárhagsráð hefur komið fram sem fulltrúi þessa útlenda valds til að banna þetta. Það er vitanlegt, að þessir einokunarfjötrar eru hataðir af öllum almenningi á Íslandi og það treystir sér enginn til að verja þá, ekki einu sinni hér á Alþ. Íslendinga. Það gengur svo langt, að lögbrot eru orðin álitin sjálfsögð, svo framarlega sem menn þora að leggja út í þau. Ef menn byggja sér hús hér á Íslandi núna, t. d. lítil hús fyrir sig og sína fjölskyldu, þá er almenningsálitið með þeim, þó að slíkt hús sé byggt í banni fjárhagsráðs.

Hvað snertir brautryðjendastarfsemina fyrir smáíbúðirnar, þá skal ég minna hv. 5. þm. Reykv. á það, að það var nú einmitt í Vestmannaeyjum og í Kópavogshreppnum, sem byrjað var á að byggja þessar íbúðir, það er sumpart meira að segja í banni fjárhagsráðs og sem bein lögbrot. Og ég skal endurtaka það, sem ég sagði hér á þingi áður viðvíkjandi því, og m. a. hæla alveg sérstaklega Vestmannaeyingum fyrir, hve vel þeir hafa staðið sig í slíkum lögbrotum. Og það voru ekki aðeins lögbrot hvað snerti smáíbúðabyggingarnar hjá þeim. Það var meira að segja með lögbrotum — ef ég man rétt — byrjað á einni af stórbyggingunum í Vestmannaeyjum. Og það var ósköp vitanlegt, að það átti að fara að sekta menn í Vestmannaeyjum og það átti að fara að setja trúnaðarmenn þar af og setja þá í fangelsi og annað slíkt fyrir þetta. En fjárhagsráð treystist bara ekki til þess að framkvæma lögin, vegna þess að það hafði alla réttlætismeðvitund Íslendinga á móti sér í því.

Þannig er almenningsálitið orðið viðvíkjandi þessu ástandi. Það er búið að skapa alveg óhæft ástand hér á Íslandi með þeirri kúgun og með þeirri einokun, sem fjárhagsráð hefur beitt í þessum málum. Þetta ástand er bókstaflega að leiða til þess, að það er farið að álíta það sjálfsagt að brjóta lögin í þessum efnum. Í því máli, sem hér er sérstaklega verið að ræða, þá er alveg vitanlegt, að lögin voru brotin og fjárhagsráð var að byrja að kæra menn og ætlaði að fara að láta fangelsa menn. Héraðsdómari þorði ekki annað, en gefa eftir hér í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur, alveg eins og í Vestmannaeyjum áður. Fjárhagsráð kiknar hvað eftir annað á að framfylgja þess lögum og þess banni, vegna þess að þau eru ekki lengur í neinu samræmi við þarfir þjóðarinnar, möguleika þjóðarinnar og vilja þjóðarinnar, þó að Alþ. hafi ekki haft dug í sér af þeim ástæðum, sem ég nefndi áður, til þess að afnema þessi einokunarlög, sem ég veit hins vegar alveg fyllilega að hv. 5. þm. Reykv. er algerlega á móti í hjarta sínu.

Ég held þess vegna, að út af þeim ádeilum, sem hér komu fram á Sósfl., þá megi nú einmitt leita til þeirra staða, þar sem hann hefur viss áhrif, hvað snertir brautryðjendurna í því að brjóta þetta bann fjárhagsráðs á bak aftur og í því að byggja smáíbúðir.

Hvað snertir baráttuna fyrir skattfrelsi þeirra, sem höfðu lagt í íbúðarhúsabyggingar hér fyrir 5 árum og þar í kring, þá er það alveg rétt, að það var mjög gott mál, mjög nauðsynlegt, en náði allt of skammt. Ég þykist líka vita, að hv. þm. Sjálfstfl. í Reykjavík hafa viljað ganga lengra í þessum efnum, en hafa ekki fengið það. En hvernig var með útsvörin, voru líka útsvör lögð á eða voru þau gefin eftir? Það væri gott að fá upplýsingar um það, ef við eigum að fara að ræða það mál.

Svo kom hv. 5. þm. Reykv. hér inn á spurninguna um lánsmöguleikana og hvernig þrengzt hefði um lánsmöguleikana? Má ég spyrja: Hverjir voru það, sem þrengdu lánsmöguleikana? Hv. 5. þm. Reykv. talaði um lokaðar dyr í þeim efnum fyrir fólk til þess að fá lán til að byggja. Hverjir voru það, sem lokuðu dyrunum? Ætli það væri ekki rétt fyrir Sjálfstfl. að spyrja hæstv. viðskmrh., sem hefur með bankamálin að gera, hvort það liggi ekki bréf fyrir frá hæstv. viðskmrh. til bankanna og þá sérstaklega Landsbankans, þar sem mælt sé svo fyrir með ákaflega kurteisu orðalagi, að það skuli hafðar hömlur á lánveitingunum, m. ö. o., þar sem beinlínis sé verið að gefa fyrirskipun um að stöðva að miklu leyti lánastarfsemina, eins og gert hefur verið og eins og vissulega voru oftar tilhneigingar til hjá þeim mönnum, sem verið var að skrifa. Það er Sjálfstfl., sem hefur fyrirskipað þá lánakreppu, sem núna er í kauptúnum hér á Íslandi. Ég lét þetta mál koma hér fyrir í fyrra í sambandi við till., sem ég gerði um rannsókn á framferði dr. Benjamíns Eiríkssonar og hans afskiptum af bönkunum hér í Reykjavík viðvíkjandi lánum til húsabygginga. Meiri hluti hér á Alþ. hindraði það, að sú till. kæmi til n. hér í þingi, þannig að, það væri hægt að yfirheyra þennan dr. Benjamín Eiríksson og bankastjóra bankanna um, hvers konar afskipti þessi maður hefði haft af því, að Íslendingar gætu fengið lán út á íbúðarhúsabyggingar. Ég býst við, að það hefði komið í ljós, svo framarlega sem þingnefndin hefði fengið að gegna sínu eðlilega hlutverki að rannsaka, hvers konar háttur væri á hafður um stjórnina á þjóðfélaginu, að það hefði komið í ljós, að dr. Benjamín Eiríksson hefur sérstaklega fylgzt með því í bönkunum, haft eftirlit með því, að það væri ekki lánað út á hús, enda er búið að skapa svoleiðis óhæft ástand hér á Íslandi nú, sem ekki þekkist í nokkru nágrannalandi okkar, að það er engin eðlileg starfsemi til lengur hvað lán snertir, hvorki út á íbúðarhús né nýbyggingar íbúðarhúsa. Hins vegar var það stjórnarliðið hér, sem hindraði algerlega, að eðlileg rannsókn gæti farið fram í þessum efnum. Og það er Sjálfstfl. og hans viðskmrh., sem hefur haft forgöngu um það að þrengja og eyðileggja þessa möguleika og loka dyrunum fyrir öllum þeim mönnum, sem hafa þurft að fá lán, í þessum efnum. — Þetta vil ég nú aðeins segja að gefnu tilefni. Ég ætlaði mér engan veginn hér og hélt aldrei, að það mundi koma til þess, að maður mundi þurfa að standa hér upp til þess að rífast út af því, hvað Sjálfstfl. hefði gert í þessum efnum. En ef farið er að ráðast á Sósfl. í þessum málum, þá mun ég svara.

Svo vil ég minna á, að þrátt fyrir þann mjög svo góða vilja, sem ég efast ekki um að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hafi oft í þessum efnum, þá er Sjálfstfl. meira en bæjarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík. Sjálfstfl. er sem sé ekki valdalaus flokkur á Íslandi, sem aðeins hefur meiri hluta í bæjarstjórn Reykjavíkur og hvergi ræður neinu annars. Það er Sjálfstfl., sem hefur forustuna í fjárhagsráði. Það er Sjálfstfl., sem hefur formann fjárhagsráðs og telur sig vafalaust hafa forustuna í þeim málum. Það er Sjálfstfl. þá fyrst og fremst, sem ber ábyrgðina á öllu því hneyksli, sem fjárhagsráð gerir í þessum efnum.

Svo að síðustu út af því, að það var verið af hv. 5. þm. Reykv. að víkja að hv. 7. landsk. fyrir það, að hann hefði viljað reyna eitthvað að vera að sýnast við að hjálpa þeim mönnum, sem af fátækt og erfiðleikum eru að byggja í þeim hreppi, sem hann stjórnar. Hv. 7. landsk. hefur átt í mikilli baráttu fyrir þá menn, sem þrátt fyrir mikil vandkvæði eru að reyna að koma upp íbúðarhúsum yfir sig þar suður frá. Og eins og hann lýsti hér áðan, hefur hann kynnzt manna bezt vandræðum þessara manna. Hann hefur hins vegar ekki haft þá aðstöðu að hafa það vald, sem vissir aðrir menn hafa haft til þess að leysa úr vandkvæðum manna. Og ég vil minna á, fyrst þessi mál eru til umræðu hér, hvernig hátturinn er hafður á, þegar á að leysa úr vandræðum manna viðvíkjandi smáíbúðunum. Það er fyrirmæli í lögunum og átti að birta um það reglugerð, að barnmargar fjölskyldur ættu að ganga fyrir, og annað slíkt. En hver varð svo framkvæmdin á því, þegar til kom? Hvernig var farið að úthluta þessum smáíbúðum? Var reynt að fara þar eftir nauðsyn þeirra, sem bjuggu í verstum íbúðum, þeirra, sem áttu flest börn og höfðu mesta þörf fyrir þessar íbúðir? Var tekið tillit til þess, sem hv. 7. landsk. og aðrir, sem þekktu vel til í þessum efnum, vissu, hvar skórinn kreppti að fyrir almenning? Voru þeir kallaðir til ráða, svo að þeir gætu a. m. k. talað við þá menn, sem úthlutuðu? Hvernig var farið að? Það voru útnefndir tveir menn til þess að úthluta því fé, sem samþ. var á síðasta Alþ. að lána til smáíbúðarhúsa. Og hverjir voru það? Annar var formaður Sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík. Hinn var formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík. Og eftir hvaða reglum úthlutuðu þeir? Úthlutuðu þeir eftir þeim reglum að skipta á milli sín; annar tæki annan helminginn af því, sem úthluta skyldi, og hinn tæki hinn helminginn af því, sem úthluta skyldi? Voru hafðar þær reglur? Af hverju var ekki einhverri lánsstofnun falið að fara með þetta? Af hverju var ekki einhverri bankastofnuninni hérna falið að fara með þetta, — mönnum, sem eru vanir að veita lán án þess að taka í því sambandi nein sérstök pólitísk tillit?

Fyrst hv. 5. þm. Reykv. minntist á Bústaðavegshúsin, vil ég spyrja: Skyldi enginn maður, sem býr í Bústaðavegshúsunum, hafa fengið neitt lán út á smáíbúðir? Það væri raunverulega nauðsynlegt að fá það rannsakað til hlítar, hvernig farið hefur verið að í þessum efnum. Það er vissulega grunsamlegt, þegar félmrn. útnefnir tvo af forustumönnum pólitískra félaga í Reykjavík til þess að fara að úthluta lánum til smáíbúða. Spillingin er komin nokkuð langt í þjóðfélaginu, þegar svoleiðis er farið að. Ofan á allt það hneyksli, efnahagslega og þjóðfélagslega séð, sem afskipti fjárhagsráðs og hæstv. ríkisstj. hafa verið af íbúðamálum Íslendinga á síðustu árum, þá er það til að kóróna slíkt, ef það á, eftir að búið er að banna mönnum svo að segja að byggja frjálst og takmarka það sem sé ákaflega mikið, hvað hægt sé að byggja, — ef það á svo þar á ofan, þegar búið er að hindra menn frá að fá nokkur lán hjá almennum lánsstofnunum, að úthluta þeim litlu lánum, sem veitt eru út á lítinn hluta íbúðanna, af mönnum, sem valdir eru fyrst og fremst og mér liggur við að segja eingöngu með pólitískt sjónarmið fyrir augum.

Hneykslið og spillingin í þessum málum er komið nokkuð langt, og það er sannarlega ekki vanþörf á því að finna að þessu og að Alþ. taki ofur lítið til athugunar, hvernig þessi mál eru í þjóðfélaginu sem stendur og að því sé vísað til ákvörðunar n. á Alþ. Það er svo margt rotið, það er það margt vitlaust í sambandi við allar framkvæmdir á þessum hlutum, að slík till. sem hér liggur fyrir þarf sannarlega meðhöndlunar í n. hér á Alþingi. Ég veit ekki, hvort menn urðu svo hvekktir í fjhn. Ed., þegar frv. um að gera íbúðarhúsabyggingarnar frjálsar kom þangað og var snúizt svona við því. Það getur verið, að menn séu svo hvekktir síðan, að þeir þori ekki að hleypa nokkru máli í n., sem snertir að athuga, hvernig standi með íbúðarhúsabyggingarnar hérna á Íslandi núna, nema þeim lánafrv., sem sendiráðin þurftu að svara. Ég vil þess vegna alveg eindregið mælast til þess, að sú till., sem hérna liggur fyrir, gangi sína leið til allshn. Það er fyllilega þörf á því, að þessi mál séu tekin til alvarlegrar umr. og alvarlegrar athugunar af nefndum hér á Alþ.