19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2657)

79. mál, iðnaðarframleiðsla

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég tel mig varla geta komizt hjá, áður en ég minnist á mál það, sem hér er til umr., að snúa nokkrum orðum til hæstv. forseta, í fyrsta lagi vegna þess, að það er nú komið hátt á fimmtu viku, síðan þessu máli var útbýtt hér í Alþingi, og það er fyrst nú, að þessum rúma mánuði liðnum, sem það fæst tekið á dagskrá. Ég veit, að það hefur verið haft á dagskránni, en það hefur ekki komizt að til umr., eins og fleiri mál í Sþ., vegna þess að fundartíminn þar hefur verið svo stuttur. Ég vil nú leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, hvort hann geti ekki séð sér fært að flýta meira afgreiðslu þeirra mála, sem hér liggja fyrir, heldur en gert hefur verið, svo að unnt sé að koma þeim þó að minnsta kosti til n., því að þegar er nú liðið fram í seinni hluta nóvembermánaðar og maður heyrir, að þing eigi að vera stutt. Getur þá mjög brugðið til beggja vona, að afgreiðsla fáist á máli, sem fyrst fer til n. nú í lok þessa mánaðar. Ég sem sagt taldi rétt að skjóta þessu til hæstv. forseta. — Annað er það, sem ég vil einnig skjóta til hans, þar sem ég sé, að nú, eins og svo oft áður, sést enginn ráðh. á fundinum, hvort ekki væri unnt nú — og kannske oftar — að fá hæstv. ráðh. til að sýna sig eitthvað oftar, svo að það væri hægt að fá hjá þeim upplýsingar og fá þá til að taka þátt í þeim umr., sem fyrir liggja. Það er nær því að segja undantekning, ef þeir sjást. — Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann gæti ekki komið því til leiðar, að einhver breyt. yrði á þessum tveim atriðum, sem ég nú nefndi, til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála á þinglegan hátt. Ég skal svo leyfa mér að snúa mér að því máli, sem fyrir liggur, þó að ráðh. sá, sem um það fjalli, sjáist ekki nú frekar, en svo oft áður.

Það hefur ekki farið á milli mála síðustu tvö árin, eftir að stefna hæstv. ríkisstj. í viðskiptamálum kom verulega til framkvæmda, að starfsemi fjölmargra iðngreina í landinu hefur dregizt saman. Ég minnist þess, að fyrir ári, í nóv. 1951, kom nefnd manna frá Félagi íslenzkra iðnrekenda og frá félagi verksmiðjufólks, Iðju, til iðnn. Nd. og lýsti fyrir n., hvernig komið væri þessum málum þá. Í stuttu máli var þeirra vitnisburður á þann hátt, að þá þegar væri atvinnuleysi í ýmsum iðngreinum orðið það mikið, að tala atvinnuleysingja skipti hundruðum. Og þeir létu alveg í það skína og fóru raunar ekki dult með, að aðalorsökin til þessa atvinnuleysis í iðngreinunum væri sú, að inn væri flutt ótalið magn af varningi, sem auðvelt væri að gera hér heima. Ég hef ekki orðið þess var, að á þessu hafi orðið nein veruleg breyt. á því ári, sem liðið er síðan þessi n. kom til okkar í iðnn. í fyrra. Þá var raunar bókað í n. að biðja hæstv. viðskmrh., sem jafnframt er iðnmrh., að mæta á fundi til þess að ræða við n. um þennan vanda. Það hefur nú ekki orðið enn, og þess vegna m. a. hef ég leyft mér að bera fram þessa till.

Ég hef að vísu orðið þess var, að það hafa verið skipaðar tvær nefndir, önnur — að ég ætla — af hæstv. ráðh. og hin af borgarstjóranum í Rvík, til þess að kynna sér þessi mál og athuga leiðir til úrbóta. En ég hef ekki orðið þess var, að þessar n. hafi skilað áliti, eða að minnsta kosti hefur ekkert komið fram opinberlega í þinginu um niðurstöður þessara n. eða hvað hægt væri að gera til þess að bæta úr, og það hefur líka orðið til þess að ýta undir mig og okkur flm. til að koma þessu máli hér á framfæri. Þær iðngreinar, sem helzt hafa orðið fyrir barðinu á þessum innflutningi, eru nokkuð margar, þ. e. fataiðnaður, skógerðirnar, efnaiðnaðurinn, veiðarfæragerðirnar, bátasmíðin, og þær eru raunar fjölmargar fleiri.

Í ræðu, sem fyrrverandi forseti Landssambands iðnaðarmanna, Helgi Hermann Eiríksson, flutti við setningu 14. iðnþingsins nú í okt. s. l. um ástandið í iðnaðarmálum, segir hann um þetta m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í heilan tug ára hafa iðnaðarmenn hér haft næga atvinnu þangað til s. l. vetur. Að vísu var farið að verða vart atvinnuleysis fyrr, en á síðasta vetri var það að verða alvarlegt viðfangsefni og verður það að líkindum einnig í vetur. Orsakir atvinnuleysisins eru fleiri en ein. Hjá byggingariðnaðinum er það minnkandi fjárfesting, sem aftur stafar bæði af ónógum fjárfestingarleyfum og skorti á fjármagni.“

Þetta segir fyrrverandi forseti Landssambands iðnaðarmanna um atvinnuleysi í iðnaðinum almennt og í byggingariðnaðinum sérstaklega.

Orsökin er, eins og ég sagði, fyrst og fremst sú, að það eru fluttar inn fullunnar iðnaðarvörur takmörkunarlítið í þessum iðngreinum, sem ég nú nefndi, sem væri mjög auðvelt að vinna hér heima. Mikið af þessum útlenda varningi er þó dýrara, en tilsvarandi íslenzkur varningur, en það er eins og nýjungagirni fólks og — ég vil segja — áhugi kaupmanna fyrir því að koma þessum vörum út hafi orðið til þess, að þær hafa selzt betur og meir en tilsvarandi íslenzkar iðnaðarvörur, þó að þær íslenzku væru sambærilegar að gæðum og jafnvel ódýrari í verði. Ég skal nefna í því sambandi t. d. kexinnflutninginn fyrr á þessu ári, þar sem kexið, sem inn var flutt, var sannanlega dýrara, en það innlenda. Ég skal nefna sultuinnflutning, kertainnflutning, þar sem verðið á erlendu vörunni hefur verið hærra, en á innlendu framleiðslunni, auk þess mætti minna á innflutta skó, innfluttan fatnað og ýmislegt annað þess háttar.

Út af skipabyggingunum hérlendis hefur hv. þm. Ísaf. og ég flutt sérstakt frv., sem þegar hefur verið lýst og ég þarf þess vegna ekki að fara út í að ræða sérstaklega, en í þeim iðnaði er nú ástandið slíkt, að það hefur ekki verið byggður hér á landi dekkbátur svo að árum skiptir. Og það er mjög óviðunandi ástand, vegna þess að það er á vitorði allra, sem á bátum þurfa að halda, að íslenzku bátarnir hafa yfirleitt reynzt mun betur en hinir erlendu. Það ber þess vegna allt að sama brunni. Það er innflutningurinn á fullunnum vörum, sem hægt er að framleiða hér í landinu, sem hefur orðið til þess að draga úr framleiðslu tilsvarandi innlendra iðnaðarvara og skapa atvinnuleysi í þeim iðngreinum, eins og nefndir frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, og frá Félagi íslenzkra iðnrekenda lýstu á fundi iðnn. Nd. í fyrra. Það kemur náttúrlega ýmislegt fleira til, en þetta er sjálfsagt höfuðatriðið.

Þessari till. er ætlað að fá fram hjá Alþingi ályktun um að skora á hæstv. ríkisstj. að breyta þessu á nokkurn veg; í fyrsta lagi með því að draga úr þeim hömlum, sem nú eru á innflutningi hráefna, til þess að auka framleiðslugetu innlendu framleiðendanna í samkeppni við innflutninginn. Það hefur verið svo fram til þessa í fjölmörgum iðngreinum, að það hefur ekki fengizt kvaðalaust innflutt hráefni til margrar þeirrar iðnaðarframleiðslu, þar sem fullunna varan hefur verið flutt inn fyrirstöðulitið eða fyrirstöðulaust.

Ég hef heyrt, að það hafi eitthvað verið dregið úr þessum hömlum á innflutningi hráefna nú alveg nýlega, en hvað til er í því eða hversu mikið, veit ég ekki; það fæst væntanlega upplýst hér í þessum umr. Þá hef ég einnig — eða við — hér í till. farið inn á þá leið, — það er nú ekki mjög ákveðið orðað í till., en þó bent í þá átt, — hvort ekki væri rétt að setja einhverjar hömlur á eða draga úr innflutningi á fullunnu vörunum, torvelda innflutninginn með einhverju móti ti1 þess að létta innlendu framleiðendunum samkeppnina. Það er enginn vafi á því, að innflutningurinn á fullunnu vörunum er aðalástæðan, og það fæst ekki veruleg bót í þessu efni fyrr en verulega er úr þeim innflutningi dregið. Þó að erlenda varan seljist ekki strax, þá þvælist hún fyrir og gerir innlendu framleiðendunum örðugra um vik. Mér hefur t. d. verið tjáð, að það hafi verið flutt inn á síðustu 2½ ári, frá því í ársbyrjun 1950 og fram á mitt ár 1952, rafmagnseldavélar, rafmagnsísskápar og rafmagnsþvottapottar fyrir um 12 millj. kr. að cif.-verði, en söluverð til almennings er náttúrlega miklu hærra. Þessar vörur allar mætti gera hér, ef innflutningsleyfi hefðu fengizt nægileg fyrir hráefni. En þegar nú vörurnar eru einu sinni komnar inn í landið, þá auðvitað endar það með því, að þær verði seldar undir einu formi eða öðru. T. d. hef ég heyrt um það, að þegar þær ekki seldust öðruvísi, þá væru þær boðnar með afborgun, sem innlendi framleiðandinn vegna fjárhagserfiðleika eða takmarkaðs rekstrarfjár getur ekki farið inn á, en heildsalinn kannske getur, sem hefur rýmri fjárráð, og þannig endar það fyrr eða síðar, að þessi innflutti varningur verður seldur og framleiðandinn verður að draga úr sinni framleiðslu, sem þessu nemur.

Aðalatriðið í þessu máli er náttúrlega það, að ekki verði fullunnin vara takmarkalaust flutt inn. Ég vitnaði áðan í ræðu fyrrverandi forseta Landssambands iðnaðarmanna, Helga Hermanns Eiríkssonar, sem hann hélt við setningu síðasta iðnþings. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, um þetta atriði leyfa mér að lesa annan kafla úr ræðu hans, sem er svo hljóðandi:

„Því hefur verið haldið fram af ábyrgum aðilum, að hinn ótakmarkaði innflutningur iðnaðarvara, sem bókstaflega fyllti hinn íslenzka markað, svo að verkstæði og verksmiðjur urðu að hætta, væri aðeins prófsteinn á íslenzkan iðnað. Nú fengi hann tækifæri til að sýna, hvað hann gæti. Upp úr þessum átökum ætti hann að vaxa sterkur og sigurviss. Er hægt að tala svona? Er það prófsteinn á íslenzka bátasmíði, að innflytjendur erlendra báta, meira og minna brúkaðra og óumdeilanlega miklu lakari og óhentugri en íslenzkir bátar, fá til þess tollaívilnanir og margs konar fyrirgreiðslu, sem þeim er neitað um, sem kaupa bátana af íslenzkum bátasmiðum? Er það prófsteinn á íslenzka dúkagerð og íslenzka klæðskera, að þeir missa atvinnu við, að markaðurinn er fylltur af erlendum tilbúnum fötum? Mundi það verða prófsteinn á íslenzkan landbúnað, þótt fólk keypti útlent mjólkurbússmjör ódýrara, en það íslenzka, ef nóg af því væri flutt inn og það væri boðið fram samhliða því íslenzka? Nei, það er ekki prófsteinn á atvinnufyrirtæki, að það er að tilstuðlan ríkisvaldsins svipt viðskiptavinum sínum.“

Þetta segir, orðrétt, fyrrverandi forseti Landssambands iðnaðarmanna, Helgi Hermann Eiríksson, sem enginn vænir þó væntanlega um að sé hlutdrægur í garð hæstv. ríkisstj.

Auk þessara atriða, sem ég nú hef nefnt, fyrirgreiðslu á innflutningi hráefna og takmörkun á innflutningi fullunninna vara, er hægt að styðja íslenzka iðnrekendur og örva innlendu iðnaðarstarfsemina á fleiri vegu, og að því hníga tvö atriði í þessari þáltill.

Það hefur til skamms tíma verið hafður sá háttur á, að þeir, sem pöntuðu vörur, að minnsta kosti með löngum gjaldfresti eða með löngum afgreiðslufresti, þyrftu ekki að borga vöruna fyrr en hún kæmi til landsins. Þeir samþykktu kannske tryggingarvíxla við pöntun, en að öðru leyti þurftu þeir ekki að binda sitt rekstrarfé við pöntun varanna. Nú hefur verið tekinn upp sá háttur, að þegar vara er pöntuð, hvort sem það er hráefni til iðnaðarframleiðslu eða annað, verður að greiða inn í banka mismunandi háan hundraðshluta af kaupverði vörunnar. Þessi hundraðshluti mun nú nema frá 30 % og upp í 50% af kaupverði. Það segir sig sjálft, í þeim fjárhagserfiðleikum, sem margir eiga nú við að stríða vegna ónógs rekstrarfjár, að þá munar þó um það, sem þurfa á löngum afgreiðslutíma að halda, að greiða þessa upphæð fyrir fram, löngu áður en varan kemur í hendur þeirra.

Í till. er þess vegna farið fram á, hvort ekki væri hægt að tilstuðlan ríkisvaldsins að koma því þann veg fyrir, að þessar fyrirframgreiðslur gætu hætt. Það mundi spara mörgum iðnrekanda nokkuð af sínu lausafé og gera honum greiðara fyrir að panta sér hráefni, sem hann annars ekki gæti. Eins og stendur, þá verkar þetta eins og þrándur í götu fyrir mörgum iðnrekandanum, að hann getur ekki pantað sér þá vöru, sem hann þarf á að halda, fyrr en það í mörgum tilfellum kannske er orðið of seint. Hins vegar gæti ég vel hugsað mér, að þessi háttur væri hafður á um kaup á fullunnum vörum, og hefði ekkert um það að segja, og það mun líka tíðkast víða erlendis, að mönnum er gert misjafnlega auðvelt að afla sér erlendra vara og þeim mun erfiðara eftir því, sem varan er unnari, þannig að hráefnið til iðnaðarins er í mörgum tilfellum afgreitt án þess, að það sé greitt fyrir fram, en fullunna varan kannske að miklu eða öllu leyti greidd þannig. Ég tel þess vegna, að einmitt með þessari fyrirframgreiðslu væri hægt að greiða mikið úr erfiðleikunum, bæði fjárhagslega fyrir innflytjandann á hráefnum og eins með því að torvelda á þann hátt kannske innflutning á fullunnu vörunum með því að krefjast meiri útborgunar af þeim.

Þá er loks síðasta atriðið, sem komið er að í þessari till., en það er endurskoðun á tollalöggjöfinni. Eins og komið hefur mjög greinilega í ljós, t. d. í sambandi við innlendu skipasmíðarnar, þá eru iðngreinar hér, þar sem hráefni til framleiðslunnar er tollað hærra verði, en fullunna varan, þannig að fullunna varan er beinlínis vernduð gagnvart framleiðslu hér á landi. Þetta er náttúrlega hin herfilegasta öfugþróun. Menn geta deilt um það kannske eitthvað, hvort það sé rétt að veita innlendri framleiðslu tollvernd og þá hve mikla. En menn geta aldrei deilt um það, að útlendi iðnaðurinn á ekki að vera tollverndaður fyrir þeim innlenda.

Þó að þetta komi ekki jafnskýrt fram annars staðar eins og í bátasmíðinni, eru þó til ýmis dæmi um þetta í öðrum iðngreinum, og kostar sjálfsagt talsverða vinnu að fá þau öll fram. Þess vegna höfum við, flm. þessarar till., farið þá leiðina að leggja til, að ríkisstj. láti sem fyrst undirbúa þær breytingar á tollalöggjöf landsins, sem með þarf til þess að bæta úr þessu misrétti, og við höfum bætt því við, að tollum yrði þá þannig hagað, að þeir fari stighækkandi eftir því, sem vörurnar eru meira unnar. Þetta er eðlilegt fyrirkomulagsatriði, og þess vegna höfum við lagt til, að þessi grundvöllur yrði hafður fyrir endurskoðuninni eða þetta meginsjónarmið, að hráefni yrðu yfirleitt látin komast inn tollfrjáls eða tolllítil, en þau yrðu tolluð því meir eftir því, sem varan væri unnari.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta mörgum fleiri orðum. Ég vænti nú og vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi míns máls, að ég vildi óska þess, að hæstv. forseti vildi sjá til, að málin fengju að ganga svolítið greiðar en tekizt hefur að láta þau ganga hingað til, og að þetta mál njóti þá þess, hversu seint hefur gengið að koma því til umræðu, á þann hátt, að það verði greitt fyrir því í þeirri n., sem fær það til meðferðar, svo að takist að fá það afgreitt á þinginu sem ályktun. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um það fleiri orð. Ég teldi rétt, að að lokinni umr. yrði því vísað til allshn., sennilega frekar en til hv. fjvn.