19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2660)

79. mál, iðnaðarframleiðsla

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. forseta, þar sem hann vildi leggja áherzlu á, að löggjafarstarfið ætti að setja fyrir þáltill., þá get ég verið honum út af fyrir sig sammála um það, en hvort þá allar fyrirspurnir eigi að sitja fyrir öllum þáltill., eins og þær hafa gert hingað til, það er ég aftur í meiri vafa um, en þannig hefur það verið, því að fyrirspurnirnar hafa í raun og veru tekið mest af öllum tíma Sþ. hingað til, og útkoman hefur orðið sú, að fæstar af þeim till., sem lagðar hafa verið fram í upphafi þings, hafa komizt að. Hæstv. forseti hét nú því að taka upp annan hátt á þessu, og það út af fyrir sig þykir mér vænt um að heyra. — Um hitt atriðið, um mætingu ráðh., skal ég ekkert deila. Það er öllum kunnugt, að hún er heldur brostfeldug, en hins vegar hafði þetta þau áhrif, að hæstv. viðskmrh. kom og gaf mér svör við spurningum mínum og talaði nokkuð fyrir málinu, svo að sú athugasemd náði einnig að því leyti tilgangi sínum.

Hæstv. viðskmrh. vildi halda því fram í sinni ræðu, að hér þyrfti engra lagfæringa við, hér væri allt í lagi, og iðnaðurinn þyrfti sízt að kvarta um meðferðina á sér, og þessir tilburðir, sem við flm. hefðum hér uppi, væru hreint pólitískir og ekki af neinni umhyggju fyrir iðnaðinum. Ég hef náttúrlega engin ráð til þess að sannfæra hæstv. ráðh. um þær hvatir, sem liggja á bak við okkar málflutning, en ég get aðeins sagt það og skal standa við hvar sem er, að það voru ekki pólitískar hvatir, sem lágu að baki flutningi þessarar till., heldur þær einar að reyna að fá greitt úr þeim ágöllum, sem mér fannst vera á skipun þessara mála, og varð þá náttúrlega ekki komizt hjá því að benda um leið á það, hvern þátt hæstv. ríkisstj. hefði átt í því, að komið væri eins og komið er.

Hæstv. ráðh. sagði, að atvinnuleysisaukningin í iðnaðinum hefði ekki verið neitt að ráði og það lítið hún hefði verið, þá hefði þetta allt saman jafnað sig og væri nú að komast í gott horf. Hann sagði, ef ég hef tekið rétt eftir, að vinnuvikur í iðnaði hefðu verið árið 1949 115 þú.s. rúm, árið 1950 109 þús. og árið 1951 102 þús. Þó er niðurstaðan af þessu sú, að þegar allur iðnaðurinn er tekinn í eitt, þá er fækkunin á þessum árum hvorki meira né minna en 12%, og það er hreint ekki lítið, þegar tekið er tillit til þess, að í þessum iðnaði starfa milli 30 og 40% af öllum landsmönnum. 12% af þessum 30% þýða þá kannske, að með þessum tilburðum hæstv. ríkisstj. hafa 4% af öllum landsmönnum verið gerðir atvinnulausir, og það er hreint ekki lág tala. Hvað aftur á móti hefur unnizt síðan, skal ég ekki fara að ræða við hann, um það liggja mér vitanlega ekki neinar skýrslur fyrir. En ég á erfitt með að trúa því, að þessi fækkun á árunum 1950–51 hafi að fullu unnizt upp á þeim hluta ársins 1952, sem liðinn er, og ég hef raunar vissu um það, að í mörgum iðngreinum hefur þetta ekki átt sér stað.

Hæstv. ráðh. vildi nú kenna því mikið um, að þessi fækkun hefði orðið, að hér hefðu verið starfandi saumastofur á árunum eftir stríðið, á árunum 1947–49 og þar um bil, og þessar saumastofur hefðu unnið úr mikið til öllum innflutningi á vefnaðarvöru og þar hefði verið vinnandi fjöldi fólks, sem hefði misst atvinnu sína, þegar um þetta allt saman losnaði. Það má vel vera, að það hafi á tímabili verið vinnandi óeðlilega margt manna í þessari iðngrein, á meðan fólk fékk ekki tækifæri til að sauma sjálft eins og það vildi og þurfti. En ég fullyrði, að þessi fækkun er langsamlega minnstur hlutinn af þeirri fækkun, sem orðið hefur í iðngreinunum síðan verzlunin var gefin frjáls eða breyting varð á verzlunarháttunum á árinu 1950. Það er tiltölulega mjög lítill hluti af fækkuninni, sem hefur orðið í þessari iðn. Hæstv. ráðh. lýsti nú, hvernig þetta hefur gengið í skógerðunum og í dúkagerðunum, a. m. k. hérna í Rvík, og er þar greinileg fækkun, og ég gæti bætt fleiri stöðum og dæmum við, ef það væri tími til þess. Ég get t. d. sagt honum það, hæstv. ráðh., að í raftækjaiðnaðinum, í þeirri einu verksmiðju, sem er starfandi í þeirri grein, varð að segja upp 20 mönnum fyrri hluta þessa árs, og það hefur ekki verið tekið aftur nema lítill hluti af þeirri tölu. Og það var ekki út af fyrir sig að öllu leyti vegna sölutregðu, heldur vegna hins, að það fékkst ekki flutt inn hráefni til framleiðslunnar, og skal ég koma betur að því siðar. Þó voru, þótt ekki séu nú raftækjavörurnar á frílista, heldur á bátalista, fluttar inn á þessu 2½ síðasta ári vörur af þessu tagi, sem að cif.-verði námu 12 millj. kr., eða ca. 3 ára framleiðslu verksmiðjunnar og þó sennilega heldur meira. Fólkið vill ekki kaupa þessar vörur, en þær eru, eins og ég sagði áðan, að veltast fyrir kaupendunum og er seinast í einu formi eða öðru þjarkað út. Þegar raftækjaverksmiðjunni er t. d. neitað um hráefni til framleiðslu ísskápa, þannig að það er ekki hægt að fullnægja nema litlum hluta af eftirspurninni, þá eru útlendu ísskáparnir keyptir og fyrr ekki. Þegar rafmagnseldavélarnar eru boðnar á afborgun, þó að þær séu talsvert miklu dýrari en þær íslenzku, þá eru þær erlendu keyptar, og þannig gæti ég haldið áfram, að þó að varan sé flutt inn á bátagjaldeyri, — og hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr þeirri samkeppni, sem úr því yrði, vegna verðmismunarins, — þá er hægt að gera þessa samkeppni hættulega með því að draga úr framleiðslumöguleikum verksmiðjanna.

Það var táknrænt, hvernig hæstv. ráðh. sagði frá hráefnainnflutningnum til landsins. Hann fullyrti, að staðhæfingar mínar og annarra um það, að hráefnainnflutningurinn til landsins væri takmarkaður, væru rangar. Ég fullyrði aftur, að þær eru réttar. Og ég skal færa rök að því. Hæstv. ráðh. nefndi nokkrar iðngreinar, þar sem innflutningurinn væri „svo að segja“ og „að mestu leyti“ — þetta var í flestum eða öllum upptalningum hans — „frjáls“. En ef í framleiðsluna vantar eitthvað lítils háttar af hráefnum, þó að önnur hráefni séu að langsamlega mestu eða öllu leyti frjáls, þá er ómögulegt að framleiða. — Ég heyrði einu sinni sagt frá verzlunarmanni — skulum við kalla hann — hér á landi í afskekktu plássi, sem vildi ekki láta fólkið, sem var á verzlunarsvæðinu, baka of mikið af fínum kökum. Hann hafði til sölu í búðinni að vísu allt, sem þurfti til þess, eða langsamlega mest. Það var til að mestu eða öllu leyti, eins og hæstv. ráðh. sagði, og það var svo að segja allt til, sem í kökurnar þurfti, það vantaði bara eina tegund, það vantaði gerpúlverið, svo að fólkið gat ekki bakað, og þar með var hans tilgangi náð. Það skyldi þó aldrei vera, að það vanti gerpúlverið í þennan innflutning, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Það er ekki nóg, þó að það sé frjáls innflutningur á mestu af þessum hráefnum, sem þarf til iðnaðarframleiðslunnar; hann verður að vera það að öllu leyti, því að það er ekki hægt að koma heim og saman framleiðslunni, nema því aðeins að öll hráefni til hennar séu fáanleg. Það dugir aðeins eitt til að stöðva hana. Og það er — leyfi ég mér að fullyrða — í flestum iðngreinum þannig og við flesta framleiðslustarfsemi, að það þarf að sækja um eitthvert hráefnið til fjárhagsráðs, og þá tekst svo undarlega oft að stöðva umsóknina eða tefja hana. — Í okkar till. er gert ráð fyrir því að reyna að bæta úr þessu með því að gefa innflutninginn á öllum hráefnunum frjálsan. Og ég veit, að ef hæstv. ráðh. athugar það mál ofan í grunninn, þá hlýtur hann að sjá það jafnvel og ég, að þó að innflutningurinn sé að mestu eða öllu leyti frjáls, eins og hann orðaði það, og svo að segja allur frjáls, þá dugir það ekki, ef hann er það ekki allur. Þess vegna á till. fullkomlega rétt á sér, og ég held, að það sé ekki hægt að segja, að hún sé ástæðulaus, ef ekki er allur þessi innflutningur frjáls.

Þá eyddi hæstv. ráðh. talsverðu máli í það að sanna, að það væru tiltölulega fáar iðnaðarvörur á frílista, og það er sjálfsagt rétt. Ég hef að vísu ekki haft tækifæri til þess að bera það saman, en hann nefndi aðeins 7 liði; hann nefndi málningu, vinnuvettlinga, veiðarfæri, nærfatnað, sokka, lífstykki og bækur og blöð. Og ég er honum alveg sammála um það, að ef ekki væri um annað, en þessi atriði að ræða, þá væri þessi samkeppni, sem þarna stafaði frá, ekki mjög hættuleg. Að vísu eru þarna liðir, sem mér finnst engin ástæða til að flytja inn ótakmarkað. Það mætti gjarnan, ef það teldist ástæða til, flytja inn eitthvert verulegt magn af þessum liðum til þess að halda í hemil á verðlagi eða láta þetta vera svo til þess að vera að einhverju leyti sambærilegt við innlendu framleiðsluna, en mér finnst alveg óþarft að gefa þessar vörur alveg frjálsar. En það er ekki þarna, sem skórinn kreppir. Hann kreppir, þótt undarlegt megi virðast, fyrst og fremst á bátalistavörunum og þeim vörum, sem þar eru gefnar frjálsar. Þar er svo mikið magn vara, að hæstv. ráðh. fór ekki út í að telja þær upp, en hann afsakaði sig með því, sem hann taldi nú duga, að verðmismunurinn hlyti að vera svo mikill á þessum bátalistavörum, sem inn eru fluttar, og innlendri samkynja framleiðslu, að það ætti að vera nóg vernd fyrir íslenzka iðnaðinn, og ef íslenzka framleiðslan stæðist ekki þessa samkeppni, þá virtist mér í hans augum málið horfa svo við, að þá ætti íslenzka framleiðslan ekki neinn rétt. En eins og ég sagði áðan, þá má vel hugsa sér tilvik, sem eru þannig, að innlenda framleiðslan eigi við erfiðleika að stríða, t. d. um hráefnaöflun, og geti ekki framleitt nægilegt þess vegna til þess að fullnægja eftirspurninni og halda þannig erlendu framleiðslunni úti, og því neyðist menn til að kaupa útlendu framleiðsluna, þó að hún sé dýrari, kannske ekkert betri og þó að þeir hefðu viljað kaupa íslenzku framleiðsluna frekar. Svo getur verið nýjabrum, forvitni og auglýsingar og allt mögulegt, sem gerir að verkum, að fólk kaupir heldur dýrari vöruna en íslenzku vöruna, þó að hún sé ekki á nokkurn hátt betri og réttara hefði verið frá öllum sjónarmiðum að kaupa heldur innlendu vöruna. Þess vegna gerir áreiðanlega bátalistainnflutningurinn iðnaðinum miklu meira tjón heldur en frílistinn, þrátt fyrir það að á honum hvíli þessi skattakvöð, að af þeim innflutningi verði að gjalda tiltölulega mjög háa upphæð í ríkissjóð. Ég skal ekki fara út í það að draga þarna fram dæmi, en ég veit, að þetta er svona í mörgum tilfellum, að öll tilvikin, sem ég nefndi, eru fyrir hendi. Menn hafa keypt bátalistainnflutninginn í fyrsta lagi vegna þess, að tilsvarandi íslenzkur iðnaður hefur ekki verið til, verksmiðjan hefur ekki getað framleitt vegna hráefnaskorts, eða þá að menn hafa gert það af nýjabrumi eða vegna þess, að þeim hefur verið talin trú um, að hinn erlendi innflutningur væri miklu betri. Dæmi upp á allt þetta eru fyrir hendi, og þess vegna er skaðsemi bátalistans, að mínu viti, öllu meiri en skaðsemi frílistans.

Ég sé, að fundartíminn er að enda, og það var ekki mín meining að stofna hér til neinna kappræðna um þetta, hvorki við hæstv. viðskmrh. né aðra út af fyrir sig. Fyrir mér vakti eingöngu að reyna að þoka þessu máli áleiðis og fannst sannast sagna mál til komið, að það yrði gert, svo að ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. En ég get þó ekki stillt mig um, áður en ég hætti, að minnast á það, sem hæstv. ráðh. sagði um fyrirframgreiðslurnar og afstöðu bankanna til þeirra. Hann vildi halda því fram, að þetta væri eingöngu mál bankanna og alls ekki á valdi ríkisstj. að eiga þar neinn hlut að. Ég held nú, að þetta sé fullhógværlega mælt hjá hæstv. ráðh., að hann hefði enga möguleika til þess að koma sinni skoðun að hjá bankanum um þetta efni, og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að ef hæstv. ráðh. legði þar í nokkurn kraft, þá mundi ekki bankinn geta orðið við þeirri málaleitun hans til að mynda, að fyrirframgreiðslan á hrávörunum yrði hér um bil felld niður, en fyrirframgreiðslan á fullunnu vörunum hækkuð, svo að útkoman fyrir bankann yrði svipuð frá bankateknisku sjónarmiði, en útkoman fyrir iðnaðinn yrði allt önnur, ef þessi háttur yrði upp tekinn. Ég er sannast sagna alveg fullviss þess, að ef hæstv. ráðh. vildi beita sér fyrir þessu, þá mundi vera tiltölulega auðvelt að gera þetta, og það mundi vera mikill ávinningur fyrir iðnaðinn í landinu, enda veit ég til þess, að tilsvarandi ráðstafanir eru gerðar annars staðar. Þar eru fyrirframgreiðslurnar, sem heimtaðar eru fyrir fullunnum vörum, meira að segja sums staðar hærri en kaupverð varanna. Mér er sagt, að t. d. í Danmörku sé þess krafizt af innflytjanda, sem flytur inn fullunna vefnaðarvöru, að hann borgi 125% af kostnaðarverði vörunnar. Ég er ekki að segja, að við eigum að gera þetta alveg svona hér, en eitthvað í þessa átt, að við eigum, meira að segja sums staðar hærri en kaupfullunnum vörum heldur en pöntun á hráefni. Og ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. taki þetta til athugunar.

Þá hefði ég einnig tilhneigingu til að spyrja hæstv. ráðh., — það er náttúrlega ekki hægt að búast við því, að hann svari því nú, en hann gerir það kannske siðar, — hvort það megi ekki vænta þess, að Alþingi verði gefinn kostur á að sjá niðurstöður n. þeirra, sem hafa starfað að þessum málum, á einn eða annan hátt, hvort þær hafa fulllokið störfum eða eru enn starfandi og hvort frá hæstv. ráðh. sé að vænta nokkurra till. um það efni, annaðhvort byggðra á till. n. eða þá frá honum sjálfum, sem gætu orðið til þess að létta fyrir iðnrekendunum og greiða úr því atvinnuleysi, sem ég tel hafa skotið upp kollinum í mörgum iðngreinum. Sannast sagna heyrðist mér að vísu á hæstv. ráðh., að hugur hans væri nú ekki slíkur, að mikils væri þar frá honum að vænta, því að eins og ég sagði í upphafi míns máls, þá taldi hann raunverulega allt í lagi, en ég tel vera langt frá því að vera það.