17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (2709)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. á þskj. 440 ásamt tveim öðrum hv. þm. Till. þessi var flutt á síðasta þingi, en fékk ekki þá endanlega afgreiðslu. Við viljum gera tilraun með að flytja hana í annað sinn, ef vera kynni, að hún fengi endanlega afgreiðslu á þessu þingi.

Hv. alþm. er ugglaust ljóst, hvernig ástandið er í sambandi við þjóð- og kirkjujarðir, að ríkið uppfyllir ekki þær skyldur, sem það hefur gagnvart landsetum sínum, hvorki hvað snertir húsagerð, jarðrækt né fleira, sem landsdrottni ber að gera, enda væri það svo, að ef ríkið gerði það, sem því raunverulega ber í þessu efni, þá kostaði það stórfé á hverju ári, og mundi verða að leggja til á fjárlögum hvers árs æði stórar fjárfúlgur í því efni.

Samkv. ábúðarlögunum er landeigandi skyldugur til þess að byggja nauðsynleg hús á eignarjörð sinni. Þetta getur ríkið ekki gert vegna þess, hvað það er kostnaðarsamt„ og hefur algerlega horfið frá því að uppfylla þessa lagalegu skyldu. Ábúendur hafa sjálfir orðið að brjóta ísinn og byggja á eigin kostnað eða þá að fara burt af jörðunum. Sú eina fyrirgreiðsla, sem ríkið hefur gert, er að veita ábúandanum veðleyfi, til þess að hann geti tekið lán út á bygginguna. Ábúandi verður síðan að standa straum af láninu og fara með eins og hann sjálfur beri ábyrgð á öllu saman.

Á síðari árum, eftir að skurðgröfurnar komu, hefur verið mikið gert að því að þurrka land og ræsa fram, og ber landeiganda að leggja fram helming af kostnaði við framræsluna. Þetta hefur gengið mjög illa vegna þess, hve hér er um miklar fjárhæðir að ræða og ekki hefur verið áætluð í fjárlögum nema smáupphæð í þessu skyni. Þessi kostnaðarliður hvílir þess vegna undir mörgum kringumstæðum á ábúandanum, bæði beint og óbeint, og hefur reyndar gert ýmsum ræktunarsamböndum mjög erfitt fyrir vegna þess, hversu innheimta á þessum kostnaðarlið hefur gengið illa og seint.

Á undanförnum árum hefur verið lagt rafmagn á nokkur sveitabýli í landinu, þar á meðal þjóð- og kirkjujarðir. Það liggur í hlutarins eðli, að landeiganda ber að greiða heimtaugargjald af landverði jarðarinnar. En það hefur gengið mjög illa að fá ríkið til þess að uppfylla þessa skyldu. Ísinn hefur þó verið brotinn og viðurkenning fengizt fyrir því, að ríkinu beri að gera þetta, og veit ég dæmi þess, að ríkið hefur gert þetta á prestssetursjörðum og nokkrum bændabýlum, ef hart hefur verið gengið eftir því, en þeir munu vera miklu fleiri, ábúendur ríkisjarða, sem ekki hafa fengið þetta greitt og hafa orðið að leggja þetta út sjálfir á sinn kostnað.

Ég hygg, að þessi dæmi, sem ég nú hef nefnt — og mætti ugglaust margt fleira segja — sanni það áþreifanlega, að það borgar sig ekki fyrir ríkið að vera að halda í eignarréttinn á þessum jörðum. Ríkið á að losa sig við eignarréttinn á þessum jörðum til ábúendanna til þess um leið að auka hvötina hjá ábúandanum til þess að bæta jörðina, um leið og ríkið losar sig við þann bagga, sem reynslan hefur sýnt að það er ekki fært um að bera. Það er dálítið leiðinlegt fyrir ríkið að ganga á undan með það fordæmi, að það geti ekki uppfyllt þær lagalegu skyldur, sem því ber gagnvart ábúendum á jörðum ríkisins.

Ég ætla, að það sé ekki þörf á að hafa þessi orð fleiri. Ég held, að það hafi verið aðeins ein umr. ákveðin um þessa till. (Gripið fram í.) — Tvær umr. Þá vil ég leggja til, að till. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.