17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (2715)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú eins og ég tók fram áðan, ekkert undarlegt við það, þó að það mál, sem hér liggur fyrir, sé deilumál. Það hefur verið það frá fyrri tíð og er enn, og það deilumál fjallar um það, hvort heppilegra sé, að ábúendur jarðanna í landinu séu eigendur að þeim ellegar það sé ríkið, sem á þær. Mér er það ekkert nýtt fyrirbrigði, að hv. þm. V-Húnv. og aðrir sósalistískir menn vilji það helzt, að ríkið eigi sem allra mest af jörðum í landinu. Það er hlutur, sem við höfum kynnzt hér þing eftir þing og áratug eftir áratug, og það er það, sem hér er deilan um. Er það heppilegra, að ríkið eigi jarðirnar, eða það opinbera, eða að einstaklingarnir eigi þær? Við, sem erum flm. að þessari till., erum þeirrar skoðunar, að það sé undir öllum kringumstæðum heppilegra, að það séu ábúendurnir sjálfir, sem eigi jarðirnar, og að það sé líklegasta leiðin til þess, að þeir hafi tækifæri til þess að bjarga sér sjálfir og sitja jarðirnar þannig, að þær séu sómasamlega setnar. Reynslan hefur sannað, hvað sem hv. þm. V-Húnv. segir um það, að þær jarðir, sem eru í opinberri eign, eru miklu verr setnar en hinar, sem einstaklingarnir eiga. Þeir, sem eiga jarðirnar sínar sjálfir, klífa til þess þrítugan hamarinn að gera þær svo vel úr garði, að gera þær svo arðvænlegar sem þeir eiga frekast kost á, en ef þær eru í annarra eigu, hvort sem það er ríkið eða aðrir, þá er allt öðru máli að gegna.

Hv. þm. V-Húnv. var að tala um það hér, að það væri ósamræmi, sem kæmi fram í ræðum hv. 2. þm. Rang. og mínum varðandi þessa till. Þar er um atriði að ræða, sem ekkert er minnzt á í þessari till., sem er það, hvort það sé gert að skilyrði, að jörðin sé um leið gerð að ættaróðali eða ekki. Það mátti skilja svo ræðu hv. 1. flm., að hann teldi það vel geta komið til mála — sem rétt er — að selja þessar jarðir, án þess að þær væru um leið gerðar að ættaróðali. Ég fyrir mitt leyti geri enga athugasemd við það, þó að það skilyrði sé sett. En það skilyrði var áður þannig, að það var erfitt að ganga að því. En það er hægt að ganga að því meinalausu eins og nú er komið, vegna þess að 1950 voru sett l. um það, að það mætti veðsetja þessar jarðir fyrir umbótum, þannig að það var ekki eins mikill fjötur um fót ábúendanna og áður var. Þess vegna er ósköp auðvelt fyrir hv. þm.samþ. þessa till. og jafnvel þó að fjvn., sem væntanlega fær þessa till. til athugunar, bæti því inn í, að það skilyrði verði sett fyrir allri sölu, að jörðin væri um leið gerð að ættaróðali. Það er aukaatriði.

Þá talaði hv. þm. V-Húnv. þannig eins og það geti allir ábúendur þjóð- og kirkjujarða fengið þær á erfðaleigu. Þetta er alls ekki rétt. Þeir hafa ekki allir getað fengið þær á erfðaleigu, og þess vegna er það hér á hverju þingi, að við fáum frv. í hendur um það, að það sé heimiluð sala á þessum og þessum jörðum, því að l., sem vitnað hefur verið í og er rétt vitnað í, miða eingöngu við þær jarðir, sem eru í erfðaleigu.

Að öðru leyti er það rétt, sem hv. þm. V-Húnv. tók fram, að það er talsvert mikil framför í því, sem samþykkt var hér á þingi 1950, að það er heimild til þess að taka lán út á þessar jarðir, bæði þær, sem eru ættaróðalsjarðir, og eins þær, sem eru í erfðaábúð, til þess að gera umbætur á þeim; það er mjög mikil framför. En þó er það að athuga, að eins og núna standa sakir, þá er t. d. til bygginga ekki hægt að fá að láni nema tiltölulega lítinn hluta af öllum byggingarkostnaðinum. Það sem það nær, þá er það gott, hvort sem maðurinn er eigandi að jörðinni ellegar hún er í ríkiseign; það er út af fyrir sig gott, það sem það nær, en það nær ekki nema að nokkrum hluta. Það nær ekki einu sinni hálfa leið, og það gefur auga leið, að það er miklu eðlilegra, heppilegra og aðgengilegra fyrir mann, sem er eigandi að jörðinni, að beita öllum sínum kröftum til þess að fá upp sína byggingu, þó að hann fái ekki lán út á hana nema að nokkrum hluta, ef hann er eigandi að jörðinni og hann og hans afkomendur geta fengið að njóta hennar, heldur en ef hún er ríkisins eign.

Þess vegna vænti ég þess, að allir þeir hv. þm., sem eru ekki alveg á þeirri skoðun, að ríkið eigi yfirleitt að eiga jarðir, geti samþykkt það að vísa þessari till. til n. og láta hana fá eðlilega afgreiðslu þar. Hitt er ósköp skiljanlegt, að hv. þm. V-Húnv. og allir þeir, sem vilja láta ríkið eiga jarðirnar, vilji drepa þessa till. nú þegar.