10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

36. mál, hafnarbótasjóður

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. munu kannast við, margir hverjir a.m.k., þá voru lögin um hafnarbótasjóð, áður en þessi brbl. voru gefin út, á þá lund, að skylt var að binda þriðja part af höfuðstólnum hverju sinni, þannig að honum yrði ekki ráðstafað, og höfuðtilgangurinn mun hafa verið sá, að hann væri handbær, ef brýna nauðsyn bæri snögglega til þess að ráða bót á skemmdum eða tjóni, sem hefðu orðið af óvæntum, ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum orsökum.

Nú hefur reyndin verið sú, að til þessa hefur alls ekki verið gripið, og ég held, að það hafi verið vaxandi skilningur á og vilji fyrir, að niður féllu þessi ákvæði, þannig að ekki væru lengur þessar kvaðir á þriðja parti af stofnfénu.

Nú bar svo einnig undir, að rík þörf var að ráða fram úr ákveðnum framkvæmdum á sviði hafnarmálanna, sem ráðuneytið sá ekki möguleika til að hrinda í framkvæmd eða hrundið yrði í framkvæmd, nema með því að gripa til þessa fjár, sem þarna var bundið. Það varð því að ráði, og var um það samráð milli hafnarmálastjóra og hafnarmálaráðuneytisins, að gera þær breytingar á þessu, sem lögin greina frá, og kveða skýrt á um, hvert væri hlutverk sjóðsins, og það er gert í 1. gr., og sé ég ekki ástæðu til að rekja það. Það er einnig skýrt frá því í grg., hverjar þær aðalframkvæmdir séu, sem ráðuneytið taldi svo mikla nauðsyn að ráðast í, að það lét það nú ráða úrslítum, að fremur nú en síðar væri gerð breyting á lögunum um sjóðinn. Það er skýrt frá, hverjar þær eru, og ef menn vilja fá um það fyllri upplýsingar við meðferð málsins á Alþ., þá er það að sjálfsögðu til reiðu, og leyfi ég mér í því sambandi að vísa til hv. vita- og hafnarmálastjóra, sem sæti á hér í hv. deild og er þessum málum allra manna bezt kunnugur.

Frekari grein sé ég ekki ástæðu til að gera fyrir þessu frv. og leyfi mér að leggja til, herra forseti að, að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. sjútvn.