24.11.1952
Neðri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

160. mál, uppsögn varnarsamnings

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við þm. Sósfl. í þessari hv. d. höfum leyft okkur að leggja fram frv. um, að þeim varnarsamningi, sem gerður hefur verið milli Íslands og Bandaríkjanna, verði sagt upp, og við álítum tíma til þess kominn, að þetta mál sé tekið til alvarlegrar umr. hér á Alþ. og að uppsögn samningsins sé eftir þeirri reynslu, sem þegar hefur af honum fengizt, orðin tímabær.

Ég vil þá fyrst leyfa mér að minna þá hv. þm. á, sem samþ. þennan samning, þegar hann var gerður, fyrst með því að vera kallaðir saman til leynilegra funda í maíbyrjun 1951 til þess að ljá samþykki sitt til brbl. og síðan samþ. hann, þegar Alþ. kom saman fyrir rúmu ári síðan, — ég vil leyfa mér að minna þá á þær forsendur, sem voru í þeirra eigin hugum, þegar samningur þessi var samþ. Þá var því þannig lýst, að yfir Íslandi vofði hætta hernaðarlegrar árásar úr austri og að svo framarlega sem ekki yrði brugðizt skyndilega við og landinu tryggður amerískur her til varnar, þá væri voðinn vís, og hér kynni að vera skollið yfir rússneskt hernám, áður en nokkrir dagar eða vikur liðu, svo framarlega sem ekki væri þannig búizt við. Og ég þykist alveg vita, að það hefði verið óhugsandi, að svo margir þm. sem léðu samþykki sitt til þessa samnings hafi gert það af öðrum ástæðum en þeim, að þeir hafi lagt trúnað á þessar forsendur. Nú er það orðið svo ljóst sem vera má, að slík „hætta“ var ekki fyrir hendi, þegar þessi samningur var gerður. Allan þann tíma, sem þessi samningur hefur verið í gildi, hefur verið hér fámennt „varnarlið“, ef svo mætti kalla það. Svo framarlega sem sú hætta hefur vofað yfir 5. og 7. maí 1951, sem hv. þm. var talin trú um, þá hefur hún raunverulega verið allan þennan tíma, og það hefði verið hægt að framkvæma þá árás, sem talað var um, hvenær sem var. Landið var jafnvarnarlaust, þótt þessir amerísku drengir væru að skemmta sér suður á Keflavíkurflugvelli eða hér í Reykjavík, það var jafnvarnarlaust og þegar við vorum hér óvopnaðir sjálfir. Hafi menn þess vegna gert þennan samning í góðri trú, þá er það nú séð, að með þessum samningi er meiri hætta kölluð yfir okkar land en sú ímyndaða hætta, sem reynt var að telja mönnum trú um, að við værum að forðast.

Ég mun síðar koma nánar inn á, hvernig hagar heimsmálunum og hvort hervæðing í okkar landi mundi hafa eitthvert gildi eða vera að einhverju leyti nauðsynleg vegna ástandsins í veröldinni, en það, sem nú verður fyrst og fremst að líta á, það er, hverjar aðstæðurnar séu fyrir okkur hér heima og hvað þessi ársreynsla af amerísku hernámi hafi nú þegar flutt okkur. Ég býst við, að flestir þeir, sem hernámið samþykktu, hafi gert það með nokkrum ugg um, hvaða afleiðingar kynni af því að leiða fyrir land okkar, og nú, þegar hálft annað ár er liðið síðan amerískur her settist hér að aftur, þá á ég bágt með að trúa því, að nokkur maður sé til, sem ekki er smeykari, við þetta hernám, en hann var, þegar ameríska hernum var boðið hingað heim. Það hefur sýnt sig á þessu ári, sem liðið er, að hættan, sem af dvöl amerísks herliðs í landi okkar stafar, er miklu meiri en þeir, sem voru með samningnum. og þeir jafnvel sem voru á móti samningnum, gerðu sér í hugarlund.

Hættan fyrir menningu vora er svo ægileg, að spillingin, sem af hernáminu stafar, grípur daglega um sig hjá hærri sem lægri, fyrst og fremst hér í Reykjavík, en líka víðar og víðar um landið. Svo að segja engir hafa getað lokað augunum fyrir þessari hættu. Og því hefur nú þegar verið lýst svo greinilega hér á Alþ. áður og menn hafa orðið svo þegjandi og hugsandi við, að ég ætla fyrir mitt leyti ekki að reyna að endurtaka neitt af þeim lýsingum. Ég veit, að það hefur hvern einasta Íslending sviðið undan frásögnunum, sem birtar eru í erlendum blöðum af því, hvernig spillingin sé að verða í okkar höfuðborg sökum hins ameríska hernáms. Og það þýðir ekki fyrir okkur gagnvart þeirri ógnarmynd, sem dregin er upp af þeirri spillingu, og gagnvart þeim óhróðri, sem reynt er að flytja um land okkar út um heim vegna þess, — það dugir ekki fyrir okkur að stinga höfði í sandinn að dæmi strútsins. Við verðum að þora að horfast í augu við það ástand, sem hér hefur skapazt, og þora að gera ráðstafanir, sem geta bægt þessari spillingu frá okkur. Ég veit þess vegna, að ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þá hættu. Þar getur hver stungið hendinni í eigin barm og finnur þá til þess, að hann mundi ekki vilja leiða yfir sína eigin þjóð þá smán og þá ógæfu, sem nú þegar er búið að leiða yfir mörg hundruð af íslenzkum fjölskyldum.

Þá skulum við hins vegar athuga stuttlega, hvernig Bandaríki Norður-Ameríku hafa staðið við þann samning, sem þau gerðu við okkur, og það vitum við öll, að gerð samningsins sjálfs, orðalag hans og samningurinn sjálfur var raunverulega það eina, sem við sem smáþjóð gátum treyst á í viðureigninni við svo stóra þjóð og svo voldugt ríki sem Bandaríki Norður-Ameríku eru.

Hvernig hefur svo þessi samningur verið haldinn? Þessi samningur hefur verið þverbrotinn á okkur. Það hefur ekki verið nokkurt hald í neinu af þeim atriðum, sem áttu að vera okkur til verndar í þessum samningi. Meira að segja það öryggi, sem átti að vera í því, að það væri nú her, en ekki almennt, amerískt, óeinkennisbúið lið, sem hingað kæmi, her, sem heyrði undir heraga og væri í sínum búningi, — meira að segja það atriði í samningnum hefur ekki verið haldið, atriði, sem þykir sjálfsagt að halda, hvar sem her er í heiminum. Í stað þess að reyna að hlífa okkur sem mest við umgengninni við hermennina, þá hafa beinlínis af stjórn ameríska hersins verið gefnar fyrirskipanir og leyfi um það, að amerískir hermenn skuli afklæðast sínum einkennisbúningum, til þess að þeir ættu hægara með að blandast okkar fámennu þjóð og koma fram þeim spillingaráhrifum. sem virðist ætlazt til að þeir hafi hérna og þeir kannske að sumu leyti af eðlilegum hvötum hafa tilhneigingar til að valda. Og þegar slík mál eru rædd hér á Alþ., þá er því aðeins svarað af hálfu stjórnarvaldanna sjálfra, að það séu því miður engir möguleikar til hvorki í samningnum né hægt að skapa lög um það að koma í veg fyrir slíka hluti, rétt eins og Íslendingar geti ekki sjálfir lengur sett þau lög í landi sinu, sem þeim þóknast. Ég býst við, að það særi flesta þá Íslendinga, sem á annað borð finna til sín sem tilheyrandi sérstakri þjóð, en ekki tilheyrandi einhverri ákveðinni hernaðarblokk, að horfa upp á það, sem er að gerast suður á Keflavíkurflugvelli. Ef það hefur sært einhverja af okkar forfeðrum að vera kúgaðir til þess að róa á kóngsbátum frá Suðurnesjum fyrir Bessastaðavaldið í sinni tíð, á meðan þeir fengu ekki að njóta sinna eigin auðlinda, sinna eigin atvinnutækja og vinna fyrir sjálfa sig, þá ætti það að særa okkur núna að horfa upp á hallirnar, sem rísa upp suður á Keflavíkurflugvelli fyrir ameríska liðsforingja og þeirra fjölskyldur, sem búa sig undir að setjast að í okkar landi, á meðan Íslendingum að amerísku undirlagi, er bannað að byggja yfir sjálfa sig. Þetta særir okkar þjóðarstolt, að sjá hundruðum saman okkar íslenzka vinnuafl hagnýtt til þess að þræla fyrir útlenda, auðuga menn, á sama tíma sem því er bannað að vinna að því að bæta úr okkar eigin fátækt. Og það mun einhvern tíma koma sá tími, ef við reynumst ekki menn til að binda endi á það ástand, sem nú er að skapast, að afkomendur okkar eiga jafnerfitt með að skilja þessa kynslóð og við eigum stundum með að skilja þá menn, sem áratug eftir áratug og öld eftir öld létu beygja sig undir Bessastaðavaldið.

Í samningnum við Bandaríkjamenn var ákveðið, að hvergi skyldi neitt gert, sem að einhverju leyti tefldi í tvísýnu eða raskaði úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenzkum málefnum. En hvað er gert þarna suður á Keflavíkurflugvelli, án þess að okkar íslenzku stjórnarvöld hafi gert nokkurn skapaðan hlut til þess að afstýra því? Það hafa gerzt hlutir eins og þeir, að það hafa raunverulega verið innleidd amerísk lög á Íslandi og verið farið eftir amerískum lögum, án þess að nokkur bókstafur væri til að styðjast við í samningnum, sem gerður var, heldur þvert á móti. Strax á þessu fyrsta ári hafa amerísku yfirvöldin sýnt sig í því að reyna að innleiða hér amerískt réttarfar og amerískar ofsóknir, amerískar aðferðir til þess að brjóta niður lýðræði, amerískar aðferðir til þess að brjóta niður jafnrétti og skoðanafrelsi, fasistiskar ofsóknir Ameríku eftir fyrirmynd óamerísku nefndarinnar. Einn af þeim Íslendingum, sem vann á Keflavíkurflugvelli, kona, sem að öllu leyti þótti óaðfinnanleg í öllu sínu starfi og hlaut meðmæli frá öllum sínum yfirboðurum fyrir starf sitt, fékk á miðju þessu ári uppsagnarbréf úr stöðu sinni, undirskrifað af þeim liðsforingja ameríska hersins, sem hafði með mál hinna íslenzku starfsmanna að gera. Það var ekkert undarlegt atriði, þótt einum manni eða konu væri sagt upp vinnu, það kemur oft fyrir, en það sem var eftirtektarvert atriði í þessu sambandi, var það, að þessari konu var sagt upp vinnu með skírskotun í ákveðin amerísk lög, 5. gr. amerískra laga nr. 20534, amerískra laga, sem ákveða svo, að þeir menn eða konur, sem séu í tengdum við eða skyld mönnum, sem tilheyri ákveðnum, pólitískum félögum, skuli ekki mega starfa einhvers staðar, þar sem amerískur her hefur starf með höndum. M. ö. o., íslenzkum aðila var sagt upp vinnu með skírskotun til amerískra laga, sem banna mönnum að vinna, ef einhverjir þeirra nánustu hafa ákveðnar pólitískar skoðanir. — Í samningnum, sem gerður var við Bandaríkin 5. maí 1951, er tekið fram í viðbætinum um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna, 2. gr., 1. undirdeild, b-lið, með leyfi hæstv. forseta: „Liði Bandaríkjanna og skylduliði liðsmanna á Íslandi ber að virða íslenzk lög og hafast ekkert það að, sem fer í bága við anda þessa samnings, og einkum skulu þeir forðast að hafa nokkur afskipti af íslenzkum stjórnmálum.“ M. ö. o., þegar ameríska liðið kemur til Íslands, er það sérstaklega skuldbundið til þess og sett inn í íslenzk lög, að það skuli ekki dirfast á nokkurn hátt að raska því frelsi og því lýðræði og því jafnrétti, sem hér eigi að ríkja á Íslandi, jafnrétti allra manna, hvaða skoðanir sem þeir hafa, til þess að vinna á þessu landi. Ameríska liðinu var bannað að reyna að hafa nokkra aðgreiningu á mönnum hér heima í þessu efni, og þetta var sett vegna þess, að valdamönnum hérna á Íslandi var kunnugt um, hvers konar ófremdarástand, hvílík harðstjórn, hvílík skoðanaofsókn ríkir í Bandaríkjunum viðvíkjandi slíkum hlutum, og menn vildu ekki, að slíkt væri innleitt hér á Íslandi. En hvað gerist strax á fyrsta ári þessa samnings? Strax á fyrsta ári þessa samnings sýnir lið Bandaríkjanna sig í því að traðka þennan samning undir fótum, að rjúfa hann, að brjóta þau lög, sem sett voru um þennan samning, og gera tilraun til þess að koma á hér á Íslandi samsvarandi skoðanaofsóknum og eiga sér stað í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Ríkisstj. gerði ekkert til þess að afstýra neinu í þessu sambandi. Þvert á móti er vitanlegt, að nú sem stendur fer fram hér á Íslandi víðtæk njósnarstarfsemi af hálfu Ameríkana til þess að njósna um skoðanir Íslendinga, skrá þá að amerískum hætti og reyna á þann hátt að skipta sér af innanlandsmálum Íslendinga, af skoðanamyndunum Íslendinga og af frelsi Íslendinga til að vinna á sínu landi hvar sem þeim þóknast án tillits til þess, hvernig þeir hugsa. M. ö. o., af hálfu Bandaríkjahers, sem segist hingað kominn til þess að verja okkar lýðræði, okkar frelsi, eru strax á fyrsta ári dvalar hans hér á mörgum sviðum þverbrotin þau lög, sem eru um skyldur hans hér, þverbrotinn sá samningur, sem hann gerði, og allt í því skyni að eyðileggja þau mannréttindi, sem hér hafa verið í gildi hjá okkur í þessu landi.

Samtímis slíkum yfirgangi verður svo allur þorri landsmanna fyrir æ þyngri búsifjum af yfirgangi Bandaríkjanna. Ég þarf ekki að lýsa, hvernig verið er að svipta Íslendinga húsnæði tugum saman til þess að koma Ameríkönum alls staðar inn. Ég þarf ekki að lýsa, hvernig að amerísku undirlagi Íslendingum er bannað að byggja yfir sig, meðan verið er að byggja yfir Ameríkana í staðinn og búa til heilar borgir suður á Keflavíkurflugvelli. Og við skulum gera okkur ljóst, að þetta er að gerast aðeins á fyrsta ári samningsins. Hvað er svo í vændum, þegar flotastöð í Hvalfirði er fullbúin, þegar gerð hefur verið höfn og máske ný flughöfn í Þykkvabænum eða einhvers staðar á Suðurlandsundirlendinu, þegar búið er að koma upp herstöðvum um Norðurland, Vesturland og Austurland, þegar amerískur her og allt, sem honum fylgir, er búinn að setjast að á öllum þeim stöðum á okkar stóra landi, sem þeir þykjast þurfa að leggja undir sig til þess að hafa sínar bækistöðvar nægilega sterkar? Það, sem skeð hefur á þessu ári, sem liðið er, er aðeins byrjunin. Þeir, sem gerðu sér vonir um, að það væri engin hætta á ferðum, þegar þeir samþykktu þennan samning fyrir hálfu öðru ári, sjá nú, á hverju við eigum von. Héðan af geta þeir ekki blindandi haldið áfram að þola þetta ástand á okkar landi og leiða yfir það þær hættur, sem nú hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að af því mundu stafa. Að vísu hefðum við nú mátt af reynslunni vita það nokkuð fyrir, hvað mundi fylgja amerísku hernámi hér heima og hve mikið við mættum treysta á samninga við þá. Við gerðum samninga við Bandaríkin 1941, og þeir samningar voru rofnir. Bandaríkin neituðu að fara burt með herlið sitt af Íslandi 1945, þegar heimsstyrjöldinni lauk, og hótuðu þá að vera hér áfram í krafti síns skilnings á samningnum, sem var öfugur við skilning Íslendinga, íslenzku ríkisstj. og Alþingis á samningnum. Bandaríkin hótuðu þá að vera hér áfram í krafti síns hervalds, í krafti ofbeldis, og þau gengu ekki inn á að fara í orði kveðnu, fyrr en þau höfðu knúið fram Keflavikursamninginn og tryggt sér þannig þau ítök áfram, sem þau síðan hagnýttu til þess að koma nýjum herstöðvum á. Við fengum þar fyrstu reynsluna af orðheldni Bandaríkjanna í samningum við þá, og við hefðum átt að geta lært nokkuð af þeirri reynslu. Við fengum aðra reynslu, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður. Öll lög um Keflavíkursamninginn voru þverbrotin. Meðan sá samningur átti að heita í gildi, fóru Ameríkanar frá Keflavíkurflugvelli aldrei að íslenzkum lögum. Íslandi var valdið stórtjóni fjárhagslega með því, að ekkert af þeim sköttum og skyldum, sem þeim bar að greiða af innflutningi til varnarliðsins, var greitt. Öll íslenzk löggjöf, viðvíkjandi iðnaði, viðvíkjandi fjárhagsráði, viðvíkjandi heilbrigðisskipun, viðvíkjandi gjaldeyri, var þverbrotin. Við fengum þá reynslu af Keflavíkursamningnum, að engu orði Bandaríkjastjórnar væri treystandi í samningum lítillar þjóðar eins og okkar við hana. Samt var Atlantshafssamningurinn gerður, og þá var því lýst yfir af ríkisstjórn Bandaríkjanna, að það kæmi aldrei til mála, að farið yrði fram á það við Ísland að hafa erlendar herstöðvar á Íslandi á friðartímum. Engu að síður var ekki liðið nema á annað ár, eftir að sá samningur var gerður, þangað til þetta var rofið og Atlantshafssamningurinn notaður sem átylla til þess að knýja fram hernám Íslands í maí 1951, og nú sjáum við, hvernig sá samningur hefur þegar verið rofinn.

Ég held þess vegna, að við verðum nú að horfast í augu við það, að einungis með því að segja upp þessum samningi getum við firrt okkur þeirri hættu, sem yfir okkur hefur verið kölluð með gerð þessa samnings, og ég vil nú, sem ekki er máske alveg óeðlilegt, leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær aðstæður, sem ég veit að mörgum hv. þm., þeim sem gert hafa samninginn í góðri trú, muni hafa verið efst í huga, þegar þeir léðu samþykki sitt til þessa samnings.

Er raunveruleg hætta fyrir hendi á því, að ráðizt verði á Ísland? Ég vil byrja með því að taka það fram sem mína skoðun, að það er aðeins að mínu áliti ein raunveruleg hætta af árás á Ísland, og sú hætta er þegar orðin veruleiki. Það er sú hætta, að Bandaríki NorðurAmeríku leggi hernaðarlega land okkar undir sig, að Bandaríki Norður-Ameríku skapi sér herstöðvar í landi okkar til þess að ráða yfir því og nota það sem herstöð fyrir sig. Þetta er sú eina raunverulega hætta, sem yfir okkur vofir að mínu áliti og hefur yfir okkur vofað og kom ekki sízt í ljós 1. okt. 1945, þegar Bandaríki Norður-Ameríku fóru fram á það að fá hér á Íslandi þrjár herstöðvar til 99 ára, án þess að nota sem átyllu til þeirrar ósvífnu kröfu nokkurn fyrirslátt um vernd lýðræðis, vernd friðar, vernd frelsis eða nokkuð annað slíkt. Þá sýndu þau sig berlega í þeim yfirgangi, sem einkennir slík stórveldi. Síðan þeim var neitað um þær herstöðvar, hefur öll þeirra pólitík gagnvart Íslandi gengið út á það eitt að tryggja sér þessar herstöðvar. Nú þykjast þau undir því yfirvarpi, sem þau síðast notuðu, og í krafti þeirra ítaka, sem þau hafa fengið í okkar landi, fjárhagslega og efnahagslega séð, vera búin að ná því takmarki, sem þau lýstu yfir 1. okt. 1945 og íslenzka þjóðin þá sem einn maður neitaði þeim um.

Það er sagt við þjóðina og það er reynt að hræða hana á því, að í Austur-Evrópu sé voldugt ríki, sem seilist til yfirráða í veröldinni og hafi jafnvel alveg sérstakan augastað á okkar landi og vilji leggja það undir sig. Ég vil nú biðja hv. þm., fyrst það hefur á annað borð orðið þeirra hlutskipti að sitja á Alþingi Íslendinga á örlagaríkustu stundu, sem þessi þjóð á sinni ævi hefur lifað, að reyna að hefja sig upp á dálítið hærri sjónarhól, skoða það, sem er að gerast á okkar tímum og þar með líka á okkar landi, frá sjónarmiði mannkynssögunnar og þróunarinnar sjálfrar, en ekki aðeins í ljósi þess áróðurs og ekki hvað sízt þess blekkingamoldviðris, sem þyrlað er upp á öðrum eins átakatímum og nú eru í veröldinni. Ég þekki máske Sovétríkin meira, en flestir af þeim þm., sem nú eiga sæti í þessari hv. d., og ég vil segja þessum hv. þm.: Það, sem er að gerast þar austur frá, er, að verkamenn, bændur og aðrar vinnandi stéttir, sem fyrir 35 árum voru einhver fátækasta og kúgaðasta þjóð veraldarinnar, hafa risið upp, hrint af sér aldagömlu oki keisara, aðals og auðvalds til þess að reyna að skapa nýtt mannfélag á rústum þessa gamla kúgunarskipulags. Þessar þjóðir og þessar vinnandi stéttir hafa á þessum 35 árum upplifað styrjaldir í meira en áratug, þær hafa orðið að taka við landi sínu tvisvar sinnum flakandi í sárum eftir styrjaldir. Það hafa fáar þjóðir og fáar stéttir í heiminum kynnzt betur, hvílík skelfing styrjöld er, en þessar þjóðir hafa gert. Hver einasta fjölskylda í Sovétríkjunum á um sárt að binda eftir síðustu styrjöld. Meðal þeirra, sem heimsóttu Ísland í sovétsendinefnd nú á þessu ári, var einn af þeim vísindamönnum, sem þar var. Sá maður hafði misst tvo bræður sína og föður sinn úr hungri í Leningrad á meðan umsátur fasistanna stóð yfir. Það er vart hægt að tala við nokkurn mann, sem maður hittir í þessu ríki, sem ekki hefur misst einhvern af sínum nánustu, einhvern af sínum beztu vinum fyrir sverðshöggum, kúlum, úr hungri eða eldi eða áþján í þeim hörmungum, sem heimsstyrjöldin var. Og allt þetta land, allt austur að Volgubökkum, var flakandi, rjúkandi auðn, þegar þessar vinnandi stéttir tóku við því aftur til þess að byrja að byggja það upp, og þær hafa verið að byggja það upp síðan. Þær eru ekki aðeins að umskapa sitt þjóðfélag, heldur líka að ráðast í þær stórkostlegustu breytingar á landinu sjálfu, sem mannsandann nokkurn tíma hefur dreymt um. Það er verið að skapa raforkuver, áveitur og stöðuvötn, stöðuvötn við áveiturnar eins og nú við Stalingrad, sem eru 20 sinnum stærri, en Þingvallavatn. Það er verið að umskapa sjálfa náttúru landsins, breyta sjálfu loftslaginu, til þess að mönnum geti liðið betur, til þess að þar, sem áður voru eyðimerkur, geti orðið ræktuð lönd, þar sem hægt er að uppskera mat handa fólkinu, svo að fólkið geti búið við allsnægtir.

Ég vil biðja hv. þm. að reyna eitt augnablik að setja sig inn í aðstöðu þeirra manna, verkamanna, bænda og annarra vinnandi stétta, sem eru með hverju ári að skapa sér meira og betra fæði, meira úrval klæða til þess að klæðast í og meira af húsum til þess að búa í, og spyrja sjálfa sig: Hvaða hag getur slíkt fólk haft af styrjöld? Ef Sovétríkin og þær þjóðir, sem þau byggja, hefði langað í styrjöld af einhverri undarlegri drápslöngun, sem fyllti þær þjóðir, þá hefðu þær sannarlega verið búnar að ráðast á, á meðan Bandaríkin og þeirra stjórn hefur ekki gert annað í þrjú ár, en að tilkynna, hve varnarlaus Vestur-Evrópa væri fyrir árásum rauða hersins, ef hann kysi að ráðast á okkur. Því fer fjarri, að þarna sé um löngun til árása að ræða. Þær þjóðir, sem gleggst allra hafa fengið að kenna á því og sárast eiga um afleiðingar styrjaldar að binda, mundu sízt af öllum vilja fara út í styrjaldir að nýju. Og það er enginn maður og engin stétt í Sovétríkjunum, sem hefur hag af styrjöld, hag af því að brjóta með styrjöld undir sig aðrar þjóðir í veröldinni. En það er annar hlutur, sem ég veit, að margir þeir menn halda fram, sem segja, að yfir okkur Íslendingum vofi hætta á árásarstyrjöld. Þeir segja, að það sé ný stefna í uppsiglingu með mannkyninu, sósíalisminn eða kommúnisminn, og að það sé gegn þeirri stefnu, sem verði að berjast. Ég vil biðja þá hv. þm., sem kynnu að hafa þá hugmynd, að ef til vill væri nú allt í lagi með þessi Sovétríki, sem reynt er að þyrla svo miklum blekkingum upp um, ef til vill hefði fólkið, sem þau byggir, engan áhuga fyrir styrjöld, en þá væri eftir þessi ægilega stefna, sósialisminn, sem hættan stafaði af. Hvað sósíalismann snertir og afstöðu hans í veröldinni, þá vil ég segja við hv. þingmenn: Gagnvart sósíalismanum hjálpar engin styrjöld til þess að reyna að berja hann niður, og til að koma sósíalismanum til hjálpar heldur engin styrjöld.

Við skulum reyna að skilja það þróunarstig mannfélagsins, sem við nú á tímum stöndum á, því að það er ekki í fyrsta skipti nú á þessari öld, að mannkynið upplifir það, að ný mannfélagsskipan sé að ryðja sér til rúms, og um hverja nýja mannfélagsskipan er venjulega ekki rætt á þann veg, að henni sé lýst eins og hún raunverulega er, heldur er henni venjulega í þeim löndum, þar sem hún hefur ekki sigrað, lýst af þeim drottnandi stéttum og flokkum sem því skrímsli, sem hinir ráðandi menn sjá í hverri nýrri mannfélagsskipan, sem sé að ryðja sér til rúms. Ég vil biðja alla þá hv. þm., sem þekkja gang mannkynssögunnar, að rifja það upp fyrir sér, hvernig var um það leyti, sem gamla aðalsskipulagið, gamli „feudalisminn“, var að hrynja til grunna með öllum þeim glæsileik, sem hinn forni aðall hafði til að bera, og allri þeirri bændaánauð og öllum þeim skelfingum, sem yfirdrottnun þessa aðals fylgdi. Ég vil minna hv. þm. á, hvernig litið var á byltingu borgarastéttarinnar og það mannfélag, sem þá var að ryðja sér til rúms, kapítalismann. Ég vil minna hv. þm. á, hvers konar grýla það var, sem aðallinn um alla Evrópu skóp af ensku byltingunni um miðja 17. öld, þegar brezkt þing. brezkar vinnandi stéttir með borgarastéttina í broddi fylkingar undir forustu byltingarflokksins, púrítananna, og foringja hans, Cromwells, unnu aðalinn og konungsvaldið í sjö ára borgarastyrjöld og hálshjuggu konunginn í London. Hvílíkri ógn sló ekki á aðal Evrópu á þeim tímum? Hvílík bannfæring var það ekki, sem páfinn og allir konungar kváðu upp yfir þeirri nýju stefnu, sem þá var að ryðja sér til rúms? Ég vil minna á, hvernig allir beztu menn þess tíma stóðu með þeirri byltingu, hvernig mesta skáld Englendinga á þeirri öld og þó að á fleiri öldum sé leitað, John Milton, tók sjálfur að sér að semja varnarritið fyrir aftöku konungsins, sá Milton, sem orti „Paradísarmissi“. Ég vil minna hv. þm. á, hvernig aðall Evrópu leit á byltinguna í Bretlandi. Og ég vil minna þá á, hvernig aðallinn og konungarnir í Evrópu litu á rúmri öld síðar, þegar franska byltingin undir forustu Jakobinanna ruddi nútímalýðræðinu braut, knúði fram sigur kapítalismans í Evrópu og lagði grundvöllinn að okkar nútíma demókratíi. Ég vil minna þá á þær skrímslismyndir, þær grýlur, sem skapaðar voru um allan heim til þess að hræða vinnandi stéttirnar um öll lönd á þeirri byltingu, sem væri að eiga sér stað á móti aðlinum og konungsvaldinu í Frakklandi, til þess að reyna í löndum eins og Íslandi og öðrum slíkum að hræða vinnandi stéttirnar frá því að krefjast þess sama réttar sem franska alþýðan þá hafði tekið sér með valdi. Ég vil minna þessa sömu hv. þm. á viðkvæðið, þegar undirokaðir bændur og handverksmenn í núverandi Bandaríkjum Norður-Ameríku hófu uppreisn, lýstu yfir frelsi sínu og börðust árum saman á móti nýlenduher Breta, þangað til þeim tókst að sigra. Þeir menn voru úthrópaðir sem byltingarmenn. eins og þeir voru, — sem menn, sem ætluðu að steypa öllu því góða, sem til væri, eyðileggja allt það frelsi sem aðallinn nyti, öll þau aldagömlu réttindi, auð og glæsileik, sem yfirstéttirnar hafa átt við að búa. Ég vil minna hv. þm. á, að það hefur aldrei verið knúin fram ný mannfélagsskipun öðruvísi, en að þær yfirstéttir, sem hafa óttazt vinnandi stéttirnar, sem voru að brjótast fram til þess að heimta rétt sinn, hafi reynt að útmála það, sem var að gerast, með öllum þeim svörtustu litum, búa til um það argasta óhróður, skapa úr því þá ömurlegustu skrípamynd, sem hægt var að hugsa sér, til þess að menn dæmdu ekki þá nýju mannfélagsskipun, sem var að ryðja sér til rúms, út frá því, sem hún væri, heldur út frá þeim óhróðri, sem gömlu, feigu yfirstéttirnar bjuggu sér til eða fannst skynsamlegt að búa sér til um það nýja, sem var að brjótast fram.

Þegar verkalýður og bændur nútímans eru að skapa sér nýtt mannfélag, þar sem auðurinn ræður ekki lengur yfir mönnunum, heldur mennirnir yfir atvinnutækjunum, þá sjá þær gömlu auðmannastéttir okkar hér í Vestur-Evrópu og Ameríku sinn dóm nálgast. Þær sjá nálgast mannfélag, þar sem auðurinn er ekki lengur valdið, mannfélag af allt öðrum toga spunnið, en þau mannfélög, sem við höfum áður kynnzt. Það er mín trú, að sósíalisminn, þetta nýja mannfélag vinnandi stéttanna, muni ryðja sér til rúms í heiminum, eins og kapítalisminn ruddi sér til rúms á sínum tíma og eins og „feudalisminn“ eða aðalsskipulagið ruddi sér til rúms þar áður. Mannfélagsþróunin heldur áfram að ganga sinn gang, og það kapítalistiska skipulag, sem við höfum lifað við hér á Íslandi, að vísu bara rúma kynslóð, en í Vestur-Evrópu í nokkrar aldir, á fyrir sér að deyja og hverfa, alveg eins og önnur þau þróunarstig, sem mannkynið hefur staðið á, alveg eins og sósíalisminn á það líka fyrir sér seinna. Það er ekkert, sem fær brotið niður nýja mannfélagsskipun, þegar hún finnur hljómgrunn í hjörtum fólksins og samsvarar þess hagsmunum. Eina spurningin er, á hvern hátt slík ný mannfélagsskipun sigrar, hvort hún sigrar jafnvel með því, að hún verði að standa í harðvítugum borgarastyrjöldum, eins og borgarastéttin varð að gera við aðalinn og eins og verkalýðurinn hefur sums staðar þurft að gera við auðmannastéttina, — eða spurningin er, hve fljótt hún sigrar og í hvaða mynd hún sigrar. Ég álít, að það, sem öllum okkur, sem getum ráðið því sameiginlega, hvaða form framrás mannkynssögunnar tekur á sig nú á tímum, beri fyrst og fremst að hugsa um, það sé, að hið nýja, sem er að brjótast fram í heiminum, fái, svo framarlega sem það á annað borð hefur kraft í sér til að sigra, að sigra í sem friðsamlegastri mynd.

Ég vil minna hv. þm. á, hvernig útkoman er, þegar saman er jafnað þeim þjóðfélögum, sem vinnandi stéttirnar þegar ráða í, og þeim þjóðfélögum, þar sem hið gamla auðvald enn drottnar, ef borinn er saman ávöxturinn af báðum í friðsamlegri samkeppni, að svo miklu leyti sem hún hefur fengið að eiga sér stað. Og ég vil í því sambandi mega benda hv. þm. .á aðeins eina tölu, til þess að sú mynd verði okkur nægilega ljós. Ef iðnaðarframleiðsla, sem er eitt bezta táknið um tæknilegar framfarir einnar þjóðar.

— ef iðnaðarframleiðsla Sovétríkjanna annars vegar og Bretlands og Bandaríkjanna hins vegar er borin saman eins og hún var orðin 1951 við það, sem hún var 1929, og ef við segjum, að hún hafi verið 100 hjá öllum þessum 1929, hver er hún þá á síðasta ári? Á síðasta ári, eftir að Sovétríkin hafa orðið að ganga í gegnum ægilegustu styrjöld mannkynssögunnar og fengið mikið af öllu sínu iðnaðarkerfi, öllum sínum borgum, eyðilagt í fjögurra ára styrjöld, en Bandaríkin hins vegar stórgrætt og eflt allt sitt iðnaðarkerfi, án þess að nokkuð af því væri eyðilagt, og þannig haft eingöngu af gróða af styrjöld að segja, — ef iðnaðarframleiðsla Sovétríkjanna 1929 er sett sama sem 100, þá er hún 1951 1200; hún hefur tólffaldazt. Ef iðnaðarframleiðsla Bandarikjanna er sett 100 1929, þá er hún 200 árið 1951, hún hefur aðeins tvöfaldazt. Ef iðnaðarframleiðsla Stóra-Bretlands er sett 100 1929, þá er hún 160 1951 og hefur því aðeins aukizt um 60%. M. ö. o., okkar gamla auðvaldsskipulag í Vestur-Evrópu og Ameríku svo að segja hjakkar í gamla farinu og getur aðeins eflzt og aukizt á styrjöldum, á manndrápum. Á meðan fleygir þeim þjóðfélögum, þar sem sósíalisminn er kominn á, tæknilega áfram. Við skulum gera okkur það ljóst, að við hér í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum erum að komast í svipaða aðstöðu og Spánn var í á 17. og 18. öld, þegar hann var að dragast aftur úr í allri þróun Vestur-Evrópu, af því að gömul aðalsstétt drottnaði þar og hennar yfirráð og eignarréttur voru fjötur á öllum framleiðslukröftum, sem með þjóðinni bjuggu. Á sama tíma þutu Holland og England, löndin, þar sem borgarastéttirnar höfðu tekið völdin og forustuna, fram úr þessu gamla ríki, sem þá var ríkasta land veraldarinnar. Við höfum upplifað það sama í dag. Sá fjötur, sem yfirráð auðmannastéttarinnar í Vestur-Evrópu og Ameríku eru orðin á framleiðslukröftum þessara stóriðjuþjóða, er að valda því, að þessar þjóðir, sem hafa haft forustu mannkynsins öldum saman, eru að dragast aftur úr vegna úrelts kerfis, sem þær viðhalda. Eins og ég raunar hef mjög greinilega sýnt fram á í grein, sem ég skrifaði 1946, höfðu Bandaríki Norður-Ameríku eftir styrjöldina, ef þau hefðu t. d. tekið upp sósíalistískt þjóðskipulag, möguleika til þess að fara langt fram úr öllum öðrum þjóðum veraldarinnar, vegna þess að þau höfðu iðnaðarkerfi, sem stóð hærra og gat verið grundvöllur að meiri velmegun, en mannkynið hafði þekkt.

Það er ekkert fjær lagi en að ræða í sambandi við þessi mál um þjóðirnar og andstöðu á milli þeirra, hvort þær heita t. d. Bandaríkjamenn eða Rússar eða annað slíkt. Við skulum athuga skipulögin, sem þessar þjóðir búa við, og hvað verður, þegar lengra líður, um þær þjóðir, sem búa undir þeim. Auðvaldsskipulagið í Bandaríkjunum leiddi yfir Bandaríkin 1929 slíka kreppu, að hún var eins og styrjaldarhörmung, — kreppu, þegar 20 milljónir manna voru atvinnulausar og 12 milljónir bænda flosnuðu upp og fóru á verðgang. Svo aumt skipulag, sem getur ekki hagnýtt annað eins auðmagn, aðra eins stóriðju og þá, sem Bandaríkjaþjóðin á, fyrir svo dugandi þjóð, ætti ekki skilið að vera til frambúðar. Þjóð, sem gæti baðað í allsnægtum eins og Bandaríkjamenn, verður hvað eftir annað að upplifa atvinnuleysi og hörmungar vegna „of mikilla allsnægta“, eins og hefur verið sagt, vegna misskiptingar auðæfanna í raun og veru. Og nú er þetta þjóðfélagsástand í Bandaríkjunum að leiða eina kreppuna til yfir heiminn, og við hér á Íslandi erum að fá smjörþefinn af henni. Atvinnuleysi, söluvandræði, öll fyrirbrigði kreppunnar eru aftur að skella yfir okkur.

Ég vil biðja hv. þm. um að athuga: Hvernig haldið þið nú, að þær þjóðir, sem eiga að dæma og gera upp á milli sósíalismans annars vegar og auðvaldsskipulagsins hins vegar, komi til með að dæma, þegar þær sjá þessa reynslu fyrir sér, sem hér er nú orðin svo greinileg? Nei, við skulum reyna að gera það, sem í okkar valdi stendur, til þess að hindra, að þessi tvö kerfi, þessi tvö mismunandi mannfélög, sem nú eru uppi á jörðinni, nokkurn tíma leiði hesta sína saman í styrjöld til þess að sjá, hvort sé sterkara. Við skulum leggja okkar litla lóð á vogarskálina til þess að sjá um, að það, sem gerist í veröldinni, sé friðsamleg samkeppni á milli þessara mannfélaga og að hver þjóð fái sjálf, öðrum þjóðum óháð, að velja eftir sinni reynslu um, hvaða skipulag henni henti bezt. Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að í þeim átökum um þróun mannfélagsins í veröldinni, sem nú standa yfir, ber okkur að reyna að stuðla að því að hindra, að þau verði útkljáð með vopnum. Og okkar möguleikar til að tryggja í fyrsta lagi rétt okkar Íslendinga til að ráða okkar eigin landi, í öðru lagi rétt okkar til þess að ráða því sjálfir, hvaða þróun þjóðfélagsleg og menningarleg verður í okkar landi, byggjast á því, að við séum einir hér á okkar landi og höfum hér engan erlendan her, en sérstaklega þó einnig á því, að land okkar sé ekki gert að herstöð. Í fyrsta lagi ekki að herstöð til árása fyrir auðvald Bandaríkjanna á þau ríki, sem alþýðan í Evrópu er að byggja sér upp. Í öðru lagi ekki heldur að herstöð fyrir Bandaríki Norður-Ameríku, ef þau kynnu seinna meir að vilja nota land okkar gegn ríkjum Vestur-Evrópu, Englandi eða öðru slíku, ef þeim löndum kynni að lenda saman í styrjöld.

Ég vil nú minna hv. þm. á, að þegar við ræddum um Marshallsamninginn hér 1948, reyndi ég að sýna glögglega fram á, hvernig Marshallsamningurinn væri auk ýmislegs annars liður í köldu stríði Bandaríkjanna gegn auðvaldsríkjum Vestur-Evrópu, Englandi, Frakklandi eða öðrum slíkum, — aðferð Bandaríkjanna til þess að sölsa undir sig nýlendur þessara gömlu, forríku nýlenduríkja og til þess að breyta þeim sjálfum í nýlendur. Það er orðið allgreinilegt síðan og kemur með hverjum deginum betur í ljós það kalda stríð, sem þar á sér stað. Við getum aldrei vitað, hvenær slíkt kalt stríð verður heitt stríð. En eitt er gefið, að ég býst við, að enginn Íslendingur kæri sig um hverrar skoðunar sem hann er í stjórnmálum, að dragast inn í slíkt stríð. En svo framarlega sem Ameríkumenn eru búnir að byggja hér herstöðvar um allt okkar land og búnir á allmörgum árum eða áratugum að efla og margfalda þau ítök, sem þeir hafa náð nú á þessu eina ári, þá held ég, að öllum megi vera nokkurn veginn ljóst, að Ísland hefði enga aðstöðu til að vera sjálfstætt lengur, ef það stæði frammi fyrir slíku vandamáli.

Ef einhver skyldi halda það, að af því að England, Frakkland og Bandaríkin væru í sameiginlegu bandalagi, þá væri alveg óhugsandi, að eftir allmörg ár kynni jafnvel að vera hugsanlegt stríð innbyrðis á milli þessara aðila, þá vil ég minna á, að það eru ekki nema 7 ár síðan Bandaríkin og Sovétríkin voru í bandalagi sín á milli og í styrjöld sameiginlega gegn öðrum aðila. Við skulum, þegar við hugsum um utanríkismál, venja okkur á að líta hægt og rólega á hlutina og láta ekki áróður blinda okkur um það að taka ákvarðanir og afstöðu um örlög lands okkar frá hærri sjónarhól en þeim, sem dæguráróðurinn í blöðunum skapar.

Ef til vill eru einhverjir hv. þm., sem álíta það eðlilegt, að Ísland sé herstöð Bandaríkjanna vegna þess, að það sé verið að berjast í Kóreu. Viðvíkjandi því vil ég segja við hv. þm.: Stríð samsvarandi því, sem á sér stað í Kóreu, mun því miður að öllum líkindum í einu eða öðru formi, hvort sem það verður jafnharðvítugt og ægilegt og þar er reyndin, eiga sér stað mestalla þessa öld. Það, sem er að gerast Asíu og Afríku, er, að þjóðir, sem hafa verið kúgaðar eina öld, tvær aldir eða lengur af yfirstéttum Evrópu og Ameríku, eru nú að hrista af sér okið. Árásarstyrjaldir evrópska auðvaldsins hafa átt sér stað nú í nokkrar aldir gagnvart þjóðum Asíu og Afríku. — Ég vil minna á, að það er ekki heppilegt, að hv. þm. byggi aðgerðir sínar og dóma í stórmálum eins og hernámsmálinu eða öðrum slíkum á álíka þekkingarleysi á alþjóðamálum eins og því, sem hæstv. utanrrh. gerði sig sekan um, þegar hann setti fram þá spurningu til mín hér í þinginu, hvort ég gæti bent sér á nokkurt lýðræðisríki, sem nokkurn tíma hefði farið í nokkurt árásarstríð. Það var um það leyti, sem Holland hafði ráðizt á Indónesíu og Sameinuðu þjóðirnar fordæmt það. En öll saga síðustu alda er saga af árásarstyrjöldum lýðræðisríkjanna í Vestur-Evrópu, hinna borgaralegu, uppvaxandi kapítalísku ríkja, á þjóðir Afríku, Asíu og Ameríku til þess að leggja þessar þjóðir undir sig og arðræna þær. Og árásirnar af hálfu evrópska og ameríska auðvaldsins á Kóreu, Indókína og önnur slík ríki eru síðustu dæmin. Ef við þess vegna ætlum að hafa hér herstöð vegna þess, að suður í Afríku eða austur í Asíu séu kúgaðar lýðræðisþjóðir að berjast á sama hátt og við Íslendingar ef til vill hefðum barizt, hefðum við verið fjölmennari og ekki hefði verið við ofurefli að etja, og á sama hátt og við börðumst stundum á meðan við enn þá höfðum vopn í okkar landi, á 14. og 15. öld og 16. líka, áður en við vorum afvopnaðir. Þessar þjóðir, sem þarna eru að berjast við Frakka, Englendinga, Ameríkumenn og aðra slíka, eru að gera það sama og við, þegar við hristum yfirráð Dana af okkar höndum. Við skulum reyna að setja okkur inn í mál þessara þjóða og reyna að skilja þær. Við skulum ekki láta villa okkur af þeim áróðri, að alls staðar séu kommúnistar að verki. Það er frelsis- og sjálfstæðislöngun þjóðanna, sem er að varpa af þeim erlendu oki.

Þær þjóðir, sem þarna eru í baráttu, munu fara sína leið. Þær munu að lokum sigra í slíku atriði. Það skiptir ekki mestu máli, hvort þessar þjóðir standa á svipuðu mannfélagsstigi og við stóðum sjálfir fyrir rúmum 1.000 árum, en þá stóðu ættflokkar saman og blótuðu heiðin goð, eins og svertingjarnir í Kenya gera þann dag í dag, þegar þeir berjast undir forustu ættarhöfðingja sinna, koma saman í sínum lundum á sama hátt og okkar forfeður gerðu, því að það frjálslyndari var kristnin á Íslandi, að blóta mátti, ef það var gert á laun, en hjá Bretum í Kenyalandi eru þeir skotnir niður, ef þeir blóta, það skiptir ekki mestu máli, hvort þjóðirnar, sem berjast fyrir frelsi sínu, standa á stigi slíkra ættflokka eða standa á stigi gamals aðalsþjóðfélags, þar sem hinn innlendi aðall gengur í lið með útlendum kúgurum og um bændabyltingu er að ræða, eins og í Indókina eða öðrum slíkum löndum, eða hvort þessar þjóðir standa á stigi svipaðra borgaralegra framleiðsluhátta eins og Bandaríkin stóðu á, þegar þau hófu uppreisn sína 1776, eins og t. d. Indónesíumenn stóðu. Það, sem skiptir máli, er hitt, að á hvaða mannfélagsstigi sem þessar þjóðir standa, hvort sem þær eru svartar, gular eða þá hvíar, rísa þær upp gegn þeirri kúgun, sem þær eru beittar, og vilja sjálfar fá að njóta auðlinda síns lands og reka Englendingana burt. Og við skulum ekkert undrast, þó að jafnvel Bretar séu að tala um kommúnisma í Kenya og kommúnisma í Íran. Það er í Bretlandi talað um kommúnisma á Íslandi í dag, vegna þess að Íslendingar gera kröfu til þess að ráða sinni landhelgi sjálfir. Allt, sem heitir, að alþýðan vilji fá að ráða yfir auðlindum síns eigin lands og láta ekki framandi auðvald lengur ausa allsnægtum upp af þeim, heitir kommúnismi á máli þeirra þjóða, sem drottna í Vestur-Evrópu og Ameríku.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að ef við ætlum að fara að fórna Íslandi fyrir yfirráð þessara feigu yfirstétta í Vestur-Evrópu og Ameríku, til þess að þær geti viðhaldið nýlendukúgun um allan heim, þá erum við að svíkja alla þá baráttu, sem forfeður okkar hafa háð á móti nýlendukúgun hér, — þá erum við að ljá lið okkar á móti allri þeirri frelsislöngun og allri þeirri frelsisbaráttu, sem þjóðir heimsins heyja fyrir sama takmarki og við börðumst sjálfir fyrir síðustu aldir. Ef við ætlum að ljá land okkar sem herstöð til slíks, þá skulum við gera okkur ljóst, hverjar aleiðingarnar verða. Ef engin stór styrjöld verður í heiminum, sem við skulum vona, að heiminum verði forðað frá, — ef það gengur fyrir sig með átökum, sem standa í áratugi, sú breyting, sú bylting, að þjóðir Asíu og Afríku skapi sér skipulag eftir sínum eigin vilja, og ef Ísland á að vera hernumið allan þann tíma, hvernig verður ástandið þá orðið á okkar landi? Bandaríkjamenn eru nú að flytja inn í okkar land. Þeir eru að setjast hér að fyrir fullt og allt. Þeir eru að skapa sér hér stórkostleg íbúðarhverfi. Þeir eru að skapa sér hér heila bæi og koma á næstu áratugum, ef þeir byggja hér áfram, til með að áskapa þá framtíð okkar landi, að hér búi tvær þjóðir. Og ég vil minna hv. þm. á örlög þeirra landa, sem hafa orðið að þola það áratugum saman, jafnvel öldum, að framandi þjóð sezt að í þeirra landi. Það er land í Evrópu í dag, sem heitir Rúmenía. Hvernig stendur á nafni þess lands, þjóð þess lands og máli þess lands? Þar bjó slavnesk þjóð, og þar settust að rómverskar hersveitir og sátu þar um svo langan tíma, að að lokum var það land orðið svo rómverskt, að nafn landsins sjálfs og tunga mannanna, sem bjuggu þar, er rómverskt síðan. — Við þekkjum hér hjá nágrönnum okkar í Írlandi og frændum okkar þar, hvernig aðstaðan er þar á Norður-Írlandi. Írland er klofið í dag. Það er meira eða minna ensk þjóð, sem býr í Norður-Írlandi. flutt þangað inn til þess að halda Írum undir okinu.

Ég vil vekja athygli þeirra manna, sem eftir þá reynslu, sem fengin er af ameríska hernum þetta eina ár, ætla að halda áfram að kalla yfir okkur hernám áratugum saman, á því, að þeir eru þar með að gera Ísland meira eða minna að amerísku landi, byggja það amerískri þjóð og skapa það ástand, að Ísland sé ekki lengur fyrst og fremst byggt Íslendingum. Ég vil minna þá hv. þm. á, sem hafa valdið í þessum efnum, hvað þeir gera okkar þjóð með því. Við höfum, Íslendingar, staðið af okkur tvær ægilegar menningarlegar innrásir í okkar land. Þegar öll yfirstétt Evrópu tók latínuna sem sitt mál, sýkti menn af sama kynstofni sem okkar, þannig að þeir glötuðu tungum sínum og tóku upp rómverskt mál, gerðu enskuna hálfrómverska, þá voru hér á Íslandi menn, sem stóðu á móti þeirri innrás og héldu við okkar tungu á móti allri yfirstétt Evrópu og því tungumáli, sem hún hafði gert að sínu. Og í krafti þess tókst forfeðrum okkar að bjarga tungu okkar og skapa okkar sérstæðu menningu í baráttu við yfirstétt Evrópu, í baráttu við aðalinn, í baráttu við kirkjuaðalinn og í baráttu við tungu og menningu þeirra, latínuna og yfirstéttarnenninguna, sem hún var fyrst og fremst tungumálið fyrir. Og ég vil minna hv. þm. á aðra slíka menningarlega innrás, sem við stóðumst. Þegar þýzki aðallinn, þýzka tungan gegnsýrði Norðurlönd og danskan á 15. öldinni varð hálfþýzk mállýzka, — þegar Norðurlandaþjóðirnar, af því að yfirstéttir þeirra lágu hundflatar fyrir yfirstéttum Þýzkalands, glötuðu sínu gamla, norræna máli, þá stóðumst við hér úti á Íslandi með okkar gömlu menningu þrátt fyrir erfiðleika, þrátt fyrir útlend áhrif, þrátt fyrir útlenda embættismenn og útlenda útsendara hingað í okkar land og það framferði, sem þeir höfðu í frammi. Íslenzk menning hefur staðið af sér tvær slíkar árásir erlendrar yfirstéttamenningar. Íslenzk tunga hefur staðið af sér sýkingu, sem flestallar aðrar germanskar þjóðir hafa legið flatar fyrir vegna þess pólitíska ástands, sem þá ríkti hjá þeim.

Nú upplifum víð þriðju innrásina í okkar land, þá ægilegustu og hættulegustu. Við upplifum áhrif engilsaxnesku auðvaldsmenningarinnar með einhverja fullkomnustu og útbreiddustu tungu veraldarinnar, með stórkostlega tækni eins og útvarpið, kvikmyndirnar og annað slíkt að vopnum. Og við fáum þessi menningar- og ómenningaráhrif hér inn í landið sjálft, þannig að kvikmyndirnar, útlenda músíkin og öll áhrifin frá þessum þjóðum eru sterkari í sínum uppeldisáhrifum og áhrifum á æskulýðinn, en allir okkar skólar. Og við fáum mennina, sem bera með sér það lakasta, svívirðilegasta og versta úr menningu Bandaríkjanna hingað inn í okkar eigið land, sem ríkari og tekjuhærri menn, en nokkra hjá okkar þjóð, — við fáum þá með þeirri aðstöðu, að það er litið upp til þeirra og sótzt eftir kunningsskap þeirra. Við fáum þá hér þannig, að þeim er sköpuð aðstaða sem herraþjóð með sérréttindum og auði, á meðan Íslendingarnir eru settir lægra og lægra í mannfélagsstiganum og brotin á þeim þeirra eigin lög. Við höfum ekki áður þurft að berjast við yfirdrottnun framandi þjóðar þannig, að hún hafi sjálf verið í landinu og byggt landið meira og meira á meðan og komið að slíkum áhrifum menningar sinnar og ómenningar eins og engilsaxneska og sérstaklega ameríska menningin gerir núna. Og við höfum aldrei fengið eins mikið af því versta í menningu neinnar framandi þjóðar og aldrei verið unnið að útbreiðslu þess með annarri eins tækni og nú. Og á sama tíma er að fara fram í landi okkar slík umbylting innanlands, að við erum veikari fyrir, en við höfum verið nokkurn tíma á þeim þúsund árum, sem við höfum byggt þetta land. Það er verið að bylta þjóð okkar frá því að vera bændaþjóð, eins og hún hefur verið í þúsund ár, yfir í það að vera bæjaþjóð. Og í þeim bæjum, sem hjá okkur hafa risið upp, hefur sú borgarastétt, sem venjulega hefur tekið, þegar bæir hafa myndazt erlendis, forustuna menningarlega séð í þeim bæjum, ekki haft neina menningarlega, neina þjóðlega forustu til þess að skapa sjálfstæða íslenzka bæjarmenningu, þannig að Íslandi hefur engin stoð verið í borgaralegri bæjarmenningu, eins og flestum öðrum þeim þjóðum hefur verið, sem yfirgefið hafa sína gömlu bændamenningu og skapað sér bæi. Og hér hefur verkalýðshreyfingin á sama tíma ekki heldur borið gæfu til að móta sína menningu, verkalýðshreyfingin ekki borið gæfu til að geta tekið forustu fyrir þjóðinni á þessum þýðingarmiklu tímamátum hennar. M. ö. o., þjóðfélag okkar er eins og opið sár, það er eins og kvika, og á þessu hættulegasta stigi dynur yfir okkur amerískt hernám, sem nú er búið að standa í einu eða öðru formi í áratug og — ef ekki verður sagt upp þessum samningum nú — öll líkindi eru til að komi til með að standa áratugum saman, því að með hverju árinu sem líður verða tök þessa ameríska auðvalds fastari á okkar landi og sýking þeirrar amerísku ómenningar óviðráðanlegri okkar þjóð. Við þurfum að geta hafið baráttuna gegn þessari hættu, sem þarna vofir yfir okkur.

Ég veit, að sumir munu segja: Er íslenzk þjóð virkilega ekki nógu sterk til þess að standa á móti þessum ómenningaráhrifum? — Ég veit sérstaklega, að stjórnarvöld okkar munu kannske koma til með að segja það við okkur. En ég vil aðeins biðja hæstv. ráðh. að stinga hendinni í eigin barm og sjá, hvað sterkir þeir hafa reynzt í að standa á verði um íslenzk lög og rétt Íslendinga gagnvart ameríska setuliðinu hérna heima og hvort þeir geti þá búizt við, að þegar þeir æðstu í okkar landi standa þannig, reynist ungar stúlkur ráðherrunum betri. Það er aðeins eitt ráð, ef við viljum skapa okkar sérstæðu íslenzku menningu möguleika til þess að lifa áfram og blómgast í friði í okkar landi, og það er að losna við hið ameríska hernám og hinn ameríska her úr landi okkar, segja upp varnarsamningnum svo kallaða og knýja þá til þess að flytja burt. Þótt heiminum verði ekki steypt út í nýja heimsstyrjöld. þá vofir ella yfir okkur með friðsamlegri hersetu eyðilegging á okkar menningu, glötun á okkar þjóðerni. Hvað hins vegar vofir yfir okkur, ef til styrjaldar skyldi koma, því hef ég svo oft lýst, að ég ætla ekki að gera það núna.

Eins og ég tók fram áðan, þá álít ég einu raunverulegu hættuna á styrjöld stafa frá þeirri auðmannastétt, sem nú ríkir í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Það er sízt af öllu vegna þess, að ég áliti Bandaríkjaþjóðina lélega þjóð eða verri en aðrar. Ég veit að vísu, að hún stendur á lægra stigi en okkar íslenzka þjóð menningarlega séð, en það, sem veldur hættunni, sem frá Bandaríkjunum stafar, er, að sú auðmannastétt, sem ræður þar ríkjum, hefur þá reynslu, það sem af er þessari öld, að hún geti því aðeins grætt, að hún leggi í heimsstyrjaldir. Meðan aðrar þjóðir töpuðu mönnum og eignum, græddi ameríska auðvaldið á síðustu styrjöld 50 milljarða dollara. Auðmannastétt Ameríku finnur það, að hún getur ekki lifað, getur ekki grætt án styrjaldar. Morð eru orðin gróðavænlegasti atvinnuvegurinn hjá auðvaldi Bandaríkjanna. Undirbúningur undir morð er orðinn efnilegasta fjárfestingin fyrir auðmannastétt Bandaríkjanna. Það er í þessu undarlega efnahagsfyrirkomulagi, sem hættan liggur fyrir veröldina, og það er það, sem gerir það að verkum, að þjóðir heimsins, sem ekki vilja styrjöld, þurfa að reyna að skapa þessu volduga og ríka auðvaldi, sem ekkert sér nema gróðann og ekkert tignar nema mammon, slíkt aðhald, að það finni, að þjóðir heimsins láta ekki ameríska auðvaldið fá sig út í stríð. Og uppsögn varnarsamningsins svo kallaða af hálfu Íslands mundi vera holl áminning til ameríska auðvaldsins, ekki sízt nú, þegar stríðsóðasti hlutinn af ameríska auðvaldinn er að taka við völdum í Bandaríkjunum. Það mundi vera holláminning frá lítilli þjóð, sem vill frið. Ég held líka, að slík tilkynning af hálfu Íslands sem í þessu frv. okkar sósíalista felst mundi vera bezt til þess fallin á alþjóðlegum vettvangi að kveðja Íslandi hljóðs á þann hátt, sem mest væri í samræmi við okkar erfð og okkar sögu. Þjóð okkar er eina vopnlausa þjóðin í veröldinni, og við höfðum það hugrekki 1944, þegar við stofnuðum lýðveldið, mitt í ægilegustu styrjöld, sem mannkynið hefur átt í, að lýsa því yfir, að við vildum í trausti á friðarlöngun mannkynsins halda áfram að hafa land okkar óvopnað og vera eina vopnlausa þjóðin í veröld grárri fyrir járnum. Við eigum að halda áfram þeirri stefnu. Við eigum að halda uppi heiðri lands okkar með því að þora að kveðja okkur hljóðs á alþjóðavettvangi, með því að bera friðarorð og sáttarorð á milli þjóðanna, en ekki að ljá land okkar sem drápsker og gera þjóð okkar að litlu peði í taflinu fyrir harðvítugasta mammonsríki heimsins í tilraun, þess til þess að leggja veröldina undir sig. Við erum nógu smáir til þess, Íslendingar, nógu valdalausir frá sjónarmiði ofbeldisins og styrkleikans, en nógu viðurkenndir enn sem menningarþjóð til þess, að við ættum að þora að kveðja okkur hljóðs á alþjóðavettvangi, án þess að fyrirverða okkur fyrir smæð okkar, tala sem fulltrúar þeirra smáu í heiminum og segja, að það sé tími til kominn, að þjóðirnar þori að treysta hver annarri. þori að leggja niður vopn sín, þori að taka upp baráttuna fyrir friði.

Á þýðingarmestu tímamótum í sögu okkar reyndi á stjórnmálahæfileika manna á Alþingi Íslendinga meira en nokkru sinni, og ef til vill hefur sjaldan gert eins mikið að því að reyna á þá þar til nú, alla leið síðan. Það var þegar sá kristni siður var að ryðja sér til rúms í landi okkar og gamla heiðnin og það þjóðfélag, sem henni fylgdi, að þoka um sess. Á sama tíma sem öðrum þjóðum var boðuð kristni með því móti að konungar notuðu sér hana sem tæki til þess að brjóta þjóðirnar undir sig með báli og brandi, þá tókst okkur hér á Íslandi að koma henni friðsamlega á, með samkomulagi innbyrðis. Og stjórnmálavizka þeirra manna, sem þá réðu á Alþingi Íslendinga, varð til þess að skapa grundvöllinn að okkar þjóðveldi, okkar þjóðmenningu og öllu því, sem Ísland síðan á sinum myrku öldum var stoltast yfir. Við þurfum á því að halda í dag, að þeir menn, sem eiga að ráða örlögum þjóðar okkar, hafi svipaða viðsýni til að bera, þori að hugsa sín mál eins og Þorgeir Ljósvetningagoði og aðrir, sem þá réðu úrslitum, gerðu á sínum tíma.

Ég vil aðeins bregða upp einni smámynd af því, hvert verið er að koma áliti okkar Íslendinga úti um heim, ef við ekki stingum við fæti núna. Öldum saman var land okkar þekkt fyrir Snorra Sturluson. Öldum saman stafaði okkar hróður úti um heim af okkar menningu, okkar sögu, af okkar Eddum. Enn sem komið er, er amerískum herprestum og dönskum blaðamönnum ekki búið að takast að setja annan stimpil í augum alls heimsins á Ísland, - ekki til fullnustu, þó að verið sé á góðri leið með það og þeir, sem ráðið hafa hér á Íslandi undanfarið, séu að hjálpa þeim til þess. Enn sem komið er er Ísland skoðað menningarland, ekki vegna þess. hvað það hafi verið, heldur vegna þess, hvað það sé, og þá fyrst og fremst vegna eins manns, sem er sá maður, sem í dag varpar mestum ljóma yfir Ísland af öllum núlifandi Íslendingum, Halldór Kiljan Laxness, - sá maður, sem nú er kunnari og Ísland frægara fyrir, en það var áður fyrir Snorra. Og hver er afstaðan í dag hjá þeim mönnum, sem fyrirskipa nú, hvað gert skuli á Íslandi? Nýlega kom kona hér í Reykjavik til ameríska sendiráðsins til þess að biðja um „vísum“ til Ameríku, til Bandaríkjanna. Það var sagt við hana, að það kæmi ekki til neinna mála, að hún fengi „vísum“ til Bandaríkjanna, hún umgengist Halldór Kiljan Laxness. Við vitum, að það þarf máske ekki einu sinni svo stóra sök til þess, að mönnum sé neitað um inngöngu í „frelsisins fimbulstorð“, eins og Bandaríkin einu sinni voru kölluð. Það er nú svo komið, að flestir þeir menntamenn Íslands af öðrum flokki en Sósfl., sem boðið er í sendiferðir til Sovétríkjanna, þora ekki að fara þangað, þótt þá langi, vegna þess að þeir vita, að þá fengju þeir aldrei að stíga sínum fæti á Ameríku. M. ö. o., ástandið er orðið þannig á Íslandi, að það er bara tímaspursmál, hvenær að undirlagi þessa ameríska valds, sem hér drottnar, verði farið að vega þannig að öllu því dýrasta og bezta, sem íslenzk menning á, að reynt verði að brjóta það niður, — ef til vill ekki með sömu ráðum, en með svipuðum afleiðingum og Hákon gamli beitti í sinni tíð.

Ísland hefur á undanförnum öldum verið land menningarinnar í augum alheimsins, þeirra sem eitthvað hafa til þess þekkt. Nú erum við að verða herstöð, drápsker og það, sem verra er, í augum alheimsins. Heiður lands okkar, mannorð þjóðar okkar er í veði. Við töpuðum því aldrei, hvorki heiðri okkar né mannorði, þótt við værum kúgaðir í sex aldir og værum ekki sjálfstæð þjóð. Nú er spurningin fyrir okkur, hvort við erum menn til þess að segja: Hingað og ekki lengra, — segja við Bandaríkin: Nú farið þið burt með ykkar her af okkar landi. — Ég og með mér Sósfl. — álít, að það sé tími til þess kominn, að við gerum þetta, það sé rétt augnablik að gera það nú, það sé nauðsyn fyrir okkar þjóð vegna hennar framtíðar, það sé nauðsyn fyrir okkar þjóð vegna frelsis hennar og vegna heiðurs hennar:

Ég vil leyfa mér að leggja til, að hafður sé sami háttur á um þetta frv. og gert var í fyrra, þegar l.. sem hér er lagt til að afnema, voru samþ., það sé kosin sérstök n. til þess að fjalla um það og frv. sé vísað til þeirrar n. nú að aflokinni þessari umr. og til 2. umr.