23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2932)

145. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara út í það að meta þessi læknamál út af fyrir sig eða gera upp á milli, hvar meiri réttur er, þegar um er að ræða skiptingu á Blönduóslæknishéraði og Egilsstaðahéraði. Það er að vísu rétt frá skýrt af hv. þm. A-Húnv., að skipting á Blönduóshéraði var borin fram af heilbr.- og félmn. á síðasta þingi, en ég vil minna hv. þm. á það, að sú sama n. tók gilda og mælti með þeirri brtt., sem kom þá inn í málið um skiptingu Egilsstaðalæknishéraðs, svo að ég ætla, að þar sé nú ekki allur munur á um afstöðu hv. heilbr.- og félmn. í málinu. Að Blönduóshérað sé fjölmennara og þar af leiðandi meiri nauðsyn að skipta því, má vel vera, en ef ég á að segja nokkuð um málið frá því sjónarmiði. þá satt að segja undrar mig, að á sama tíma og vitað er, að á Blönduósi er verið að byggja stórt og myndarlegt sjúkrahús, þá komi till. þaðan úr héraði um að skipta læknishéraðinu og flytja annan lækninn, sem hv. þm. segir að sé þar sem aðstoðarlæknir, yfir til Höfðakaupstaðar. Ég hélt, að krafan yrði sú, að við Blönduóssjúkrahús yrðu tveir fullgildir læknar, eftir að búið væri að byggja sjúkrahúsið og taka það til rekstrar. En aðalatriðið í þessu máli, eins og horfir nú, er, eins og ég benti á áðan, hvort hindra eigi framgang frv. eins og það liggur nú fyrir með því að samþykkja inn í það brtt., sem vel getur átt rétt á sér, en sjáanlegt er að nær ekki fram að ganga á þessu þingi.