05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

33. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstödd, þegar hæstv. ráðh. byrjaði ræðu sína, en mér var sagt það af þeim, sem viðstaddir voru, að hann hefði haft þau ummæli, að Brynleifur Tobíasson hefði verið fulltrúi Stórstúkunnar í þeirri mþn., sem undirbjó áfengislagafrv. það, sem hér liggur fyrir, og að það hefði svo mátt lita á mig sem fulltrúa kvenna í allshn., sem hefur haft málið til meðferðar, og svo voru höfð eftir orð um það, að það hefði legið 3engi hjá þeirri n. Ég vildi nú bara vísa til bréfs Stórstúkunnar, sem ég ætla að hafi verið birt í mörgum ágætum blöðum, þ. á m. í Morgunblaðinu, en við höfum ekki birt með nál. okkar, þar sem Stórstúkan segir, að hún hafi engan þátt átt í skipun n. til þess að endurskoða áfengislögin. Og það má sjá af þeim ummælum, sem fram koma í því bréfi, að Stórstúkan lítur svo á, að væru áfengislögin haldin í þeirri mynd, sem þau eru, þá mundi það vera betra, en ef farið væri að setja l. svipuð þeim, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Varðandi mig sem fulltrúa kvennasamtakanna d Alþ., þá vil ég hreint ekki út af fyrir sig bera það af mér, en hæstv. dómsmrh. er það eins kunnugt og okkur hinum, að það vinnst ekki tími til þess að gera mjög mikil verk í þeim mörgu n., sem við sitjum í, og með því að einmitt kvennasamtökin í landinu töldu þau nýmæli sem í frv. felast, vera til tjóns fyrir þetta mál, þá þótti mér rétt, að málið yrði tekið til annarrar athugunar og að við mundum vera betur sett með þau l., sem nú gilda, heldur en þó að það yrði farið að gera samþykktir úr þessu frv. En ég skal bæta því við, að þau atriði, sem ég er alveg sérstaklega andvíg, eru nýmæli í þessu frv. Það er t. d. ákvæðið um heimild til þess að brugga áfengt öl í landinu. Það er eitt af nýmælum frv. og eitt af þeim stærri, og það er ákvæði, sem ég er algerlega andvíg og tel að mundi leiða til aukinnar áfengisnautnar.

Gegn 12. gr. frv., sem er um það, að dómsmrh. geti veitt fleiri veitingahúsum en einu leyfi til vínveitinga, hafa komið mótmæli frá öllum þeim félagssamtökum, sem um þetta hafa skrifað. En þau hafa ekki stefnt í sömu átt. Frá þeim félagssamtökum, sem óneitanlega vinna eftir allri sinni getu að því að draga úr böli áfengisnautnarinnar, hafa komið samþykktir um að fella niður greinina, en þó hefur verið talið, að þar væri eitt ákvæði til bóta, sem sé það, að eigi skyldi greiða þjónustugjald af áfengum drykkjum. En það kom líka bréf um það ákvæði frá einu félagi, sem taldi yfirleitt allt gott í frv., og það var samband veitingamanna. Það taldi frv. yfirleitt mjög sæmilega gott að undanskildu þessu atriði, að banna skyldi að greiða þjórfé.

Þegar frv. kemur hér í þingið með þeim undirbúningi, að það er unnið af n., sem raunverulega er ekki studd af neinum félagssamtökum í landinu, sem að þessum málum vinna, þannig að eftir á koma félagssamtökin, sem við yfirleitt tökum mikið tillit til í málflutningi, og neita því að hafa haft nokkuð með þessi mál að gera og neita því að vilja hafa með þau að gera í þessari mynd, þá sé ég ekki, að það sé nein önnur leið fyrir hendi, en að taka málið upp til nýrrar endurskoðunar og að sú endurskoðun yrði þá að vera byggð upp eins og gert er ráð fyrir í rökstuddu dagskránni, að þegar frá byrjun sé þessum samtökum sýndur sá trúnaður, að þau séu tekin með til starfans. Vegna þess að við trúum í raun og veru á það, — það er ekki tómt orðagjálfur, — að allir vilji draga úr ofnautn áfengis í landinu og því böli, sem af því leiðir, og það megi þá finnast einhver leið, sem – ég þori ekki að segja allir, en allflestir gætu orðið sammála um í þessu efni, þá tel ég, að þetta þurfi að gera. En það fæst ekki með því að koma með frv., sem undirbúið er með þeim hætti, sem hér hefur verið gert, til samþykktar. Það verður að vinna það upp frá byrjun með því fólki, sem hefur sýnt mestan áhuga í starfi varðandi þessi mál.

Ég mun svo, þegar til atkvgr. kemur, taka afstöðu til brtt., ef svo skyldi fara mót von minni, að rökstudda dagskráin yrði felld, en ég vil geta þess, að ég get verið samþykk mjög mörgum af brtt. hv. þm. Barð., og sama er að segja um brtt. þær, sem hv. 1. þm. N-M. hefur flutt.

En það er eitt í þessu frv., sem ég veit ekki, hvernig Alþ. ætlar sér að afgreiða á þessari stundu, og það eru ákvæði, sem gera ráð fyrir því að taka töluverða fjármuni frá ríkissjóði til áfengisvarna, sem er í sjálfu sér mjög nauðsynlegt, en það vantar bara, hvað þá á að koma á móti til þeirra þarfa, sem þetta fé er nú ætlað til á fjárlögum. Það er náttúrlega mál, sem þarf að taka afstöðu til, ef á að samþ. frv. eitthvað nálægt því, sem það liggur hér fyrir.