13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (3036)

194. mál, sparisjóðir

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 514 leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 69 1941, um sparisjóði. Efni frv. er það, að ráðherra feli Landsbanka Íslands að fara með þau störf, sem sparisjóðseftirlitinu er ætlað í lögum þessum.

Samkv. lögunum frá 1941 er svo fyrir mælt í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra sá, er fer með bankamál, og þeir aðstoðarmenn, er hann kveður til þess, fara með þau störf, sem sparisjóðseftirlitinu eru ætluð í lögum þessum, þar til lög verða sett um sérstakt eftirlit með sparisjóðum.“ Nú er það kunnugt, að slík lög hafa ekki verið sett, og mér skilst því, að hér sé ekki um sérstakt embætti að ræða, er sé skipað af forseta Íslands, heldur hafi viðkomandi ráðherra á sínum tíma valið til þess ákveðna menn eða ákveðinn mann, og þarf því ekki að standa í veginum, að það þyrfti að greiða þeim manni nein biðlaun, þó að þessi skipun verði gerð á. Auk þess mun maður sá, sem hefur nú með höndum starfið, vera kominn að aldurstakmarki, verða bráðum 70 ára gamall, svo að jafnvel þó að embættið væri talið vera lögum samkvæmt, sem ég hygg að sé nú ekki, þá er nú komið að því, að það yrði þá að skipta þar um, því að sjálfsagt yrði að hverfa frá því starfi 70 ára eins og öðrum embættisstörfum, og er því tækifæri til þess að gera breytingu hér á.

Ég hef haft tækifæri til þess að minnast á þessi mál við stjórn Landsbanka Íslands, sem er mér sammála um það, að raunverulegt eftirlit með sparisjóðunum liggur raunverulega hjá Landsbankanum í dag vegna þeirra viðskipta, sem hann hefur við sparisjóðina um allt land. Er þetta ekki hér sagt til þess að halda fram, að ekki sé einnig framkvæmt það eftirlit, sem lögin mæla fyrir um, nema síður sé, en það er sýnilegt, að það er hægt að sameina þessi störf þannig, að eftirlitið verði betra og kostnaðurinn enginn, því að það er enginn vafi á því, að svo mikil viðskipti hefur þessi stofnun, Landsbankinn, við ríkissjóð, að það mundi sjálfsagt vera hægt að komast að samkomulagi um það, að hann tæki að sér það eftirlit, sem hér um ræðir, og að það verði gert betur, en hægt er að gera með því fyrirkomulagi, sem nú er, og að hægt væri að spara þær rúmar 40 þús. kr., sem þetta mun kosta ríkissjóðinn. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar, en legg til að, að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.