05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

175. mál, firmu og prókúruumboð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þeim tveimur ágætu fræðimönnum og dómurum, dr. Þórði Eyjólfssyni og Árna Tryggvasyni hæstaréttardómurum, sem fengið var það verkefni að endurskoða lögin um hlutafélög, var einnig falið að endurskoða lögin um firmu, skráningu þeirra og um prókúruumboð. Frv. þeirra í þessum efnum er nú tilbúið og hefur verið athugað af mér og atvmrn., ásamt nokkrum fleirum, og er hér lagt fyrir hv. þd.

Í frv. þessu eru ekki verulegar breyt. frá eldri lögum. Segja má, að eldri lög séu færð til betra horfs að formi. Nokkur ákvæði eru öðruvísi en áður var, en um meginbreyt. er naumast að ræða. Þess er þó að geta, að nýjar reglur eru um heiti firma og meiri takmörkum bundið en áður, með hverjum hætti firma, sem ber heiti ákveðins manns, geti haldið því, ef það kemur í hendur nýrra eigenda. Nokkrar aðrar slíkar breyt. eru í frv. Aðalbreyt. má segja að sé sú, að nú er ætlazt til þess, að skráningar á þessum firmum séu allar á einum stað, þ. e. hjá skráningarstjóra, sem hefur aðsetur hér í Reykjavík. Og eins og boðað var í frv. um hlutafélög, þá er ætlazt til þess, að félögin og firmun standi sjálf undir kostnaði við rekstur þess embættis, og eru í þessu frv. ákvæði, sem leggja gjald á aðila, til þess að þessari starfrækslu verði haldið uppi, og er það hliðstætt því, sem er t. d. um bifreiðaeftirlit og fleiri stofnanir. Tel ég, að sá kafli þessara laga sé í raun og veru veigamestur, og má segja, að hann sé í nánu sambandi við hlutafélagafrv., þannig að það frv. standist ekki, nema því aðeins að þessi lög, a. m. k. 7. kafli þeirra, séu einnig samþ.

Ég geri nú ráð fyrir og hef tjáð hv. n. það, að það sé ekki tímabært á þessu þingi að afgr. frv. um hlutafélög. Það er svo viðamikið mál og snertir marga aðila, að það er eðlilegt, að það sé nokkurn tíma til athugunar, bæði hjá Alþ. og þeim aðilum, sem hlut eiga að máli. Ég tel því æskilegast og hafði alltaf miðað við það, að hlutafélagafrv. yrði ekki afgr. á þessu þingi, heldur látið bíða til næsta þings, og álít, að sömu meðferð eigi að hafa á þessu frv. Ég ætlast ekki til þess, að það sé afgr. á þessu þingi, heldur lagt hér fram til sýnis, ef svo má segja, og athugunar, ásamt hlutafélagafrv. En að sjálfsögðu vil ég mælast til, að frv. gangi til 2. umr. og verði vísað til hv. allshn., sem hefur hitt frv. til meðferðar.