23.10.1952
Sameinað þing: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

51. mál, raforkuverð

Flm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Ástæðan fyrir nauðsyn á lagafyrirmælum um þetta efni er sú, að frá dieselstöðvum sjávarþorpanna er kostnaðarverð á raforku það hátt, að lítt bærilegt er íbúunum, í mörgum tilfellum meira en tvöfalt hærra, en frá ýmsum vatnsaflsstöðvum bæjanna. Málið er jafnréttismál, og að því er ég tel, felur frv. í sér þá eðlilegustu lausn, sem fyrir hendi er frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Flest þau sjávarþorp, sem verðmiðlunin nær til samkvæmt frv., hafa þegar komið sér upp nægilega stórum stöðvum. Er því nauðsyn að búa þannig að þeim og málinu í heild, að unnt verði að segja, að íbúarnir njóti eðlilegrar og sjálfsagðrar tillitssemi hins háa Alþ., en það er ekki nokkur leið, nema verð á raforku til heimilisþarfa þessa fólks verði í fyllsta samræmi við verðið í bæjunum. Sakir aðstöðu bæjanna hafa þeir jafnan setið fyrir öllum meiri háttar aðgerðum í raforkuframkvæmdum hér á landi. Er ekki nema gott eitt að segja um, hve mikið var gert þessum málum til framdráttar meðan verðlag var lágt. En fyrir þessar aðgerðir hafa bæir og þéttbýlið nálægt þeim fengið sérstöðu til þessara mála. Þess vegna tel ég eðlilegt, að þessir aðilar, sem hafa betri aðstöðu, leggi nú fram sinn skerf til uppbyggingar og framgangs þessu aðkallandi velferðarmáli fámennari og dreifðari sjávarþorpa, er verr hafa orðið úti til þessa. Það er því von mín, að hv. alþm. sýni frv. einhuga stuðning, svo að það nái fram að ganga og verði að lögum nú á þessu Alþingi. Óska svo málinu vísað til 2. umr. og iðnn.