08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

169. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ekki fyrir alls löngu var til umr. í Sþ. þáltill. varðandi bátagjaldeyrinn, sem um urðu allmiklar umr. Ég gat þess þá, að Alþfl. mundi síðar bera fram á lögformlegan hátt og í frumvarpsformi till. sínar um það, hvað ætti að koma í stað þess vanskapnaðar, sem undanfarin ár hefði verið og ríkt í þessum efnum, þ. e. bátagjaldeyrisins. Þetta frv., sem nú er til 1. umr., gengur einmitt m. a. í þá átt að benda á önnur og frá okkar sjónarmiði séð heillavænlegri úrræði til þess að tryggja rekstur bátaútvegsins. Það er ekkert vafamál, að sjávarútvegurinn er Íslendingum lífsnauðsyn. Milli 95 og 97% af öllum þeim útflutningi, sem gjaldeyri gefur heim til íslenzku þjóðarinnar, eru sjávarafurðir, og það mun láta nærri, að um helmingur af þessari upphæð séu verðmæti, sem veidd eru á bátaflotann, en þó að verulegu leyti unnin í landi í frystihúsum, til herzlu og á ýmsan annan hátt. Má því segja, að um 45–50% af þeim gjaldeyri, sem útflutningur Íslendinga gefur, stafi beint og óbeint frá bátaútveginum. Ræður þá að líkum, hversu mikil nauðsyn það sé, að þessi atvinnurekstur geti áfram starfað, og þá einnig hitt, að hann sé rekinn með því hagkvæmasta og bezta móti, sem unnt er við að koma fyrir þjóðarheildina og þann mikla fjölda fólks, sem hefur lífsafkomu sína beint eða óbeint í sambandi við rekstur bátaútvegsins.

Það skyldi þess vegna engan undra, þó að það gæti verið verulegt og stórt mál hér á Alþ. að ræða um, hvaða úrræði væru heppilegust og bezt til áframhaldandi rekstrar þessa nytja atvinnuvegar íslenzku þjóðarinnar, en í staðinn hefur á þessu — ég vil segja nokkuð einstæða og ég vil einnig segja allt að því ömurlega Alþ., sem nú stendur yfir, litlum tíma verið eytt í það að ræða um lausn slíkra nytsemdarmála eins og þess, sem hér liggur fyrir. Í stað þess hefur verið farið inn á þær brautir, að íslenzka ríkisstj. hefur tekið sér vald, sem er mjög vafasamt að hún hafi fulla heimild til í l., til þess að framkvæma þær aðgerðir, sem hafa orðið til þess, en þó ekki á heillavænlegan hátt, að rekstur bátaútvegsins hefur ekki stöðvazt.

Það var svo, eins og alkunnugt er, að á árunum frá 1946–49 incl. ákvað Alþ. Íslendinga, til þess að tryggja rekstur bátaútvegsins, að ábyrgjast þeim, sem höfðu þennan útveg með höndum, ákveðið lágmarksverð, miðað við hvert kíló af fiski, sem aflaðist á bátana, sem stunda hér fiskveiðar. Þessar ákvarðanir Alþ. sættu misjöfnum dómum, og oft voru þær gagnrýndar, en þær voru framkvæmdar af tveimur ríkisstjórnum í röð, annarri þeirri ríkisstj., sem tók þetta upprunalega upp undir forsæti hæstv. núverandi atvmrh., og sú stjórn naut stuðnings þriggja flokka hér á Alþ., og síðan af þeirri ríkisstjórn, sem næst kom á eftir og ég hafði forsæti í. Það, sem ekki hvað sízt var talið þessu skipulagi til óþurftar, var það, að afla þurfti verulegra tekna til þess að standa undir þeim ábyrgðum, sem ákvarðaðar voru um verðlag á þeim fiski, sem veiddist á íslenzku bátunum. Ég játa það að vísu, að skattar og tollar eru aldrei vinsælir, og svo var ekki heldur með þá skatta og tolla, sem voru lagðir á til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem ríkið tók á sínar herðar til þess að tryggja rekstur bátaútvegsins. En það hefur þó komið á daginn, að þegar leitað var nýrra úrræða og annarra og segja má róttækari til þess að tryggja rekstur þessa mikilsverða atvinnuvegar, þá var það samt ekki svo, að niður væru felldir þeir skattar og tollar, sem áður voru á lagðir í því skyni að standa straum af ábyrgðarverðinu, sem tekið var á Alþ. og var samfleytt í gildi um 4 ára skeið. Ekki aðeins var þessum sköttum og tollum við haldið og þeir látnir renna til greiðslu almennra útgjalda ríkisins, sem fara stórlega hækkandi með hverju ári, sem líður, heldur var líka gripið til þess úrræðis, sem allir kannast við, þ. e. gengislækkunarinnar, sem m. a. tók í upphafi helming til sín af öllum sparifjáreignum landsmanna. Helmingurinn var gerður að engu með einu pennastriki á Alþ., auk þess sem þessi ráðstöfun hafði í för með sér þungar byrðar og sívaxandi fyrir allan almenning í landinu. En ekki nóg með það, að svo væri. Fyrirheitin um gengislækkunina voru bundin þeim loforðum, að nú mundi vera hægt að reka bátaútveginn án annarra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins, en það hefur líka reynzt rangt. Í staðinn fyrir og ofan á gengislækkunina, þar sem haldið er öllum sköttum og tollum, sem áður voru á lagðir til þess að forðast gengislækkunina og til þess að tryggja rekstur bátaútvegsins, var farið inn á nýjar leiðir, til þess að bátaútvegurinn stöðvaðist ekki alveg, og lagðar milljónabyrðar á herðar landsmanna með þeim hætti, sem gert var. Því hefur verið haldið fram, að bátagjaldeyrisleiðin hafi raunverulega verið byrjuð á þeim tíma, sem ríkisstjórn sú sat, þar sem ég átti forsæti. Þetta er rangt í öllum höfuðatriðum, og hefur hv. þm. Hafnf. að gefnu tilefni út af ummælum hæstv. viðskmrh. rækilega sýnt fram á, að svo er, og þarf ég ekki að endursegja þá réttu frásögn, sem hann hafði uppi hér á Alþ. um þetta atriði í sögu málsins.

Það hefur verið farið inn á það í sívaxandi mæli að heimila að leggja á allt að helming af þeim afla, sem veiddur er á bátaflotann, ákveðið gjald fyrir þá aðila, sem flyttu inn vörur fyrir andvirði þessa útflutta fisks, — sérstakt gjald, sem nemur frá 20 og upp í 60% af heildarupphæðinni af þeim helmingi andvirðisins, sem fékkst fyrir fiskinn, sem veiddur var á íslenzka bátaflotann. Nú er einn sá galli á öllu þessu, að ekki hefur verið unnt að fá frá hæstv. ríkisstj. nokkra skýrslu eða almenna frásögn um framkvæmd þessa óskapnaðar, þannig að menn þurfa að reyna að kafa inn í þetta völundarhús til þess að leita þar véfrétta um það, hvernig fyrirkomulagið sé og hvernig því hafi yfirleitt verið háttað, og það er erfitt að rata um völundarhús bátagjaldeyrisóskapnaðarins.

Um hitt þarf ekki að deila, eins og nú hefur verið sagt og stundum hefur líka komið fram hér á Alþ. frá öðrum hv. þm., að með bátagjaldeyrisóskapnaðinum hefur verið lagður nýr og mjög þungur tollur eða eins konar aðflutningsgjald á vissar vörutegundir, sem fluttar eru inn samkv. þeim listum, sem kenndir eru við bátagjaldeyrinn. Þarf ekki um það að vita annað né meira en það, eins og ég nú hef sagt, að upphæð þessi nemur í hundraðshluta 20–60%. Mega allir af því sjá, hverjar geysiupphæðir eru þannig lagðar á landsmenn þá, er neyddir eru til þess eða vilja óneyddir kaupa þær vörur, sem háðar eru þessu okurálagi. Og ofan á allt þetta bætist, að kaupsýslumönnum þeim, sem verzla með þessar vörur, eru engin takmörk sett um eigin álagningu á þessar vörutegundir. Fyrir utan sjálft innkaupsverðið á vörunum kemur þetta háa álag, sem nefnt er bátagjaldeyrir, og ofan á allt þetta leggja innflytjendurnir svo sinn ágóðahluta, sem er ekki alltaf sérstaklega skorinn við nögl. Þarf því engan að undra, þó að bátagjaldeyrisskipulagið hafi orðið einn þáttur til þess að koma á því öngþveiti í íslenzka þjóðfélaginu, sem ríkir í dag, því öngþveiti, sem enginn sér nú fram á, hvernig muni ljúka, ef áfram verður haldið á líkum brautum og verið hefur undanfarin 2–3 ár. Má það heita hamingja íslenzku þjóðarinnar ef þetta öngþveiti skapar ekki meiri ófarnað í íslenzku þjóðfélagi heldur en menn grunar enn þann dag í dag. Það er ekki nokkrum vafa bundið, að þetta leggst mjög þungt á allan almenning og það er einn þáttur í þeirri geigvænlegu dýrtíð, sem ríkir á Íslandi í dag, þeirri dýrtíð, sem á sér engan líka til saman. burðar nokkurs staðar hér í Vestur-Evrópu, þeirri dýrtíð, sem sköpuð hefur verið á Íslandi fyrir skammsýni stjórnarstefnunnar, sem ríkir á Íslandi í dag.

Það væri allt of langt mál og flókið að fara inn á framkvæmd þessa óskapnaðar og inn á það, hvernig þessu er fyrir komið. Þó vil ég aðeins nefna eitt dæmi, sem sýnir það, hversu mikið vald hæstv. ríkisstj. tekur sér umfram skýlaus lagaákvæði og hversu langt er gengið í því að leggja þungar álögur á þjóðina, og það er hinn svo kallaði guli saltfiskur. Á árinu 1950, áður en gripið var til bátagjaldeyrisóskapnaðarins í þeirri mynd, sem nú er, þá fluttist hingað til landsins allmikið af skemmdu eða slæmu salti fyrir ókunnugleika sakir. Og vegna óaðgæzlu sumra, ef til vill vegna óprúttni annarra, þá var þetta salt notað að verulegu leyti til að salta íslenzkan fisk, sem síðan átti að flytjast út sem útflutningsvara og saltfiskur frá Íslandi. Fiskur þessi reyndist lítt seljanlegur. Þá var tekið upp á því eftir samþykkt, sem gerð var í félagi íslenzkra útvegsmanna, þó með mjög knöppum meiri hluta, að óska eftir því, að andvirði þessa útflutta gula fisks kæmi undir bátagjaldeyrinn og heimilt væri eigendum fisksins að leggja hámarkið af bátagjaldeyrisálaginu á andvirði þessa fisks, eða 60%. Fyrst og fremst skorti, að mínu viti, alla heimild til þess að setja þennan gula fisk undir bátagjaldeyrisóskapnaðinn. Í annan stað var enn bætt gráu ofan á svart með því að leggja á sölu þessa fisks hæsta álagið, sem lagt hefur verið á í sambandi við bátagjaldeyrinn, eða um 60%. Ef það er rétt, að salan á þessum fiski hafi numið um 3 millj. kr. og að lagt hafi verið 60% ofan á það, þá hefur verið lagður nýr skattur á landsmenn, sem nemur um 1.800 þús. í dýrari vörusölu í landinu vegna þessa fyrirbæris, sem meðal almennings og ekki sízt meðal útvegsmanna er kallað „guli fiskurinn“. Þetta er eitt dæmi um ráðaleysisfálmið og ég vil segja allt að því óskammfeilni, sem beitt er í framkvæmd þessara mála. Og þegar það er líka athugað, að bátagjaldeyririnn sjálfur er lagður á innfluttar vörur, sem notaðar eru beint og óbeint til bátaútvegsins sjálfs, þá skyldi engan undra, þó að örðugt sé fyrir bátaútveginn með reksturinn, þar sem lagður er nýr og aukinn skattur á vöru, sem þarf nauðsynlega að nota til bátaútvegsins, en svo mun vera hvað þetta snertir.

Þegar þess er gætt, hvernig þessum málum er hagað í dag, þá hefði engan undrað, þó að ríkisstj., sem gerði sér ljóst, hversu væri um að ræða mikla líftaug íslenzks þjóðfélags, þar sem er útflutningur á sjávarafurðunum, reyndi að leggja sig fram í því skyni að gera eitthvað, þótt ekki væri það annað, en skárra heldur en það ófremdarástand, sem ríkir í þessum málum í dag. En eins og ég sagði áðan, þá hefur hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar hugsað um annað frekar, en endurbætur á þessu sviði. Þess vegna er brýn þörf fyrir alþm., sem sjá, hversu það er nauðsynlegt að koma á einhverju viturlegra eða skárra skipulagi, að leggja fram till. sínar um það atriði.

Einmitt með þetta fyrir augum flytjum við þm. Alþfl. í þessari hv. d. það frv., sem hér liggur fyrir til umr. og er á þskj. 309, um framleiðsluráð sjávarútvegsins, afnám bátagjaldeyrisskipulagsins o. fl. Það, sem vakir fyrir okkur með flutningi þessa frv., er að koma á nýju og betra skipulagi í sambandi við bátaútveginn og þann iðnað, sem stendur í órjúfanlegu sambandi við sjálfan bátaútveginn, hraðfrystihúsin og aðrar slíkar stöðvar, sem eru í landi reknar aðallega til þess að vinna úr þeim afla, sem fæst á bátana. Það er lífsnauðsyn, eins og oft hefur verið sagt og undirstrikað, að auka verðmæti íslenzkrar framleiðslu með það fyrir augum, að fólkinu í landinu gæti liðið betur. Þegar verkalýðurinn, aðframkominn af kröppum kjörum, hefst handa um að heimta leiðréttingu mála sinna, þá er svarið: Þetta er ekki unnt. Við þurfum að framleiða meira og fá meiri verðmæti fyrir okkar útfluttu vörur. — En mér er spurn: Væri þá ekki ráð að líta lítið eitt í kringum sig og gæta að, hvort ekki finnast betri vegir í því skyni að reka íslenzka framleiðslu og þá sérstaklega þá framleiðslu, er varðar bátaútveginn, með betra og hagnýtara skipulagi til þess að fá meiri verðmæti til útflutnings og meiri gjaldeyri til kaupa á innfluttum nauðsynjavörum? — Þess er vissulega þörf, og ég tek bókstaflega ekkert mark á tali þeirra manna, sem segja, að það sé ekki hægt að greiða hærra kaup, vegna þess að framleiðslan þoli ekki hærra kaup, — þeirra sömu manna sem láta framleiðsluhættina reka á reiðanum og sinna engu, hversu skipulagslaust og illa þessi framleiðsla er rekin. Ef þeir gætu sýnt fram á það með gildum rökum, að framleiðslan væri vel rekin, með góðu skipulagi, svo ódýru og hentugu sem frekast væri kostur á, og samt væri ekki hægt að greiða hærra kaup, þá horfði málið öðruvísi við. En í dag, þegar þessir sömu menn neita því harðlega, að hægt sé að greiða hærra kaup, en láta það viðgangast, að framleiðslan sé rekin með algeru sleifarlagi og sem féþúfa fyrir fámenna stétt á Íslandi, þá tek ég ekki mikið mark á þessu rammakveini íslenzku ríkisstj. og atvinnurekenda þeirra, sem hún hefur á bak við sig.

Ég held, að það sé ekki nokkrum vafa bundið, að það sé nauðsynlegt að taka til athugunar, á hvern hátt er hægt að koma betur fyrir þeim stórþýðingarmikla atvinnuvegi, sem bundinn er við bátaútgerðina, og það sé hægt að slá því föstu, að það skipulag, eða réttara sagt skipulagsleysi, sem ríkir í þeim efnum, sé þjóðarheildinni mjög óhagstætt, en aðeins fámennum spákaupmannahópi til gróða, því að geta má nærri, að margur hefur fengið spón í askinn sinn í sambandi við innflutning á þeim vörum, sem fluttar eru inn eftir bátalistaóskapnaðinum, þar sem byrjað er á, eins og ég sagði áðan, að leggja 60% ofan á verðið, sem hefur fengizt fyrir útflutninginn, og síðan leggja ótakmarkað og eftir vild á það fyrir dreifinguna og söluna á þessum vörum. Það er hart til þess að vita, að þessi óskapnaður skuli hafa orðið til þess, að heiðarlegir bátaútvegsmenn búa við mjög kröpp kjör, og íslenzkir sjómenn, sem vinnu stunda á þessum bátum, eru sannarlega ekki þannig settir, að þeirra kjör séu of góð, samtímis því sem fámennur hópur innflytjenda og dreifingaraðila á öllum þeim vörum tekur milljónir á milljónir ofan vegna þessa, sem látið er við liðast og hrundið af stað af íslenzkum stjórnarvöldum. Það er vissulega þörf á því, að þar sé tekið í taumana og það rösklega.

Eftir þessar almennu athugasemdir mun ég með fáum orðum minnast á efni frv., sem er þó frá mínu sjónarmiði séð svo skýrt og greinilegt, að fáar skýringar þurfa að fylgja.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir að stofna framleiðsluráð sjávarútvegsins, sem skipað sé 5 mönnum, sem kjörnir séu á þann veg, sem 1. gr. tiltekur. Menn gætu sagt, að það væri verið að hrúga upp nýju ráði og nýrri n. hér og okkar till. beindust þá aðallega í þá átt. En svo er ekki, því að samtímis leggjum við til, sem frv. flytjum, að lögð verði niður fiskimálanefnd, sem starfað hefur mörg undanfarin ár, og framleiðsluráði sjávarútvegsins falið það hlutverk, sem fiskimálanefnd hefur með höndum. Er því raunverulega ekki um það að ræða, að það sé verið að stofna nýja nefnd eða nýtt ráð, heldur er verið að breyta um starfstilhögun frá einni n. til annarrar með það fyrir augum að koma þar á betra og hagnýtara skipulagi.

Í 2. gr. er svo ákveðið, hvað sé verkefni framleiðsluráðsins, og það er, eins og ég gat um nú á undan, að fara með þau störf, sem fiskimálanefnd hefur haft samkv. lögum nr. 75 frá 1937, í öðru lagi rannsókn á þörf bátaútvegsins fyrir opinbera fjárhagslega aðstoð og skipulagning og stjórn þeirrar aðstoðar og í þriðja lagi yfirstjórn á sölu afurða bátaflotans, þegar hann nýtur opinberrar aðstoðar á vegum ráðsins. Ég bið menn mjög að athuga ákvæði c-liðar 2. gr., hvað snertir yfirstjórn þá, sem gert er ráð fyrir að framleiðsluráði sé falin, að það er einungis fyrirgreiðsla og ákvörðun um sölu og útflutning þess fisks, sem aflast á þá báta, sem njóta aðstoðarinnar. Ef það eru fleiri eða færri af bátunum utan við það að njóta aðstoðar, þá hefur framleiðsluráð ekkert að gera með sölu á þeirra afurðum.

Það er gert ráð fyrir því í 3. gr., að framleiðsluráðið rannsaki í tækan tíma ástand og horfur hvað snertir bátaútveginn, svo að framleiðsluráðið sé tilbúið til að taka sínar ákvarðanir nógu snemma með það fyrir augum, að engin stöðvun þurfi að vera á útgerð bátanna.

Svo er í 4. gr. skilyrði fyrir því, að bátar geti notið aðstoðar, og það er í a-liðnum, að ýtrustu hagsýni sé gætt í rekstri bátaútvegsins. Þó að svo sé með rekstur sumra báta, — því skal sízt neitað, — að þar sé gætt ýtrustu hagsýni í rekstrinum, og er svo í sumum verstöðvum alveg sérstaklega, þá er það samt víst og áreiðanlegt, að á öðrum stöðum og hjá öðrum mönnum er sízt gætt þeirrar hagsýni og ráðdeildar, sem þyrfti í þessum efnum. Í b-liðnum er gert ráð fyrir því, að framleiðsluráðið setji það skilyrði, að allar rekstrarvörur séu keyptar hjá innkaupasamtökum bátaútvegsins, séu þær fáanlegar þar, eða með kjörum, sem ekki eru verri, en þar gerast. Það er m. ö. o. verið að hvetja bátaútvegsmenn til víðtækari samtaka sér til hagsbóta varðandi innkaup á vörum til útgerðarinnar, og álit ég það mjög merkilegt atriði.

Í 5. gr. er svo gert ráð fyrir, hvernig aðstoðin sé veitt, og þarf ég ekki að skýra það efni sérstaklega.

Í 6. gr. er svo ráð fyrir því gert, að framleiðsluráði sé heimilt, að fengnu leyfi ráðh., að fela einum eða tveimur útflytjendum að annast sölu þeirra afurða, sem sæta eiga sölumeðferð samkv. 5. gr. Það er gert ráð fyrir því á sama hátt eins og í löggjöfinni um fiskimálanefnd og fiskimálasjóð, að það sé hægt að löggilda útflytjendur og að það sé hægt að koma fyrir skipulagi eitthvað í þá átt eins og nú tíðkast talsvert, t. d. með S. Í. F. og annað slíkt, sem hefur með útflutninginn á sjávarafurðunum að gera.

Þá er í 7. gr. gert ráð fyrir ákveðnum verðuppbótum til þeirra bátaútvegsmanna, þar sem sýnilegt er að undangenginni rannsókn, að þeir fái ekki hagað rekstrinum þannig, að verðlag á vörum þeirra sé nægilegt til þess að standa undir öllum rekstrarkostnaði. Er þá gert ráð fyrir því, að það verði greidd verðuppbót af því fé, sem framleiðsluráð hefur til umráða og rætt er um í 9. gr. frv.

Í 9. gr. er svo einmitt í sambandi við þetta rætt um fjáröflunarleiðir. Það er á þrennan hátt. Það er framlag ríkissjóðs, sem sé 10 millj. kr. á ári í 5 ár. Svo er gert ráð fyrir í b-liðnum í þessari gr., að ef það hrekkur ekki til og hagkvæmari rekstur en nú tíðkast á bátaútveginum og fiskiðnaðinum, sem stendur í sambandi við hann, dugi samt ekki til þess, að endarnir nái saman, þá sé heimild til þess að leggja aðflutningsgjald á vissar vörur, sem til landsins séu fluttar, í því skyni að taka þar af fé, sem varið væri til uppbótanna. Þar er ákvæði um, að það sé óheimilt að leggja nokkurt álag á gjald þetta, er vörur, sem það er greitt af, eru seldar í smásölu eða heildsölu, og að á brýnustu nauðsynjar almennings megi aldrei leggja þetta gjald. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í 12. gr., að ráðh. ákveði með reglugerð um starf framleiðsluráðs og framkvæmd laga þessara, þ. á m. um álagningu hundraðsgjaldsins, sem nú hef ég nefnt.

Svo er gert ráð fyrir í 10. gr., til þess að tryggja enn þá betur, að það sé ekki fjatrað með aðflutningsgjald, sem kynni að vera lagt á þessar vörur, á þann hátt, sem til óþurftar sé fyrir almenning, að innflutningur þeirra vörutegunda, sem greiða ber gjaldið af, skuli vera frjáls og óhindraður. Ef framleiðsluráð telur, að innflutningi þessara vara sé ekki haldið áfram með nægilegum hraða, þá er ráðinu, til þess að það geti staðið við ábyrgðarskuldbindingar sínar, heimilt að ákveða, að innflutningurinn sé háður leyfi ráðsins, og getur ráðið þá jafnframt boðið út til innflutnings einstaka vöruflokka og veitt þeim leyfi til innflutnings, sem bezt kjör býður hvað snertir verð og gæði, falið neytendasamtökum innflutning ákveðinna vörutegunda eða falið hagsmunasamtökum bátaútvegsins eða framleiðenda, sem vinna úr sjávarafurðum, þennan innflutning. Er þannig allt við þetta miðað, að komið sé í veg fyrir það hóflausa brask og spákaupmennsku, sem siglt hefur í kjölfar bátagjaldeyrisóskapnaðarins, eins og hann er nú rekinn og hefur verið rekinn síðustu ár.

Þá vil ég leggja ríka áherzlu á ákvæði 11. gr. Það er eitt af þýðingarmestu hlutunum varðandi þessi nýmæli og er um það, að framleiðsluráðið eigi að hafa með höndum, eftir því sem frekast er kostur á, öflun markaða fyrir íslenzkar sjávarafurðir. En það er áreiðanlega eitt af því, sem er einna nauðsynlegast og þarf mestra úrbóta, að ábyrg stofnun og aðilar, sem sérstaklega sé þetta falíð, geri meira að því en gert hefur verið undanfarið að leita eftir nýjum mörkuðum erlendis fyrir okkar afurðir og að víkka út þá markaði, sem áður hafa fundizt og hafa verið of þröngir til þess, að þangað væri hægt að koma nægilega miklu af útflutningsvöru okkar.

Ég tel, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um efni þessa frv. En ég vil að lokum endurtaka það, að ég tel, að hér sé um mjög stórt og þýðingarmikið mál að ræða. Hunzun á slíkum till. sem þessum hjá ráðalausri ríkisstj. ber ekki vott um það enn þá, að hún hafi áttað sig á, á hvaða vegi hún er stödd og á hvaða veg hún hefur nú leitt íslenzku þjóðina. Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að svo rík ábyrgðartilfinning væri meðal sumra hv. þm. í stjórnarfl., að þeir tækju til gagngerðrar athugunar þessar till., sem við nú flytjum fram. Vera má og er sjálfsagt, að þessar till., eins og öll mannanna verk, séu á þann veg, að það sé hægt að betrumbæta þær. Og ekki mundum við verða öðru fegnari heldur en að það kæmu umbótatill. varðandi þetta frv. frá hv. þm. eða öðrum þeim, sem um það eiga að fjalla. Erum við að sjálfsögðu mjög reiðubúnir til þess að athuga allar slíkar brtt., sem fram kynnu að koma. En ég vil aðeins segja, að ef þessu seinasta Alþ. á kjörtímabilinu lýkur án þess, að nokkuð sé gert í þessum málum, þá er þung ábyrgð þeirra, sem valda kyrrstöðunni og vandræðunum, m. a. út af meðferð þessara mála.

Ég legg svo til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., og ég held, að það ætti bezt við, að því væri vísað til hv. fjhn., þar sem hér er um stórt fjárhagslegt málefni að ræða, og legg ég það til fyrir mitt leyti.