28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3331)

172. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil greiða fyrir því, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu hér í deildinni, og ætla ekki að tefja það með því að halda langa ræðu.

Ég vil aðeins með örfáum orðum þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu á þessu máli, og sérstaklega vil ég þó þakka meiri hl. n. fyrir þá afstöðu, sem hann hefur tekið til málsins, þar sem hann leggur til, að frv. verði lögfest.

Mér eru það nokkur vonbrigði, að n. skyldi ekki sjá sér fært að standa saman um afgreiðslu þessa máls og skila jákvæðri afgreiðslu, en það verður auðvitað að ráðast hér í deildinni, hvaða afgreiðslu málið fær að lokum.

Það hefur verið vitnað hér af hv. frsm. minni hl. n. í álitsgerð frá vita- og hafnarmálastjórninni um þetta mál. Í þeirri álitsgerð er það skýrt dregið fram, sem raunar sjútvn. og allir hv. þm. hljóta að vita, að Hornafjörður er eini staðurinn á allstóru svæði á landinu, sem til greina kemur sem útgerðarstöð, ef nota á þau auðugu fiskimið, sem eru við suðausturströnd landsins og vestur með eyðisöndunum í Skaftafellssýslu. Þetta er skýrt dregið fram í umsögn vitamálastjóra.

Nú er svo háttað, að hjá því verður ekki komizt að ráðast í allstórar framkvæmdir í höfninni á Hornafirði. En það leiðir af sjálfu sér, að það er ólíku saman að jafna, hvort fámennt og fremur fátækt hreppsfélag á að standa straum af hafnarframkvæmdum fyrir við skulum segja 10 vélbáta, sem mundi nægja þeim stað um nokkra framtíð, eða hvort á að miða framkvæmdirnar við útgerð 40–50 vélbáta. Það er það, sem um er að ræða, að hreppsfélagið sér, sér naumast kleift að standa straum af þeim framkvæmdum, sem þarf að gera, til þess að tryggt sé um útgerð vélbáta, sem sækja þangað að frá ýmsum stöðum á landinu.

Ég tók það fram í upphafi máls míns, að ég vildi ekki tefja þetta mál, og ætla því ekki að hafa þessa ræðu lengri, en ég vænti þess, að hv. þd. gefi þessu gaum og fylki sér um það að afgr. þetta mál, svo að það geti náð fram að ganga sem l. á þessu þingi.