05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (3395)

183. mál, skattfrelsi sparifjár

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú auðsætt, að það er lagt á það mikið kapp að koma þessu frv., sem hér liggur fyrir, fyrir kattarnef, og þykir mér það í sjálfu sér nokkuð undarlegt. Við 2. umr. þessa máls sagði hæstv. fjmrh., að þetta væri uppþotsmál. Mér þótti þetta mjög illa og ómaklega mælt og undarlegt að heyra það, því að það hlýtur hæstv. ráðh. að vita, að við 1. þm. Rang. erum engir uppþotsmenn, enda komnir á þann aldur, að við erum ekki líklegir til þess að vera neinir byltingarforingjar. Þar að auki er það, að þetta mál er flutt sem alþjóðlegt hagsmunamál og menningarmál. Það er ekki flutt á neinum flokkslegum, stéttarlegum eða persónulegum grundvelli, heldur eingöngu af þeirri trú, að það sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að stöðva ofur lítið þá eyðslustefnu, sem verið hefur og er byggð ekki sízt á því, að fólkið er að tapa trúnni á það að safna nokkrum peningum.

Nú hafa verið fluttar hér brtt. við þetta frv. af hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. N-Þ., sem mundu, ef samþ. yrðu, algerlega eða því sem næst eyðileggja þetta mál eða það væntanlega gagn, sem af því gæti hafzt.

Mér hnykkti dálítið við, þegar hv. þm. V-Húnv. sagði, að hann hefði haft svo nauman tíma til þess að athuga þetta mál milli umræðna. Þetta er maður, sem er búinn að halda málinu í n. í sex vikur og ætti því að vera nokkurn veginn ljóst, hvað það er, sem fyrir liggur. En það er auðséð, að það hefur verið sterkur áhugi frá hans hlið til þess að stöðva þetta mál, alveg á sama hátt eins og honum tókst í fyrra að eyðileggja mál á svipuðum grundvelli, sem ég flutti hér varðandi stofnlánadeild landbúnaðarins, því að það er vitaður hlutur, að um leið og framtalsskyldan er inn í þetta sett, þá er skattfrelsið nauðalítils virði, og það er af því, að gjaldaþunginn, sem á sparifénu er, færist þá bara til og verður tvöfaldaður hjá sveitarfélögunum, sem fá þeim mun meira tækifæri til þess að leggja á spariféð, sem ríkið sleppir af sínum rétti við það. Þess vegna eru ákvæði 3. gr. þessa frv. aðalatriði, sem allra sízt má hagga við, og þau ákvæði, sem eru í 1. og 2. brtt. hv. þm. V-Húnv., eru í rauninni afleiðing af 3. brtt., sem er aðalatriðið í hans till., því að það er ekki hægt að leggja þau gjöld á, sem hann gerir ráð fyrir samkv. sinni 1. og 2. till., ef það er ekki vitað, hvert spariféð er og vextirnir af því. Þess vegna er í rauninni hans till. ein með nokkrum útúrdúrum í 1. og 2. brtt., og aðalatriði hennar er frá mínu sjónarmiði það eitt að halda framtalsskyldunni, og þá er málið um leið orðið nauðalítils virði, sérstaklega vegna þess, hvernig nú er komið hag bæjar- og sveitarfélaganna, sem mundu tvímælalaust nota sér það, ef spariféð er gefið upp, að það er ekki skattur á það lagður hjá ríkinu, hvorki eignarskattur né tekjuskattur, og mundu leggja þá á það þeim mun hærra útsvar. Þess vegna var það, að frv. um skattfrelsi sparifjár, sem flutt var af hv. þm. S-Þ. í Ed. í fyrra og ákvað það, að gefa skyldi upp hið skattfrjálsa sparifé, var í rauninni ekki annað en tilraun til þess að fá aukinn tekjustofn fyrir bæjar- og sveitarfélög, með því að láta ríkið gefa nokkuð eftir af sínum rétti.

Þeir útreikningar. sem hv. þm. V-Húnv. kom hér með, varðandi það, hvaða áhrif þetta geti haft, gætu kannske í einu eða tveimur tilfellum staðizt, en ákaflega held ég að það yrði óvíða, sem slíkt gæti komið til greina, því að eins og hv. þm. í rauninni viðurkenndi, þá er það vitaður hlutur, að það er mikill fjöldi í okkar þjóðfélagi af gamalmennum, börnum og fátæklingum, sem eiga í sparifénu sína aleigu, og þessa aleigu þessa fólks er búið að fara ákaflega illa með. Það er í rauninni skömm að því, að það er ekki fyrir löngu búið að gera þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég held, að ef það hefði verið gert fyrir svona tíu árum að gera þessar ráðstafanir, þá mundi vera allt annað ástand nú og ekki neitt svipaður sá lánsfjárskortur og tregða alls staðar eins og nú er, og það mundi ekki vera komið á eins mikið los með eyðslu í ferðalög, nautnir og alla skapaða hluti, sem ónauðsynlegir eru og eytt er í, af því að fólkið er búið að tapa trúnni á að safna sér sparifé.

Ég skal nú ekki fara miklu fleiri orðum um þessar till. hv. þm. V-Húnv. En eins og gefur að skilja, þá mæli ég harðlega móti þeim öllum og vonast eftir, að þeir hv. þm., sem á annað borð fylgja þessu máli, greiði þeim ekki atkv. Og eftir að hafa flutt þær og eftir það, sem þessi hv. þm. gerði í fyrra varðandi stofnlánadeildina, þá hljómar það mjög illa í hans munni, að hann skuli nú vera að tala um, að það þurfi nú að hvetja fólk til meiri sparifjársöfnunar, því að það er auðséð, að hann vill drepa allar tilraunir í þá átt. Það eru í raun og veru skýjaborgir, þótt það sé sjálfsagt að athuga það, sem menn samþ. hér í dag, að athuga það að gulltryggja eða verðtryggja sparifé. Það mundi kosta ríkissjóðinn mörgum sinnum meira en það að sleppa skatti af sparifé, sem hann nú heldur í.

Þá skal ég segja örfá orð um till. hv. þm. N-Þ. Hún stefnir í rauninni í sömu átt, að koma þessu frv. út á svo víðan grundvöll, að það verði ekkert vit í því, því að ef á að fara að taka inn í það margvísleg verðbréf, þá er það komið út á allt annan grundvöll heldur en þann að hafa sparifé skattfrjálst. Það er mjög mikill eðlismunur á sparifé og verðbréfum. Verðbréfin ganga kaupum og sölum, og þau eru í höndum þeirra manna, sem hafa mikið fjármagn undir höndum, og þau eru í höndum stofnana, bæði banka og annarra peningastofnana, og hvarvetna annars staðar. Það væri t. d. ekki óhuggulegt að setja það inn í frv. að fara að gera skattfrjáls happdrættisbréf ríkissjóðs, sem fólkið hefur verið örvað til að kaupa með því að setja inn í það happdrætti. Og svo er það með margt. Þetta er þannig vaxið, að ég er nú viss um, að jafngreindur maður og hv. þm. N-Þ. sér, ef hann hugsar sig vel um, að á því er mjög mikill eðlismunur að fara að gera verðbréfin skattfrjáls og að gera spariféð skattfrjálst, sem er miklu meira í höndum almennings og hins fátækara fólks, sem vill þó spara eitthvað af sínum tekjum. Ég mæli því algerlega á móti því, að þessi till. verði samþ. Og mig grunar það, að þessi till. sé líka fram sett til þess að eyðileggja þetta mál, en ekki í fullri alvöru, því að þarna er um svo mikið bil að ræða á milli, að fara að taka öll þau verðbréf, eins og hér er stungið upp á, inn í frv., eða hins, að hafa það bundið við spariféð eitt.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um málið, en ég vona, af því að það kom hér í ljós í gær, að yfirgnæfandi meiri hluti þessarar hv. d. er með málinu, að sá hinn sami meiri hluti standi saman um það að fella þær skemmdartill., sem hér hafa verið fluttar af þessum tveimur hv. þm., sem sýnilega vilja koma málinu fyrir kattarnef.