15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3423)

190. mál, lækkun skatta

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þetta mál, en vil þó aðeins víkja að því, sem fram hefur komið hjá þeim tveim hv. þm., sem um þetta hafa talað. Manni heyrðist það á tóninum í ræðu hv. þm. V-Húnv., að hann teldi sig hafa sagt hér mörg spakleg orð, og fór hann fögrum orðum um það, að ekkert mætti nú gera í þessu máli, nema taka allt í heild og skoða allt nógu rækilega í samanburði hvað við annað.

Það er auðvitað alveg ljóst, að það er viðurkennd regla og háttur þeirra, sem vilja tefja fyrir umbótum og framgangi einstakra mála, að vera með þennan sífellda söng um það, að það megi ekki gera neitt nema gera allt í einu. Og ég vil leifa mér að segja það, að það er fullkomlega ámælisvert hjá hv. þm. V-Húnv., formanni skattamálanefndarinnar, hversu seint starfsemi þeirrar nefndar gengur. Það er af þeim sökum, sem þm. telja sig knúða til að taka einstaka þætti þessa máls út úr heildarskipun málanna og reyna að knýja á dyrnar að fá þeim framgengt.

Þessi n. var skipuð og starfar samkv. ákvörðun Alþingis og hafði samkv. ákvörðun Alþingis fyrirmæli um að hafa lokið störfum áður en þetta þing kom saman. Þingið samþ. í fyrra, að endurskoðun skyldi fara fram fyrir næsta þing.

Hv. þm. sagði, að það væri einkennilegt, að ég og meðflm. minn skyldum flytja þetta mál, þar sem okkur væri kunnugt um tekjuöflunarfrv. stjórnarinnar og ég væri búinn í fjhn. að samþykkja tekjuöflunarfrumvörpin, — og svo kæmi ég með frv. eins og þetta. Ég skýrði þetta í minni ræðu þannig: Ég hef í fjhn. samþykkt tekjuöflunarfrumvörp, sem ég að athuguðu máli tel að viss þáttur úr gefi um 14 millj. kr. meira en önnur n. í þinginu, fjvn., áætlar að muni verða af þessum tekjuöflunarákvæðum. Þess vegna segi ég: Það er óhætt að breyta þeim. — Og breytingar þær, sem ég legg til, eru miðaðar við þessa niðurstöðu. Ég vil svo segja þessum hv. þm., að það er ekki einungis Alþfl., sem hefur tekið þessu frv. vel, eins og kom fram í ræðu hv. 3. landsk., sem ég þakka fyrir góðar undirtektir við málið. Við vorum á bæjarstjórnarfundi hér í Reykjavík í gær. Eini fulltrúi Framsfl. í bæjarstjórninni flutti þar till., þar sem hann lagði til, að öll meginatriði þessa frv., vegna þess, hvað þau væru sjálfsögð réttlætismál, væru notuð og tekin upp í störfum niðurjöfnunarnefndar við álagningu útsvara. Hann hampaði þar mjög þessu frv. og taldi öll atriði frv., öll nýmælin, sem fram í því kæmu, vera til stórra bóta. Ég get því hér í þingsölunum þakkað fyrir þann stuðning frá fulltrúa Framsfl., sem við höfum þegar fengið við þetta mál, þó að það hafi ekki verið frá hv. þm. V-Húnv.

Hv. þm. V-Húnv. reiknaði út einstök dæmi. Ég get ekki fullyrt neitt um, hvort þau eru rétt reiknuð eða ekki, vil hafa allan fyrirvara um það. Þó að hann sé reikningsglöggur, þá getur honum skotizt. En við skulum ganga út frá því, að það sé ekki og að þau séu rétt reiknuð. Og reikningar hans áttu að sýna það, að lágtekjufólkið lækkar lítið, en hátekjufólkið lækkar mikið. Hann tók dæmi af hjónum með 150 þús. kr. tekjur og sagði, að þetta þýddi lækkun í skatti á þeim um 30 þús. kr., eða eitthvað þar um bil, eins og hann komst að orði. Nú sýndi ég einmitt fram á, að m. a. einn þáttur þessa máls væri það, að vegna þess, hvernig skattstiginn væri upp byggður, og vegna þess, að umreikningnum væri sleppt og þar af leiðandi yrði um verulega tekjuskattslækkun á háum tekjum að ræða, þá væri í frv. ákvæði um það, að bæjar- og sveitarfélög mættu óhindrað leggja á hátekjurnar og fengju nýjan möguleika til þess að ná nýjum tekjum af hátekjufólkinu, sem lækkaði þarna í tekjuskatti. Eins og segir í grg. og ég vitnaði til, þá er það okkar meining, og vakti ekki fyrir okkur, að hér væri um lækkun skatta á hátekjum að ræða, eins og hv. þm. smjattaði á, heldur aðeins að bæjar- og sveitarfélögunum gæfist hérna möguleiki til nýrrar tekjuöflunar, sem ekki mundi veita af, eins og ég komst að orði. Þar skýtur þess vegna hv. þm. algerlega yfir markið með því að telja, að við flm. þessa frv. séum með okkar till. og formi skattstigans að reyna að lækka raunverulega skatta hátekjufólks til hins opinbera, þegar saman eru tekin ríkissjóður, bæjar- og sveitarfélög. Hitt er svo annað mál, að ég sagði það einnig, að ef mönnum sýnist, að eitthvað í formi þessa máls sé þannig, að þeir vildu leiðrétta það, þá er auðvitað á það að líta. Og ef hv. þm. V-Húnv. væri að meginefni með málinu, þó að hann t. d. vildi gera till. um breytingar á skattstiganum, þá er svo fjarri mér að halda því fram, að það sé endilega þessi skattstigi og enginn annar, sem komi til greina. Vissulega mætti athuga, ef menn á annað borð efnislega vilja fylgja meginatriðunum, efri hlutann á þessum skattstiga og breyta honum eitthvað. En í raun og veru þýddi það að mínu áliti ekkert annað en að rýra þá möguleika, sem við teljum okkur vera að skapa fyrir bæjar- og sveitarfélögin til þess að taka skatta af þeim tekjum, sem þarna eru hæstar.

Ég vil vísa algerlega á bug sem röngu því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að það væri gert ráð fyrir því í grg. frv. að taka lækkunina af lágtekjuhjónum í útsvör. Það er gert ráð fyrir því í grg., á bls. 6, að taka lækkunina af hátekjufólkinu, en ekki lágtekjufólkinu, fólkinu, sem hefur tekjur yfir 68.600 kr., eins og þar kemur skýrt og greinilega fram. En einmitt umreikningurinn, eins og hv. þm. tók fram, nær nú til þessara tekna. Þetta kemur skýrt fram í grg., og ég taldi, að það hefði komið svo greinilega fram í minni framsöguræðu, að það hefði ekki gefið neitt tilefni til þess að hártoga það þann hátt, sem hv. þm. gerði í sinni ræðu.

Annars er ég að öðru leyti algerlega sammála hv. þm. V-Húnv. í því, sem hann sagði um samanburð á sköttum og útsvörum og það öfugstreymi, sem í því er, að skattar og útsvar samanlagt fari fram úr heildartekjum fyrirtækja vegna veltuútsvara og annarra skattaákvæða, sem gilda. Þetta erum við alveg sammála um, og ég er honum einnig að sjálfsögðu sammála um þá brýnu nauðsyn að endurskoða um leið skattalöggjöfina á félögum engu síður en einstaklingum. En sannleikurinn er sá, að málin geta dregizt úr hófi fram, og það er þess vegna, sem við vildum freista þess að taka út úr einn þátt þessara mála, sem vissulega er einfaldara að eiga við heldur en allt málið í heild og við álítum að auðveldara ætti kannske að vera að ná samkomulagi um heldur en um aðrar greinar. Og það er staðreynd, og hv. þm. vita það, að deilurnar í skattamálunum á undanförnum árum hafa risíð miklu hærra um skattlagninguna á atvinnuvegunum og félögunum heldur en um skattana á einstaklingunum. Það hafa verið háværar deilur um skattlagningu samvinnufélaga annars vegar og einkarekstrarins, hlutafélaga og einstaklinga hins vegar o. s. frv. ár eftir ár í þingsölunum. Um þetta hafa menn deilt aftur á bak og áfram. Það skyldi enginn verða glaðari en ég, ef það fengist einhver lausn — og því fyrr því betra — og niðurstöður í þeim málum. En af þeirri reynslu, sem ég hef haft hér í þinginu og annars staðar, þá taldi ég — og við flm. báðir — fulla ástæðu til þess að ætla, að það yrði auðveldara að ná samkomulagi um skattlagningu á einstaklingana heldur en á félögin og atvinnureksturinn, sem hins vegar er fullkomin nauðsyn að náist sem allra fyrst samkomulag um endurskoðun á. Hv. þm. benti á ákaflega örðuga aðstöðu, sem sá atvinnurekstur á við að glíma, sem þarf að borga yfir 100% af tekjum sínum í skatta og útsvör samanlagt. Það er gott, að hann nefndi þetta dæmi, og málið er í góðra manna höndum, þar sem hv. þm. V-Húnv. er, til þess að leiðrétta þetta misræmi. Og ég veit, að það muni margur maður fagna því að hafa heyrt hans áhuga á því að leiðrétta nú þetta mikla misræmi. Ætli það sé ekki um það bil í fyrsta skipti, sem hann kemur fram? En hann mun sennilega hafa öðlazt þennan áhuga við þau störf, sem hann hefur innt af hendi í skattamálan. á s. l. ári, og þá er það gott, að reynslan hefur sannfært hann um þá miklu nauðsyn, sem er á breytingum í þessu efni.

Ég vil svo alveg vísa á bug ákúrum, sem hv. þm. V-Húnv. var hér með í garð Sigurbjörns Þorbjörnssonar, eins af nefndarmönnum í skattamálan. Hann deildi á hann fyrir það og taldi það einkennileg vinnubrögð, að hann skyldi gera till., t. d. á einum stað í frv. um frumbýlingsfrádrátt, án þess að spyrja framsóknarmennina um leyfi. Nú er sannleikurinn sá, að það er ekki Sigurbjörn Þorbjörnsson, sem gerir till. um frumbýlingsfrádrátt eða sérstök skattfríðindi við stofnun heimilis, heldur er það hv. 2. þm. Eyf. og ég. Við teljum okkur ekki þurfa að spyrja hv. þm. V-Húnv. eða neinn aðila í skattamálan. um leyfi til þess. Og þegar hv. þm. virtist vera eitthvað særður yfir því, að þeir framsóknarmenn í skattamálan. hefðu nú í sumar komið með þessa till. um frumbýlingsfrádrátt á undan Sigurbirni Þorbjörnssyni og það væri þeim mun verra af þeim sökum, að hann skyldi nú vera að stela þessari hugmynd, þá vil ég upplýsa hv. þm. um það, að þetta er margra ára hugmynd og ályktun, sem ungir sjálfstæðismenn hafa gert á þingum sínum og ítrekuð hefur verið á landsfundum Sjálfstfl. En það vill svo til, að við flm. erum einmitt fyrrverandi og núverandi formenn Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem, eins og ég sagði, fyrir mörgum árum er búið að setja fram þessar hugmyndir og var búið að gera þessar kröfur til löggjafarvaldsins, sem hér um ræðir, að einmitt væri létt skattabyrðin við stofnun heimilis og þannig reynt að greiða fyrir heimilismyndun ungs fólks. Mér hefur aldrei dottið í hug að væna framsóknarmenn um neinn stuld í þessu máli, þó að þeir hafi sett fram þessa till. í skattamálan. Þegar ég frétti af því, þá fagnaði ég því, að þeir skyldu hafa tekið upp till. okkar ungra sjálfstæðismanna í þessu máli.

Ég tel mig nú með þessu hafa leiðrétt það, sem leiðrétta þarf á þessu stigi málsins í ræðu hv. þm. V-Húnv. — Um ræðu hv. 3. landsk. vil ég segja það, að það skýtur ákaflega skökku við og er því miður nokkuð langt frá staðreyndum, að fulltrúar Alþfl. hafi haldið uppi stöðugri gagnrýni á skattamálin hér á síðasta áratug og við séum með þessu að taka upp till., sem þeir hafi verið með og hafi verið undirstaðan undir þeirra gagnrýni, og séum með flutningi þessa máls eiginlega að hefja ádeilur á fjmrh. úr hópi sjálfstæðismanna og úr hópi framsóknarmanna. Ég skal nú ekki fullyrða um það, hef ekki haft tíma til að átta mig á því, en ég man ekki eftir neinum merkum till. um breytingu á skattamálunum frá fulltrúum Alþfl., a. m. k. á fyrra helmingi þessa áratugs. Það getur verið, að þar sé eitthvað að finna, en ég man nú ekki eftir því í fljótu bragði. Ég man ekki eftir því, þegar form. Alþfl. var forsrh., veitti forstöðu ríkisstjórn frá 1947 til 1949, að þá hafi þessar till. verið nokkuð á baugi hjá Alþýðuflokksmönnum. Síður en svo. Og það er ekki hægt að tala um fjmrh. úr hópi einnar stjórnar eða annarrar. Sú stjórn, sem fer með völd á hverjum tíma, verður auðvitað í heild að bera ábyrgð á fjármálastjórninni. það er augljóst.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þrátt fyrir þá gagnrýni, sem kom fram í ræðu hv. þm. V-Húnv., þá sé samt í öllum aðalatriðum fylgi við meginefni þessa máls innan beggja stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl. Hitt held ég að menn kunni að greina þar á um, hversu geyst skuli fara eða hversu hægt skuli fara. Og það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. V-Húnv., að hann vill ekki hafa þá málsmeðferð hér að samþykkja neinar breytingar á skattalögunum, eins og nú er komið, nema gera það á þeim í heild. Nú verð ég að vísu að virða honum þetta til vorkunnar og telja, að það hafi enginn þm. eðlilegri ástæðu til þess að taka málinu svona heldur en hann, sem er sjálfur form. í endurskoðunarn. skattalaganna, það er alveg rétt. Hann hefur fram yfir aðra ástæðu til að vilja halda málinu í heild í höndum sér. En það hins vegar, eins og ég segi, má ekki misnota. Það má á engan hátt misnota þá heildarendurskoðun, sem á döfinni er, til þess að tefja óeðlilega fyrir einstökum þáttum, sem hægt ætti að vera að ná góðu samkomulagi um og eru þess eðlis, að þeir eru líklegri til skjóts samkomulags en aðrir þættir.

Hv. 3. landsk. þm. spurði um afstöðu Sjálfstfl. sérstaklega og hvort málið yrði svæft o. s. frv. Eins og ég segi, þá veit ég ekki betur en mínir flokksmenn séu í meginatriðum sammála höfuðefni þessa frv. Það mun vera ágreiningur um það innan míns flokks, eins og hins stjórnarflokksins, hversu hægt sé að hraða þessu máli mikið. En um það, hvort málið verður svæft eða ekki, þá er óhætt að slá því föstu, að þessar till. verða nú ekki svæfðar. Það kunna að vera áhöld um það, hvort hægt sé að koma þeim fram á því þingi, sem nú er. Við flm. munum beita allri okkar orku til þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Og eitt er víst, að við höfum fulla trú á því, að efni þessa frv. sé þannig vaxið, að það verði ekki svæft, og á ég þar við, að það muni í öllum meginatriðum verða fyrr eða síðar að lögum. Hvort okkur auðnast að koma því fram á þessu þingi, er undir hælinn lagt, eins og ég sagði. Við munum beita okkur fyrir því, eftir því sem föng standa til, og það verða menn að skilja, að við hefðum auðvitað kosið að fara af stað miklu fyrr með þetta frv., til þess að reyna að tryggja því framgang á þessu þingi, hefðum við ekki þurft að bíða eftir því að átta okkur á því, hvort það kæmu einhverjar till. frá skattamálan. Og þeir, sem eru í þeirri aðstöðu að geta ekki borið fram frv. fyrr en jafnseint á þingi eins og raun varð á með þetta frv., eru að vísu alltaf í þeirri hættu, að þeim gangi erfiðar að tryggja framgang málsins á því yfirstandandi þingi. En hvað sem því líður, hvort sem það tekst eða ekki, eins og ég segi, þá er það mín bjargfasta trú, að það muni ekki langt undan, að meginefni þessa frv. og þær nauðsynlegustu leiðréttingar, sem það gerir á skattalöggjöfinni, nái fram að ganga.