08.10.1952
Efri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3445)

28. mál, orlof

Flm. (Magnús Kjartansson):

Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þetta frv., en hins vegar hygg ég, að það sé á einhverjum misskilningi byggt, þegar hann ræðir um einhver sinnaskipti míns flokks í sambandi við þetta mál. Sósfl. hefur ekki tekið neinum sinnaskiptum í sambandi við það, eins og bezt sést á því, að það var að hans frumkvæði, að Dagsbrún gat knúið þetta fram 1942. Hitt hygg ég að rétt muni vera, að einhverjar deilur kunni að hafa sprottið um það, eins og oft endranær, þegar lögin voru samþ. hér á þingi, að Alþfl. hafi reynt að gera þetta að stórum flokkspólitískum sigri sínum og að honum hafi þá verið á það bent, að í raun hafi Dagsbrún verið búin að knýja þetta fram, áður en það fékkst samþ. á þingi. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara neitt að skattyrðast um fortíð þessa máls, og ég vænti þess, að einnig þingmenn annarra flokka taki jafnvel undir sjálft frv. og hv. 4. þm. Reykv.