11.11.1952
Efri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3467)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til umr. í hv. fjhn., benti ég á, að samþykkt þess hér í þessari d. mundi hafa allvíðtæk áhrif og við þetta mundu bætast ýmsar kröfur, sem kæmu frá öðrum aðilum. Var þegar vitað um, að því hafði verið hreyft á öðrum vettvangi að fá allvíðtækar tryggingar fyrir taprekstri og til kaupa á ýmsum öðrum skipum, en hér um ræðir. Gaf ég þeirri nefnd, sem með þau mál fer, einnig upplýsingar um þetta atriði, sem hér um ræðir, en henni þótti sjálfsagt ekki ástæða til þess að taka það til athugunar á þessu stigi málsins, þar sem þetta mál hefði ekki legið beinlínis fyrir henni. Ég tjáði þá n., að ég mundi ekki geta fylgt frv. eins og það er á þskj. 72, þar sem aðeins er sagt, að „ábyrgðin má vera fyrir upphæð, er nemur allt að 90% af kaupverði togarans, enda sé kaupverðið ekki óeðlilega hátt að áliti ríkisstj.“ — og svo síðar, að „togarinn sé veðsettur ríkinu eða til tryggingar lánsfénu“. Ég minntist þá á það við n., að það yrði að setja aðrar og miklu meiri tryggingar fyrir ábyrgðinni heldur en hér er talað um í þeirri grein, enda féllst n. á það, eins og hv. frsm. hefur nú þegar skýrt frá og kemur fram í nál., að þar er breytt meginmálsgr. þannig: „enda sé kaupverðið ekki óeðlilega hátt að áliti ríkisstj. og tryggingar settar, sem hún metur gildar,“ — án þess þó að taka það fram í gr., hve þær skuli vera háar. Nú hefur hv. frsm. sagt hér í umr., að hann vænti þess og treysti því, að hæstv. ríkisstj. verði ekki kröfuharðari við Húsavík og þá náttúrlega að sjálfsögðu ekki heldur við Ólafsfjörð um tryggingu fyrir ábyrgðinni, sem gefa á, en hún hefði verið um aðra staði. Í þessu liggur beinlínis krafa frá hans hálfu, að hér sé ekki krafið um meiri tryggingar en þær, að skipið eitt verði trygging fyrir 90% af kaupverði, því að það eru fordæmi fyrir því, að slíkt hefur verið látið ganga um önnur skip. Ég tjáði hv. flm. þegar í n., að ég gæti ekki undir neinum kringumstæðum fellt mig við, að málið yrði afgreitt á þann hátt, sem hann nú óskar eftir að gert verði, þ. e. að ríkisstj. geri ekki meiri kröfur til tryggingar fyrir þessum kaupum en hún hefur gert í sambandi við aðra staði. Það kemur hv. flm. ekki á óvart. Og ég minntist þá á að setja það inn í frv., hver sú lágmarkstrygging ætti að verða. Um það varð ekki samkomulag, og ég féllst á, að á þessu stigi málsins skyldi ég fylgja frv., með því að sett yrði það ákvæði, sem ég þegar hef lýst, þ. e. að ríkisstj. tæki gilda þá tryggingu, sem sett væri fyrir ábyrgðinni. Nú hef ég rætt þetta nokkru nánar einnig í sambandi við önnur mál og fengið það svar, að hæstv. ríkisstj. þætti það miklu betra, að það yrði sett eitthvert lágmarksákvæði í sambandi við tryggingarnar. Og áður en ég fer lengra út í þetta atriði, vil ég aðeins rekja svolítið, hvernig þetta allt er tilkomið.

Þegar hinir 10 seinni togarar voru keyptir og þeim var úthlutað hér, hafði farið fram ákaflega mikil gengisfelling, frá því að togararnir voru pantaðir og þar til þeir voru afhentir. En það hafði aftur valdið þeim erfiðleikum, að margir af þeim mönnum, sem pöntuðu togarana á sínum tíma, en þeir voru þá yfir 30 að tölu, treystu sér ekki til að taka við skipunum með þeim kjörum, sem fyrri skipin voru afhent með. Það varð því að ráði, að ríkisstj. skyldi ábyrgjast í fyrsta lagi það lán, sem var á 1. veðrétti í skipunum, en það var um 70%, og síðan skyldi hún lána um 20% af skipsverðinu til 20 ára. Þetta var beinlínis gert til þess að finna kaupanda að þessum skipum innanlands, en þurfa ekki að selja þau aftur á erlendum markaði, sem vel var hægt að gera, og láta þau þá ekkert koma heim. Þótti réttara að hjálpa útgerðinni hér heima til þess að eignast þessi skip á þann hátt, sem ég hef hér tjáð. En aðalástæðan fyrir þessu var þá gengisfallið.

Þegar kaupskilmálum að þessum skipum var breytt sem hér segir, urðu það margir kaupendur að þeim, að ekki var hægt að uppfylla óskir þeirra manna, sem vildu kaupa ný skip með þessum kjörum. Þá var horfið að því að kaupa eitt skip innanlands af eldri skipunum til þess að bjarga alveg sérstöku ástandi á Siglufirði, og það var keypt fyrir allmiklu hærra verð, en fyrri eigendur höfðu gefið fyrir það. Var það látið með þessum sömu kjörum til Siglufjarðar, ekki af því, að það þyrfti að koma skipinu út, heldur beinlínis vegna þess, að það þurfti að bjarga þeim stað í sambandi við atvinnumál. (BSt: Ekkert frekar en Ólafsfirði t. d.) — Ekki frekar en Ólafsfirði, en það var nú samkomulag um, að þetta yrði gert þá og aðeins í sambandi við Siglufjörð. Nú hafa komið kröfur frá öðrum stöðum, eins og Húsavík og Ólafsfirði, um að fara inn á þessa sömu braut.

Þegar litið er á afkomu þeirra skipa, m. a. þeirra skipa, sem fóru til Siglufjarðar, þá er sýnilegt, að hér þarf að spyrna við fótum. Það var engan veginn nægilegt, að ríkið hjálpaði Siglufirði til þess að kaupa nýtt skip og ábyrgðist allt að 90% af kaupverðinu, heldur hefur nú komið til ríkisstj., þó að það hafi ekki komið til þessarar hv. deildar, ósk eða bein krafa um alveg nýja aðstoð upp á hvorki meira né minna en 3 millj. kr., 1½ millj. kr. fyrir hvort skip. Er hér um að ræða það tap, sem þessi skip hafa orðið fyrir á einu ári. Þess vegna er það frá mínu sjónarmiði, eins og ég sagði nefndinni á sínum tíma, þegar þetta var rætt þar, engin trygging fyrir því, að Húsavík, Ólafsfjörður eða aðrir staðir geti haldið uppi sínum atvinnumálum, þó að ríkið hjálpi til þess að láta þá hafa slíkt atvinnutæki eins og hér um ræðir með 90% láni eða ábyrgð fyrir samsvarandi upphæð. Það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir slíku atvinnufyrirtæki, eins og ég raunverulega margtjáði nefndinni. Hv. flm. till. sagði þá, að það yrði jafnan að vera eftir mati hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma og hún gæti þá sett fram, eins og hann minntist einnig á í sinni frumræðu, þær kröfur, sem henni sýndist. En þegar hann einmitt á sama tíma gerir þá kröfu, að ekki séu settar meiri tryggingar fyrir láni til þessara skipa, sem hér um ræðir, heldur en gert var fyrir þeim skipum, sem áður hafa verið af hendi látin þá sé ég ástæðu til þess að hreyfa þessu máli nú og bera fram brtt. við frv. þegar á þessu stigi.

Ég vil því leyfa mér að leggja til, að aftan við meginmálsgr. á þskj. 196 verði bætt: „Þó skal lágmark tryggingar auk trygginga í skipinu sjálfu og ábyrgð sveitarsjóðs viðkomandi sveitarfélags aldrei nema minna en 500 þús. kr. fyrir hvert skip.“ Það er sú upphæð, sem ég minntist á í n. að væri sú lægsta trygging, sem hægt væri að hugsa sér að hvaða aðili sem væri hefði, svo að hann væri öruggur um rekstur, a. m. k. fyrst um sinn. Það eru dæmi þess, að þessi skip hafi tapað miklu stærri upphæðum, en með sæmilegum árangri, sæmilegri veiði og sæmilegum rekstrarafgangi mætti búast við, að svona fyrirtæki þyrfti þó ekki miklu meira en 500 þús. kr. til rekstrarfjár á fyrsta ári.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að á undan 1. veðrétti í skipi ganga jafnan sjóveðskröfur skipshafnar. Og þegar um er að ræða vinnulaun skipshafna, sem nema allt að 2 millj. kr. á ári, þá þarf ekki að koma fyrir ákaflega stórt áfall til þess, að sjóveðskröfurnar einar nemi ekki þeirri upphæð, sem hér um ræðir, og þá er að sjálfsögðu veðhæfni skipsins einskis virði. Ég teldi meira að segja, að þessi upphæð væri ekki nægjanlega há, nema til komi einnig ábyrgð sveitarsjóðanna, því að ef sveitarsjóðirnir eru lítils eða einskis virði, þá ætti að hækka þessa upphæð stórkostlega til þess að tryggja það, að þeir misstu ekki skipin. ef einhver áföll skyldu koma fyrir.

Ég vil því leyfa mér að leggja þessa brtt. fram hér, afhenda hana hæstv. forseta, en vil um leið mjög óska þess, að umræðum um þetta mál verði nú frestað og n. gefist kostur á því að ræða þessa nýju brtt., áður en málið verður tekið til atkvæða hér við 2. umr.