25.11.1952
Efri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir leyfið til að gera athugasemd og skal reyna að misnota það ekki, en tala stutt. Ég lét um daginn þau orð falla að gefnu tilefni frá hæstv. dómsmrh., að ef hann flytti till. um að gera heimild þá, er frv. felur í sér, að heimild handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast almennt fyrir sveitarstjórnir lán til togarakaupa, þá mundi ég geta stutt þá till. Ég flutti frv. vegna Húsavíkur sérstaklega sem þingmaður þar, en mér fannst hugsun sú, sem hæstv. dómsmrh. lét í skína, fara honum mjög vel sem landsföður þeim, sem tekið hefur að sér að hugsa jafnt um öll landsins börn, hvar sem þau eru búsett, og hét því að styðja þá hugsun, ef hún kæmi fram í till. En hún hefur enn ekki komið fram.

Aftur á móti flytur hæstv. dómsmrh. mjög einhæfa till. og hlutdræga á þskj. 263. Í þeirri till. horfir hann bara á hag þeirra, sem með einhverjum ráðum eru búnir að komast yfir togara. Vegna þeirra lætur hann ekki nægja, að ríkisstj. sé heimilað að veita úrlausnir, heldur er henni fyrirskipað að gera það. „Hún skal“, segir í till., ef sótt er um ábyrgð til kaupa á skipi, sem skrásett hefur verið á öðrum stað, leita eftir því, — það dugir ekki minna en hún fari í leit eftir því, hvort þar sé engan að finna, sem fáanlegur sé til að gera skipið út, og hún „skal“ bjóða honum, ef hann finnst, allt að 90% ábyrgð fyrir láni, — minna dugir ekki, hver sem þessi aðili er. M. ö. o. á að synja stöðum, sem ekki hafa þegar fengið til sín togara, um aðstoð til togarakaupa innanlands, meðan nokkur fyrirfinnst, sem vill taka við togaranum með 90% ábyrgð ríkisins á þeim stað, sem hann hefur áður verið. Engu máli skiptir samkv. till., hvort meiri þörf er annars staðar, hvort betri aðstaða kann að vera til að reka togarann annars staðar, hvort hann er í einkarekstri, en á að verða fjöldafyrirtæki annars staðar, hvort sá, sem finnst í leitinni, er þurfinn fyrir 90% ábyrgð eða ekki, — hún „skal“ boðin. Ríkisstj. er ekki heimilað að fara eftir ástæðum, heldur er henni fyrirskipað kalt og ósveigjanlega að veita mönnum á stað, sem hefur togara, hverjir sem það eru, fyllstu ábyrgðaraðstoð og fyrirbyggja með því sölu milli staða, þó að hún væri eðlileg. Eftir till. virðist mér, að braskarar fái óvenjulega aðstöðu til þess að heimta ríkisábyrgð til togarakaupa, ef það liggur ekki fyrir svart á hvítu, að þeir séu óhæfir, því að ríkisstj. „skal“ gefa þeim kost á ábyrgðinni, bara ef þeir eiga heima þar, sem togarinn hefur verið skráður og gerður út.

Slík löggjöf sem till. er um mundi leiða af sér flutning fólks frá þeim stöðum, sem nú biðja um aðstoð til togarakaupa, til þeirra staða, er stuðninginn fá. Till. er þess vegna í raun og veru illa dulbúin bending um það, að fólk skuli flytja til Reykjavíkur og annarra þeirra staða, sem togara hafa. Þar hefur það forréttindin. Og hvenær skyldi hafa komið fram á Alþ. till., sem boðið hefur jafnótvírætt bröskurum upp á ríkisábyrgð og skyldað ríkisstj. til þess að veita hana? Aldrei, að ég hygg. Till. er að mínu áliti alls ekki samboðin hæstv. dómsmrh. sem landsföður, og taki hann ekki till. aftur, þá tel ég, að hv. d. verði að fella hana til þess að bjarga bæði sóma málsins og sóma ráðherrans.