25.11.1952
Efri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hefði nú ekki tekið þátt í þessum umr. frekar en þegar er orðið, ef það hefði ekki verið vegna orða hæstv. dómsmrh., er hann lét nokkra undrun í ljós út af því, að n., sem fjallaði um þetta mál, hefði ekki spurt atvinnumálanefnd svo kallaða um það, hvar ætti að fá þessi skip, sem frv. ráðgerir að stuðningur verði veittur til að kaupa fyrir Húsavíkurkaupstað og Ólafsfjarðarkaupstað. Sem form. þessarar n. vil ég taka það fram, að ég leit fyrir mitt leyti svo á, að þetta væri í sjálfu sér ekki verk n., sem um málið fjallaði sem þingmál. Mér finnst þetta verkefni ríkisstj., þegar til þess kemur, hvort eigi að nota þá heimild, sem í frv. felst, ellegar ekki. Þá vitanlega athugar ríkisstj. allar aðstæður og þá þar með, hvaðan hentugast muni vera að fá skipið eða skipin. Ég hygg, að þetta eigi fjöldamargar hliðstæður hér á Alþingi um ýmiss konar framkvæmdir, að þingnefndir hafi ekki ráðagerðir um það, á hvern hátt eitt eða annað er framkvæmt í einstökum atriðum af málefnum, sem ríkisstj. er falið með l. eða á annan hátt að framkvæma og gera. Ég geri líka ráð fyrir því, að atvinnumálanefndin hefði yfirleitt ekki getað svarað þessu verulega. Þetta hlýtur að fara eftir því, ef um innlend skip væri að ræða, hvort þau eru föl eða ekki föl o. s. frv.

Hæstv. ráðh. sagði nú, að sín till. hefði verið rækilega rökstudd áður, og rétt er það, að hann var búinn að tala áður í þessu máli og rökstyðja það töluvert rækilega, að ekki bæri að taka skip af stöðum, sem þegar hefðu eignazt þau, en mér finnst samt, að þessi till., eins og hún liggur fyrir, hafi ekki verið rökstudd áður af hæstv. ráðh. Þegar ég heyrði hans ræðu, þá áleit ég að sjálfsögðu, að hann ætti við það að setja sams konar heimild til handa ríkisstj. um það að stuðla að eigendaskiptum á sama stað eins og er í frv. En í till. hans er miklu meira en heimild. Þar er sú skylda hreint og beint lögð á ríkisstj. að leita uppi aðila á þeim stað og vita, hvort hann er ekki fáanlegur til að ganga inn í togarakaup með þessum skilmálum. Mér finnst ekki, að þetta sé á neinn hátt sambærilegt forkaupsrétti á jörðum, eins og hæstv. ráðh. var að vitna til og vildi líkja þessu við, því að þar er ekki um neinn slíkan stuðning að ræða. Þegar t. d. ábúandi á jörð á forkaupsrétt og næst honum hreppurinn, eru ekki á boðstólum 90% af kostnaðarverðinu sem lán, þó að þessir aðilar vilji nota sinn forkaupsrétt, svo að þetta er allt annað.

Brtt. hv. 1. landsk. þm. við þessa brtt., sem til umr. er, bætir að sumu leyti nokkuð úr göllum hennar, en þó ekki algerlega, því að hans brtt., — að því er mér virtist, ég hef nú ekki athugað hana mjög nákvæmlega, — heldur þessari skyldu. Hún er ekki um heimild til ríkisstj. eins og frv. er að öllu leyti byggt upp. Hún breytir því ekki, svo að þótt hún mundi bæta nokkuð úr, þá finnst mér, að hún mundi setja óeðlilegan fleyg í þetta mál.

Annars verð ég að segja það, að sem stjórnarstuðningsmaður treysti ég hæstv. ríkisstj. vel til þess að sjá um það, að þetta fari ekki fram á þann hátt, að öðrum verði að tjóni. Og mér finnst ekki þurfa þarna frekari varnagla heldur en það, að ríkisstj. hefur þetta í hendi sinni. Að vísu má búast við stjórnarskiptum einhvern tíma og þá komi, skulum við segja, verri ríkisstj. heldur en sú, sem nú er. En eins og stendur verður þá að miða við það, hvaða ríkisstj. við höfum. Og ég sé enga ástæðu til að vera að álíta það, að ríkisstj. muni gangast fyrir því, að togari sé tekinn af einhverjum stað, sem er bráðnauðsynlegt að hafa slíkt atvinnutæki, og senda hann til Húsavíkur eða Ólafsfjarðar. Ég óttast ekki neitt slíkt.