25.11.1952
Efri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Segja má, að ekki taki því að halda áfram löngum þrætum um þetta, en eins og ég benti rækilega á við fyrri hluta þessarar umr., þá er málið aðeins leyst að hálfu leyti með því frv., sem hér liggur fyrir, og þess vegna mjög eðlilegt, að þeir, sem raunverulegan áhuga hafa fyrir lausn þess, vilji tryggja það, að lausnin sé alger, en ekki aðeins að nafninu til.

Ástæðan til þess, að ég taldi æskilegt, að atvinnumálanefnd ríkisins yrði spurð um það, hvaðan hún vildi að þetta skip yrði tekið, er sú, að þessi n. var skipuð til þess að finna ráð við svo kölluðu tímabundnu atvinnuleysi. Nú hefur hún að gefnu tilefni frá fjhn. Ed. Alþingis lýst yfir því að hún teldi það geta orðið til þess að draga úr hinu árstíðabundna atvinnuleysi í allfjölmennum kaupstað eins og Húsavík, að þar verði gerður út togari, þótt hún taki jafnframt fram, að henni sé ljóst, að fjárhagslegur grundvöllur fyrir togaraútgerð sé hæpinn á Húsavík — eins og annars staðar á landinu — eins og sakir standa nú, eins og segir í þessu áliti. En n. var ekki einungis skipuð til þess að ráða fram úr vandræðum Húsvíkinga, heldur annarra landsmanna. Hún er búin að fá skýrslur hvaðanæva af landinu, og það, sem okkur, sem eigum að byggja á hennar áliti, er nauðsynlegt að fá að vita, er þetta: Er nokkurs staðar sá staður, þar sem togari er gerður út, að n. telji óhætt að taka hann þaðan, án þess að af því skapist vandræði og atvinnuleysi? — Það tjáir ekki að vitna í rök n., eins og hv. fjhn. hefur gert hér undir forustu okkar ágæta hæstv. forseta, fyrir því, að skipið eigi að koma til Húsavíkur, ef n. getur ekki bent á neinn stað, þar sem hún telur togara vera ofaukið. Þess vegna eru þessir hv. þm. aðeins að tala um helming málsins, eins og ég hef oft sagt áður, og það er alveg nauðsynlegt, ef menn vilja nokkuð leggja upp úr þessari umsögn hv. atvinnumálanefndar, að krefja hana sagna um það, hvaðan skipið á að koma. Og það segir í raun og veru alveg sína sögu, af hverju hv. fjhn. undir forustu hæstv. forseta og með hv. þm. S-Þ. sem frsm. fæst ekki til þess að spyrja n. Dettur nokkrum í hug, að þeir mundu ekki strax hlaupa til þess að spyrja n., hvaðan á að taka skipið, ef þeim kæmi til hugar eitt augnablik, að n. gæti vísað á einhvern stað, þar sem togara væri hér ofaukið? Það er vegna þess, að þeir vita fyrir fram, að n. mun reynast ófáanleg til þess að vísa á nokkurt skip, sem þessi tregða er í þeim. Og það er vegna þess lærdóms, sem af þeirri tregðu má draga, að ég vakti athygli á því, að þessi langi tími hefur verið látinn líða án þess að spyrja n. þessarar sjálfsögðu spurningar. (Forseti: Stundum eru togarar smíðaðir.) Já, það er einmitt það, sem ég legg áherzlu á í þessu og er að benda á, að ef fyrir þessum hv. þm. vakir að fá togara til Húsavíkur án þess að gera öðrum illt, þá er að beina málinu inn á það, sem hæstv. forseti nú segir, að fá smíðaðan togara. Hæstv. forseti sagði í sinni ræðu áðan, að auðvitað yrði að halda þannig á þessu máli, að skip yrði fengið frá einhverjum stað, þar sem tjón yrði ekki af því, að skipið yrði tekið burt, — ja, það er allt eftir því, við hvers tjón er miðað.

Hv. 1. landsk. og hv. þm. S-Þ. þykjast allt í einu vera mikið á móti bröskurum, og væri óskandi að þeir væru sjálfum sér samkvæmir í því. En ég spyr: Hver halda þeir að mundi græða á því, ef skip væri keypt einhvers staðar að, t. d. úr Rvík, skip, sem kostaði í innkaupi milli 2–3 millj. kr. og þeir, sem fást við útgerð og stunda hana sem brask, vilja selja nú fyrir 5–6 millj. kr.? Hv. þm. S-Þ. er hér að berjast fyrir því, að það verði látnar 2 eða 3 litlar millj. kr. í vasann á einhverjum manni, sem hann kallar braskara. Svona eru hans raunverulegu áhugamál. (Gripið fram í: Peningagildið hefur breytzt.) Já, peningagildið hefur nú breytzt, en ætli það sé nú ekki samt svo, að þeir verði fegnir að fá þessar litlu 2 eða 3 millj. kr.? Svona er þetta mál í pottinn búið. Það er beint til þess að gefa þessum mönnum svona stórar fjárhæðir, sem hv. þm. eru hér að berjast á móti því, að þetta mál sé afgr. á skynsamlegan hátt.

Ég vil aðeins vekja athygli á því vegna þess, sem hæstv. forseti sagði í ræðu sinni, að það kvæði við nýjan tón hjá mér nú í þessari brtt., að í ræðu, sem ég hélt hér 18. nóv. og hef af tilviljun fyrir framan mig, segi ég að minnsta kosti tvisvar og verð að endurtaka, úr því að svo glöggur maður sem hæstv. forseti hefur ekki einu sinni heyrt það þá, — ég vil segja það í þriðja skipti, sem ég segi þar, með leyfi hæstv. forseta: Ég vil fyllilega styðja þeirra mál, en ég vil ekki styðja það á þann veg, að tekið sé skip héðan úr Rvík, þar sem ég er þm., og fengið þeim með hlunnindum, sem ekki fást veitt Reykvíkingum.

Um breyt. hv. 1. landsk. er það að segja, að ég er henni andvígur, en ég vil þó miklu heldur samþ. frv. með þeirri breyt. heldur en óbreytt.