04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (3518)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. 3. minni hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 337, sem hér er til umr., um heimild handa ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Húsavíkurkaupstað og Ólafsfjarðarkaupstað lán til togarakaupa, hefur verið samþ. í hv. Ed. og var vísað til fjhn. þessarar hv. d. í lok nóvembermánaðar. Síðan hafa n. borizt tilmæli frá hv. þm. N-Ísf. um að taka upp í frv. heimild til handa ríkisstj. til að ábyrgjast lán til kaupa á togara og togveiðibát fyrir Ísafjörð og sjávarþorpin við Ísafjarðardjúp. Einnig hef ég með bréfi til fjhn., dags. 6. des. s. l., óskað eftir því, að n. tæki upp í frv. heimild handa ríkisstj. til að taka ábyrgð á láni til kaupa á einum togara fyrir Stykkishólmshrepp eða fyrir hlutafélag, sem hreppurinn væri þátttakandi í.

N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum sínum, en ekki orðið alls kostar sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. hefur ekki fengizt í n. fyrir afgreiðslu frv. í einni eða annarri mynd, og gefin hafa verið út fjögur nál. Það fyrsta er á þskj. 674, frá hv. 2. þm. Reykv., annað á þskj. 708, frá hv. 8. landsk. þm. Báðir þessir hv. alþm. mæla með að samþ. frv. óbreytt. Þriðja nál. höfum við hv. 5. þm. Reykv. gefið út á þskj. 726, þar sem við mælum með samþykkt frv. með þeim breytingum, að ríkisstj. sé heimilað að taka ábyrgð á láni til kaupa á togara og togveiðibát fyrir Ísafjörð og sjávarþorp við Ísafjarðardjúp og togara fyrir hreppsnefnd Stykkishólmshrepps eða félagsmyndun, sem hreppsn. stendur að eða er þátttakandi í.

Fjórði minni hl. er hv. þm. V-Húnv., og hefur hann gefið út nál. á þskj. 727, þar sem hann mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu, að niður falli 2. mgr. 1. gr.

Það virðist í sjálfu sér óþarft að fara mörgum orðum um nauðsyn þess, að frv. verði samþ. á þessu þingi. Ég held, að allir nm. séu þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé fyrir hæstv. Alþ. samþ. heimild handa hæstv. ríkisstj. um fyrirgreiðslur fyrir bæjarfélög þau, sem hér um ræðir og vissulega þurfa þess með, að þeim sé veitt aðstoð til að eignast togveiðiskip til að bæta úr því mikla atvinnuleysi, sem íbúar nefndra bæjarfélaga eiga við að stríða og getur haft hinar ískyggilegustu afleiðingar, ef ekki verður ráðin bót á því með þeim aðgerðum, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er hvorki hollt né vænlegt fyrir þjóðarheildina, að þeir miklu fólksflutningar, sem átt hafa sér stað á s. l. 15 árum úr strjálbýli til Reykjavíkur, haldi enn áfram, enda hljóta þeir fyrr eða seinna að hafa mikil óþægindi í för með sér, ekki einvörðungu fyrir strjálbýlið, heldur einnig fyrir höfuðstað landsins.

Í bréfi mínu til hv. fjhn. gerði ég glögga grein fyrir atvinnuhorfum í Stykkishólmshreppi. Vitna ég þar í áskoranir, sem mér hafa borizt frá hreppsnefnd Stykkishólmshrepps, verkalýðsfélagi Stykkishólms og samþykktum almenns borgarafundar, að ég hlutaðist til um að fá samþykkt Alþ. um heimild handa ríkisstj. til að ábyrgjast lán til togarakaupa. Sams konar áskoranir hafa einnig verið sendar hæstv. ríkisstj. Ég held, að það dyljist engum, að Stykkishólmur hefur óvenjugóð skilyrði til útgerðar á togara, þar sem þar eru tvö afkastamikil hraðfrystihús og aðstæður allar til rekstrar slíks skips eða skipa mjög góðar.

Ég vænti þess, að hv. dm. geti orðið sammála um að samþ. frv. í þeirri mynd, sem hv. 5. þm. Reykv. og ég leggjum til á þskj. 726.