04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (3520)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta mál mun hafa verið lagt fyrir hv. Alþingi svo að segja í upphafi þings. Þá var það m. a. sent til umsagnar atvinnumálanefnd ríkisins og hún beðin að láta umsögn sína um málið í té innan viku. Ég taldi það ákaflega eðlilegt, að slíkt mál sem þetta ætti að komast mjög fljótlega gegnum þingið, eða þá, ef því væri ekki hugað líf, að það yrði þá fljótlega tekið af. Málið komst svo í gegnum hv. Ed., að vísu breytt. Þá var það ekki aðeins orðið heimild til þess að ábyrgjast fyrir Húsavíkurkaupstað allt að 90% af kaupverði togara, heldur einnig fyrir Ólafsfjarðarkaupstað, og skilyrði komið inn í frv., sem snerti þann stað, sem togari kynni að verða seldur frá til þessara staða. Maður hefði þá ætlað, að þegar svo var komið, þá væri frv. komið í þann búning, sem því var ætlað að hafa, þegar það yrði afgr., en það virðist ekki vera svo. Nú hefur n., sem málið hafði til meðferðar hér í þessari hv. deild, margklofnað um málið, og er komið í eindaga um afgreiðslu þess, svo að því verður varla hugað líf, nema sá kostur hefði verið fyrir hendi að fá frv. hér samþ. óbreytt. Sú leið mun þó því miður vera útilokuð. Þá er aðeins sá kosturinn fyrir hendi, ef maður ætlar að koma málinu í gegn fyrir Húsavík og Ólafsfjarðarkaupstað, að sætta sig við það, að gengið sé í ábyrgðir fyrir fleiri staði. Mér virðist því líklegast málinu til lífs, að maður verði að ganga að þeim kostinum að samþ. verulegar brtt. við frv., og mundi ég þá hallast að því, að samþ. yrðu þær till., sem tveir hv. þm. Sjálfstfl., sem mynda 3. minni hl. fjhn., hafa lagt fram og gera ráð fyrir að bæta við ábyrgðum fyrir Stykkishólm og Ísafjarðarkaupstað — og fyrir Bolungavík að því er snertir 200 tonna togveiðibát, og málið færi þannig til hv. Ed., sem væntanlega gæti þá fallizt á að veita þessum aðþrengdu stöðum öllum saman aðstoð í þessu formi.

Ég sem sé lýsi mig — eins og hv. 8. landsk. fyrir sitt leyti lýsti hér yfir áðan — fúsan til að fylgja þessu máli fram í hverju því formi, sem líklegast má verða til þess, að málið bjargist, fyrst og fremst fyrir þann stað, sem það var upphaflega borið fram fyrir, Húsavíkurkaupstað, og þá í annan stað fyrir þann kaupstaðinn, sem strax var skeyttur við málið, Ólafsfjarðarkaupstað, sem ótvírætt hefur mjög brýna þörf fyrir að fá togara eins og Húsavík.

Það er þannig ástatt um atvinnuhætti þarna norðanlands, að erfitt er að ná til fiskimiða á vélbátum yfir vetrarmánuðina og staðbundið atvinnuleysi ríkir þar 5–6 mánuði ársins og varla hægt að hugsa sér, að úr því verði bætt með öðru, en togaraútgerð. Það virðist því einsætt, að ef hæstv. ríkisstj. vill bæta úr þessu staðbundna margra mánaða atvinnuleysi í þessum tveimur kaupstöðum sérstaklega, þá vilji hún það á sig leggja að veita ríkisábyrgð fyrir togara á þessa staði. Það er vitað, að Húsvíkingar hafa lýst sig reiðubúna til að leggja mikið á sig til þess að eignast togara. Það hefur farið fram fjársöfnun í héraði. Ekki aðeins Húsvíkingar, heldur bændur víða í Suður-Þingeyjarsýslu hafa boðið að leggja fram fé til þess að greiða þann hlutann, sem Húsavíkurkaupstaður á að greiða, og hefur þessi kaupstaður þannig búið sig undir það að öllu leyti að geta gengið frá kaupum á togara, sem hefur staðið til boða, og í raun og veru ekki staðið á öðru, að hægt væri að ganga frá kaupunum, heldur en að hin umbeðna ríkisábyrgð fengist — sú ríkisábyrgð, sem hv. þm. S-Þ. óskaði eftir að fá strax í byrjun þessa þings, en hefur þrátt fyrir það, þótt hann hafi góða aðstöðu í öðrum stjórnarflokknum, ekki komið málinu fram allt fram að þinglokum. Það liggja því nú fyrir yfirlýsingar frá báðum stjórnarandstöðuflokkunum um það, að þeir vilji fylgja málinu í hverju því formi sem helzt mundi skila því í höfn, og kemur þá til kasta stjórnarflokkanna, annars eða beggja, um að duga nú málinu á úrslitastundinni.