06.02.1953
Neðri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (3529)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta mál enn, þótt það sé búið að vera lengi fyrir Alþingi og miklar umr. hafi farið fram um það. Ég mun heldur ekki nú fara að ræða þetta mál almennt, þótt að ýmsu leyti gæti verið ástæða til þess. Ég lít nú þannig á, að hvort tveggja sé jafnvitlaust, að álíta, að hægt sé að leysa öll vandræði flestra byggðarlaga hér á landi með því, að þangað komi togari á einn eða annan hátt, eins og hitt, sem að vísu engum manni dettur í hug heldur, að hægt sé að reka hér útgerð án þess, að um mikla togaraútgerð sé að ræða. Og segi ég þetta einkum út af því, sem m. a. hv. 2. þm. Reykv. hefur oft látið í ljós í þessum umr., að það virðist svo sem menn álíti, að allt verði ágætt og atvinnulíf staða, sem við erfiðleika eiga að búa, blómstri og blómgist, aðeins ef hægt er að fá þangað togara. Þetta er að mínum dómi hinn mesti misskilningur. Togaraútgerð er þannig, að það þarf margt að vera þar samhliða, til þess að unnt sé að reka togara þannig, að til virkilegs hagræðis verði fyrir þau byggðarlög.

Í þessu frv., sem liggur nú hér fyrir hv. Nd., er búið að veita ríkisstj. heimild til að ábyrgjast lán fyrir allmarga staði úti á landi. Ég ætla ekki að fara að ræða það eða dæma þar í milli frá mínu sjónarmiði, hverjir af þessum stöðum hafi mesta þörf fyrir togara og hverjir minni. Það er ekki tími til þess og ekki ástæða til þess heldur. En það er alveg víst, að ef á að veita ábyrgð fyrir alla þá staði, sem hér eru nefndir í þessu frv., þá verður að veita fleiri byggðarlögum sömu hlunnindi og sömu möguleika, og vil ég í því sambandi nefna Sauðárkrókskaupstað. Hann hefur leitað til okkar þm. um það, að við leituðumst eftir því við Alþingi, að ríkisstj. fengi heimild til þess að ábyrgjast lán, ef Sauðárkrókur eignaðist togara. Ég er alveg sannfærður um það, að Sauðárkrókur hefur meiri rétt til þess að ná í slíkt atvinnutæki heldur en margir þeir staðir, sem hér eru taldir. Hann er fólksfleiri en margir þeir staðir, sem hér hafa fengið slíka ábyrgð í því frv., sem nú liggur fyrir. Og atvinnuskilyrðin eru þannig á Sauðárkróki og útgerðaraðstaða, að erfitt er að sækja sjó þar nema nokkuð langt og ýmsir erfiðleikar í því sambandi. Unnið hefur verið að hafnargerð á Sauðárkróki um langan tíma, sem því miður ýmis mistök hafa orðið með og tafið mjög fyrir því, að höfnin yrði þar til eins mikilla nota, bæði fyrir kaupskip og eins fyrir fiskiskip, eins og vænzt var og eins og þarf að verða. Nú eygir mjög í það, að þessi vandi leysist, væntanlega á þessu ári, með nýjum aðgerðum á höfninni, þannig að nú megi nokkuð treysta því, að innan skamms verði þar komin ágæt höfn fyrir fiskiskip af togarastærð, sem hefðu útgerð þaðan.

Allt þetta gerir það að verkum, að þegar við þm. Skagf. sjáum, að farið er að hrúga inn slíkum ábyrgðarheimildum eins og hér er gert fyrir marga staði hér á þessu landi, þá er alls ekki stætt fyrir okkur að gera ekki kröfu til þess, að Sauðárkrókskaupstaður fái þar jafnrétti, út frá því, sem ég hef hér nefnt um aðstöðu hans að ýmsu leyti, sem gerir það að verkum að okkar dómi, að við lítum svo á, að hann hafi þar forgang fram yfir ýmsa aðra staði. Það er af þessum ástæðum, að við leyfum okkur að bera fram skriflega brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir. Vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, fá að lesa hana hér upp, en till. er þannig, að á eftir 4. tölulið, sem fjallar um heimild til að ábyrgjast lán fyrir hreppsnefnd Stykkishólms eða fyrir samtök, sem hún gengst fyrir og á hlut í, til kaupa á einum togara, komi nýr liður, 5. töluliður, sem hljóðar þannig:

„Fyrir bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar — eða fyrir samtök, sem bæjarstjórnin gengst fyrir að verði stofnuð og á hlut í — til kaupa á einum togara.“

Ég tel ekki nokkurn minnsta vafa á því, að sé virkilegur þingvilji fyrir að afgr. þetta mál í því formi, sem það nú hefur, að taka upp jafnmarga staði, jafnmörg byggðarlög, stór og smá, sem fái slíka heimild eins og hér er um að ræða, þá sjái hv. þd., að það er alls ekki unnt og kemur ekki til mála að neita þessari till. okkar þingmanna Skagf. Það getur ekki komið til mála.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að mæla frekar fyrir till. Ég bjóst sannast að segja tæplega við því, að þetta mál kæmi hér fyrir nú, eða vissi það ekki með vissu. Virtust litlar líkur til, að það yrði afgr. hér á hinu háa Alþingi. En þar sem umr. er nú haldið áfram um frv., þá viljum við þm. Skagf. ekki láta hjá líða að koma þessari brtt. nú á framfæri. Verð ég því að óska eftir því, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni á þinglegan hátt, þar sem við verðum að leggja hana fram skriflega.