23.10.1952
Efri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (3541)

85. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga o. fl.

Flm. (Magnús Kjartansson):

Ég ætla ekki að fara að deila neitt stórlega við hæstv. forseta Ed. um, hvernig haga skuli þskj. Hins vegar fyndist mér það rétt, að settar væru um það alveg ákveðnar, ófrávíkjanlegar reglur, hvernig t. d. myndabirtingu á þskj. skyldi háttað, þannig að í því gæti enginn misskilningur fólgizt. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, tel ég t. d., að þessi mynd, sem ég bað um, sé hliðstæð myndum, sem birtust í ákveðnu þskj., sem kom fram fyrir stríð, og hafa átt að hafa sams konar tilgang.

Hvað því viðvikur, sem hæstv. forseti sagði um, að þessi mynd sýndi ekki neitt, hún sannaði ekki neitt, það væri ekkert á henni að sjá o. s. frv., þá var það skýrt mjög ýtarlega hér í grg., hvaðan þessi mynd er. Og það var meira að segja sagt, hverjir byggju í þessum bragga, og sagt, hvar hann væri, nákvæmlega, við hvaða götu óg númer hvað við götuna. Það var sagt nafn á konu, sem býr þar. Það var sagt, að það byggju þar 2 konur og 4 börn. Undir myndinni var skýring á því, hvað hún sýndi. Það kemur mjög ljóst fram á henni hvað hún sýnir, með þeirri skýringu, þannig að mér finnst það vera furðuleg glámskyggni hjá hæstv. forseta, ef hann hefur ekki fengið neina hugmynd um það.

Það er rétt, að þessi mynd er ætluð hv. þm. Hún er þeim ætluð til þess, að þeir fari ekki með þetta mál eins og eitthvert pappírsgagn, eins og oft vill verða, heldur geri sér ljóst, að þarna er fjallað um líf og tilveru fjölmargra manna og að ákvarðanir Alþ. í þessum efnum hafa áhrif á það, hvernig þetta fólk getur hafzt við, hvernig kjör það lifir við árum saman. Og það var þetta, sem ég vildi undirstríka með þessari mynd.