03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (3661)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Gísli Jónsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. 2. þm. Árn. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið í sambandi við frv. um Skipaútgerð ríkisins, en vil þó um leið leyfa mér að benda á, að það er ekki æskileg meðferð á máli að halda því í n. í 10 daga án þess að senda það til umsagnar. Það bendir ekki til þess, að n. sem slík hafi haft mikinn áhuga fyrir framgangi málsins og ekki mikinn skilning á, hversu nauðsynlegt það er, að málið næði fram að ganga. Þó að ekki hefði unnizt tími til að koma þessu máli gegnum þingið, sem ég nú fullyrði ekkert um, ef því hefði verið sýndur sómi, þá er það áreiðanlegt, að það er mikill stuðningur fyrir málið, hvernig sem á það er litið, að fyrir hefði legið í þingskjölum umsögn frá þessum aðilum, svo að ekki hefði þurft að senda málið til umsagnar á næsta þingi, ef það skyldi þá verða borið fram af einhverjum hv. þm. — Ég vil vænta þess, að hv. form. n. og hæstv. forseti sjái svo um, að umsögn um þetta mál komi frá þeim aðilum, sem það hefur verið sent til, eða þá umsögn frá þeim um, að þeir vilji ekki segja neitt um málið, og að málið komi til 2. umr., áður en þingi lýkur.