03.10.1952
Efri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

Vélræn upptaka á þingræðum

forseti (BSt):

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég geta þess, sem öllum hv. þm. er nú reyndar þegar kunnugt, að með brbl. hefur verið gerð sú breyting á þingsköpum, að nú ber öllum þm. svo og ráðh. að tala frá ræðustóli, og er þessi breyting, eins og menn vita, gerð vegna þess, að nú hefur verið sett upp tæki til þess að taka upp ræður í þinginu á vélrænan hátt, og þótti ekki fært, hvorki kostnaðar vegna né þrengsla í þingsölunum, að hafa hljóðnema við hvert sæti, og varð því að koma fyrir ræðustól og ætlast til þess, að allir, sem ræður flytja á Alþingi, tali frá ræðustóli. Að sjálfsögðu er þinginu í sjálfsvald sett að fella þessi brbl., en benda má á það, að þessi breyting hér á Alþ. er gerð samkv. áskorun frá Alþ. sjálfu.