18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég gat ekki orðið hv. meðnm. mínum sammála um þetta frv. Ég er andvígur frv. í heild sinni og vil láta fella það. Ég hef þó til vara lagt fram brtt. á þskj. 478 til þess að freista þess að fá úr gildi numdar þær álögur, sem ég álít, að séu allra skaðlegastar fyrir þjóðfélagið.

Um hinn illræmda söluskatt hafa farið fram miklar umræður, meiri en um flest önnur mál, meiri en um flesta aðra tekjustofna. Það er þess vegna þarflaust að fara langt út í það mál. Því verður ekki neitað, að álagning söluskatts, eftir að þau útgjöld féllu niður, sem hann upprunalega átti að renna til, þ.e.a.s. útgjöld til fiskábyrgðar, var hreint og beint brigðmæli. Hitt er þó aðalatriðið, að söluskatturinn er ranglátastur og skaðlegastur allra skatta, og það er vegna þess, að hann leggst jafnt á allar vörur, hvort sem þær eru nauðsynlegar eða ónauðsynlegar, og leggst þess vegna með mestum þunga á þá fátækustu, þá, sem hafa minnst úr að spila. Hann er þungur baggi á íslenzkri iðnaðarframleiðslu og leggst jafnt á þau fyrirtæki, sem hafa erfiða aðstöðu, og hin, sem standa sig vel. Ekki er minnsti vafi á því, að söluskatturinn hefur orðið til þess að draga mjög úr atvinnu í landinu. Og það er alveg víst, að söluskatturinn hefur átt ríkan þátt í því að skapa það óþolandi efnahagsástand, sem m.a. hefur leitt til þeirra verkfalla, þeirra nauðvarna fólksins, sem nú standa yfir.

Brtt. mín er um að fella niður söluskatt af íslenzkum iðnaðarvörum. Það væri þó veruleg bót í máli, ef hún fengist samþykkt, og hefur raunar alltaf verið rík nauðsyn. Hv. þm. Barð. hefur lagt fram aðra brtt. á þskj. 474, sem fer í sömu átt, og mér skilst, að aðaltill. hv. þm. beri að skilja svo, að hún þýði það sama og mín till. Þó er ég ekki alveg viss um, að það sé öruggt, að hún nái tilgangi sínum.

Ég sagði, að það hafi raunar alltaf verið rík nauðsyn að afnema söluskatt af íslenzkum iðnaðarvarningi, en sú nauðsyn ætti kannske að vera hv. alþm. nokkru skiljanlegri nú, heldur en endranær. Eitt af þeim atriðum, sem deiluaðilar í verkfallinu hafa bent ríkisstj. á, að orðið gæti mjög veigamikill þáttur til þess að leysa verkfallið, er niðurfelling söluskatts að nokkru eða öllu leyti, og þá er niðurfelling skattsins af iðnaðarvörum veigamesta atriðið. Samkvæmt þeim athugunum, sem hagstofan hefur gert að tilhlutun samninganefndar verkalýðsfélaganna, skiptist innheimtur söluskattur frá 1. okt. 1951 til 30. sept. 1952, í 12 mánuði, þannig: Af innflutningi var innheimt 60.8% eða 51.7 millj. á þessu tímabili. Af smásölu 16.7% eða 14.2 millj. Af iðnaðarvörum sama, 16.7% eða 14.2 millj., og af annarri þjónustu 5.8%. Eins og sjá má af þessu, þá er hér ekki um sérlega stóran tekjumissi að ræða fyrir ríkissjóð, þó að brtt. mín yrði samþykkt, en fyrir iðnaðinn munar það miklu. Iðnrekendur gætu hækkað kaup þeirra, sem hjá þeim vinna, um 40%, sér að skaðlausu, ef söluskatturinn yrði afnuminn af vörum þeirra, og jafnvel þótt ekki væri gert nema að lækka skattinn á iðnaðinum um helming, þá væri kaupdeilan leyst að því er til iðnaðarins tekur. Iðnrekendur gætu þá sér að skaðlausu uppfyllt allar kröfur verkalýðsfélaganna og mundu þó vera betur á vegi staddir, en áður. Hér hefur hv. Alþ. vissulega einstætt tækifæri, og það er víst, að það verður tekið eftir því af öllum landsmönnum, hvernig Alþ. notar sér þetta tækifæri. Öll þjóðin ætlast til þess af Alþ. og ríkisstj., að þau láti einskis ófreistað til þess að leysa tafarlaust hina miklu kaupdellu, sem nú stendur yfir. Ekki er sök þessara aðila svo lítil, og hún stendur óbætt enn þá.