13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér brtt. á þskj. 485 í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er, að í stað „250 kw.“ komi: 50 kw. — Ég tel, að hámark það, sem ákveðið er í frv., sé allt of hátt og að ákvæði þessara laga eigi að gilda um hverja hitaveitustöð, sem kynni að verða yfir 50 kw. Hin brtt. er um það, að á eftir 3. gr. komi ný grein, er orðist svo:

„Heimilt er ríkisstj. að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs nauðsynleg lán, er aðilar þeir, sem um ræðir í 1.–3. gr., kunna að taka til að koma upp hitaveitu samkv. fyrirmælum þessara laga. Má ábyrgðin þó aldrei fara fram úr 85% af heildarkostnaði hitaveitunnar. Í tryggingu fyrir ábyrgðinni getur ríkissjóður krafizt 1. veðréttar í hitaveitunni svo og árlegum tekjum hennar, ef aðrar tryggingar eru ekki fyrir hendi, er ríkisstj. metur gildar.“

Mér urðu það allmikil vonbrigði, þegar ég sá, að frv. það, sem hér um ræðir, hafði verið rætt í hv. Nd. og rætt hér við 2 umr. í þessari hv. d. og hafði auk þess farið til tveggja nefnda, að þetta ákvæði skyldi ekki vera sett inn. Í fyrsta lagi er þetta ákvæði hliðstætt þeim ákvæðum, sem eru sett í bæði lög um vatnsveitur og lög um raforkuver, og fyrirbyggir, að það þurfi að vera að taka upp sérstaka heimild í hvert skipti sem ábyrgjast þarf fé til slíkra framkvæmda sem hér um ræðir. Liggur m.a. nú fyrir þessu þingi ein slík ábyrgðarbeiðni frá hreppsnefnd í Hveragerðishreppi. En það er miklu heppilegra frá mínu sjónarmiði að setja þetta inn í heildarlöggjöfina. Það hefur verið gert, eins og ég tók fram, bæði í sambandi við vatnsveitur, einnig í sambandi við raforkuver og í sambandi við hafnarmál. Það er miklu eðlilegra, en að í hvert skipti sem nauðsynlegt er að gefa ábyrgð sé verið að leita sérstaklega til Alþingis.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þessi mál nánar, en vil vænta þess, að till. mínar verði samþ. Get ég að sjálfsögðu fallizt á, ef hæstv. forseti telur það réttara, að fresta umr., svo að hv. n., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, fái tækifæri til þess að kynna sér till., nema því aðeins að hún hafi þegar gert það, og heyrist þá væntanlega frá hv. frsm. um það, hvort hann leggur til f.h. nefndarinnar, að till. verði samþ.