23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál er komið hingað aftur frá Nd., sem gert hefur á því tvær breytingar. Fyrri breyt. er sú, að þar sem við hér samþ. till. frá þm. Barð. um 85% ábyrgðarheimild fyrir ríkissjóð til handa þeim félagsskap, sem vildi koma á hitaveitu, þá var þetta lækkað niður í 80%. Hin breyt. er sú, að þar sem hér stóð ekkert um það, hvenær lögin mundu öðlast gildi, og hefðu þau með eðlilegum hætti öðlazt gildi 6 mánuðum eftir að þau hefðu verið samþ. af ríkisráði, þá var sett inn í Nd. ákvæði um það, að þau öðlist gildi þegar í stað. Það skiptir náttúrlega engu máli, því að framkvæmdir eftir lögunum verða ekki gerðar svo fljótt eftir samþykkt þeirra á Alþingi, að máli skipti, hvort heldur er. — N. hefur ekki haldið fund um þetta, en ég hygg, að hún sé þannig stemmd, að hún vilji ekki fara að láta málið flækjast meira á milli deilda og leggi til, að það verði samþ. óbreytt þrátt fyrir þessar tvær breytingar í Nd. Ég hygg ég megi segja það fyrir hönd nefndarinnar.