27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

1. mál, fjárlög 1953

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér eina brtt. ásamt hv. 8. þm. Reykv., við 14. gr., þess efnis, að tekin verði upp fjárveiting til æskulýðshallar, byggingar íþróttasalar, 160 þús. kr. Bygging æskulýðshallar í höfuðstað landsins hefur verið alloft á dagskrá hér á Alþingi, án þess að raunhæfar samþykktir hafi verið um það mál gerðar.

Ég tel, að á þeim tíma, sem nú er liðinn frá því að þessu máli var fyrst hreyft hér á Alþingi, hafi skapazt nokkuð ný viðhorf, og vil leyfa mér í sambandi við þessa till. að gera grein fyrir þeim.

Menn voru á þeirri skoðun, að æskilegt væri að byggja eitt allsherjar tómstunda- og félagsheimili fyrir æskulýð höfuðstaðarins, sem þá var kallað æskulýðshöll. En síðar, við útþenslu bæjarins á undanförnum árum, hefur æ meira komið fram sú hugsun, að eðlilegra væri að velja slíkum tómstunda- og félagsheimilum staði í hinum einstöku bæjarhverfum og hafa þau þar af leiðandi minni og á fleiri stöðum, enda er það svo nú, að sum íþróttafélögin hér í bæ hafa þegar komið sér upp myndarlegum félagsheimilum, og af þessum sökum er það, að till. okkar nú er orðuð þannig: Til æskulýðshallar, byggingar íþróttasalar. — Og það er byggt á þeirri hugsun, að enda þótt við flm. getum fallizt á, að eðlilegt sé að velja félagsheimllum og tómstundaheimilum staði í hinum einstöku bæjarhverfum og hafa þau fleiri og minni, þá sé þó full þörf og ástæða til að byggja í höfuðstað landsins einn allsherjar íþróttasal eða íþróttahús, sem er þá ekki aðeins hugsaður til afnota fyrir æsku höfuðstaðarins, heldur verður einnig til afnota fyrir æsku landsins sem einn allsherjar samkomustaður, þegar meiri háttar íþróttasýningar eru haldnar.

Í bæjarstjórn Reykjavíkur hefur svipuð þróun átt sér stað í viðhorfi til þessa máls, og kemur það fram í ákvörðun bæjarstjórnar á s.l. árí, þar sem veittar eru allt að 200 þús. kr. til æskulýðshallar og fjárveitingin orðuð þannig, að þessu fé skyldi varið til byggingar íþróttahúss í samráði við Bandalag æskulýðsfélaganna í Reykjavík.

Nú má að vísu segja, að slík bygging í höfuðstaðnum ætti þá að njóta styrks úr félagsheimilasjóði eins og aðrar hliðstæðar byggingar.

Það er vitað, að æskulýðsfélögin hér eða bandalag þeirra mun hafa nú á reiðum höndum um 150 þús. kr., sem safnað hefur verið í þessu skyni. Og eins og ég sagði áðan, hefur bæjarstjórnin ákveðið að verja 200 þús. kr. til þessarar byggingar á þessu ári, ef hafizt yrði handa. Það hefur nú ekki verið byrjað neitt á byggingunni, en samt hafa verið greiddar 50 þús. kr. úr bæjarsjóði, þannig að ef Alþingi vildi sýna þessu máli nokkurn sóma með ekki stærri fjárveitingu, en hér er farið fram á, væri þó öruggt, að það væri hægt að hefjast handa og gera allverulegt átak til þess að koma upp þessu allsherjar íþróttahúsi, sem hér um ræðir.

Eins og ég vék að áðan, kann að vera, að menn telji, að það sé ekki ástæða til þess að hafa sérstaka fjárveitingu til þessa, og vísi á félagsheimilasjóð. Hef ég heyrt þær skoðanir. En þeir, sem þekkja nokkuð til fjárhagsgetu félagsheimilasjóðsins, vita, að það mundi líða langt árabil, þar til hann væri aflögufær til slíkrar byggingar. Og það er mín skoðun, að alveg eins og það sé eðlilegt, að Alþingi verji sérstöku fé til allsherjar íþróttaleikvangs í höfuðstað landsins, sem er ekki aðeins leikvangur höfuðstaðarbúa, heldur landsmanna allra, þegar allsherjar íþróttakeppnir eru, þá sé einnig ekki óeðlilegt, að Alþingi sýni æsku höfuðstaðarins nokkuð sérstaka tillitssemi með því að verja sérstaklega á fjárlögum nokkru fé til byggingar íþróttasalar eins og hér um ræðir.

Það hefur ekki verið tíundað, hvaðan það fé er komið, sem félagsheimilasjóður er byggður upp af. Ef það væri gert, þá kæmi í ljós, að langsamlega mestur hluti þess fjár kemur frá höfuðstað landsins, Reykjavík. Engu að síður hafa bæði ég og aðrir þm. Reykjavíkur verið stuðningsmenn félagsheimilasjóðsins, og við höfum verið stuðningsmenn hans þrátt fyrir þetta, vegna þess að við höfum skilið þá ríku og miklu þörf, sem æskan í sveitum landsins og hinum dreifðu byggðarlögum hefur til þess, að þar sé komið upp félagsheimilum og íþróttahúsum. Ég vil segja það, að því þjóðþingi, sem hefur svipaða afstöðu til höfuðborgar sinnar eins og Alþingi Íslendinga hefur til Reykjavíkur, — og þegar á þetta er litið, sem ég nú hef greint, því er of þröngur stakkur skorinn, ef það telur ofrausn að veita nokkurt fé sérstaklega til málefna eins og hér er farið fram á. Og einmitt í trausti þess vil ég mega vænta þess, að þessi till. hljóti nú góðar undirtektir hjá hv. þm. Og miðað við það, að þróun þessara mála sé bundin við, að komið sé hér upp allsherjar íþróttasal, og fjárveitingin við það miðuð, treysti ég á, að þeir þm., sem eru úr hinum dreifðu byggðum, sem njóta fjárveitinga úr félagsheimilasjóði, sem, eins og ég sagði, hefur fyrst og fremst tekjur sínar frá Reykvíkingum, telji sér fært að sýna æsku höfuðstaðarins þá viðurkenningu, sem felst í þessari litlu fjárveitingu, með því að vera henni hliðhollir og samþykkja hana.