09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

1. mál, fjárlög 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Út af því, sem hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, sagði, vil ég segja eitt við stjórnarflokkana. Leysið þið ykkar einokunarfjötra af sjávarútveginum, og við skulum sýna ykkur, að útvegurinn ber hækkað kaup. Við sósíalistar höfum bjargað íslenzkum sjávarútvegi fyrr, og við getum gert það enn, úr því feni, sem þið hafið sett hann í. En þið þorið það ekki. Þið hafið í þrjú ár fellt öll frumvörp okkar sósíalista um slíkt, og af hverju? Af því að þið óttizt, að starfandi stéttir atvinnuveganna mundu draga gróðann úr þeirri hít einokunarauðvaldsins, sem stjórnarflokkarnir eru að vernda. Um frumvörp Sjálfstfl., sem hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, nú talaði um, vil ég segja: Frumvörpin um atvinnubótasjóð og önnur slík liggja hjá okkur í fjhn. í Nd. Við höfum boðið Sjálfstfl. — og Alþfl. hefur gert það líka — að samþykkja þau. Þið þorið ekki að samþ. neitt af ykkar eigin frumvörpum. Þið látið þau liggja í þinginu, af því að þau eru flutt af tómri hræsni til þess að sýnast. Og ég bið kjósendur um að athuga, hvað mikið af frumvörpunum fer í gegn. Það er meiri hluti fyrir þeim hérna í þingi, en Sjálfstfl. þorir ekki sjálfur að samþ. þau.

Háttvirtir hlustendur. Þið hafið heyrt pólitískt gjaldþrota stjórnarflokka birta ráðþrot sín frammi fyrir víðtækasta verkfalli, sem gert hefur verið á Íslandi. Þeir sjá engin ráð, af því að öll þeirra pólitík felst í því einu að slá skjaldborg um gífurlegan auð og háar tekjur einokunarauðvaldsins á Íslandi og verja hann gegn alþýðunni. Þið hafið heyrt úrræðalausa ráðherra staðfesta pólitískt gjaldþrot sjálfra sín og hlustað á þá reyna að breiða yfir þetta gjaldþrot með þvættingi, sem jafnóðum er og skal verða hrakinn. Hermann Jónasson, hæstv. landbrh., talaði um nýsköpunarstjórnina og kvartaði yfir henni eins og vant er, ekki í fyrsta sinn. Hvað er það, sem fer svona í taugarnar á Hermanni Jónassyni og hans flokki í fari nýsköpunarstjórnarinnar? Það er það, að á nýsköpunarárunum lærði íslenzk alþýða að lifa mannsæmandi lífi og gera kröfur til slíkra lífskjara áfram og að á þeim árum fékk þjóðin atvinnutæki til þess að geta fullnægt þeim kröfum. Það er þetta, sem veldur gremju Framsóknar og skal gera það áfram. Þjóðin þekkir ráð Hermanns Jónassonar. Hans ráð voru gerðardómsfjötrarnir 1942. Alþýðan sleit þá fjötra, og hún mun sprengja fjötra hans enn.

Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., sagði í gær, að það væru bjálfalegar, þjóðhættulegar aðferðir, ef ríkisstj. færi að skipta sér af málum eins og atvinnu og tekjum verkamanna, sem henni kæmi ekkert við: Ég veit ekki, af hverju hann Ólafur er að tala svona alveg eins og flón um hluti, sem hann veit ekkert um, en ætti þó að vita. Ríkisstjórninni er með l. nr. 70 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, fengið allt vald yfir atvinnulífi landsins og skipað að stjórna því með eftirfarandi sjónarmið fyrir augum:

„1) Að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna.

2) Að öllum vinnandi mönnum, og þó sérstaklega þeim, sem stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“

Svo hljóða lögin. Það er af því að ríkisstj. hefur brotið þessi lög og rænt af verkamönnum þeim réttlátu tekjum, sem þeir áttu að fá og þeir fengu að nokkru leyti 1947, að öll þjóðin er í verkfalli á móti þessari lögbrotaríkisstjórn.

Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., sagði í gær, að þjóðin fordæmdi og fyrirliti brezka útgerðarmenn. Það er rétt. Hann gleymdi bara að bæta við, að Íslendingar fyrirlitu mest þann brezka aðilann, sem á stærsta brezka togaraflotann, sem á stærsta þýzka togaraflotann líka, sem á meginið af fiskgeymsluhúsum, fiskflutningsvögnum og fiskbúðum Bretlands, Unileverhringinn, sem stjórnar nú herferð brezkra auðmanna gegn Íslendingum. Af hverju skyldi Ólafur ekki hafa minnzt á hann? Og út af hans mikla áhuga fyrir landhelginni má ég þá spyrja: Af hverju lætur ríkisstj. öll varðskipin vera í biliríi 1. desember?

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, varð að viðurkenna, að gífurleg auðsöfnun ætti sér stað á Íslandi og kröfur verkalýðsins til réttlátari skiptingu auðsins væru því réttmætar. En hann sagði, að nokkrar af þeim stofnunum, sem auðurinn safnaðist í, væru nú eins konar almenningseign. En hverjir ráða þessum stofnunum og nota þær fyrir sig? Hverjir ráða Landsbankanum og nota hann fyrir sig, en banna að lána almenningi út á hús? Það er S.Í.S. og Kveldúlfur og Coca-cola-ráðh. Hverjir ráða Eimskip? Kveldúlfur og S. Í. S. Hverjir ráða olíuhringunum með 50 millj. kr. arðráni þeirra á Íslendingum árlega? Það er S.Í.S. og Kveldúlfur undir yfirstjórn Standard Oil og Shell. Hverjir ráða ríkissjóðnum og nota hann eins og vasapeninga í bitlinga og mútur? Það eru stærstu heildsalarnir og Kveldúlfur og S.Í.S. með einkafyrirtækjum þessara flokka, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., sagði, að engir bátaútvegsmenn ættu fyrir skuldum. Hvar eru eigurnar, sem bátaútvegsmenn og verkalýðinn vantar? Gylfi Þ. Gíslason, hv. 3. landsk., kom með góðar upplýsingar hér í gær um auðsöfnun ríkustu félaga og manna í Reykjavík. 40 ríkustu menn og félög áttu 566 millj. kr. í skuldlausum eignum. Ég skal bæta við þetta, að meðal þessara aðila eru hvorki Eimskipafélag Íslands, sem á 150 millj. kr. í skuldlausum eignum, né Landsbanki Íslands, sem á yfir 150 millj. kr. í sjóðum, né aðrir bankar. Allir þessir aðilar eiga sínar 400 millj. kr. í skuldlausum eignum. Alls eru yfir 1.000 millj. kr. í eign 44 aðila á Íslandi.

Þið vinnandi menn og konur Íslands, sem nú standið í harðri baráttu fyrir réttlátari skiptingu auðsins. Það er nægur gróði, nægur auður á Íslandi, sem þið hafið skapað. Hann er bara ekki í vösum alþýðunnar.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að allir væru jafnir fyrir lögunum. Nei. Jafnrétti og réttvísi er ekki til á Íslandi undir hans dómsmálastjórn. Hann hefur sett réttarfarsofsóknir í staðinn fyrir réttvísina. Hann hefur skapað dómsvald handa gæðingum sínum og fjötrað dómstólana með mútum og spillingu.

Allir eru jafnir fyrir lögunum, sagði Bjarni Benediktsson í gær. Og þetta segja ráðh., sem hafa látið stela af þjóðinni 60 millj. kr. og látið almenning borga, auk 60 millj., 40 millj. kr. í laun fyrir þjófnaðinn. Ég á við bátagjaldeyrinn, sem ríkisstj. lætur taka af þjóðinni í algeru heimildarleysi, og það heitir að stela, ef fátæklingar eiga í hlut.

„Steli ég litlu og standi ég lágt,

í steininn settur verð ég,

en steli ég miklu og standi ég hátt,

í stjórnarráðið fer ég.“

Og í stjórnarráðinu dúsa þeir. En þeir ættu að tala um jafnrétti fyrir lögunum, ráðh., sem sitja í gamla tugthúsinu við Lækjartorg.

Bjarni Benediktsson, maðurinn, sem telur sig dómsmrh., lék eitt af sínum alræmdu „drengskaparbrögðum“ hér í útvarpinu í gær. Ég ætla að segja þessum manni það, að ef við stjórnarandstæðingar töluðum opinberlega eins um ávirðingar flokksmanna hans og hann gerir, bæði ölæðisafbrot, hjónabandshneyksli og annað verra, þá yrði ekki líft í þessu landi. Utanrrh. kom fram eins og sá maður, sem ekki kann mannasiði. Ef þetta eru hans umgengnishættir við erlenda menn, þá skal mig ekki undra, þó að hann verði að athlægi í Ameríku og honum sé ekki svarað af Sovétstjórninni, af því að hann kunni ekki mannasiði í diplómatískri umgengni. Höfðu þó Rússar t.d. áður gert við hann viðskiptasamning, þann stærsta, sem þeir hafa gert við Ísland, og Bjarni náttúrlega svarað með því að kalla sendiherra sinn heim frá Moskva og senda hann aldrei þangað aftur.

Þjóðin spyr nú, þegar verkfall hefur staðið í 8 daga: Af hverju var ríkisstj. svona gersamlega ábyrgðarlaus, að undirbúa ekkert að mæta kröfum verkalýðsins, þegar allsherjarverkfall vofði yfir 1. des., með verulegum sanngjörnum tilslökunum? — Ríkisstj. kom upp um það í síðasta bréfi sínu. En bréfin eru sem kunnugt er eina framlag hennar í þessu lífsmáli þjóðarinnar. Ríkisstj. hafði básúnað sigur svo kallaðra lýðræðisflokka í Alþýðusambandskosningunum sem sigur sinn. Hún hafði treyst á að þurfa aldrei að slaka til fyrir verkalýðnum. Hún hafði treyst á að geta fengið pólitíska jábræður sína í Alþýðusambandsstjórn til að bregðast hagsmunabaráttu verkalýðsins. Hún hafði treyst á að geta breytt fellibylnum frá vinnandi stéttum Íslands í hæga golu, í þægilegan andvara fyrir sex feita ráðh. til þess að hressa sig á í komandi kosningum. Henni brást bogalistin. Hún fékk engan til að svíkja. Verkalýðurinn stóð allur saman. Og nú tryllist ríkisstj. og sendir út opinber svívirðingarbréf á þá, sem hún kallar sína menn í stjórn Alþýðusambandsins, og sannar hið fornkveðna:

„Ekki sér hann sína menn,

svo hann ber þá líka.“

Af hverju er ríkisstj. svona reið? Hún sér, að þjóðin hefur opnað augu sín fyrir óstjórn hennar, fyrir því, að ríkisstj. skipuleggur skortinn og atvinnuleysið um allt land.

Sigurður Bjarnason, hv. þm. N-Ísf., var að tala hér um nauðsyn íbúðarhúsabygginga áðan. Hann talar, en ríkisstj. neitar Íslendingum um frelsi til þess að mega byggja yfir sig og torveldar þeim með lánsfjárbanni sínu að bjarga sér, þegar þeir eru að reyna við byggingar smáíbúðanna núna. Ríkisstj. lætur hins vegar Íslendinga þræla í því að byggja fyrir ameríska liðsforingja suður á Keflavíkurflugvelli íbúðir upp á 90 millj. kr. Sigurður talar orðin. Ríkisstj. sýnir verkin. Og ríkisstj. er nú búin að sýna, hvað er í vændum, ef atvinnuleysis- og kauplækkunarherferð hennar verður ekki stöðvuð. Með svipu atvinnuleysisins rekur ríkisstj. nú um allt land íslenzka verkamenn frá konum og börnum suður á Keflavíkurflugvöll til þess að þræla þar sem ódýrt vinnuafl fyrir ameríska ofbeldismenn. Sjálfir hafa Ameríkanarnir þrefalt kaup á við íslenzka verkamenn, og svo eiga Íslendingar að þakka fyrir. Og fari Íslendingar að mögla, er þeim hótað með sulti og amerísku herliði af blöðum ríkisstj. Þarna á Suðurnesjum sitja nú hundruð íslenzkra manna við sultarskammt, því að Ameríkaninn skammtar smátt matinn, — sitja við okurhúsnæði, 200 kr. fyrir rúmið í bröggunum. Og þessir Íslendingar eru meðhöndlaðir eins og glæpamenn. Það er krafizt æviferilsskýrslu eins og af þurfamönnum á harðstjórnarárunum. Það eru heimtaðar upplýsingar um sannfæringu þeirra, og auðvitað skoðar hver ærlegur Íslendingur það skyldu sína að ljúga að kúgurunum. Síðan er þetta allt borið saman við upplýsingar amerísku njósnaranna á Íslandi, sporhunda þess fjandmannahers, sem lagt hefur undir sig Ísland. Það er leitað á íslenzkum verkamönnum eins og glæpamönnum, þegar þeir ganga um ættland sitt, um þær slóðir, þar sem Íslendingar fyrrum drápu Kristján skrifara og allt útlenda hyskið, sem honum fylgdi.

17. júní 1944 báðum við Íslendingar einum rómi á Þingvöllum við Öxará:

„Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,

um eilífð sé þín gæfa tryggð,

öll grimmd frá þinni ströndu styggð

og stöðugt allt þitt ráð.

Hver dagur líti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í,

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð,

svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð.“

Og í dag eru íslenzkir menn beygðir undir erlent ok og hótað með byssustingjum erlends valds, ef þeir dirfast að heimta sinn rétt. Svona hefur leppstjórnin og þm., sem kölluðu herinn inn í landið, leikið lýðveldið og lýðfrelsi Íslendinga.

Það er nóg komið. Sú fátækt og sú smán, sem við sósialistar sögðum að þessi stjórn mundi leiða yfir þjóðina, nistir nú hvern ærlegan Íslending. Hrunið, sem við sögðum að stjórnarstefna Marshallflokkanna mundi hafa í för með sér 1952, er dunið yfir. Og alþýða Íslands ætlar ekki að láta grafa sig lifandi í hrundum rústum Marshallstefnunnar. Alþýða Íslands er risin upp. Hún mótmælir öll sem einn maður þeirri stjórn og stjórnarstefnu, sem breytir allsnægtum þeim, sem hún gæti búið við, í örbirgð. Aldrei siðan 1851 hefur íslenzk þjóð mótmælt leppstjórn erlends valds svo einhuga sem nú með allsherjarverkfallinu á Íslandi.

Það er fátækt fólk, sem vart á málungi matar, sem gripið hefur til þessa ráðs, að hætta vinnu, leggja enn þá meira að sér til þess að mótmæla óþolandi aðbúnaði í lífskjörum. Það er alltaf fátækt fólk, sem bjargað hefur Íslandi, tungu þess, lífi þess og heiðri. Sú stjórn, sem engu sinnir hinum sjálfsögðu og sanngjörnu kröfum þessa fólks, svo ábyrgðarlaus, tilfinningalaus og ráðlaus stjórn, — það er ekki íslenzk stjórn. Það er leppstjórn erlends valds, sem engu lætur sig skipta hag íslenzks almennings, nema til að rýra hann að boði amerískra auðdrottna, í þágu erlendra auðhringa og íslenzkra ríkismanna. En eitt ætla ég að segja við þessa stjórn út af hótunum blaða hennar: Láttu ekki amerískt herlið koma nærri þessu verkfalli, því að gerirðu það, þá hleðurðu á þig blóðskuldarsök, sem aldrei verður af þér máð.

Nú verður öll íslenzk alþýða, öll íslenzk þjóð að standa saman sem einn maður. Hver sá, sem í dag neitar, órofa samstarfl íslenzkrar alþýðu, faglegu og pólitísku, í verkföllum jafnt sem stjórnmálabaráttu, hann bregzt íslenzkri alþýðu í erfiðustu baráttunni, sem hún hefur háð. Þrennt er nauðsynlegt: Það verður að láta tafarlaust að öllum kröfum verkamanna um kauphækkun. Það verður að höggva á einokunarfjötrana, sem kyrkja íslenzkt atvinnulíf. Það verður að skera burt krabbameinið á Keflavíkurflugvelli, áður en það sýkir allan þjóðarlíkamann. Og hvað sem öllu öðru liður, ríkisstj. á strax að fara frá. —Góða nótt.