26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. 1. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl., form. fjvn., byrjaði með að flytja hér allmikinn pólitískan reiðilestur um ýmislegt fleira en fjárlögin og kom með hann á skrifuðum blöðum, þannig að hann var sýnilega ætlaður til birtingar í Morgunblaðinu á morgun. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þennan sérstaka reiðilestur, en aðeins segja fáein orð út af honum og benda á vissar veilur, sem voru í þeim málflutningi.

Hv. frsm. meiri hl. byrjaði á að tala um það, að það hefði verið komið í veg fyrir afgreiðslu fjárl. á réttum tíma, og síðan hljóp hann nokkur ár aftur í tímann, til 30. marz 1949, og ræddi atburði, sem gerðust þá hér við alþingishúsið, þegar meiri hl. þingmanna var að ákveða, að Ísland skyldi ganga í hið svo kallaða Atlantshafsbandalag. Út úr því hljóp hann í umræður um verkfallið, sem háð var á fyrri hluta þessa vetrar, núna rétt fyrir hátíðarnar, og út frá því ræddi hann um, að virðing Alþingis væri alveg að fara, með því ástandi, sem væri í landinu núna, og svo sérstaklega ræddi hann líka um það, hve mikinn áhuga fjvn. hefði nú raunverulega haft fyrir hvers konar félagslegum umbótum, en gæti nú bara ekki komið þeim fram vegna þessara atburða og annarra, sem orðið hefðu. — Út af þessu vildi ég aðeins lauslega benda hæstv. þm. á það, að hann gleymdi ýmsu, sem ekki hefði verið síður ástæða til að nefna í sambandi við þetta.

Hvað snertir t.d. 30. marz, þá hældist hann um pólitíska dóma, sem hefðu farið fram í því sambandi, en hann gleymdi að minnast á það, að 28 þús. kjósendur, og þ. á m. fjöldamargir úr kjósendahópi Framsfl. og Sjálfstfl., hafa undirritað áskorun um það að breyta þessum dómum, og það sýnir bezt, hvernig þjóðin lítur á þessa dóma. E.t.v. kann þessi staðreynd að hafa valdið einhverju um það ergelsi, sem virðist hafa komið fram hjá þessum þm. og raunar fleirum í því sambandi.

Um virðingu Alþ. vildi ég aðeins segja það, að virðing Alþ. þverr við það, sem gerist hér í þessum sal og næsta sal hér við hliðina og unnið er af þm. sjálfum, þeim meiri hl. þm., sem fylgir stjórninni nú að málum, en ekki við það, sem gerist utan við þinghúsið með þjóðinni annars staðar. Það, sem rýrir virðingu Alþ. með þjóðinni, er m.a. það, þegar meiri hl. Alþ. samþ. annað eins hneyksli eins og það að afhenda einstökum auðkýfingum í þessu landi tugi milljóna króna, eins og gert er raunverulega með meðferð áburðarverksmiðjumálsins, og annað eftir því. Virðing Alþ. hefur líka minnkað hjá þjóðinni við það, að ríkisstj. hefur leyft sér — og Alþ. látið það viðgangast — að leggja stóra skatta á í formi bátagjaldeyrisins, sem verður miklu meiri gróðalind fyrir vissar stéttir, sem ekki áttu þeirra að njóta, undir því yfirskini, að það sé til að hjálpa bátaútveginum. Það er þetta, sem rýrir virðingu Alþ. fyrst og fremst. Og hvað snertir hinn mikla áhuga meiri hl. fjvn. fyrir alls konar félagslegum umbótum, sem var fyrir hendi fyrir 2. umr., en getur nú ekki orðið að veruleika, þá verð ég að segja það, að ég varð ekki var við þann mikla áhuga í n. fyrir 2. umr. fjárl. Ég hef yfirleitt aldrei orðið var við hann.

Um verkfallið ætla ég aðeins að segja þetta: Þetta verkfall hófst eins og hver önnur venjuleg vinnudeila, en það var ríkisstj. sjálf, sem beinlínis gerði það að pólitísku verkfalli, og e.t.v. kann sú staðreynd að svíða dálítið í hugarheimi þeirra manna, sem eru gramir út af lausn verkfallsins eins og hún varð. En í raun og veru fannst mér, að allar þær ádeilur, sem form. fjvn. beindi til þeirra manna, sem höfðu staðið fyrir verkfallinu, væru raunverulega árás á ríkisstj. sjálfa fyrir það, að hún skyldi beina verkfallinu í þessa átt, og ég verð að segja það, að ég vorkenndi ríkisstj. að sitja undir þessari ádeilu, frá þessum ágæta samstarfsmanni sínum.

Þá kom næst hæstv. fjmrh. og kom einnig með skrifaða ræðu, þar sem hann ræddi um þetta verkfall, — skrifaða ræðu, sem við fáum sjálfsagt að lesa í Tímanum á morgun. Grunntónninn í hans ræðu var sá, að í raun og veru væri ekki hægt að skipuleggja atvinnulífið á Íslandi betur, en núna væri gert. Hann nefndi ýmislegt, m.a. það viðvíkjandi lausn verkfallsins, að það hefði verið um tvær leiðir að ræða, kauphækkun eða verðlagslækkun þá, sem gerð hafði verið, og hann hélt því fram, að verðlagslækkunin hefði verið betri leið og sú leið, sem helzt var fær. En það, sem hefur skeð í þessu sambandi, er þá það, að ríkisstj. hefur raunverulega viðurkennt, sem fólkið auðvitað vissi áður, að það var hægt að lækka verðlag í landinu, en það þurfti bara þriggja vikna verkfall til þess að knýja ríkisstj. til þess að sjá um það, að lækkuð yrði t.d. okurálagning í verzlunarkerfinu, okurálagning á ollu og benzín, og annað eftir því.

Hæstv. ráðh. talaði einnig töluvert fjálglega um það, að það eina, sem gæti bætt afkomu þjóðarinnar, væri meiri afköst, meiri framleiðsla og meiri vinna, og hefur hann oft rætt það áður. Þessa ræðu hefur hann nú raunverulega haldið oft hér í þessum sal. Ég veit, að allir þm. kannast við þennan tón, en það er bara til sú staðreynd, að stjórn sú, sem þessi hæstv. ráðh. ræður mjög miklu í, vinnur þveröfugt við það að gefa þjóðinni kost á að leysa af hendi meiri vinnu og meir í framleiðslu og annað eftir því. T.d. skeði það núna á s.l. sumri, að það var beinlínis bannað að verka saltfisk, þó að staðreynd sú lægi fyrir, að það var hægt að fá miklu meiri gjaldeyri fyrir hann með því að verka hann. Það er líka staðreynd, að það liggur mikið af fiski í frystihúsunum frá fyrra ári, svo að í alvöru er rætt um það núna að banna að frysta togarafisk, og það sér hver maður, hver áhrif það hefur á framleiðslu þjóðarinnar. Þetta eru staðreyndirnar, sem liggja fyrir, jafnframt því að hæstv. fjmrh. kemur með skrifaða ræðu hingað í Alþ. til þess að lesa yfir þm. um það, hversu nauðsynlegt sé að auka framleiðsluna.

Ég vil benda þessum báðum hv. þm. á það, þar sem þeir hafa haldið því fram, að verkfallskröfur verkfallsmannanna hafi verið ósanngjarnar og það séu þær, sem séu að setja þjóðfélagið á hausinn, að það er margbúið að sanna það, að núna í a.m.k. fimm ár síðast liðin hafa kauphækkanir ævinlega verið á eftir þeim dýrtíðarhækkunum, sem orðið hafa, — dýrtíðarhækkunum, sem beinlínis hafa verið skipulagðar af þeirri ríkisstj., sem Eysteinn Jónsson er fjmrh. í, þannig að hann er þegar orðinn dæmdur sem mesti dýrtíðarmeistari á Íslandi.

Í haust var sannanlegt, að það var mikil síld til í hafinu suðaustur af Íslandi, en það gat ekki nema sáralítill hluti bátaflotans farið til þess að veiða þá síld, salta hana og skapa þannig gjaldeyri og aukin verðmæti í þjóðartekjum, vegna þess að hann skorti rekstrarfé til þess að geta veitt þessa síld, þótt vitað væri, að það var hægt að veiða hana og hægt að hafa stórkostlegar gjaldeyristekjur upp úr henni. Þetta snertir ákaflega öfugt þær fullyrðingar, sem hæstv. fjmrh. var með hér áðan. Annað vil ég einnig benda honum á í sambandi við, hvað hefur verið að gerast, og það er í sambandi við sölu landbúnaðarafurðanna. Sjálfur formaður stéttarfélags bænda upplýsir það í blaði fjmrh., tímanum, nú fyrir fáeinum dögum, að á s.l. ári, eða 11 fyrri mánuðum s.l. árs, hafi mjólkurframleiðslan vaxið um 15%, en salan sama sem ekki neitt. Salan á vinnsluafurðum af mjólkinni hrapaði niður. Og hvert hefði þá horft fyrir landbúnaðinum, ef þannig ástand ætti að vera til lengdar? Þetta sýnir, að það skortir kaupgetu í bæjum landsins, til þess að hægt sé að koma í verð þessum vörum, sem landbúnaðurinn framleiðir, og það sér hver heilvita maður samhengið í því, að ef svo ætti að halda áfram til lengdar, þá er verið beinlínis að neyða þjóðina til þess að minnka sínar tekjur, minnka sína framleiðslu og minnka þjóðartekjurnar.

Þá ræddi hæstv. fjmrh. dálítið um það líka, að nú yrði afgreiðsla fjárl. öll önnur, en hún hefði verið. Hún mundi ekki verða eins varleg og hún hefði verið annars, ef verkfallslausnin hefði ekki komið til. Og í því sambandi benti hann á það, að stjórnin hefði ætlað sér að nota eitthvað af þessum tekjum til þess að mynda jafnvægi á móti varnarframkvæmdunum. Jæja, er hæstv. fjmrh. eitthvað farinn að verða hugsandi út af því, að það ástand skuli hafa skapazt hér undir hans eigin stjórn og hans meðráðherra, að nú skuli það vera helzta lausnin í atvinnuleysisframkvæmdum þjóðarinnar að reyna að pína sem flesta heimilisfeður, hvaðan af landinu svo að segja sem er, úr fjölda bæja utan af landi, til þess að fara að vinna hernaðarvinnu á Keflavíkurflugvelli? Er hann eitthvað farinn að verða hugsandi út af því, hvert þetta horfir? En ég get sagt það sama um þetta eins og ég sagði í sambandi við ræðu hv. form. fjvn. Ég varð ekki var við, að neitt kæmi frá stjórninni til fjvn. um þetta atriði, áður en 2. umr. fjárl. fór fram. Það er náttúrlega ágætt að segja það eftir á, að þessi hafi verið hin fallega meining. En ætli það hafi ekki heldur verið hitt, að hæstv. fjmrh. hefði eins og öll undanfarin ár gjarnan viljað gera tekjuáætlun fjárl. óþarflega lága til þess að hafa umframtekjur, sem hann gæti þá notað og stjórnin eftir eigin vilja? Það er reynslan, sem hefur verið undanfarin ár og átti að stefna að núna.

Þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um ræður þessara tveggja hv. þm., en ætla að snúa mér að þeim brtt., sem ég flyt hérna á tveimur þskj., á öðru sem 1. minni hl. fjvn. og á hinu ásamt öðrum þingmönnum. Mínar aðaltillögur flutti ég við 2. umr., og voru þær yfirleitt felldar þar, og flyt ég þær vitanlega ekki að neinu leyti aftur. Ég gerði einnig þá grein fyrir því fyllilega, hvers vegna ég hefði klofið n., og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að taka neitt upp af því aftur. En áður en ég sný mér beint að mínum brtt., þá ætla ég þó að fara örfáum orðum um brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 606. Ég varð nefnilega svolítið hissa, þegar ég sá þær brtt. sumar.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég tillögur um nokkra hækkun á vissum liðum tekjuáætlunarinnar og benti þá jafnframt á það og færði rök fyrir því, að þessir liðir væru óþarflega lágt áætlaðir, þess vegna væri óhætt að áætla þá hærra, og mundi það ekki hafa þau áhrif, að ríkissjóður þyrfti að verða með greiðsluhalla vegna þess.

Þessu var mótmælt. Þessar till. voru felldar í þinginu, og m.a. man ég ekki betur en hæstv. fjmrh. léti í ljós þá skoðun, að það væri óvarlegt að fara þessa leið að hækka tekjuáætlunina svona mikið. Nú þegar ég ber saman þskj. hæstv. fjmrh. núna, 606, og mitt þskj., 315, þá sé ég það, að í sínum till. hefur hæstv. fjmrh. tekið upp allar þessar hækkunartillögur minar, tvær af þeim alveg nákvæmlega eins og þær voru og hinar mjög svipaðar og þær voru, aðeins þó lægri. Ég þykist sjá það á þessu og fagna því, að hæstv. fjmrh. virðist hafa séð það við nánari athugun, að mín áætlun um þessa tekjuliði hafi verið réttari, en áætlun meiri hl. n. og réttari en honum þótti við þá umræðu, og þess vegna sér hann nú ástæðu til þess að taka þær upp aftur. En ég vil þó benda á eitt, vegna þess að tvær af þessum till., — þ.e. till. um stríðsgróðaskattinn, að hann skuli hækka úr 4 millj. upp í 7 millj. og síðari liðurinn úr 2 millj. upp í 3.5 millj., — þær eru nákvæmlega eins hjá fjmrh. og þær voru hjá mér og búið var að fella. Nú veit ég ekki betur, en það standi í þingsköpum, að það megi ekki flytja aftur á sama þingi till., sem hefur verið felld. Þess vegna verð ég að benda hæstv. forseta á það, að það muni ekki vera samkv. þingsköpum leyfilegt að bera þessar till. fjmrh. upp aftur hér til atkvgr., þar sem búið er að fella þær. Hins vegar skal ég benda hæstv. fjmrh. á það, að hann þarf náttúrlega ekki að breyta þeim mikið. Honum nægir alveg að hækka hvora fyrir sig um eina krónu, til þess að það sé hægt að bera þær upp til atkvgr. (Fjmrh.: Þá verður maður að gera það.) Og ég vil ráðleggja honum að gera það (Gripið fram í.) — eða lækka um krónu.

Þá ætla ég að snúa mér að þeim till., sem ég flyt hér sem minni hl. fjvn. á þskj. 602.

Við 11. gr. flyt ég till. um að taka nýjan lið inn á greinina, sem heitir „eftirlit með viðskipta- og verðlagsmálum“. Það skilur hver þm., hvað þarna er átt við. Það er laun og annar kostnaður við fjárhagsráð. Þetta er liður, sem var á fjárl. nokkur ár, en var hætt að hafa á þeim fyrir tveimur eða þremur árum, en nú liggur það fyrir samkv. upplýsingum frá fjmrn., að s.l. ár hafi tekjur fjárhagsráðs numið 6 millj. og 86 þús. kr., en gjöld þess aðeins 2 millj. 681 þús. kr. Mismunurinn verður því rúmlega 3 millj. og 405 þús. kr., eða nærri því 31/2 millj. kr. Það er vitað mál, að þessi mismunur gengur inn í ríkissjóð og kemur fram í tekjum ríkisins, þótt hann sjáist hvergi á fjárlagafrv. Ég tel algerlega rangt að haga þessu þannig. Ég vil taka það fram, að þetta er engin sérstök árás á fjárhagsráð. Því fer fjarri. En ég tel algerlega rangt, að þarna eigi ríkið að hafa hálfa þriðju millj. kr. í tekjur af ákveðinni ríkisstofnun, án þess að það sé tekið með á fjárlagafrv. Þess vegna legg ég til, að þetta verði tekið inn á fjárlagafrv., þannig að þessi nýi liður verði tekinn upp: „Eftirlit með viðskipta- og verðlagsmálum“ — en mismunurinn, ca. 31/2 millj. kr., verði færður inn á 3. gr. A. eins og tekjur af rekstri annarra ríkisstofnana.

Þá hef ég enn fremur flutt hérna till. við 13. gr. C. 2., þ.e. við vitamál, þannig að fjárveiting til áhaldakaupa vitamálaskrifstofunnar hækki úr 550 þús. kr. upp í 750 þús. kr. Ég vil færa þau rök fyrir þessari till., að það er vitað, að hvarvetna um land er mjög mikill áhugi fyrir því að vinna að hafnargerðum, og einn sá flokkur verka, sem þarf að vinna í sambandi við hafnargerðir mjög víða, er dýpkun. Nú á ríkið að vísu eitt skip, sem heitir Grettir og er dýpkunarskip við hafnargerðir, en þetta skip er þannig gert, að það er alls engin leið að koma því við á fjöldamörgum stöðum á landinu, einkum hinum smærri. Þar verður þess vegna viða, þar sem staðhættir eru þannig, að nota aðrar tegundir dýpkunarskipa, svo kallaðar sanddælur, en svo illa vill til, að ríkið á ekkert slíkt áhald enn þá. Fjöldi staða á landinu bíður eftir því að fá unnar nauðsynlegar framkvæmdir, vegna þess að vitamálaskrifstofan hefur ekki enn þá sökum fjárskorts getað lokið við að koma í gang slíku skipi, sanddælu, sem þó er verið að undirbúa. Vitamálastjóri hefur fyrir n. fært full rök að mínum dómi fyrir því, að hann þurfi nauðsynlega að fá þessa 200 þús. kr. fjárveitingu í viðbót til þess að geta fullgert þetta dýpkunarskip, og þess vegna er það, að ég flyt till. um, að þetta verði hækkað. Þessa till. flutti ég í n., en hún var felld þar.

Þá hef ég flutt hérna líka till. við 20. gr., þannig að það komi nýr liður, sem verði bygging nýs kennaraskóla. Það er alkunnugt, að kennaraskólinn hefur mjög orðið útundan í skólakerfi landsins hvað það snertir að fá viðunandi húsnæði, og þarf alls ekki að fara mörgum orðum um þá nauðsyn, sem á því er. Jafnframt því sem mjög auknar kröfur hafa verið gerðar til menntunar kennara, bæði lengdur þeirra námstími og sömuleiðis orðin nauðsyn á að fjölga þeim vegna aukins skólakerfis, þá er húsnæði kennaraskólans núna hið sama — eða að mestu leyti að minnsta kosti hið sama sem það var, þegar hann var stofnaður. Að vísu hefur verið reynt að bæta ofur lítið úr þessu með því að fá húsnæði annars staðar, en slíkt er mjög óviðunandi og ófullnægjandi. Ég legg þess vegna til, að sem aðaltill. komi hérna 750 þús. kr. og varatill. 500 þús. kr., og er það áreiðanlega of lítið, þótt ég hafi ekki séð mér fært að fara hærra, en þetta.

Þá flyt ég hérna í fjórða lagi við 22. gr. till. um, að ríkisstj. sé heimilt að breyta í óafturkræf framlög eftirtöldum lánum, sem ríkissjóður hefur veitt Búnaðarbanka Íslands, ásamt ógreiddum vöxtum af þessum lánum. Þetta er í fyrsta lagi lán veitt Ræktunarsjóði Íslands af gengishagnaði 1950, 6 millj. 874 þús. kr., og af tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1951, 7 millj. og 500 þús. kr., og sömuleiðis lán veitt Byggingarsjóði Búnaðarbankans af gengishagnaði 1950, 6 millj. 874 þús. kr., og af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1951, 7 millj. 500 þús. kr., og sömuleiðis lán veitt veðdeild Búnaðarbankans af greiðsluhagnaði ríkissjóðs 1951, 1 millj. kr. — Ég hef áður á þessu þingi bent á það í umræðum, hversu erfiður fjárhagur lánastarfsemi Búnaðarbankans er orðinn. Það gerði ég í sambandi við frv., sem ég flutti sérstaklega um að bæta úr því ástandi. En ég get bætt við fáeinum upplýsingum um það núna. Núna um þessi s.l. áramót, þegar uppgjörið fór fram, þá var ástandið þannig, að Ræktunarsjóður skuldar orðið sparisjóðsdeild bankans 21/2 millj. kr. Byggingarsjóðurinn, sem á að hafa með höndum geysilega mikla lánastarfsemi, bæði fyrir endurbyggingu sveitabýla og nýbýli, átti aðeins 1.6 millj. kr. Þá var ólokið miklum lánum, sem byrjað er að lána, þ.e.a.s. lánum út á allar þær framkvæmdir, sem hafnar hafa verið á s.l. ári, og nokkru út á framkvæmdir, sem hafnar voru áður, — yfirleitt er þeim ekki lokið á minna en einu til tveimur árum, — og auk þessa er veðdeildin, sem á að lána til vissra hluta, svo sem jarðakaupa og margs fleira, komin í einnar millj. kr. skuld við sparisjóðsdeildina. Allt það fjármagn, sem hugsanlegt er að bankinn hafi á næstunni til þess að anna starfsemi sinni, ef ekki tekst að fá erlent lán, sem mjög mun vera óvíst enn þá, er því aðeins 1.6 millj. kr., með tilliti til þess, að hann þurfi þó ekki að greiða aftur þær skuldir, sem þessar lánadeildir eru í við sparisjóðsdeildina. Nánast stendur það þannig, að ef greitt yrði allt það fé, sem hann kynni að hafa til lánastarfsemi núna, upp í þessar skuldir, sem lánadeildirnar eru komnar í, þá vantar samt sem áður allt að 2 millj. kr. til þess að geta það. — Það er alveg sýnilegt, að það verður þess vegna mjög lítið um lánastarfsemi á næsta ári, ef ekki verður úr þessu bætt.

Nú má e.t.v. segja, að till. sú, sem hér liggur fyrir, bæti ekki úr þessu nema að nokkru leyti. En hún bætir úr því að því leyti, sérstaklega fyrir framtíðina, að þar sem samkv. núgildandi reglum á bankinn að greiða aftur þessi lán öll á næstu 20 árum, þá mundi það létta stórkostlega mikið fyrir starfsemi hans á næstu árum, eða réttara sagt, það mundi losa Alþ. við stórkostlegt stímabrak við það að útvega honum starfsfé á þessu tímabili, því að það er í sjálfu sér ákaflega þýðingarlítið að vera að fást við það á hverju ári að útvega bankanum starfsfé fyrir það og það árið og láta hann svo jafnframt greiða aftur inn til ríkissjóðs stórar upphæðir í staðinn.

Ég hefði nú talið, að það væri nokkur vilji fyrir því í Alþ., að þessi till. yrði samþ., vegna þess að hún hefur komið fram áður í þinginu á þessu þingi og það á tveimur þskj. Ég hafði sett það fram í 9. gr. þess frv., sem ég flutti sjálfur hér á þinginu snemma, um útvegun lánsfjár til stofnlánadeildar Búnaðarbanka Íslands, og rétt örlitlu seinna fluttu þrír framsóknarmenn í Ed. sérstakt frv. einmitt um þetta atriði. Hvorugt þetta mál hefur fengizt afgr., og það er sýnilegt, að hvorugt þetta mál fæst afgr. sem slíkt í lagaformi á þinginu. Þess vegna finnst mér full ástæða til þess að taka nú upp á 22. gr. fjárlaga heimild fyrir ríkisstj. til þess að breyta þessu þannig.

Í grg. frv. þess, sem flutt var í Ed. af þremur þm. þar, segir m.a. um nauðsyn þessa máls, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og nú horfir, er ekki annað sýnt en að Búnaðarbanki Íslands verði á næstu árum að starfa að mjög miklu leyti með erlent lánsfé, eftir því sem fáanlegt er. En vextir af þessu erlenda fé eru svo háir, að bankinn hlýtur að verða af þeim sökum fyrir miklu rekstrartapi, þar sem Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður lána féð út aftur með 2 og 21/2 % vöxtum. Auk þess er útlánstími Byggingarsjóðs miklu lengri, en endurgreiðslutími hinna erlendu lána, og myndast þannig mikill greiðsluhalli umfram vaxtamismuninn. Halla þann, sem hér er um að ræða, verður ríkið að bæta bankanum á einhvern hátt, eila hlýtur starfsemi hans að stöðvast fyrr eða síðar. Virðist eðlilegast, að ríkið veiti bankanum aðstoð fyrst um sinn á þann hátt að breyta lánum þeim, sem það hefur veitt honum í innlendu fé á síðustu árum, í óafturkræf framlög. Sú ráðstöfun væri í samræmi við ályktanir, sem landssamtök bænda hafa gert á þessu ári.“

Nákvæmlega sömu rök og þessi hafði ég áður fært fram í grg. fyrir mínu frv. um þetta mál, og raunar meira.

Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að þremur till., sem ég flyt ásamt öðrum þm. á þskj. 610. Það er í fyrsta lagi till. frá mér og hv. þm. A Sk. um fyrirhleðslur til þess að varna landbroti í tvö stór jökulvötn í Skaftafellssýslu, Jökulsá í Lóni og Steinavötn í Borgarhafnarhreppi.

Skal ég fyrst minnast á fyrirhleðsluna í Jökulsá í Lóni. Þar leggjum við til sem aðaltill., að veittar verði til fyrirhleðslunnar 200 þús. kr., og til vara 100 þús.

Jökulsá í Lóni er eitt stærsta vatnsfall á Suðausturlandi og flæmist um allstóran sand, sem hún hefur búið til á löngum tíma. Nú hefur svo farið um nokkuð mörg ár, að hún hefur verið að fylla sína gömlu farvegi og hefur lagzt mjög að aðalgraslendi sveitarinnar, sem er um miðja sveitina og liggur við vesturbakkann, vesturhlið þess, og er nú búin að bera svo mikið þar í farvegina, að hún þarf ekki að vaxa nema tiltölulega lítið til þess að flæða yfir stórt svæði af aðalgraslendi sveitarinnar, skera alveg úr sambandi við aðra hluta sveitarinnar nokkra bæi, sem þar eru, og er sýnilegt, að þær jarðir geta ekki haldizt lengi í byggð, ef ekkert verður að gert.

Á bændafundi, sem haldinn var fyrir um það bil einu ári þar austur frá, var eindregið skorað á landbrn. og Búnaðarfélag Íslands að láta gera athugun á því, hvað kosta mundi að hlaða fyrirstöðu í ána þarna og veita henni vestur á sandinn, þar sem hún getur engan óskunda gert, og var brugðizt mjög vel við þeirri áskorun. Vegamálastjórninni var falið að láta annast þetta verk, og það framkvæmdi Sigurður Jóhannsson verkfræðingur á s.l. hausti. Niðurstaða hans varð sú, að það þyrfti að byggja 1.000—1.200 m langan varnargarð til þess að veita ánni lengra vestur á sandinn og mundi sá garður kosta um það bil 600 þús. kr. Gæti svo farið að vísu, að eftir nokkur ár, — ekki væri hægt að segja, hve fljótt eða hvort þess yfirleitt þyrfti, — það gæti þó svo faríð, að það þyrfti að lengja hann dálítið, þannig að það mætti reikna með, að þá gætu bætzt við, ef til þess kæmi, um 200 þús. kr. í viðbót.

Vegna þess, hvað þetta er mjög aðkallandi nauðsynjamál, þá höfum við, ég og hv. þm. A-Sk., talið okkur alveg nauðsynlegt að flytja þetta mál hér inn í Alþ. Í fjvn. var þetta fellt, en við flytjum það hér aftur í þeirri von, að e.t.v. kunni það að fá betri undirtektir í þinginu. Þessu máli verður að halda áfram þangað til einhver lausn fæst á því vegna hinnar miklu nauðsynjar á að forða hluta byggðarinnar frá eyðileggingu. Ég vil benda á annað í þessu sambandi líka, að með því að gera þessa fyrirhleðslu í ána getur sparazt verulegur kostnaður við vegagerð á þjóðvegi, sem annars er þarna fyrir, og er því í rauninni alls ekki hægt að segja, að hér sé um hreint framlag að ræða vegna landbrotsins, vegna þess að það getur sparað annað verk,sem annars kemur fyrir að vinna á næstu árum.

Þá er annar liður þessarar till. Það er til fyrirhleðslu í Steinavötn í A.-Skaftafellssýslu, 100 þús. kr. sem aðaltill. og til vara 60 þús. kr.

Það er í raun og veru mjög svipað að segja um þetta mál eins og hið fyrra. Steinavötnin eru allstórt jökulvatn, sem flæmast um svo kallaðan Steinasand og liggja nú mjög þungt orðið á engjum og beitilandi prestssetursins Kálfafellsstaðar og þeirra býla, sem eru í nánd við það. Er þar um 7 býli að ræða, og vil ég benda hv. þm. á það, að ríkið á 4 af þessum býlum.

Það er svipað að segja um undirbúning þessa máls eins og hins, að vegamálastjórninni var falið af landbrn. eða samgmrn. að láta gera athugun á þessu, og var hún gerð af sama verkfræðingi, Sigurði Jóhannssyni, á s.l. hausti. Niðurstaða hans er sú, sem birt er í bréfi frá vegamálaskrifstofunni, sem fjvn. barst, að til þess að varna þessum skemmdum muni þurfa að byggja um 500 m langan varnargarð nokkuð vestur á Steinasand og muni hann kosta um það bil 200 þús. kr. Vegamálastjóri bendir á það einnig, að það mundi að því reka síðar meir að brúa Steinavötn og þurfi þá hvort eð er að byggja víssa fyrirhleðslu til þess að halda ánni í sínum ákveðna farvegi, sem er vestar á sandinum, og muni þá þessi garður koma einnig að gagni, þegar það yrði gert. En ég vil aðeins endurtaka það, að hér er um að ræða hættu á stórkostlegum landspjöllum á ekki minna en 7 býlum, sem standa svo að segja mikið til í einu þorpi um miðhluta sveitarinnar, þ.e. prestssetrið Kálfafellsstaður og jarðir þær, sem upphaflega eru út úr því byggðar.

Þá er að síðustu hér ein till. frá mér og þremur þm. öðrum við 22. gr., um það, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 100 þús. kr., ef þörf gerist, til þess að ná samningum við flugfélögin um póstflutninga til staða úti á landi. Ég veit ekki, hvort það er nema sárfáum þm. kunnugt um það, að á s.l. sumri kom upp einhvers konar ágreiningur á milli póstmálastjórnarinnar og Flugfélags Íslands, sem hafði annazt mjög mikið póstflutninga út á land, einkum til staða, þar sem skip koma sjaldan, og ágreiningurinn var um það, hversu há farmgjöld skyldi greiða, þ.e., póstmálastjórnin vildi ekki greiða farmgjöldin svo há sem Flugfélagið taldi sig geta flutt póstinn fyrir. Afleiðingin af þessu varð mjög slæm. Á s.l. sumri var nokkur tími, sem ýmsir þessir staðir fengu engan blaðapóst nema með skipum og fengu hann þar af leiðandi mjög sjaldan, þannig að blöðin máttu heita orðin einskis virði, þegar þau loksins komu. Svo lagaðist þetta að vísu með einhverju samkomulagi undir haustið, en aðeins lítinn tíma, og þegar leið fram á haustið sótti aftur í sama horfið, og nú í vetur hefur það verið svo með ýmsa þessa staði, — mér er vel kunnugt um Austurland, og ég hygg, að það sé á Vesturlandi líka, — að ýmsir þeirra hafa aldrei fengið póst nema með mjög strjálum skipaferðum. Ég get t.d. upplýst það gagnvart Hornafirði, þar sem skipaferðir eru yfirleitt mjög strjálar, einkum vegna þess, að Esja eða Hekla geta ekki komið þar inn, og Herðubreið fer ekki þangað í strandferðum nærri því að öllu leyti, hún er höfð í strandferðum vestur um land líka, þá hefur sá staður orðið mjög illa úti hvað þetta snertir, þannig að það geta liðið mánuðir svo, að engin blöð berist í sýsluna. Það sér náttúrlega hver maður, að þetta er ekki viðunandi, og það er sýnilegt líka, að hér getur ekki verið um stórar upphæðir að ræða, sem þarf á að halda, til þess að hægt sé að kippa þessu í lag. Ég get meira að segja vel búizt við því, að þó að leyst væri viðunanlega úr þessu, þannig að samið væri við Flugfélagið um þann mismun, sem það þykist þurfa á að halda til þess að geta fært þetta í sama horf og áður, þá tel ég alls ekki víst, að það mundi einu sinni þurfa þessar 100 þús. kr. til, enda er till. orðuð þannig, að ríkisstj. sé aðeins heimilt að verja þessu, ef þörf gerist, til þess að ná þessum samningum. En það er nokkurn veginn óhætt að fullyrða það, að ef þessu heldur áfram eins og verið hefur, þá mun fjöldi af lesendum blaðanna, a.m.k. í Austur-Skaftafellssýslu, — það þori ég að fullyrða, — segja blöðunum upp, því að fólkið telur sér þau vera einskis virði, þegar þau eru orðin þetta þriggja, fjögurra, fimm og sex vikna gömul. Ég vildi þess vegna vænta þess, að hv. Alþ. sæi sér fært að samþ. þessa till. til þess að greiða úr þessum málum.