03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

30. mál, vegabréf

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir það nál., sem hér liggur fyrir, með fyrirvara og vildi aðeins gera grein fyrir því með örfáum orðum. Ég hef ekki í hyggju að bera fram neinar brtt. við frv., en með skírskotun til þess, sem stendur hér í grg., þá virðist mér, að þessi lagasetning hafi ekki verið það aðkallandi, að ekki hefði verið í raun og veru réttara að fresta því um sinn að setja slík lög sem þessi. Þess er sem sé getið í grg., að einmitt nú standi yfir tilraunir til þess eða sé unnið að því á vegum Evrópuráðsins að samræma vegabréf í Evrópu, og það er gefið í skyn í grg. einnig, að það verði að sjálfsögðu tekið tillít til þess, sem þar verður samkomulag um, að svo miklu leyti sem það mundi hæfa okkur, og þannig í raun og veru gefið í skyn, að það muni mjög fljótt þurfa að gera einhverjar breytingar á þessum l. Sömuleiðis eru, eins og hv. frsm. getur um, ekki settar í frv. sjálfar reglurnar um vegabréfin, heldur, eins og stendur hér í 1. gr., er dómsmrh. gefin heimild til þess að ákveða um þetta og setja um það reglugerð. Ég hefði fyrir mitt leyti talið heppilegra, þegar málið væri þannig undirbúið, að hægt væri að ganga fyllilega frá þessum reglum með tilliti til þeirrar samræmingar, sem hér er getið um, að þá hefði Alþ. sjálft endanlega ákveðið reglurnar og þær komið fram í l. Vegna þessara atriða tveggja skrifa ég undir með fyrirvara og álit sem sagt, að það hefði verið heppilegra að draga það enn um sinn að setja þessi l. og að þá hefðu þau verið sett fyllri en nú er, þannig að reglurnar hefðu þá falizt í l. sjálfum, þannig að Alþ. ákvæði þær, en fæli ekki ríkisstj. að gera það. — Þessa skýringu vildi ég gefa á mínum fyrirvara.