30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það skulu vera aðeins örfá orð, sem ég segi. Það var nú misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að ég hefði verið með nokkrar ásakanir til ríkisstj. út af því, að hér eru borin fram tvö frv. með sömu fyrirsögn um breyt. á sömu l. Mér er það vel ljóst og hefur verið það frá upphafi, að þetta kemur til af því, að frv. eiga upptök sín sitt í hvoru ráðuneyti. Það, sem ég sagði, var það, að mér þætti dálítið einkennilegt, að hv. Nd. skyldi ekki hafa steypt þessum frv. saman í eitt, þar sem þau lágu bæði fyrir henni samtímis, en ekki, að ég væri að ásaka hæstv. ríkisstjórn.

Út af þeim brtt., sem fyrir liggja, vil ég aðeins taka það fram, að n. var vitanlega kunnugt um, að þessar till. mundu liggja fyrir, a.m.k. sú till., sem tekin er hér upp orðrétt frá því, sem hún var borin fram í hv. Nd. Ég geri því ráð fyrir, að afstaða n. til þeirra atriða breytist ekki neitt og þó að till. hafi ekki verið sérstaklega ræddar í n., þá sé mér óhætt að lýsa því yfir fyrir hönd meiri hl. fjhn., að hún fallist ekki á slíkar till., enda er till. hennar, að þetta frv. verði efnislega samþ. óbreytt. Um rök fyrir þessu áliti læt ég nægja að vísa til ræðu hæstv. fjmrh.; þó að ég færi að rökstyðja þetta nánar, þá yrði það ekki annað, en endurtekning á því, sem hann sagði. Ég vil þó aðeins taka það fram út af þessum till., í raun og veru báðum, að mér finnst ekki vera verulegt samræmi í stefnu þessara hv. þm., sem þessar tili. bera fram. Það má ekki orða það hér að setja lagaákvæði um það, hvað kaupgjald skuli vera í landinu. Það er helgur samningsréttur — að því er flokkar beggja þessara hv. þm. telja — verkalýðsfélaganna að semja um kaup sín og kjör. En samt sem áður vilja þeir endilega, að Alþ. ákveði það, að hluti kaupsins skuli vera ákveðinn með lögum. Mér finnst ekki gott samræmi í því. Ef þeir vildu fallast á það, sem vel getur rekið að, að verði óhjákvæmilegt fyrir þjóðfélagið, að kjör stéttanna séu ákveðin með lögum, þá væri ekkert við þetta að athuga.

Það eina, sem hæstv. ráðh. hafði á móti því að steypa þessum tveimur frv. saman í eitt, var það, að af því kynni að hljótast töf. Ég veit, að ef það verður gert, þá þarf málið aftur að fara til einnar umr. í hv. Nd., en ég vona, að það megi haga því svo, að af þessu hljótist næsta lítil töf og a.m.k. ekki nema um einn dag. Ég mun við fyrsta tækifæri kalla fjhn. saman á fund til þess að taka ákvörðun um það, hvort hún vill fallast á það að steypa frv. saman eða ekki. Það getur vel verið, að það mundi valda töf, sem ég hreyfði í minni fyrri ræðu, að það væri æskilegt að taka þær breyt., sem gerðar hafa verið á gengislögunum, síðan þau voru sett, og steypa þeim saman við þetta einnig, og má athuga það nánar, og er sjálfsagt að taka tillit til óska ráðh. um það, að málið gangi sem fyrst fram.

Frá mínu sjónarmiði var ræða hv. 1. þm. N-M. mjög athyglisverð, og ég er alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, en þar get ég ekki talað fyrir n. hönd, að ef þessi þróun, sem hefur verið í landinu undanfarið, heldur áfram, — og ég sé nú ekki, að það muni breytast af sjálfu sér, hún hljóti að halda áfram, — þá sé ég ekki annað, en að á endanum verði þjóðfélagið neytt til að fara þá leið, sem hann er hér að tala um, hv. þm., að lögbinda bæði kaup og afurðaverð. Þjóðfélagið hefur svo mikil afskipti af kjörum manna í landinu og lífi, að ég sé ekki, að þetta sé eins mikil goðgá og sumir vilja vera láta. Samt sem áður, — þó að ég liti svona á og sé á margan hátt hv. 1, þm. N–M. sammála um þetta, — þá get ég ekki tekið undir það, að það sé fjhn. þessarar hv. d., sem geti haft forgöngu um það eða eigi að hafa forgöngu um það. Slíkt mál er svo stórt, að vitanlega þyrfti um það samninga á milli flokka og hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir slíku máli. Og því miður er ég nú hræddur um, að sá tími, sem nú er, þegar við höldum þetta Alþ., sé ekki hentugur til slíkra stórræða, enda sjálfsagt rétt, að það er ekki gerandi nema í ýtrustu neyð að hafa slík afskipti af löggjafarvaldsins hendi af einkamálum manna og stétta, en það getur nú að því rekið, að þjóðfélagið hafi ekki nema um tvennt að velja, annan kostinn þann, að hreint og beint farast að meira eða mínna leyti, og hinn, að hafa meiri afskipti af því, hvernig fólk í landinu hagar sér, heldur en verið hefur. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, hvorn kostinn beri að taka, ef að því kæmi. Og það kann að verða fyrr, en menn búast við nú, að ekki verði nema þessir tveir kostir fyrir hendi, ef sama þróun heldur að öllu leyti áfram.