19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þessu frv. var vísað til fjhn. 12. des. s.l. Ég get þó ekki viðurkennt, að afgreiðsla þess hafi dregizt um skör fram, einkum þegar þess er gætt, að þriggja vikna þinghlé var gefið fyrir jólin. Auk þess er hér um allumfangsmikið mál að ræða og nýmæli, sem nm. þurftu eðlilega nokkurn tíma til að athuga. Hefur n. rætt málið á mörgum fundum og varið til þess löngum tíma. N. hefur sent bönkunum og fleiri aðilum frv. til umsagnar, og mun ég síðar víkja að svörunum.

Eins og nál. meiri hl. á þskj. 540 og minni hl. á þskj. 543 bera með sér, klofnaði n. um málið. Hv. 1. landsk. þm. (BrB) telur þessa bankastofnun óþarfa og leggur til, að frv. verði vísað frá með þeim forsendum. Við hinir fjórir nm., sem skrifuðum undir nál. meiri hl. á þskj. 540, leggjum hins vegar til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt. Hv. þm. Barð. skrifar þó undir nái. með fyrirvara, sem hann gerir sjálfsagt grein fyrir.

Það er eðlilegt, að menn leggi fyrst þá spurningu fyrir sig viðvíkjandi þessu máll, hvort þörf sé á þessari bankastofnun. Því svarar hv. minni hl. neitandi. Og víst er um það, að ýmsum hafa þótt bankar nógu margir hér á landi. En þegar frv. það, sem hér liggur fyrir, er athugað og málið í heild, þá verður augljóst, að Framkvæmdabankanum er ætlað alveg sérstakt verkefni og ólíkt starfi annarra banka landsins eins og það hefur verið og er. Má jafnvel segja, að stofnun sú, sem ráðgerð er í frv., þyrfti ekki endilega að heita banki, þó að mönnum hafi ekki dottið annað heppilegra nafn í hug. Í þessu sambandi má benda á, að bankanum er ætlað að vera í sambandi við Landsbankann, þannig að Landsbankinn annist afgreiðslu og bókhald fyrir hann. Sýnir það meðal annars sérstöðu hans.

Ef Framkvæmdabankinn verður stofnaður samkv. þessu frv., verða höfuðverkefni hans tvenns konar og bæði töluvert ólík þeirri bankastarfsemi, sem tíðkast hér á landi og víðast hvar. Í fyrsta lagi er honum ætlað að taka við ýmsum störfum, sem fjmrn. hefur nú með höndum. Má þar fyrst nefna stjórn mótvirðissjóðs, einkum þegar til þess kemur, að lán þau, sem hafa verið veitt úr honum, fara að greiðast aftur og það fé, sem þannig kemur inn, verður lánað á ný samkv. þeirri samþykkt, sem Alþ. hefur þegar gert um það efni. Er lítt hugsandi að láta rn. annast slíka lánastarfsemi. Í annan stað er gert ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn taki við umsjá ýmissa lána, sem ríkið hefur tekið í útlöndum og endurlánað innanlands. Munu lán þessi nema yfir 200 millj. kr. Hygg ég, að vart muni dæmi þess, að nokkurt ríki hafi gengið tiltölulega jafnlangt inn á þá braut, sem hér er gengið eftir. Er alveg fráleitt, að mér finnst, að eitt rn. fáist við slíka starfsemi. Það er þá um leið orðið eins konar bankastarfsemi, sem ráðuneyti eru ekki vön að hafa með höndum.

Annað höfuðverkefni bankans er ætlazt til að verði að afla lánsfjár til langs tíma, innanlands eða utan, og lána það aftur sem stofnlán til ýmissa þjóðþrifafyrirtækja. Ef til vill mætti segja, að þeir bankar, sem fyrir eru í landinu, gætu annazt þessa starfsemi. Við tvo þeirra starfa og stofnlánadeildir, sem lána til langs tíma, í Búnaðarbankanum Byggingarsjóður og Ræktunarsjóður, og svo er stofnlánadeild sjávarútvegsins. En ríkissjóður hefur orðið að leggja stofnlánadeildum þessum til stofnfé og starfsfé þeirra beint og óbeint. Þá má og nefna veðdeild Landsbankans, sem byggir starf sitt á vaxtabréfasölu og einnig lánar fé til langs tíma. En starfsemi hennar er tiltölulega litil nú, sem stafar, að því er ég hygg, af sölutregðu á bréfunum. Að öðru leyti starfa bankarnir að mestu leyti með sparisjóðsfé, og svo Landsbankinn með þeim seðlum, sem hann hefur rétt til að gefa út. En sparifé er nú þannig, að það má ýmist taka það út fyrirvaralaust með öllu eða í hæsta lagi með sex mánaða fyrirvara, og er það ekki fallið til að verja því til stofnlána eða lána um lengri tíma, þótt slíkt hafi raunar oft verið gert af nauðsyn og sennilega meira, en varlegt verður að telja.

Okkur Íslendinga vantar enn mikið fjármagn til fjölmargra nauðsynlegra framkvæmda, þó að miklar framfarir hafi átt sér stað á síðustu áratugum. Þetta fjármagn, sem svo brýn þörf er á til langs tíma, getur ekki komið nema eftir tveimur leiðum, í fyrsta lagi, að þjóðin spari saman fé og fáist þá til að geyma það um lengri tíma í lánsstofnunum, og í öðru lagi með lánsfjáröflun frá útlöndum. Framkvæmdabankanum, ef hann verður stofnaður, er ætlað að vinna að útvegun fjármagns eftir báðum þessum leiðum, annars vegar með skuldabréfasölu og á annan hátt innanlands og hins vegar með lántökum erlendis. Ef vel tækist til um þetta, mundi bankinn þannig leysa ríkið af hólmi um lántökur til eins og annars, sem ekki er sjálfum ríkisrekstrinum viðkomandi, og losa þing og stjórn að miklu eða helzt öllu leyti við hið dæmalausa kvabb um lánsfjárútvegun til ýmissa framkvæmda, sem nú á sér stað. Ég segi dæmalausa, því að það mun hvergi tíðkast nema hér, að sjálf ríkisstj. þurfi t.d. að ganga í það að útvega smálán til ýmissa aðila og verði svo fyrir sífelldum áróðri í því efni af einstaklingum, stofnunum, sveitar- og bæjarstjórnum og fulltrúum á þingi þjóðarinnar. Ef Framkvæmdabankinn verður settur á stofn og ef honum tekst að rækja það hlutverk, sem honum er ætlað, þá eiga þessir aðilar að geta snúið sér beint til bankans með lánbeiðnir eða þá til þeirra lánsstofnana, sem bankinn hefur útvegað fé í því skyni, og mundi það verða tíðara, — við skulum segja eins og til hafnargerða og annarra slíkra framkvæmda, — og það án þess að áróður frá sjálfri ríkisstj. þurfi að koma til, að slík lán fáist, ef um heilbrigt fyrirtæki er að ræða.

Að því er útlent fjármagn snertir, þá er gert ráð fyrir, að það verði Alþjóðabankinn, sem muni frekast lána til þessarar stofnunar, sem hér um ræðir, því að peningaviðskipti milli þjóða eru mjög að breytast á þann veg, að Alþjóðabankinn lánar til einstakra þjóða, og þeir, sem hafa fé aflögu til þess að lána öðrum þjóðum, lána það ekki beint, heldur leggja það í Alþjóðabankann.

Eins og ég sagði áðan, sendi fjhn. bönkunum frv. þetta til umsagnar. Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn leggja ekkert til þessa máls. En Landsbankinn hefur sent n. álit um málið, sem hann hafði áður sent viðskmrh. Er það álit bankans prentað sem fskj. með nál. hv. minni hl. á þskj. 543. Að vísu segir Landsbankinn ekki beinlínis neitt um það, hvort hann mæli með eða móti, að Framkvæmdabankinn verði stofnaður, en þar sem hann ekki mælir á móti því og þar sem hann ber fram ýmsar brtt. við það frv., sem lá fyrir frá mþn., og sumar og jafnvel þær, sem Landsbankinn lagði mesta áherzlu á, hafa verið teknar til greina, þá má líta svo á, að Landsbankinn, eða meiri hluti stjórnar hans, sé því fremur meðmæltur, að þessi stofnun verði sett á fót. Sérstöðu hefur einn af bankastjórunum, Jón Árnason, og er álit hans einnig prentað sem fskj. með þessu sama nál. Hann telur nú, að Landsbankinn geti annazt þessi störf, og eins kemur hann fram með kenningu viðvíkjandi mótvirðissjóðnum, sem ekki hefur mikið verið á orði hingað til, en er að sjálfsögðu til athugunar. Skal ég ekki fara lengra út í þau atriði, sízt fyrr en minni hl. hefur þá gert nánari grein fyrir sínu áliti.

Þá leitaði n. einnig umsagnar fjárhagsráðs, og svaraði það með bréfi, dags. 16. des. s.l., og er það svo hljóðandi:

„Fjárhagsráð hefur móttekið bréf fjhn. Ed. Alþingis, dags. 13. des. s.l., þar sem óskað er umsagnar ráðsins um frv. til l. um Framkvæmdabanka Íslands og óskað eftir svari við því fyrir mánudagskvöld 15. des. Fjárhagsráð hefur að sjálfsögðu enga möguleika á að kanna frv. vandlega á svo skömmum tíma og telur sér því ekki fært að láta í ljós rökstutt álit um það, en við fljótan yfirlestur sér það ekki neitt við það í frv. að athuga, sem varðar fjárfestingarmál og önnur því skyld atriði.“

Undirskrifað af Magnúsi Jónssyni, formanni fjárhagsráðs.

Efni frv., sem hér liggur fyrir, sé ég ekki ástæðu til að rekja í einstökum atriðum, en læt nægja í því efni að vísa til hinnar ýtarlegu grg., sem fylgir frv. á þskj. 427, svo og til nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 540, þar sem einnig er gerð nokkur grein fyrir efni frv. Ég skal þó taka fram í þessu sambandi, að sumum nm. þótti ákvæði 8. gr. frv. nokkuð óljós, en þar er svo kveðið á:

„Fé það úr mótvirðissjóði, er bankinn fær til eignar samkvæmt 1. tölul. 3. gr., svo og fé það, er hann fær til ráðstöfunar samkvæmt 4. gr., skal bankinn lána að hálfu til framkvæmda í þágu landbúnaðarins og að hálfu til eflingar framleiðslu og framkvæmdum fyrir kaupstaði og kauptún, jafnóðum og fé þetta verður bankanum handbært, ásamt vaxtatekjum af því, en að frádregnum hlutfallslegum kostnaði við rekstur bankans.“

Er efni greinarinnar í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis, sem fram kom í þál. frá 17. jan. 1952. Það, sem einkum þótti orka tvímælis í greininni, var, hvað átt væri við með orðunum: „til framkvæmda í þágu landbúnaðarins“. Ég fyrir mitt leyti tel engan vafa á, að átt sé við hvers konar framkvæmdir, sem gerðar eru í þágu landbúnaðar og bænda, þótt þær séu ekki landbúnaður í þrengstu merkingu. Þar með tel ég t.d. raforkuveitur um sveitir landsins og rafstöðvar, sem sérstaklega er komið upp vegna sveitanna. Er ég og sannfærður um, að fátt eða ekkert er nú landbúnaðinum og bændum landsins meiri nauðsyn en að fá rafmagn í sveitirnar. Ég veit ekki betur en að öll n. sé mér sammála um skilning á þessari grein, og virðist mér hann svo auðsær, að ekki þurfi breytinga við til skýringa. Væri hins vegar svo, að aðrir hefðu annan skilning á þessu, t.d. þann, að aðeins væri átt við landbúnað í allra þrengstu merkingu, svo sem jarðrækt og húsabyggingar í sveitum, þá þyrfti það að koma fram nú þegar, svo að hægt væri að bera fram brtt. til skýringar við 3. umr.

Ég skal nú víkja að þeim brtt., sem meiri hl. n. leggur til að gerðar verði á frv.

1. brtt. er við 3. gr. og er um það að fella niður ákvæði um, að ríkissjóður afhendi bankanum sem stofnfé m.a. hlutabréf í raftækjaverksmiðjunni 50 þús. kr. og í Eimskipafélagi Íslands 100 þús. kr. En þá verður heildarupphæð stofnfjárins að lækka samkv. því um 150 þús. kr., eða í 101 millj. kr. Skiptir þetta ekki miklu fyrir bankann, þó að stofnfé lækki um svo litla upphæð. Hins vegar fannst sumum nm. og þar á meðal mér leiðinlegt að afhenda hlutabréf ríkisins í Eimskipafélagi Íslands, er ríkið hefur átt svo lengi, og er þessi till. þess vegna borin fram, en þá þótti ekki lengur taka því eða skipta máli að afhenda 50 þús. kr. hlutabréfin í raftækjaverksmiðjunni. Er því ekki hér um önnur hlutabréf að ræða samkv. till. n. en í áburðarverksmiðjunni, 6 millj. kr.

Önnur brtt. n. í tveimur stafliðum er borin fram út af því, að ef til vill mætti skilja orðalag 4. gr. frv. svo, að þar sé beinlínis verið að gera ráð fyrir nýrri efnahagsaðstoð í sambandi við efnahagssamvinnu vestrænna þjóða. Þetta kann meiri hl. n. ekki við og telur ekki viðeigandi. Brtt. tekur því af öll tvímæli um það, að aðeins sé átt við það fé, sem nú er í mótvirðissjóði eða í hann kemur vegna efnahagsaðstoðar, sem þegar hefur verið látin í té.

Þriðja brtt. er nánast orðabreyt., þannig að í stað orðsins „stuðning“ í 8. tölul. 7. gr. komi: „fyrirgreiðslu“. Telur meiri hl. þetta betra orðalag og auk þess kynni orðið „stuðning“ að valda þeim misskilningi, að jafnvel væri átt við styrk. En það var aldrei meiningin.

Fjórða brtt. meiri hl. er eins konar málamiðlun. Innan meiri hlutans kom fram óánægja með það ákvæði 9. gr. frv., að fjmrh. væri heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkisstj. allt að 100 millj. kr. fyrir bankann til lántöku erlendis. Vildi einn hv. nm. fella þetta ákvæði niður og til slíkrar ábyrgðar þyrfti samþykki Alþ. hverju sinni eða lög eins og nú á sér stað t.d. um Landsbankann og aðrar stofnanir. Varð þá að samkomulagi, a.m.k. milli 3 nm., að lækka þessa upphæð í 80 millj. kr., en ekki veit ég, hvort það fullnægir þeim hv. nm., sem vildi fella ákvæðið alveg niður. Ég fyrir mitt leyti tel — og a.m.k. 3 nm. líta eins á — að bankinn þurfi að hafa slíka fasta lántökuheimild erlendis, ef hann á að hafa þá forgöngu um útvegun erlends lánsfjár, sem til er ætlazt. Hitt væri stirt og óþægilegt, að þurfa að leita sérstakrar lagaheimildar í hvert sinn. En hvort þessi fasta heimild er 100 millj. kr., eins og stendur í frv., eða 80 millj. kr., held ég að ekki sé svo þýðingarmikið, að ekki sé vinnandi til samkomulags að fallast á lægri upphæðina. Jafnvel þótt þessi heimild væri felld niður úr frv., hygg ég, að öryggi ríkissjóðs ykist ekki mjög mikið við það. Ríkisstj. hefur rétt til að gefa út brbl., og það hefur oft komið fyrir, að hún hefur veitt sjálfri sér heimild til lántöku og ábyrgðar fyrir hönd ríkissjóðs með því móti, og þótt slíkt geti virzt vafasamt frá þingræðislegu sjónarmiði, þá er þó reynslan sú, að Alþ. hefur jafnan staðfest þær aðgerðir á eftir. Svo mundi enn vafalaust fara, þó að þetta ákvæði væri fellt niður. Það mundi sjálfsagt koma að því, að bankinn þyrfti ríkisábyrgð milli þinga og stjórnin þá veita honum hana með brbl. Og hvað væri þá unnið, að því er tryggingu fyrir ríkissjóð snertir? Hins vegar væri slíkt fyrirkomulag þyngra í vöfum, og ég get jafnvel vel hugsað mér það, að það gæti rýrt lánstraust bankans erlendis, eða hjá Alþjóðabankanum, ef hann þyrfti sífellt að eiga undir högg að sækja að fá lagaheimild til hverrar lántöku.

Fimmta brtt. meiri hlutans, við 14. gr. frv., er einnig eins konar miðlun. Nokkur ágreiningur var innan meiri hlutans um skipun bankaráðsins, og náðist fullt samkomulag um þessa tilhögun, sem lagt er til með brtt. Breyt. er einungis í því fólgin, að allir hinir kosnu bankaráðsmenn skuli frá upphafi kosnir til jafnlangs tíma, eða 6 ára, í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að fulltrúi seðlabankans sé í fyrsta sinn kosinn til 3 ára. Þetta ákvæði frv. mun hafa átt að tryggja það, að aldrei væri skipt um alla hina kosnu bankaráðsmenn í einu. Meiri hl. n. viðurkennir að vísu, að slíkt mundi vera óheppilegt, a.m.k. ef engin sérstök ástæða væri til skipta. Hins vegar telur hann þó ekki þörf á að fyrirbyggja þetta beinlínis með l. Reynslan hefur margoft sýnt, að menn eru mjög oft endurkosnir í slíkar stöður eins og bankaráðsstöður og því lítil sem engin hætta á, að skipt yrði um alla hina kosnu bankaráðsmenn í einu, þótt kjörtími þeirra sé jafnlangur og þeir allir kosnir í einu frá upphafi.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta frekar. Um till. hv. minni hl. um að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá skal ég ekki frekar ræða, fyrr en þá ef til vill þegar hann hefur gert grein fyrir sinni afstöðu. Brtt. aðrar en frá meiri hl. hafa ekki komið fram og því ekki um þær að ræða. Ég endurtek því, að það er till. meiri hl. n., að frv. sé samþ. með þeim brtt., er greinir á þskj. 540.