28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef ekki enn þá getað skilað nál. um þetta mál, meðfram vegna þess að ég hef verið að doka við eftir hugsanlegum umsögnum um málið. Það hefur verið hafður sá háttur á þessu máli í þinginu, sem ekki getur talizt beint þinglegur, að afgreiðslu þess hefur verið hraðað alveg undarlega mikið. Þegar hv. fjhn. Ed. hafði þetta mál til meðferðar, var þar ákveðið að óska eftir umsögn allra þriggja aðalbankanna hér. Hins vegar var gefinn það skammur tími til þess að veita þessar umsagnir, — það var gert að skilyrði, að þær yrðu útbúnar um eina helgi, — að bankastjórar þessara þriggja ríkisbanka álitu það beinlínis móðgandi, hvers konar afgreiðslu fjhn., eða meiri hl. hennar, hafði á þessu. Tveir bankarnir svöruðu þess vegna því, að þeir gætu ekki sent umsögn á svona skömmum tíma og álitu það bókstaflega ekki rétt, en sökum þess að Landsbankinn hafði látið ríkisstj. í té umsögn um málið áður, þegar það lá fyrir bankamálanefnd og hún hafði leitað álits, þá sendu þeir afrit af umsögnunum til ríkisstj. til fjhn. Ed. Meiri hl. fjhn. Ed. birti ekki þessa umsögn Landsbankans. Ég býst við, að það sé í fyrsta skipti í þingsögunni, sem það hefur komið fyrir um bankamál, að leitað hafi verið umsagnar hjá seðlabanka landsins, aðalþjóðbankanum, og þegar slík umsögn með svona skömmum fyrirvara síðan fæst, þá birtir meiri hl. fjhn. ekki einu sinni álitið, og voru jafnvel vissar vöflur á um tíma, að nm. fengju álitið til athugunar. Það varð því úr, að minni hl. fjhn. Ed. birti þetta álit Landsbankans með sínu minnihlutanál. sem fylgiskjal. Þegar þetta mál kom til fjhn. í þessari hv. d., þá lagði ég til, að þetta mál yrði sent þeim bönkum til umsagnar, sem ekki hafði verið gefinn nægilegur kostur á að athuga málið og gefa sína umsögn um það, en það var fellt af stjórnarmeirihl. í n., og málið fékkst ekki sent frá n. í heild til ríkisbankanna.

Nú sé ég, að það er lagt ákaflega mikið kapp á að flýta þessu máli, og ég veit þess vegna ekki, hvort mér vinnst sem minni hl. n. tími til þess að fá nokkrar umsagnir um þetta mál, því að þeir menn, sem af ríkisvaldsins hálfu hafa verið taldir sérstaklega færir til þess að stjórna bankastofnunum Íslands, vilja auðvitað gefa sér tíma til þess að athuga vel, hvað meiningin sé með svona frv. eins og því, sem hérna liggur fyrir. Ég mun þess vegna ljúka mínu nál. í dag, hvort sem ég get birt með því umsagnir eða ekki, og vildi aðeins láta þetta strax koma fram hér viðvíkjandi meðferð málsins.

Þá er annað atriði, sem þegar sannar, hve óhæg sú meðferð er, sem þetta frv. hefur sætt í Alþingi. Það er afstaða sú, sem áður var tekin og nú er breytt viðvíkjandi 3. gr., 2. lið, um hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni. Eins og ég upplýsti við 1. umr. þessa máls, þá var form. bankamálanefndar, dr. Benjamín Eiríksson, kallaður fyrir n. til þess að yfirheyra hann um hans skoðanir á þessu frv. og hver meiningin væri með hinum einstöku greinum þess. Aðspurður svaraði dr. Benjamín Eiríksson, að meining hans með því, að Framkvæmdabankinn fengi hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, að upphæð 6 millj. kr., til ráðstöfunar, væri, að þau yrðu seld. M.ö.o., dr. Benjamín Eiríksson sem form. bankamálanefndar og, eins og ég hef haldið hér fram ómótmælt, tilvonandi bankastjóri þessa Framkvæmdabanka og sá, sem af hálfu Alþjóðabankans hefur verið eins konar trúnaðarmaður hans, svo að ekki séu viðhöfð nein verri orð, hér á Íslandi, — hann útbýr þetta frv., sem ríkisstj. sjálf lýsir yfir að sé útbúið í samræmi við vilja Alþjóðabankans og þess útlenda manns, sem hann sendi hingað líka, — hann útbýr þetta frv. með það fyrir augum, að hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni séu seld. Og í Ed., þegar till. koma þar fram um, að þessi 2. liður sé felldur burt, þá eru þær till. felldar. Þegar rætt er um þetta atriði í fjhn. þessarar hv. d., þá er enn enginn bilbugur á stjórnarmeirihl. Hins vegar er þetta mál þegar orðið að hneyksli hjá þjóðinni. Það er orðið svo greinilegt, hvernig meiningin er af ríkisstj. og flokkum hennar að taka áburðarverksmiðjuna með lögum og ólögum úr eign ríkisins og í eign nokkurra einstakra aðila á Íslandi.

Ég sýndi hér fram á við 1. umr. þessa máls, hvernig samsærið um að ná áburðarverksmiðjunni í greipar einstakra aðila úr eign ríkisins hefði verið skipulagt frá upphafi, frá því að brtt. kom fram við síðari umr. í Ed., brtt., sem nú er 13. gr. laganna um áburðarverksmiðjuna, og hvernig þetta, sem dr. Benjamín Eiríksson upplýsti fyrir fjhn. Ed., átt3 að vera kóróna á verkið.

Ég skil, hvað því veldur, að nú er því lýst yfir af meiri hl., að ríkisstj. muni ganga inn á að fella það burt, að Framkvæmdabankinn fái hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni sem stofnfé. Ég sé, að stjórnarflokkunum finnst þeir sjálfir hafa gengið fullfrekt til verks og það sé ekki varlegt fyrir kosningar að láta það verða ljóst, hvernig ná eigi áburðarverksmiðjunni úr eign ríkisins og undir vald nokkurra einstakra manna, þess vegna sé nú gengið inn á það núna að fella þetta út, a.m.k. fyrir kosningar, hvað sem kunni svo að verða gert að kosningum loknum.

Mér þykir út af fyrir sig vænt um þetta undanhald. Það sýnir, að þrátt fyrir alla þá óskammfellni, sem búið er að beita í sambandi við áburðarverksmiðjumálið, þá hafa stjórnarflokkarnir enn þá ofur lítinn beyg af kjósendum. Hins vegar þekki ég allt of vel af reynslunni, hvað sá beygur minnkar, þegar kosningar eru liðnar hjá. Ég gæti trúað, að hugrekkið yrði allmiklu meira eftir næstu kosningar, en það verður auðvitað kjósendanna að reyna að sjá um að vera á verði í því efni. — Og þá skal ég víkja nokkru nánar að frv. og minni afstöðu til þess.

Mín afstaða er í fyrsta lagi sú, að ég álit þennan banka vera óþarfan. Ég álít, að það sé heppilegra, að við vinnum að þeim framkvæmdum, sem hér í 7. gr. er talið upp að þessi banki eigi að hafa með höndum og ekki eru neinar nýjar framkvæmdir raunverulega, með þeim bönkum, sem við nú höfum fyrir í þjóðfélaginu. Það eru engin ný verkefni, sem ekki einhver af núverandi ríkisbönkum á að hafa, sem þessum banka eru lögð á herðar. En það er einn höfuð munur á þessum banka og öllum hinum. Þetta er fyrsti bankinn á Íslandi, frá því að Íslandsbanka sáluga leið, sem skapaður er fyrir kröfu og áhrif útlendra banka og ætlaður er til þess sérstaklega að verða eins konar tæki fyrir útlent auðmagn í landinu. Þegar Íslandsbanki forðum daga var stofnaður, þá var hann, eins og alþjóð veit, að miklu leyti með dönsku auðmagni, og að nokkru leyti var hann eign dansks banka, og Íslandsbanki var á þeim tíma ætíð talinn svo að segja hinn danski banki á Íslandi, á fyrsta áratug aldarinnar, og talinn í stjórnmálunum alveg sérstaklega styðja þá aðila, sem helzt voru hægfara í okkar sjálfstæðismálum, og eins konar bakhjarl þeirra, sem skemmst vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni við Dani.

Ég sé, að með þessum banka, Framkvæmdabanka Íslands, er nú stofnað til banka hér á Íslandi, sem á að verða beinlínis fulltrúi fyrir amerískt auðvald á Íslandi. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki heldur dregið neina dul á þetta. Hún skýrir frá því í sinni grg., að þessi banki sé til orðinn fyrir óskir Alþjóðabankans, til þess að hann hafi betri aðstöðu til þess að sjá um, að þeim skilyrðum, sem hann setur fyrir sínum lánum, sé framfylgt. M.ö.o., það er strax viðurkennt í grg. þessa frv. af hálfu hæstv. ríkisstj., að þetta sé í fyrsta lagi eins konar eftirlitsbanki Alþjóðabankans og þar með amerísks auðmagns með framkvæmdum á Íslandi. Í öðru lagi er auðséð af þessu frv. og sérstaklega 7. gr. þess og þeirri sérstöku heimild, sem bankinn fær með 7. liðnum í þeirri grein, að mega taka lán erlendis án þess að þurfa að heyra undir ákvæðin í lögunum viðvíkjandi Bretton Woods samþykktinni, án þess að þurfa að spyrja ríkisstj. nokkuð um leyfi, að þessum banka er ætlað að taka sérstök lán utanlands, og þá er gefið, að það yrði fyrst og fremst í Bandaríkjunum, hjá Alþjóðabankanum eða hjá þeim amerískum bönkum, sem hann hefur sérstakt samband við, og veita þeim lánum út í íslenzkt atvinnulíf með því móti, sem bankastjóranum þykir rétt. Og það er tekinn upp alveg nýr háttur, sem ekki hefur þekkzt áður í íslenzkri bankastarfsemi, hvernig veita skuli þetta fjármagn út í íslenzkt atvinnulíf. Það er tekinn upp sá háttur í fyrsta lagi samkv. 7. gr., 2. lið, að kaupa skuldabréf í fyrirtækjum, sem bankastjórn álítur sérstaklega arðbær, og í samræmi við 3. lið að kaupa ný hlutabréf í fyrirtækjum, sem séu arðvænleg að dómi bankastjórnarinnar. Hingað til hefur öllum íslenzkum bönkum verið bannað að kaupa slík hlutabréf. Hvernig stendur nú á því, að þessi ákvæði skuli sérstaklega vera sett þarna inn í? Eins og ég áður hef skýrt, þá hefur fjhn. ekki fengizt til þess að ræða þessi ákvæði. Engin skýring hefur fengizt á því, hvaða sérstök ástæða sé til þess, að farið sé inn á þessa braut, sem hingað til hefur verið bönnuð í íslenzkri bankastarfsemi. En ég skal skýra, hvernig á þessu stendur og hver meiningin er með þessum ákvæðum.

Þegar t.d. amerískt auðmagn, annaðhvort í gegnum banka eða auðhringa, lánar fé til þessa Framkvæmdabanka, þá mun það gera það að skilyrði, að stofnuð séu hlutafélög hér, sem hafi þá starfrækslu með höndum, sem viðkomandi auðhringur eða banki hans álitur heppilegt að leggja hér í. Við skulum taka sem dæmi, að þeir vilji leggja hér í aluminiumvinnslu eða eitthvað þess háttar. Þá á að skapa að nafninu til íslenzkt hlutafélag. Síðan á þessi Framkvæmdabanki sumpart að lána því, sumpart að kaupa skuldabréf og sumpart að kaupa hlutabréf í því, sem bankinn getur átt og hann getur veðsett þeim amerísku auðmönnum, sem leggja féð til, þannig að hægt sé að fara í kringum öll lög, sem Ísland hefur nú búið við um áratugi og eiga að tryggja það, að ekki sé hægt að mynda leppfélög hér á Íslandi. M.ö.o., þessum banka er sérstaklega ætlað að brjóta niður þá löggjöf á Íslandi, sem hingað til hefur átt að reyna að hindra það, að útlent auðmagn geti gleypt atvinnulíf svona tiltölulega lítils og fátæks lands á alþjóðamælikvarða. Þessi banki er undanþeginn öllum þessum kontrolum, sem ekki sízt undir áhrifum bænda og verkamannastéttarinnar hafa verið settar hér á Íslandi á undanfarinni hálfri öld til þess að koma í veg fyrir, að erlent auðmagn læsti klóm sínum í atvinnulíf okkar landsmanna. Allar þessar skorður á nú að rífa niður, og það á að losa Alþingi og ríkisstj. við að þurfa að leyfa eða gefa undanþágur eða annað slíkt í þessum efnum, vegna þess að hv. stjórnarflokkar eru hræddir um, að það yrði nokkuð tafsamt að selja smátt og smátt auðlindir Íslands og framtíðarmöguleika nýs atvinnulífs hjá þjóðinni, eins og okkar stóriðju, — það yrði nokkuð tafsamt að fá leyfi á Alþingi til þess að selja þetta í hendur á amerísku auðmagni.

Þessi banki á að geta verið sá kanall, þau göng, sem grafin séu fram hjá ríkisstj. og Alþingi og amerískt auðmagn geti runnið beint gegnum inn í íslenzkt atvinnulíf og ráðið til fullnustu öllu því íslenzka atvinnulífi, sem það snertir á. Þessi ákvæði, sem hér er verið að leggja til af meiri hl. að samþ., koma þess vegna til þess að marka tímamót í sögu íslenzks atvinnulífs hvað þetta snertir. Sannleikurinn er, að þrátt fyrir allt það arðrán, sem við Íslendingar höfum átt við að búa af útlendum auðhringum á undanförnum áratugum, þá hafa hinir útlendu auðhringar seilzt lítið inn í okkar atvinnulíf. Við höfum verið arðrændir af fiskhringum erlendis, af voldugum feitmetishringum, eins og Unilever, og voldugum olíuhringum, eins og öllum er kunnugt, af ensku bönkunum, meðan þeir héldu sinni arðránskló yfir okkar landi, en útlenda auðmagnið hefur ekki farið inn í sjálft íslenzka atvinnulífið; það hefur hvorki farið inn í landbúnaðinn né sjávarútveginn og það af þeim einföldu ástæðum, að landbúnaður og sjávarútvegur eru atvinnugreinar, sem auðvaldinu, sem er vant að heimta stóran og mikinn arð, þykir ekki sérstaklega girnilegt að leggja í. Nú eru hins vegar fram undan, eins og öllum þeim er ljóst, sem nokkuð þekkja inn á auðlindir Íslands og nokkurn áhuga hafa fyrir að notfæra þær fyrir þjóðina, að sá auður, sem við eigum í okkar fossum, er meiri en sá, sem við eigum í okkar sjó, ef við aðeins höfum vit og vilja til þess að hagnýta þennan auð, þessar auðlindir fyrir okkur sjálfa. Við eigum hægara með vegna okkar fátæktar og vegna okkar smæðar að hagnýta sjávarútveginn og landbúnaðinn. Það hefur verið rétt af okkur að leggja eins mikla áherzlu á það eins og við höfum gert, því að sérstaklega með þeim auð, sem við getum ausið upp úr okkar fiskimiðum, ef við fáum í friði fyrir afturhaldssamri ríkisstj. að ausa þeim auði upp og selja okkar fisk erlendis, þá getum við lagt grundvöll að stóriðju í okkar landi, sem við eigum sjálfir. Þess vegna er aukinn sjávarútvegur, aukin framleiðsla fiskafurðanna, aukin hagnýting á þeim miklu markaðsmöguleikum, sem við höfum, forsendan fyrir sköpun stóriðju á Íslandi, þeirrar stóriðju, sem Íslendingar eiga sjálfir og ráða sjálfir. Nú stendur það hins vegar fyrir dyrum, að amerískt auðmagn krefjist þess að ná tökunum á okkar fossum og hagnýta þá til þess að reisa stóriðju hér á Íslandi, sem það eigi og hirði gróðann af.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem erlent auðvald reynir að ná tökunum á okkar fossum og ætlar sér að skapa stóriðju í greipum útlends valds í okkar landi. Strax á fyrstu áratugunum, sem kapítalisminn ruddi sér hér til rúms, var framsýnum mönnum ljóst, hver auður var í okkar fossum, og ýmsir þeirra leituðu þá líka sambands við útlenda auðmenn um að reyna að nýta þá möguleika. 1919, þegar fossanefndin hér,á Alþ. tók fossamálið til athugunar, var búið svo að segja að selja alla fossa á Íslandi og allt það vatnsafl, sem hugsanlegt var að hagnýta með góðum árangri, nema Sogið. Allt var það komið í hendurnar á meira eða minna útlendu auðmagni. Og í 3 ár stóð baráttan hér á Alþ. um að hindra það, að útlent auðmagn virkjaði okkar fossa og reisti stóriðju á grundvelli þeirra virkjana. Það skiptust skoðanir manna um það, hvort það væri heppilegt fyrir þróunina í okkar atvinnulífi að fá útlent auðmagn hér inn. Og þeir menn, sem vissulega vildu efla atvinnulífið hérna, menn úr íslenzku borgarastéttinni og jafnvel menn, sem urðu pólitískir forustumenn hennar, menn eins og t.d. Jón Þorláksson, menn eins og Guðmundur Björnson landlæknir tóku eindregið þá afstöðu, að sköpun stóriðju á Íslandi á grundvelli virkjunar okkar fossa yrði að gerast af Íslendingum. Það væri hættulegt fyrir okkar þjóð, ef fossarnir lentu í eign meira eða minna útlendra félaga og hér kæmu upp stórvirkjanir og stóriðja, sem væru eign útlendinga. Það væri þá betra að bíða til þess tíma, að íslenzka þjóðin hefði efni á því sjálf að leggja í slíka stóriðju. Og þrátt fyrir allt fór það svo á endanum, að þessir menn sigruðu, Jón Þorláksson, Guðmundur Björnson og aðrir slíkir, og björguðu Íslandi þá frá því, að fossarnir yrðu eign útlendinga, sem gætu hagnýtt þá. Þeir héldust í eign þeirra, en án þess að útlenda auðvaldið hefði aðstöðu til þess að hagnýta þá til stóriðju. Þess vegna hefur geymzt til þessarar kynslóðar, sem nú lifir í landinu, að taka ákvörðun um það, á hvern hátt eigi að hagnýta íslenzkt fossaafl og á hvern hátt eigi að skapa íslenzka stóriðju. Það eru til tvær leiðir. Önnur leiðin er, að Íslendingar virki sína fossa sjálfir, skapi hér stóriðju, sem þeir eigi sjálfir, reki þá stóriðju landsbúum til góðs og til hagnaðar og efli velmegun í landinu á grundvelli slíkrar stóriðju. Þetta er sú leið, sem Sósfl. hefur lagt til að væri farin og markaði strax með sínum till. hér í þessari hv. d. 1947, þegar l. um fjárhagsráð voru til meðferðar og ég lagði fram sem minni hl. fjhn. fyrir hönd flokksins till. um undirbúning að stóriðju, sérstaklega með virkjun Þjórsár. Allan þann tíma, sem síðan er liðinn, hafa engir aðilar í landinu treystst til að mæla með annarri leið heldur en þessari. En það er önnur leið til. Sú leið er, að fossarnir á Íslandi séu virkjaðir, stóriðja sé reist á grundvelli okkar fossaafls, sem sé í eign útlends auðvalds og íslenzkra leppa þess, stóriðja, sem mali gull fyrir útlent auðvald og skapi þrælahald hjá íslenzkum verkalýð og árangurinn og ávöxturinn af okkar auðlindum og vinnuafli okkar fólks sé fluttur út úr landinu sem gróði fyrir ameríska auðhringa.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það er enginn smárekstur, sem mundi vera hugsaður af hálfu amerísks auðvalds, ef það fer hér inn í landið t.d. með aluminíumverksmiðju og annað slíkt. Rekstur verksmiðja eins og t.d. aluminíumverksmiðja er ekki rekstur, sem á bágt með að bera sig og hjakkar einhvers staðar í kringum núllpunktinn í ágóða, eins og landbúnaður og sjávarútvegur venjulega verða að gera á okkar landi. Aluminiumvinnsla hefur, eins og títt er hjá slíkum auðhringum, 40–50% gróða á hverju ári. Ameríska auðvaldið hefur unnið að því . skipulagt á undanförnum árum að skapa forsendurnar fyrir því, að hægt væri að leggja í svona rekstur hérna.

Fyrsta krafan var að ná efnahagslegum tökum á Íslandi, á ríkisstjórn þess og efnahagslífi þess. Það var gert með Marshallsamningnum og þeim skilyrðum, sem honum fylgdu, og eins og hv. þm. muna, er í 5. gr. m.a. skylda, sem uppáleggur ríkisstj. að leyfa amerískum auðhringum að útvega sér þær efnivörur hér á Íslandi, sem Ameríkanar kunni að álíta sig vanta til sinna hernaðarþarfa, og menn þekkja gildi aluminiums í slíku sambandi.

Næsta skilyrðið var að knýja fram lækkun á launum verkamanna hér á Íslandi. Amerískt auðvald leggur því aðeins í fjárfestingu í stórum stíl erlendis, að launakjör verkalýðs í viðkomandi landi hafi verið lækkuð langt niður fyrir það, sem amerískur verkalýður hefur í kaup. Meðan Sósfl. var í stjórn hér á Íslandi, hafði íslenzkur verkamaður samsvarandi laun og amerískur. 1946, þegar amerískur hafnarverkamaður hafði $1.40 um tímann, hafði íslenzkur verkamaður það líka, Dagsbrúnarverkamannskaupið var hið sama. Síðan hefur kaupið, eftir fyrirskipunum ameríska auðvaldsins með gengislækkunarlögunum og frekari fyrirskipunum, sem fluttar voru hingað af dr. Benjamín Eiríkssyni og útreiknaðar af honum, verið lækkað þannig, að nú hefur íslenzkur verkamaður 40% af launum amerísks verkamanns. Þar með er verið að þrýsta kaupgjaldi íslenzkra verkamanna niður á samsvarandi stig eins og er í öðrum nýlendum Bandaríkjanna. Það er ekki enn þá orðið eins slæmt og í þeim verstu, þar sem laun verkamanna sums staðar, eins og t.d. í Suður-Ameríku, eru 1/5 af daglaunum amerísks verkamanns; hér eru þau enn þá 2/5. En það vantar ekki hugann hjá núverandi ríkisstj. til þess að koma því lengra niður. Það hefur strandað á íslenzkri þjóð, en ekki stjórnarflokkunum, að kaupið skuli ekki vera orðið lægra.

Þriðja skilyrðið, næst á eftir þeim efnahagslegu tökum amerísks auðvalds á íslenzku efnahagslífi og næst á eftir lækkun kaupgjaldsins niður í það, sem amerískt auðvald áliti viðunandi, til þess að hægt væri að arðræna íslenzka verkamenn, var, að það skyldi vera betur um hnútana búið hér heima, þannig að gamlar þjóðlegar erfðir eða minningar yrðu ekki til neins trafala fyrir amerískt auðvald, þegar það flytti hér inn í landið. Það hafa sem sé verið uppi með þessari þjóð nokkrar minningar um, að hún hafi einu sinni verið nýlenduþjóð, og það hafa verið í okkar l. nokkrar sérstakar ráðstafanir, eftir að við fórum að hrista af okkur danska okið, gegn því, að útlent vald gæti náð tökum á okkar þjóðlífi aftur. Og það hefur ekki þótt fært að blaka við slíkum gömlum múrveggjum, sem reistir höfðu verið sem skorður gegn innrás útlends auðmagns í landið. Alþ. og jafnvel ríkisstj., þótt þæg væri, hafa að áliti amerískra yfirvalda verið of erfiðir milliliðir, til þess að amerískt auðvald þyrfti að fara að spyrja ríkisstj. og Alþ. leyfis um að streyma hér inn. Þess vegna eru nú teknar þessar ákvarðanir með Framkvæmdabankann, að ameríska auðmagnið geti komizt beint inn í landið, án þess að ríkisstj. og Alþ. geti haft nokkuð um það að segja. Það á að ryðja þannig úr vegi minjunum frá tímum okkar sjálfstæðisbaráttu við Dani, skorðunum, sem við höfðum reist gegn ofurvaldi útlends auðmagns í landinu, til þess að það verði hægara fyrir amerískt auðvald og þá leppa þess, sem það kaupir upp hér í Reykjavík, að komast inn í íslenzkt atvinnulíf og ráða því.

Það má vel vera, að íslenzkri borgarastétt þyki það girnilegt sem stendur að hjálpa til þess, eins og Sjálfstfl. nú gerir, að koma amerísku auðmagni inn í landið. En það vil ég segja þeirri íslenzku borgarastétt, sem bak við Sjálfstfl. stendur, að það verða ekki nema örfáir úr henni, nokkrir útvaldir, þeir, sem nú þegar hafa gengið bezt fram í þjónustunni við ameríska valdið, sem koma til með að njóta þess, sem ameríska auðvaldið flytur hér inn af auðmagni. Það er harðdrægt og harðvítugt auðvald, það ameríska. Það verður ekki lengi að berja niður það litla, sem tekizt hefur að skapa hjá þessari þjóð af sjálfstæðum, innlendum atvinnurekstri, ef það fær að fara sínu fram eins og það nú ætlar sér í gegnum Framkvæmdabankann. Og það vil ég segja þeirri íslenzku bændastétt, sem að miklu leyti stendur á bak við Framsfl., að þótt máske takist að ginna menn í svipinn með því, hvað það þýði, að amerískt auðvald komist hér inn, eins og ég sé daglega að Tíminn er nú að reyna að gera, þá býst ég við, að íslenzkri bændastétt fari að finnast lítið fara fyrir sínu efnahagslega sjálfstæði, þegar amerískt auðvald verður búið að koma upp stóriðju í okkar landi með þeim afleiðingum, sem það kemur til með að hafa fyrir efnahagslíf bænda. Þau eru ekki svo glæsileg kjörin, sem bændurnir í Ameríku eiga við að búa, að það sé neitt keppikefli fyrir íslenzka bændur, sem til allrar hamingju á undanförnum áratug hafa öðlazt meira efnahagslegt sjálfstæði, heldur en nokkru sinni fyrr, að verða að upplifa það sama sem amerískir bændur hafa upplifað á undanförnum áratugum, þegar þeir flosnuðu upp milljónum saman og misstu sínar jarðir. Ef við eigum að fara að upplifa á næsta áratug einhverjar svipaðar atvinnubyltingar hérna heima vegna innrásar amerísks auðvalds inn í landið, þá gerir það íslenzka bændastétt fátæka, en ekki ríka. Og bezt er, að þeir menn viti það, sem í dag taka ákvörðun um það að koma þessum hlutum hér í gegn.

Með Framkvæmdabankanum á sem sé að vinna verk, sem engum hinna bankanna á Íslandi var treystandi til, að drepa niður innlent auðmagn, sjálfstætt auðmagn á Íslandi, drekkja því í hafi innflutts, erlends auðmagns, sem gini yfir öllu því bezta, sem getur gefið mestan auð í okkar landi. Þess vegna er með Framkvæmdabankanum verið að ryðja úr veginum þessum gamla þjóðlega trafala frá sjónarmiði útlends valds.

Og fjórða og síðasta skilyrðið, sem ég tel hér upp og þurfti að skapa, til þess að hægt væri að koma slíku auðmagni inn í landið, var að skipuleggja fátækt og atvinnuleysi á Íslandi. Ég hef sagt það hér áður og þarf ekki að færa nein sérstök rök fyrir því nú, að sú fátækt, sem vaxið hefur hjá íslenzkri alþýðu á undanförnum 5 árum, er eingöngu ríkisstj. og stjórnarflokkunum að kenna — eingöngu og engum öðrum aðila. Síldarleysi og hvað annað slíkt, sem fyrir hefur komið, eru smávægileg atriði móts við það stjórnarfar, sem við höfum búið við. Þó að við töpuðum 100 millj. kr. á síldarleysi og jafnvel meiru, þá gátum við bætt okkur það allt saman upp með aukinni framleiðslu á fiskinum. Með togurunum einum gátum við framleitt fyrir 200 millj. kr. meira verðmæti á ári hverju, ef við hefðum fengið fyrir ríkisstj. að nota þá til fulls. Og af hverju hefur ríkisstj. og hennar flokkar ekki viljað lofa þjóðinni að vinna og lofa henni að framleiða í friði? Vegna þess að það var fyrirskipun, enda þegar viðurkennt og yfirlýst af Íslandssérfræðingi Marshallstofnunarinnar hér á Íslandi og birt í hans greinargerð til amerísku stjórnarinnar, sem birtist í Alþýðublaðinu 5. febr. 1948. Þá var yfirlýst, að á næstu árum yrðu Íslendingar að sleppa megninu af öllum þeim fríðindum, efnahagslegum og félagslegum, sem þeir höfðu áunnið sér á nýsköpunarárunum.

Ríkisstj. hefur skipulagt atvinnuleysið og fátæktina á Íslandi til þess að skapa grundvöll fyrir það, að þjóðin, þegar búið væri að hrinda henni út í þá neyð, sem hún á nú við að búa, tæki því þakksamlega, að amerískt auðvald kæmi til landsins. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa undanfarið gert samsæri um það að svelta fólkið úti um allt Ísland, að stöðva meira eða minna öll framleiðslutæki, að banna þessu fólki að verzla frjálst, til þess að það skapaðist slík neyð úti um land, að menn bæðu um að fá að koma suður á Keflavíkurflugvöll í vinnu og að menn fögnuðu því, ef það kæmi frétt um það í Tímanum núna fyrir kosningarnar, að amerískur auðhringur ætlaði í sinni náð að líta til þessa fátæka og útskúfaða lands og taka þakksamlega á móti einkaleyfum til þess að virkja okkar fossa, með þeim eðlilegu kjörum, sem hann setti upp fyrir slíka hjálp og aðstoð, og tæki þess vegna við því verkefni, sem tókst að hindra, að Titan legði út í 1919, að virkja Þjórsá fyrir útlent auðvald, því til gróða og íslenzkri þjóð til armæðu. Við vitum, að öll pólitík ríkisstj. hefur miðazt við að skapa þetta vandræðaástand á Íslandi, sem gerði það mögulegt að bjóða þjóðinni upp á kjör, er hún mundi hafna, ef henni liði sæmilega. Ef íslenzka þjóðin hefði fengið að njóta þeirra tækja, sem nýsköpunarstjórnin keypti inn í landið, fengið að njóta sinna auðlinda, fengið að njóta verzlunarfrelsis og athafnafrelsis í friði fyrir ríkisstj., þá hefðu allir menn haft næga atvinnu hér á þessu landi. Það þurfti svívirðilega og harðvítuga ríkisstjórn til þess að skipuleggja atvinnuleysið og fátæktina, annars hefði ekki verið hægt að koma því á hér. Og með því að skipuleggja atvinnuleysið er verið að skapa grundvöllinn fyrir áróðrinum fyrir því að hleypa útlendu auðvaldi inn í landið, gefa því sérleyfi, og Tíminn prédikar það daglega, að við eigum að þakka fyrir, svo framarlega sem útlenda auðvaldið vilji taka á móti slíku sérleyfi. Tíminn meira að segja undirstrikar það, að það séu ótal menn um boðið, nýlenduþrælar suður í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu kepptust um að fá að vinna fyrir amerískt auðvald, jafnvel eins og — við skulum segja — við olíulindirnar hjá Arabíu, fyrir sömu daglaun eins og amerískur verkamaður hefur í tímavinnu. M.ö.o., það á að bjóða út íslenzku auðlindirnar og íslenzka verkalýðinn. Það á að lofa því að lækka kaupið hjá íslenzka verkalýðnum til þess að gera þetta girnilegra til arðráns fyrir amerískt auðvald. Þess vegna er auðséð, að ríkisstj. er með þessu máli, sem hún nú leggur fyrir, að ná einu höfuðtakmarkinu, sem undirbúið hefur verið með efnahagspólitík hennar á undanförnum árum. Það á að takast með hennar atvinnuleysi, með því atvinnuleysi, sem hún skipuleggur, að brjóta íslenzku þjóðina þannig á bak aftur andlega, að hún þakki fyrir, að útlent auðmagn ráðist inn í landið. Síðan er auðséð, að þetta útlenda auðmagn er nú þegar búið að undirbúa sitt samband við íslenzka aðila. Við þurfum ekki langt að leita til þess að finna það. Það er engin tilviljun, að Samband íslenzkra samvinnufélaga er sjálft annars vegar orðið umboðsfélag, eða sama sem það, fyrir stærstu auðhringi Ameríku, eins og Standard Oil, Westinghouse, General Motors og aðra slíka, og jafnframt búið að tengjast sérstöku, einkennilegu úrvali úr reykvískri auðmannastétt í ótal hlutafélögum hér í Reykjavík. Það er verið að skapa þarna sérstaka einokunarklíku, sem á að verða fulltrúinn og milliliðurinn fyrir það ameríska auðvald hér heima.

Hæstv. viðskmrh., sem þegar hefur mjög góð sambönd við slíkt amerískt auðvald, gæti náttúrlega lýst því fyrir okkur, ef hann vildi, hvað fyrirhugað sé að gera í þessum efnum, en það er nú ekki aldeilis hlaupið að því að fá upplýsingar hjá hæstv. ríkisstj. um, hvað fyrirhugað sé með þessum banka. Það hefur ekki enn þá fengizt upplýst um eitt einasta atriði, sem bankinn á að gera. Af hverju? Af því að hæstv. ríkisstj. finnst ekki heppilegt fyrir kosningarnar að þurfa að leggja þetta allt of opinberlega fyrir. Héðan af er meiningin að stilla þjóðinni upp frammi fyrir gerðum staðreyndum í þessum efnum. Héðan af fær þjóðin ekki að heyra það, að ríkisstj. og Alþingi hafi nú í hyggju og séu að undirbúa, að gera skuli þessar og þessar framkvæmdir, og geti rætt um þetta og íhugað þetta frjálslega. Héðan af á það að verða þannig, að einn góðan veðurdag hefur bankastjóri Framkvæmdabankans samið við þennan og þennan banka einhvers auðhrings í Ameríku um svona og svona lán og í sambandi við það eigi að stofna svona og svona hlutafélög hér á Íslandi, ákveðið að kaupa í þeim skuldabréf, ákveðið að kaupa í þeim hlutabréf og að í þeim séu ákveðnir menn, þeir menn, sem ameríska auðvaldið treystir nægilega á. Þess vegna fæst ekkert sagt um, hvað nú eigi að gera. Og þess vegna kemur meira að segja dálítið undarlega fyrir, að menn úr stjórnarflokkunum eru að tala hér um, að það vanti peninga í einhverjar framkvæmdir. Þeir eru að leggja fram till. hérna og biðja um nýja skatta á þjóðina. Hví í ósköpunum hafa þeir ekki spurt sína ráðherra? Ætlar ekki Framkvæmdabankinn að lána eitthvað í útgerð? Það kvað einhverja útgerðarmenn einhvers staðar vanta einhverja peninga, var verið að segja hérna áðan, til þess að koma einhverjum bátum af stað, en þeir góðu framsóknarmenn, sem voru að berjast fyrir því máli, gerðu sér máske ekki beint miklar vonir um, að Framkvæmdabankinn mundi fara að leggja í framkvæmdir viðvíkjandi sjávarútveginum. Það er líklega eitthvað annað stærra og feitara, sem þessi banki hugsar sér. Það er undirstrikað með 7. gr. og endurtekið að minnsta kosti 4 eða 5 sinnum orðið „arðbær“. Það á að vera prinsipið, sem núna gengur í gegn. Það á ekki lengur að fara eftir því með framkvæmdirnar á Íslandi, hvort menn lifa af því að framleiða og skapa. Nei, kjörorðið á að vera, hvort það gefur arð.

Ég vil minna hv. framsóknarmenn á það, þegar þeir börðust á móti togarakaupunum hér um árið og stofnlánadeildinni, sem gerði mögulegt að staðsetja þá úti um land. Þá var ekki verið að gera ráðstafanir með tilliti til þess, hvað arðbærast væri, heldur með tilliti til þess, hvað vinnandi mönnum í landinu og framleiðslu landsbúa væri þörf. Þá var verið að gera ráðstafanir til þess, að bláfátæk bæjarfélög, sem enga peninga höfðu, gætu fengið afkastamikil atvinnutæki til þess að skapa grundvöll að vinnu og framleiðslu í viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum. Og þessir togarar hafa á slíkum stöðum, eins og Akureyri og öðrum, síðan verið það, sem staðið hefur fyrst og fremst undir atvinnulífi staðanna, hvort sem þeir hafa borið sig eða ekki, sem kallað er. Þeir hafa allir borið sig ágætlega fyrir þjóðarheildina. Þeir hafa gefið henni framleiðsluna, sem hún hefur flutt út til þess að geta keypt inn vörur til þess að lifa á. Þeir hafa frá sjónarmiði heilbrigðrar vinnu og framleiðslu verið það æskilegasta, og það var það, sem við þurftum. Það var út frá sjónarmiði vinnandi stétta, sem þær ákvarðanir voru teknar, að leggja upp í hendurnar á vinnandi mönnum tæki, sem gætu gert þeim mögulegt að lifa og starfa og framleiða, en það var ekki verið að spyrja um arð. Það var ekki verið að spyrja um reikningshaldið. Það var ekki verið að spyrja um útkomuna á pappírnum, heldur um það fyrir þjóðina, hversu hún eignaðist meira af fiskafurðum og útlendum neyzluvörum, hversu hún sæi sér betur farborða, þegar hún væri búin að fá þetta. Það var ekki peningadýrkunin, heldur tillitið til þess vinnandi, starfandi manns, sem þar réð.

Nú er það auðsjáanlega ný stefna, sem á að innleiða hér. Og það vil ég alveg sérstaklega undirstrika við þá menn í þessari hv. d., sem stundum eru að kvarta undan því, að það sé verið að draga úr greipum fólksins úti á landi og rýra atvinnumöguleikana fyrir það, að með þessum lögum, sem verið er að samþ. hérna, drepa þeir mikið af öllum byggðum landsins, og það gera þeir vitandi vits. Ef arðprinsipið á að vera þar ráðandi í íslenzkum atvinnuháttum, þá tæmist meginið af byggðum landsins. Ef amerísk stóriðja á að rísa upp við Þjórsá, þá verður pískað burt með hungursvipunni, sem ríkisstj. núna lætur hvína á fólkinu úti um landið, það, sem eftir er, í fjölda þeirra hreppa, sem ekki eru þegar komnir í eyði. Það, sem lagt verður í af þessum Framkvæmdabanka, — og það er ætlazt til þess, að það verði einu framkvæmdirnar, sem lagt verður í, — á aðeins að vera það, sem gefur hluthöfunum stóran arð. Prinsipið, sem þar á að ráða, verður ekki prinsipið, hvað heppilegast sé frá framleiðslusjónarmiði fyrir hinar og þessar dreifðar byggðir landsins. Þetta vildi ég óska, að ekki sízt hv. þm. hinna dreifðu byggða vildu athuga, þegar þeir ætla að beita sér fyrir amerískri stóriðjubyltingu á Íslandi. Þess vegna er það undirstrikað í allri 7. gr., að einungis það, sem umboðsmanni amerísks auðvalds, tilvonandi bankastjóra Framkvæmdabankans, dr. Benjamín Eiríkssyni, sýnist arðvænlegt og þeim mönnum, sem lána honum útlent fé, það skuli rísa upp, hitt skuli hindrað. Þrátt fyrir áhrif kapítalismans á Íslandi á undanfarinni hálfri öld hefur það prinsip, sem til grundvallar liggur annars í kapítalismanum, þetta að gera allt fyrir arðinn, gera allt fyrir mammon, gera allt fyrir gróðann, ekki náð að sigra hérna á Íslandi, í okkar ættlandi. Núna á að flytja það fram til sigurs. Núna á að sjá um, að það sé það eitt, sem ræður. Enn fremur vil ég vekja athygli manna á öðru. Það er ekki nóg með, að hvað þetta snertir eigi að breyta um stefnu í íslenzku atvinnulífi með þessu. Það er enn fremur lögð alveg sérstök áherzla á, að þessi banki eigi að hafa samvinnu við einkaaðila, í 7. gr., 8. lið: „einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim fyrirgreiðslu.“ Það er ekki verið að undirstrika alla þá aðila, sem fást við framleiðslu. Það er því síður verið að undirstrika, að það séu bæjar- og sveitarfélög, ríkið eða samvinnufélög eða annað slíkt.

Hvað þýðir þetta „einkaaðila“? Hæstv. fjmrh. var ofur lítið að malda í móinn við 1. umr. þessa máls, þegar ég benti á þetta atriði. Hann sagði, að með „einkaaðila“ væri nú líka vafalaust átt við samvinnufélögin. Ég bað hann um að láta mér í té hinn upprunalega texta þessara laga, þ.e.a.s., hvernig þau hefðu hljóðað á ensku. Ég veit, að þessi l. hafa verið samin á ensku og það eru ekki fyrstu l., sem samin eru á útlendu tungumáli og þýdd á íslenzku í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Og mig langaði til þess að vita, hvað „einkaaðili“ væri á ensku, vegna þess að ég þekki nokkurn veginn orðatiltæki, terminologi, Ameríkananna á þessu sviði, og ég veit, hvað þeir eiga við með „einkaaðili“, og ég veit, hvað Benjamín Eiríksson muni eiga við með „einkaaðili“. Það eru hlutafélög og einstaklingar. Það eru þau, sem fyrst og fremst eiga að sitja fyrir. Ég vil biðja menn að athuga, hvernig þá muni fara fyrir megininu af rekstrinum, sem nú er á Íslandi, þegar á að fara að taka þessa „einkaaðila“, þ.e. fyrst og fremst hlutafélögin og slíkt, fram yfir aðra og veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu. Fyrir meginið af öllum þeim dreifðu byggðum landsins, og þar með á ég líka við bæina úti um land, eru bæjar- og sveitarfélögin einu aðilarnir, sem virkilega geta ráðizt í verulegar framkvæmdir. Hér höfum við Alþ. hvað eftir annað orðið að taka á móti sendinefndum — og hæstv. ríkisstj. ekki síður — frá hinum og þessum byggðum úti á landi, frá einstökum þorpum og bæjum og sveitum, sem hafa komið hingað til þess að biðja Alþ. um aðstoð viðvíkjandi framkvæmdum — viðvíkjandi því að ráðast í sérstakar framkvæmdir fyrir viðkomandi sveitarfélög. Ég veit, og það er tilgangur Framsfl. með þessu frv. hérna, að héðan af verði þessum mönnum vísað til Framkvæmdabankans. Framkvæmdir á Íslandi, jú, það verða í fyrsta lagi að vera arðvænlegar framkvæmdir, og það verða að vera til þeir menn, sem vilja ráðast í það, og það verða að vera hlutafélög, sem ráðast í það, og í þeim hlutafélögum er Framkvæmdabankinn máske til í að kaupa hlutabréf, en það er bezt að fara til Framkvæmdabankans og tala við hann. Öllu því nauði, sem hæstv. fjmrh. og aðrir slíkir valdamenn í landinu hafa orðið fyrir undanfarið, eins og þeir hafa kallað það, verður nú vísað til þessa banka, og hann afgreiðir það fljótt. Bæjar- og sveitarfélög og slíkir aðilar úti um land eru ekki aðilar, sem eru líklegir til þess að reka yfirleitt það, sem Ameríkaninn kallar „arðvænleg fyrirtæki“. Þessi bæjar- og sveitarfélög hafa nefnilega þá einkennilegu hugmynd, að það eigi að reka fyrirtæki til þess að menn lifi, en ekki til þess að hálfdrepa menn úr sulti, svo að aðrir græði. Bæjar- og sveitarfélögin úti um land leggja í sinn rekstur, eins og togara og annað slíkt, til þess að fá undirstöðu fyrir atvinnulíf í bæjunum. slíkir aðilar verða útilokaðir frá Framkvæmdabankanum, og það er alveg eins gott, að það sé þeim hv. þm. ljóst, sem nú greiða atkv. með þessu; þeir eru að fá einum einasta manni, trúnaðarmanni ameríska auðvaldsins, meira vald í hendur með því að stofna þennan Framkvæmdabanka heldur en nokkur einstakur aðili hefur haft á Íslandi undanfarið í fjármálum.

En hvað þýðir það að gefa einkaaðilunum, gefa hlutafélögunum og einstaklingunum, þannig þessi sérréttindi, að bankinn skuli fyrst og fremst hafa samvinnu við þá og raunverulega við þá eina? Hvað þýðir það? Það þýðir að breyta eðli þess atvinnurekstrar, sem nú er á Íslandi. Hvernig er atvinnureksturinn á Íslandi núna hvað slíka samsetningu snertir? Ríkið er stærsti atvinnurekandinn. Bæjar- og sveitarfélögin eru utan Reykjavíkur stærsti atvinnurekandinn viðast hvar, og hér í Reykjavík eru þau ákaflega stór atvinnurekandi. M.ö.o., hið opinbera, þ.e. ríkið, bæjar- og sveitarfélög, hefur verið sá aðili, sem fyrst og fremst hefur ráðizt í framkvæmdirnar hér á Íslandi. Hvernig hefði það verið, ef hugsað hefði verið um mjög stórar framkvæmdir, við skulum segja eins og rafvirkjanirnar og áburðarverksmiðjuna? Það hefði þótt alveg sjálfsagður hlutur, að það væri ríkið og það opinbera, sem legði í þetta. Þegar Framsfl. hér árum saman var að berjast fyrir áburðarverksmiðju, þá datt honum aldrei í hug að hugsa hana öðruvísi heldur en sem ríkisfyrirtæki, — datt það ekki í hug. Það var ekki fyrr en einn maður, sem hefur umboð fyrir eitt af ríkustu auðsöfnunarfyrirtækjum Ameríku, flutti till. hér á Alþ., — ég á við hæstv. viðskmrh., umboðsmanninn fyrir Coca-cola, — flutti till. hér á Alþ. um að fara að reka áburðarverksmiðjuna sem hlutafélag, og síðan er framsóknarráðherrunum sagt að segja á eftir, að það sé meiningin að þetta hlutafélag eigi áburðarverksmiðjuna. Og síðan var gerð þessi tilraun, sem í augnablikinu hefur misheppnazt, til að koma þeim síðustu hlutabréfum, sem ríkið átti í áburðarverksmiðjunni, yfir á einstakra manna hendur. Það er látið bíða heppilegri tíma nú. En árum saman datt Framsfl. ekki í hug, að áburðarverksmiðjan yrði rekin öðruvísi en sem ríkisfyrirtæki. Nú er amerískt auðvald búið að setja það sem skilyrði, sem verði að framkvæmast fyrr eða síðar á einhverjum heppilegum tíma, að koma áburðarverksmiðjunni á einstakra manna hendur. Grunur minn er sá, að sementsverksmiðjan, sem nú á að vera ríkisfyrirtæki, muni fara sömu leiðina, auðvitað ekki fyrir þessar kosningar, heldur eftir, og grunur minn er sá, að það verði varla hugsað til stórfyrirtækja á Íslandi á næstunni — þeirra, sem eigi að gefa arð — sem ríkisfyrirtækja.

Ég skil varla í öðru, en að þeir hv. þm., sem samþ. Marshallsamninginn, hafi gert sér ljóst, hvaða ákvæði eru í honum og þeim amerísku l., sem hann styðst við í þessum efnum, ákvörðunina um það, að amerískt einkaauðvald verði að fá sérstaka aðstöðu í hverju því landi, sem samið er við, til þess að fá að starfa. Og ég vil bara minna á, að aftan við Marshallsamninginn voru þá vegna óttans við fólkið sett viss ákvæði, sem áttu að setja fyrir þennan leka. Hann var gerður 1948, og það var enn þá á þeim tímum, sem menn töluðu um það sem hreinustu fjarstæðu, ef einhver maður sagði, að það væri meiningin að fá amerískan her og amerískar herstöðvar hingað til Íslands. Þá þótti það líka fjarstæða, að það væri amerískt auðvald, sem færi að reka okkar fossa. Þá þótti sjálfsagt að setja aukaskilyrði á eftir Marshallsamningnum um það, að það yrði að taka tillit til íslenzkrar löggjafar í sambandi við þau skilyrði, sem Ameríkanarnir settu upp um, að einkaauðmagnið yrði að hafa rúman aðgang að Íslandi. Núna er verið að útrýma þessum gamaldags lagalegu skorðum við þessari innrás hins útlenda auðmagns. Þess vegna er meiningin með þessum banka að breyta því efnahagslífi, sem einkennt hefur okkar íslenzka þjóðfélag á þessari hálfu öld, — efnahagslífi, þar sem ríkisrekstur, rekstur bæjar- og sveitarfélaga og einstaklinga hefur verið jöfnum höndum. Núna á með 7. gr. að gefa einkaaðilunum, — og ég vil halda því fram, meðan hæstv. fjmrh. gefur ekki neina skorinorðari yfirlýsingu heldur en við 1. umr. málsins, að það þýði fyrst og fremst hlutafélög, — nú á að gefa einkaaðilum sérréttindi í þessum efnum. Framkvæmdabankinn á þannig alveg sérstaklega að vera banki, sem veitir útlendu auðmagni inn í landið í samstarfi við einstaka auðmenn á Íslandi eða einstök auðfélög og breytir þannig öllu eðli þess íslenzka atvinnulífs, þannig að þáttur ríkisins, þáttur bæjar- og sveitarfélaga í því dvínar stórkostlega. Og ég er hræddur um líka, að þáttur hinnar íslenzku borgarastéttar í því verði miklu veikari eftir, en áður. — Þetta vildi ég nú alveg sérstaklega vekja athygli hv. þm. á í sambandi við 7. gr., sem yrði hlutverk bankans, og hvað það muni þýða að ganga inn á þá stefnubreytingu, sem þar með á að framkvæma í íslenzkum efnahagsmálum.

Ég ætla ekki að ræða langt mál viðvíkjandi 8. gr. Ég kom með þá fsp. hér við 1. umr. málsins og hef ekki getað fengið henni svarað enn þá, og ég býst við, að það verði eitt af því, sem á að fá að vera á huldu við meðferð þessa máls, hvort eftirlit Ameríkananna með mótvirðissjóðnum, áhrif þeirra á notkun hans eigi að haldast, eftir að hann er kominn til Framkvæmdabankans. Ég minntist á það við 1. umr., hvað bankastjóri Landsbankans, sá sem álitið hefur verið birt eftir hér, Jón Árnason, sagði um þau atriði, þar sem hann meira að segja tók svo djúpt í árinni, að ef meiningin væri að halda amerískum afskiptum þannig áfram af íslenzku efnahagslífi, þá væri betra að reyna að semja við Ameríkana um að borga þeim mótvirðissjóðinn til baka. Ég hef tekið eftir því, að fulltrúar stjórnarfiokkanna hafa verið mjög ófúsir á að ræða nokkuð þetta álit eða svara þessum spurningum. En ég vildi nú samt alveg eindregið skora á þá að svara nú þessu, gefa skorinorða yfirlýsingu um þetta við þessa umr. málsins og skal ekki fjölyrða um 8. gr. frekar.

Þá er viðvíkjandi 9. gr. Þar er lagt til, að fjmrh. megi veita ríkisábyrgð til þessa banka fyrir allt upp að 80 millj. kr. M.ö.o., fyrir utan það, að þessi banki á sjálfur að geta tekið lán erlendis án nokkurrar hindrunar og án nokkurs eftirlits ríkisins, veitt eins miklu af auðmagni eins og hann vill hér inn í landið og á þann hátt, sem honum þóknast, þá á hann þar að auki að geta með samkomulagi við fjmrh. einn hlotið ábyrgð ríkisins fyrir um 80 millj. kr. Stundum hefur manni nú heyrzt hæstv. ríkisstj. vera að kvarta yfir því, að hún hefði nú jafnvel fullmikið af þessum ábyrgðum, og ég man nú ekki betur, en að hæstv. fjmrh. hafi talað um það við meðferð fjárl., við 1. umr. þeirra, að þetta væri nú ekki rétt gott með allar þær ábyrgðir, sem ríkið væri í, það liti í raun og veru hálf óefnilega út, en það er nú sitthvað teoría og praksís, — það er nú sitt hvað orð og verk. Við 3. umr. fjárl. var bætt meiri ábyrgðum á ríkisstj. heldur en ég man eftir nokkru sinni hér við meðferð fjárl., eins og til þess að staðfesta þetta, sem fjmrh. hafði sagt við 1. umr. Hún er svo sem ekki alveg ábyrgðalaus, ríkisstj., sem nú situr að völdum á Íslandi. En það er ekki nóg með það. Hún er ekki ánægð með allar þessar ábyrgðir, sem hún er búin að fá, þrátt fyrir mótmæli fjmrh. á móti öllum ábyrgðum við 1. umr. fjárl. Nú vill hún þar að auki fá að ganga í ábyrgðir, án þess að Alþ. hafi nokkra hugmynd um, fyrir hvern skrambann hún ætlar að ganga í ábyrgðir. Ég verð nú að segja, að einhvern tíma mundi einhverju þingi hafa fundizt ríkisstj. fara nokkuð langt inn á sitt svið með því að gera till. eins og hér felst í 9. gr. Ég held, að það sé alveg hreint óhætt að minna hv. þm. á það, að það að veita fé og veita ábyrgðir er í öllum þingræðislöndum skoðað sem eitt höfuðtáknið um, að þing sé sjálfstæður aðili gagnvart ríkisstj. Það að veita fé og ráða því og að ríkisstj. geti ekki gert slíkt án þess að spyrja þing, það hefur verið það, sem þingin lengst af börðust um við konungsvaldið. Við þurfum ekki að líta lengra, en rúmlega 50 ár aftur í tímann, til Danmerkur, til þess að sjá, hvernig þá var barizt af stjórn, sem þá ræður hér yfir Íslandi líka, um það, að þingið heimtar sinn rétt til þess að ráða því, hvernig fjármálunum er ráðstafað. Fjárveitingarétturinn, veiting ábyrgða og annað slíkt, það var það, sem þingið krafðist að hafa, og það kostaði nú næstum því borgarastyrjöld í Danmörku þá, lá hvað eftir annað við, að upp úr syði, meðan þessi stjórn réð þar. — Hins vegar er í 9. gr. komin fram krafa um, að fjmrh. megi ganga í ábyrgð fyrir hönd ríkissjóðs, án þess að Alþ. hafi nokkuð áður um slíkar ábyrgðir að segja. Ég held, að ég megi fullyrða það, og það segi ég hæstv. ráðherrum til lofs, svo að ég hef það mikið álit á þeim, að ég held, að þeir hefðu aldrei fundið upp á því sjálfir að koma með þessa till. Ég held, að þeir hefðu aldrei farið fram á það að fá heimild til þess að ganga í 80 millj. kr. ábyrgð fyrir hönd ríkissjóðs án þess að segja Alþ., til hvers það ætti að vera. Ég held, að enginn hæstv. ráðh. mundi hafa gert það. Ég sé, að svona till. eins og þarna í 9. gr. getur ekki verið komin inn öðruvísi, en fyrir útlend áhrif, fyrir kröfu þess manns, sem ríkisstj. greinir frá í grg. að hafi undirbúið þetta frv.

(Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að fundartími er nú á þrotum.) Já, ég á nú ekki langt eftir, en ég skal gjarnan fresta því, ef hæstv. forseti óskar eftir. [Frh.]