21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Það lítur nú út fyrir, að hv. þm. hafi hugsað sér að fara í eldhúsumræður út af þessu máli og taka það upp á ný. Hann er þó nýbúinn að tala um það hér í d. Miklu af því, sem hann hefur borið fram nú, hefur verið svarað, og hann hefði getað heyrt það, ef hann hefði nokkuð fylgzt með umr. í Ed. Þetta kom talsvert fram í umr. þar. En það er sýnilegt, að sá rosti, sem hv. þm. hefur sýnt hér í þessari umr., er nákvæmlega sá sami og hv. flokksmenn hans sýndu í Ed., nákvæmlega sama línan, sem hann fylgir í þessu eins og þeir gerðu þar. Þannig er aðeins endurtekinn hér í deildinni sá leikaraskapur, sem flokksbræður hans sýndu í Ed. Ég skýrði þar frá því, að birting nafnanna mundi verða framkvæmd. Ráðuneytið gerir ekki annað í þessu efni, en að gefa verðgæzlustjóra fyrirmæli um, að nöfnin skuli birt. Hann hefur verið að undirbúa þetta. Hann hefur ekki viljað birta nöfnin, nema því aðeins að hann væri viss um, að hér væri maklega og rétt skýrt frá, en að ekki væru teknir með þeir menn, sem ekki verðskulduðu birtinguna. Það hefur m.a. komið á daginn með nokkur dæmi um vörusendingar, sem teknar hafa verið á þá lista, sem birtir hafa verið af verðgæzlustjóra, að verðið er á misskilningi byggt, og hefur það verið leiðrétt. Í öðru lagi hefur það einnig komið fram, að um verðjöfnun hefur verið að ræða, sams konar og verðgæzlan frá byrjun hefur viðurkennt. En það, sem verðgæzlan í framkvæmd hefur viðurkennt öll þessi ár, er auðvitað ekki hægt að fara að dæma menn fyrir nú, og er sjálfsagt að taka það til greina.

Ég ætla ekki að svara fyrirspurn hv. þm. um það, hvað ég telji hæfilega eða óhæfilega álagningu. Nefndin athugar sitt mál og tekur sínar ákvarðanir. Ef hv. þm. á sæti í n., þá getur hann komið sínu máli þar fram. Hann gelur líka tekið málið upp, ef hann vill, við síðari meðferð málsins í d. — Hann las upp lista yfir álagningu á nokkrar vörutegundir og sagðist mundu geta lesið í langan tíma enn, ef honum biði svo við að horfa. Ég held nú, eftir því sem mér er kunnugt um þennan lista, að hv. þm. hafi ekki skilið mikið eftir, svo að hann hefði ekki getað treint sér miklu lengur ræðutíma sinn, ef hann hefði átt að halda áfram að lesa um óhóflega álagningu. Það er alveg rétt, að þarna eru viss dæmi, sem er viðurkennt að sýni of háa álagningu. En það er bara ekki meginhlutinn af álagningunni. Meginhlutinn af álagningunni á vörum í landinu er, eins og ég hef alltaf tekið fram, hóflegur. Sú athugun, sem gerð var nýlega víðs vegar úti á landinu á öllum helztu neyzluvörum, sýndi það, að ekki voru nema tvö dæmi um óhóflega álagningu. Hitt var mjög sanngjörn og hófleg álagning. Álagning á matvöru, sem nýlega var tekin sem dæmi í athugun verðgæzlustjóra, í vörusendingum, er námu mörgum millj. kr., var hér um bil nákvæmlega eins og þegar hún var lægst undir verðgæzlunni. Og þó hefur það verið viðurkennt, meira að segja af hv. þm. sjálfum, að sú álagning hafi verið allt of lág. En þarna kemur fram svart á hvítu, að álagning á matvörunni er ekki hærri, en hún var áður. En hv. þm. dettur ekki í hug að minnast á það. Honum dettur ekki í hug að minnast á það, að einhverjir séu, sem leggja hóflega á, og það mestur hluti af verzlunum í landinu. En hitt náttúrlega básúnar hann, hans blað og hans flokkur, ef einhver brýtur af sér, þó að það sé ekki nema 5% af því, sem athugað er. Og náttúrlega getur það út af fyrir sig ekki ráðið verðlaginu í landinu. Hitt skal ég viðurkenna, að leiðinlegt er, að það skuli koma fyrir, að innflytjendur og verzlanir misnota þetta frelsi, sem þeim hefur verið gefið, misnota það í nokkrum tilfellum.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta mál nú. Það verður vafalaust nægur tími til að tala um það síðar. Og er víst ekki nein hætta á því, að hv. þm. eða hans flokkur hætti við að halda þessu máli á loft, því að þetta er eitt af því fáa, sem þeir hafa að tala um.