23.02.1954
Efri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

12. mál, áfengislög

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það til áfengislaga, sem hér liggur fyrir til 2. umr. á þskj. 12, er gamall kunningi hér í þessari hv. d. Það er samið af mþn., sem dómsmrh. skipaði 18. apríl 1951 í tilefni af þáltill., sem fram kom á Alþingi 1950 og var um það, að endurskoða skyldi hina íslenzku áfengislöggjöf. Frv. var flutt í þessari hv. d. eins og það kom frá mþn., og urðu afdrif þess þau, að 9. des. 1952 var því vísað frá með samþykkt rökstuddrar dagskrár, sem fram kom frá meiri hl. allshn.

Frv. er nú flutt á ný óbreytt frá því, sem það var áður, að öðru leyti en því, að ákvæðið í 7. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslu um bruggun áfengs öls var numið brott. Frv. var vísað til allshn. 7. okt. s.l. og tekið til meðferðar á tveim fundum nefndarinnar 15. okt., síðan aftur á fundi nefndarinnar 10. nóv. Var þá n. búin að lesa frv. yfir grein fyrir grein, bera það saman við núgildandi áfengislög og greiða atkvæði um flestar greinarnar. Síðan var málið tekið fyrir aftur 15. þ. m. og þá teknar upp brtt. þær, sem meiri hl. fékkst fyrir innan nefndarinnar. Þá var málið enn tekið fyrir á fundi nefndarinnar 19. þ. m. og þá endanlega gengið frá brtt. þeim, sem prentaðar eru á þskj. 387, og einnig frá nál. Þó að nm. hafi komið sér saman um að bera fram brtt. þær, sem ég nú gat um, er því ekki að neita, að skoðanir nm. eru að öðru leyti allskiptar um frv. í heild, enda áskilja nm. sér óbundnar hendur um að bera fram brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma, eins og nál. ber með sér. Í þessu sambandi má benda á, að einn nm., hv. 1. þm. NM., hefur borið fram 20 brtt. við frv. á þskj. 56, þær hinar sömu og hann bar fram við frv. á siðasta Alþingi. Þá hefur einnig verið útbýtt brtt. á þskj. 385, sem tveir nm. eru meðflm. að. En þrátt fyrir þetta hygg ég, að óhætt sé að segja, að n. sé sammála um, að nauðsyn sé, að frv. nái fram að ganga. Að minnsta kosti kom ekkert fram í n. undir meðferð málsins, sem benti í gagnstæða átt.

Ég vík þá að brtt. n. á þskj. 387.

1. brtt. er um það, að 1. gr. frv. skuli falla niður, en hún er í frv. á þessa leið:

„Tilgangur laga þessara er sá að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess.“

Orðalag þessarar gr. um tilgang laganna getur orkað tvímælis, og hefur þegar komið í ljós, að það gerir það, þar sem um margar brtt. er að ræða við greinina. En þar sem meiri hl. n. leit svo á, að lögin sjálf segðu nægilega til um tilgang sinn, var fallizt á að nema greinina burt. Sérstöðu um þessa brtt. hafði einn nm., hv. 1. þm. N-M., enda ber hann fram sjálfstæða brtt. um greinina á þskj. 56, sem ég hef áður getið um. Þessi sérstaða þessa hv. þm. á við um fleiri brtt. n., þó að ég geti ekki um það sérstaklega um leið og ég lýsi tillögunum.

Þá er engin brtt. frá n. við 2. gr. og ekki heldur við 3. gr., en 2. brtt. n. er við 4. gr., í tveimur liðum, a- og b-lið, og er um það að breyta niðurlagi 3. málsgr. 4. gr., en sú málsgr. er um skil, sem koma frá útlöndum, og um meðferð áfengis þess. sem þau hafa meðferðis. Mælir hún svo fyrir um, að þegar skip kemur til landsins, skuli í hinni fyrstu höfn innsigla allt áfengi, sem skipið hefur meðferðis, og það innsigli skal ekki brjóta eða rjúfa fyrr en skipið fer aftur alfarið úr höfn. En síðasti málsl. þessarar málsgr. hljóðar svo: „Þó má skipið hafa hæfilegan skipsforða af áfengi óinnsiglaðan til neyzlu handa skipverjum, en aldrei má selja af þeim forða né flytja hann í land.“ Brtt. n. er þess efnis, að í staðinn fyrir orðin „selja af þeim forða né flytja hann í land“ í niðurlagi 3. málsgr. komi: gefa öðrum né selja af þeim forða. — M.ö.o., það er þarna bætt inn í, að bannað sé að gefa eins og að selja, og sömuleiðis látið afskiptalaust um flutning á víninu í land. Er þetta samhljóða núgildandi áfengislöggjöf. B-liðurinn í þessari brtt. n. er um það að umorða síðustu málsgr., sem hljóðar svo í frv.: ,.Fyrirmæli þessarar greinar ná ekki til herskipa eða skemmtiferðaskipa.“ En b-liður í brtt. n. hljóðar svo: Fyrirmæli þessarar greinar taka til flugvéla, eftir því sem við á, en ná ekki til herskipa eða skemmtiferðaskipa. — M.ö.o., n. gerir það að till. sinni, að flugvélum sé þarna bætt inn í.

Þá kemur 5., 6., 7., 8., 9. og 10. gr. í frv., sem n. gerir enga brtt. við. — 5. og 6. gr. eru lokagreinarnar í H. kafla frv., sem fjallar um innflutning áfengis, en 7. og 8. gr. eru í III. kafla laganna og fjalla um tilbúning áfengis. Þá kemur IV. kafli, sem er um sölu og veitingar áfengis. 1. gerir engar brtt. við 9., 10. og 11. gr. í þeim kafla, en gerir brtt. við 12. gr. í fjórum liðum, a, b, c og d. Það er um þessa brtt. að segja, að hún byggist á því, að n. leggur til síðar, eins og ég kem að seinna, að 26., 27. og 28. gr. frv. falli niður, og eru brtt. við 12. gr. afleiðing af því, þ. e., í a-liðnum, að orðið „áfengisvarnaráðs“ í 2. málsgr. falli niður; í b-liðnum, að orðin „enda mæli áfengisvarnaráð með leyfisveitingunni“ í niðurlagi 3. málsgr. falli niður; c-liður, fyrir orðin „dómsmrh. og áfengisvarnaráð telja nauðsynlegt“ í 1. málsl. 6. málsgr. kemur: dómsmrh. telur nauðsynlegt; og d-liðurinn er um það, að síðari málsl. síðustu málsgr. falli niður, en síðasta málsgr. 12. gr. hljóðar svo: „Nánari fyrirmæli um vinveitingar, þ. á m. um veitingatíma, eftirlit á veitingastað og álagningu, skulu sett í reglugerð.“ Og síðari liðurinn, sem n. gerir að till. sinni að falli niður, hljóðar svo: „Áður en slík reglugerð er sett, skal leitað umsagnar áfengisvarnaráðs.“ Þetta er allt sem sagt í samhengi við þær höfuðbreytingartill., sem n. gerir við 26., 27. og 28. gr.

Þá kemur næsta brtt. n., sem er við 13. gr., um það, að 2. málsgr. falli niður. 13. gr. hljóðar svo: „Áfengisverzlun ríkisins, útsölur hennar og veitingastaðir, sem leyfi hafa til veitingar áfengra drykkja, mega aðeins afhenda áfengi gegn staðgreiðslu. — Bannað er að senda áfengi gegn póstkröfu. — Ákvæði greinar þessarar gilda eigi um sölu vínanda til lyfsala og lækna, sem rétt hafa til lyfjasölu, sbr. 11. gr.

M.ö.o., nefndin leggur til, að 2. málsgr. þessarar greinar falli niður, þ.e.: „Bannað er að senda áfengi gegn póstkröfu.“

Nefndin sér ekki ástæðu til að banna slíkar áfengissendingar og leggur þess vegna til, að málsgr. falli niður.

Þá er 5. brtt. Hún er við 14. gr. og er um það, að orðin: „og áfengisvarnanefnd á staðnum mælir með“ í niðurlagi 2. málsgr. falli niður. Þessi breyting í 14. gr. segir það, að lögreglustjóri skuli ekki þurfa að leita álits áfengisvarnanefndar á staðnum, þó að hann vilji loka áfengisútsölu af sérstökum ástæðum. Ég vil leyfa mér að lesa þessa málsgr. eins og hún er í frv.:

„Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga. fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma, þegar sérstaklega stendur á og áfengisvarnanefnd á staðnum mælir með. Áfengisverzlun ríkisins eða veitingamaður, sem í hlut á, getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrh. Ekki frestar málskot framkvæmd lokunarinnar eða bannsins.“

Nefndin leit svo á, að ef til kæmi, að lögreglustjóri þyrfti einhverra orsaka vegna að loka áfengisútsölu fyrirvaralaust, eins og sagt er hér, þá væri það stirðara fyrir hann að þurfa, áður en hann tæki þessa ákvörðun, að fara að leita umsagnar áfengisvarnanefndarinnar á staðnum. Nefndin leit svo á, að þetta ákvæði gerði framkvæmdina stirðari og kynni ef til vill að leiða til þess, að ákvæðið kæmi síður að tilætluðum notum. Er því lagt til, að ákvæðið sé lagt niður, þannig að lögreglustjóri geti einn tekið ákvörðun um fyrirvaralausa lokun eða bann við vinveitingum á veitingastað án þess að þurfa fyrst að leita álits áfengisvarnanefndar.

6. brtt. er við 15. gr., og er sama um hana að segja og breytingarnar við 12. gr., að hún er afleiðing af því, að n. leggur til, að greinarnar um áfengisvarnaráð skuli felldar niður. Þessi málsl., sem lagt er til að falli niður, síðari málsl. í 2. málsgr. 15. gr., hljóðar svo: „Leita skal álits áfengisvarnaráðs, áður en reglugerðin er sett.“ Greinin er um það að gera ráð fyrir því að leita álits ráðsins, áður en reglugerð er sett um hámark þess áfengis, sem áfengisverzlunin eða útsölur hennar mega afhenda einstaklingum. Það er þessi heimild til skömmtunar, sem er í núgildandi áfengislögum.

Þá kem ég að 7. brtt., sem er um það að fella niður 26., 27. og 28. gr., en aftur eru engar brtt. við 16., 17., 18., 19.. 20., 21., 22., 23., 24. og 25. gr. Og þessir kaflar, V. kaflinn, sem er 16.–20. gr., fjallar um meðferð áfengis í landinu, en VI. kafli, 21.–25. gr., fjallar um ölvun. Þá er það VII. kaflinn, þar sem þessar greinar eru, sem n. gerir að till. sinni að séu felldar niður. Þetta er VII. kaflinn, og hann er um áfengisvarnir. 26. gr. hljóðar svo:

„Ríkisstjórnin skipar sér til aðstoðar áfengisvarnaráðunaut. Skal hann skipaður að fengnum till. frá stjórnum þeirra bindindisfélaga, sem styrks njóta af opinberu fé til bindindisstarfsemi. — Áfengisvarnaráðunauturinn starfar samkvæmt erindisbréfi, sem ríkisstj. setur honum. Hann skal taka laun samkv. 6. fl. launalaga.“

Þarna er gert ráð fyrir því að stofna nýtt embætti, nýtt launað embætti.

Í 27. gr. segir:

„Áfengisvarnaráð skal skipað fimm mönnum. Áfengisvarnaráðunauturinn er sjálfkjörinn formaður ráðsins, en fjórir ráðsmenn og jafnmargir varamenn skulu kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi að afstöðnum hverjum almennum alþingiskosningum. Dómsmálaráðherra skipar varaformann ráðsins, að fengnum till. frá stjórnum þeirra bindindisfélaga, sem styrks njóta af opinberu fé. Áfengisvarnaráð skal hafa skrifstofu í Rvík. Veitir áfengisvarnaráðunautur henni forstöðu. Kostnaður við störf áfengisvarnaráðs greiðist úr áfengisvarnasjóði.“

28. gr. er þannig:

„Áfengisvarnaráð fer með yfirstjórn allra áfengisvarna í landinu. Það skal stuðla að bindindissemi, vinna gegn ofnautn áfengra drykkja og reyna í samráði við ríkisstj., áfengisvarnanefndir og bindindissamtök að afstýra skaðlegum áhrifum áfengisneyzlu. — Áfengisvarnaráð skal hafa umsjón með áfengisvarnanefndum, samræma störf þeirra og vera þeim til aðstoðar og leiðbeiningar í hvívetna. Það skal fylgjast sem bezt með í áfengis- og bindindismálum og veita hlutlausar upplýsingar um þau til blaða og annarra aðila, er óska þeirra. — Umsagnar áfengisvarnaráðs skal jafnan leita, áður en reglugerðir samkv. lögum þessum eru settar. Álits þess skal einnig leita varðandi verðlagningu áfengis. — Að öðru leyti fer áfengisvarnaráð með þau störf, sem lög þessi ákveða. — Nánari ákvæði um störf áfengisvarnaráðs skulu sett í reglugerð.“

Þetta er, eins og greinarnar bera með sér og frv., að setja á stofn launað embætti, þar sem er embætti áfengisvarnaráðunauts, og einnig stofna til hins svokallaða áfengisvarnaráðs, sem einnig skal vera launað, og á þetta ráð að hafa opna skrifstofu í Reykjavík. Nefndin var sammála um að leggja til, að þessar greinar yrðu felldar niður. Í stað þessara greina leggur n. til að komi ein gr., svo hljóðandi:

Ríkisstj. skipar sér til aðstoðar ráðunaut í áfengísmálum. Skal hann skipaður að fengnum till. frá stjórnum þeirra bindindisfélaga, sem styrks njóta af opinberu fé til bindindisstarfsemi.“

Með öðrum orðum er þarna farið inn á núgildandi áfengislöggjöf.

Þá er 8. brtt. nefndarinnar. Hún er umorðun á 29. gr. og er sem sagt einnig bundin við það, að áfengisvarnaráð skuli ekki stofnað. Orðin í 1. málsgr., 2. málsl. „að fengnum till. áfengisvarnaráðs“ falli niður, og í 1. málsl. 2. málsgr. falli orðið „áfengisvarnaráð“ einnig niður, og niðurlag síðari málsl. 2. málsgr.: „að fengnum till. áfengisvarnaráðs“ — falli einnig niður.

N. leggur til, að gr. hljóði svo:

„Áfengisvarnanefndir skulu vera í öllum hreppum og kaupstöðum landsins, þriggja manna í hreppum, sjö manna í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík, þar sem nefndin er skipuð níu mönnum. Ráðherra skipar formann nefndanna, en að öðru leyti skulu nefndarmenn kosnir hlutfallskosningu af hlutaðeigandi hreppsnefndum og bæjarstjórnum. Kjörtími nefndarmanna er fjögur ár. Kostnaður af störfum nefndanna greiðist úr hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóði. — Áfengisvarnanefndir skulu vera ráðgefandi um öll bindindis- og áfengismál fyrir sveitarstjórnir, lögreglustjóra, ríkisstjórn og aðra þá aðila, sem komið geta til greina í því sambandi. Verksvið nefndanna skal að öðru leyti ákveðið í reglugerð, sem ráðherra gefur út.“

Einnig hér er farið inn á núgildandi áfengislög í þessum efnum.

9. brtt. n. er um það, að 31. gr. falli niður, en hún er um það, að stofna skuli áfengisvarnasjóð. Hlutverk hans skal vera að standa straum af kostnaði við áfengisvarnir, bindindisfræðslu og bindindisútbreiðslu. Tekjur sjóðsins skulu vera árlega 3% af hagnaði Áfengisverzlunar ríkisins eða um 1si millj. kr. árlega, miðað við tekjur verzlunarinnar síðustu ár.

Þar sem n. gerir till. um, að niður falli greinarnar um áfengisvarnaráðunaut og áfengisvarnaráð, sem þessara tekna eiga að njóta, leiðir það af sjálfu sér, að þessi grein um áfengisvarnasjóð falli einnig niður.

10. og síðasta brtt. allshn. er um það, að 32. gr. falli niður, en 32. gr. mælir svo fyrir, að á næstu 5 árum skuli leggja til hliðar, eins og segir í gr., „6% af hreinum ágóða Áfengisverzlunar ríkisins“. Og þessu fé, sem mundi nema rúmum 3 millj. kr., á að ráðstafa þannig, að helmingi upphæðarinnar skal varið til byggingar drykkjumannahæla og lækningastöðva handa drykkjumönnum, sjúkrahúsa og elliheimila eftir nánari ákvörðun heilbrmrh. Hinum helmingnum skal verja að jöfnu til þess að veita félagsheimilum og hótelum vaxtalaus lán, enda gangi þau hótel fyrir, sem ekki hafa vinveitingaleyfi, eins og segir í gr. Þarna er um að ræða að ráðstafa yfir 3 millj. kr. árlega til þeirra hluta, sem nú þegar að meira eða minna leyti eru styrktir með fé úr ríkissjóði árlega. Má t.d. benda á drykkjumannahæli, sjúkrahús og elliheimili. Og þótt segja megi, að æskilegt væri að geta veitt meira fé til þessara hluta en nú er gert, virðist það eðlilegra, að fjárveitingavaldið meti þessar þarfir árlega, heldur en að leggja til hliðar í því skyni ákveðinn hluta ríkisteknanna. N. leggur því til, að greinin sé felld niður. Ég vil geta þess í sambandi við þessa grein, að á þskj. 50, þar sem brtt. hv. þm. Barð. eru prentaðar, leggur hann einnig til, að þessi grein sé lögð niður, ef ég man rétt, og sömuleiðis leggur hv. 1. þm. N-M. til, að hún sé felld niður.

Ég hef þá í stuttu máli lýst brtt. þeim, sem allshn. ber fram á þskj. 387, ýmist óskipt eða að meiri hluta. Höfuðbreytingar n. eru þær að fella niður ákvæðin um að setja á stofn embætti áfengisvarnaráðunauts, áfengisvarnaráðs og um áfengisvarnasjóð og ráðstafa árlega 6% af ágóða Áfengisverzlunar ríkisins til ákveðinna hluta. Það má segja, að þetta séu róttækar breytingar, en allshn. væntir samt, að hv. dm. geti að athuguðu máli samþykkt þær.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, hefur verið útbýtt brtt. á þskj. 385, þar sem tveir nm. úr allshn., hv. þm. Seyðf. og ég, ásamt hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Mýr. bera fram brtt. við nokkrar greinar frv., en fyrir þessum brtt. fékkst ekki meiri hluti í allshn. Ég ætla ekki að ræða um þessar brtt. Framsögu fyrir þeim mun hv. þm. Seyðf. hafa, sem er fyrsti flm.

Þá vil ég geta þess, að n. hafði brtt. hv. 1. þm. N-M. á þskj. 56 og brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 50 til athugunar við meðferð málsins. En lítið var tekið upp úr þeim, þar sem þær fóru að töluvert miklu leyti í aðrar áttir en brtt. n. Þó vil ég minna á ákvæðið um að taka flugvélar inn, telja þær með flutningatækjum, sem til landsins kæmu, hvað vin snertir, — það voru þeir með þessir hv. þm. í sínum brtt., — einnig að fella niður 32. gr., og þar fór álit þeirra og n. saman. En ég vil einnig segja það sem mitt álit, að væri embætti áfengisvarnaráðunauts stofnað, þá er brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 50 við 26. gr. um, að það embætti skipi sérmenntaður læknir, réttmæt. Þá vil ég benda á 14. brtt. á sama þskj. um breytingu á 30. gr., en allshn. leggur ekki til, að henni verði neitt breytt í sínum till. En brtt. hv. þm. er um það, að fræðsla skuli fara fram í skólum um áhrif áfengisnautnar o.fl., eins og segir í 1. málsgr., og er fyllri en 30. gr. er í frv. Álít ég, að sú brtt. hv. þm. ætti að samþykkjast. Þó er brtt. í þremur málsgr., en þetta, sem ég segi nú, á við 1. málsgr., vegna þess að 2. málsgr. þessarar brtt. er um áfengisvarnaráð, sem allshn. leggur til að lagt sé niður, og síðasti málsl. er um það, að skylt skuli „öllum sóknarprestum landsins að hafa eftirlit með því, að börn og unglingar hafi fengið þá fræðslu, sem ákveðin er í barnaskólum samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar, og er það skilyrði fyrir fermingu barna, að þeim hafi verið kennd sú námsgrein“. Þetta gæti ég ekki fallizt á að kæmi þarna í þessum lögum, álít það ætti þá heima frekar annars staðar.

Ég lýk þá máli mínu. Ég hef ekki rætt um áfengismálin efnislega og það ástand, sem þau hafa verið í undanfarin ár, þegar vínveltingaleyfi voru veitt sem undanþágur eða í því formi, og það ástand, sem skapaðist eða skapazt hefur, eftir að þessum leyfisveitingum var hætt og eftir að áfengisútsölur voru víða lagðar niður með atkvæðagreiðslum á viðkomandi stöðum. Umræðum um þessa hlið málsins hef ég með vilja sleppt, aðeins lýst þeim brtt. allshn., sem hún gat ýmist orðið sammála eða myndað meiri hluta um og leggur til að verði samþykktar.