23.03.1954
Neðri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

12. mál, áfengislög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að ræða þetta mikla vandamál, sem hér er til meðferðar, nokkuð ýtarlega, en þar sem mjög stutt er eftir af fundartíma, skal ég aðeins stikla á stóru í þessari ræðu minni.

Svo sem skýrt var frá af frsm. hv. allshn., þá liggur ekki hér til meðferðar í sambandi við þetta mál, hvort menn séu með eða á móti aðflutningsbanni á áfengi, heldur aðeins, hvernig haga skuli sölu á því vini, sem ákveðið er að selt skuli í landinu, og af þeim sökum vil ég binda mig við það atriði og ber að skoða mínar till. og viðhorf út frá þeim sjónarhól, að hér er ekki um að ræða mat á því, hvort menn eru með eða móti, að áfengi sé yfirleitt selt, því að þar mundu vafalaust koma önnur sjónarmið til greina og maður mundi hafa þar í frammi aðrar till., ef um slíkt væri að ræða.

Ég hef flutt hér tvær brtt., aðra á þskj. 515 og hina á þskj. 516 með hv. 5. þm. Reykv. Skal ég aðeins fara um þær nokkrum orðum og þá ræða málið almennt eftir því, sem tilefni gefst til út frá því.

Ef um það er að ræða að setja reglur um sölu áfengis í landinu, þá hafa verið uppi tvær skoðanir um það, annars vegar sú, að það bæri að takmarka áfengissöluna sem mest og gera mönnum sem erfiðast um vik að ná í áfengið, og hin stefnan aftur sú að auðvelda þetta meir; hafa almennar áfengisveitingar og jafnvel að vín skuli selt í hverri verzlun. Það hefur verið farinn nokkur millivegur í því efni í því frv., sem hér liggur fyrir, og ég hygg, að eftir því sem reynslan hefur sýnt, þá muni ekki vera hægt að beita sér gegn því, að áfengisveitingar séu leyfðar að einhverju leyti í veitingahúsum, vegna þeirrar staðreyndar, að þrátt fyrir það að það sé nú bannað, þá er þar mikill drykkjuskapur um hönd hafður og það jafnvel svo, að í sumum veitingastöðum hafa fundizt kannske 70–80 tæmdar áfengisflöskur eftir dansleiki og sízt verið minni drykkjuskapur þar en þótt vínveitingar hefðu verið í húsinu, þannig að það er mín skoðun, að það sé ekki hægt, eins og sakir standa, að berjast fyrir því, að algerlega verði bannaðar vínveitingar í veitingahúsum. Jafnfjarri álít ég einnig að setja ákvæði um það, að þær skuli aðeins leyfðar í einu húsi á landinu. svo sem raunar liggur hér nú fyrir till. um. Ég tel því, að það sé rétt að leyfa nú áfengisveitingar í nokkrum veitingahúsum, sem til þess hafa slík skilyrði, að þar sé hægt að halda uppi menningarbrag, ef vilji er fyrir hendi, en hins vegar setja um það strangar reglur, hvernig þeim áfengisveitingum skuli hagað, og gera mjög strangar kröfur til veitingahúsanna um, að þar sé haldið uppi hinni fyllstu reglu og komið í veg fyrir alla ofnautn áfengis. Til þess að stuðla að því hef ég ásamt hv. 5. þm. Reykv. tekið upp brtt. við brtt. hv. allshn. Þessari brtt. vék hv. þm. Borgf. að og taldi sig henni hlynntan, ef í henni fælist sá skilningur eða sú hugsun, að ætlunin væri, að þetta væru löggæzlumenn óháðir samkomuhúsunum. Það hefur vitanlega alltaf verið ætlunin, því að ekki kemur til neinna mála, að veitingahúsið sjálft fái að ráða þessum manni, og eins og till. er orðuð, þá er beinlínis gert ráð fyrir því, að það sé ekki einn maður um hvert hús„ heldur geti þar verið um fleiri hús að ræða, og vitanlega er ætlunin sú, að veitingahúsin greiði sérstakan skatt fyrir að fá að hafa áfengisveitingar og að þessum skatti verði síðan varið til þess að greiða laun þessara eftirlitsmanna. Það getur vel verið, að á þessu hafi orðið misbrestur, en það þarf út af fyrir sig ekki a ð útiloka, að það geti verið gagn að slíkum löggæzlumönnum. Þó að einhverjir þeirra hafi reynzt illa, þá er ekki annað en að skipta um menn. Það dettur engum manni í hug að hætta almennu lögreglueftirliti, þó að einhverjir lögregluþjónar brjóti af sér, og sama er að segja um þetta efni. Hingað til hafa verið tveir sérstakir starfsmenn á vegum lögreglunnar við þetta starf, og það hefði mátt ef til vill álíta, að það fælist í frv., að slíkt væri heimilt áfram, en þar sem þessi till. var tekin upp í Ed., yrði að álykta af því, ef hún yrði felld niður hér, að það væri vilji þingdeildarinnar, að þessir eftirlitsmenn væru ekki. Af þeim sökum er óumflýjanlegt að taka upp ákvæðið að nýju, til þess að úr því fáist skorið.

Það gefur auga leið, að ef það er vilji manna að taka upp frjálsari veitingar og frjálsari sölu áfengís en verið hefur, þá verða menn að horfast í augu við þá staðreynd, — allir þeir, sem af alhug vilja vinna gegn neyzlu áfengis, og það vil ég vænta að allir hv. alþm. séu sammála um, — að þá verður líka að leggja meiri áherzlu á áfengisvarnir og leggja meira kapp á að koma hér upp mannsæmandi framferði fólks á veitingahúsum og samkomuhúsum og með því móti, bæði með almennum samtökum og af hálfu hins opinbera, að reyna að stuðla að því, að heilbrigðara almenningsálit skapist í landinu í þessu efni en verið hefur til þessa. Það er því óumflýjanlegt, að það tvennt fari saman, annars vegar, að strangt eftirlit sé haft með vínveitingum, og hins vegar, að aukið sé fé það, sem varið er til bindindisútbreiðslu og til áfengisvarna.

Ég hef því leyft mér að leggja hér fram á þskj. 515 till. um það, að tekið verði inn í frv. aftur ákvæðið um áfengisvarnasjóð. Mín till. er að mörgu leyti svipaðs eðlis og till. hv. þm. Borgf., að öðru leyti en því, að ég legg til, að allt það, sem þar um ræðir að veita eigi styrk og lán til, verði tekið af einni upphæð, sem skuli helta áfengisvarnasjóður, í stað þess að þessu er skipt niður, og auk þess tel ég, að það sé ekki ástæða til þess í lögunum að slá föstu um ákveðnar upphæðir til ákveðinna félagssamtaka eða til ákveðinna þarfa í þessu skyni; það verði að fara eftir atvikum hverju sinni og geti verið mjög breytilegt frá ári til árs, hversu þarfirnar eru þar miklar. Og þar sem gert er ráð fyrir, að þessu verði varið eftir till. áfengisvarnaráðs og ákvörðunum tveggja ráðherra, þá má vissulega gera ráð fyrir því, að á hverjum tíma verði reynt að haga ráðstöfun þessa sjóðs þannig, að hann komi að sem beztum notum.

Ég hef einnig í b-lið till., þar sem talað er um ráðstöfun sjóðsins, takmarkað nokkuð ráðstöfun hans, þannig að honum verði ekki varið til sjúkrahúsa almennt og elliheimila, þar sem ég tel, að það eigi að takmarka sjóðinn meir við þau verkefni, sem beinlínis má segja að stafi af áfengisnautn, þ.e. annars vegar stofnun drykkjumannahæla og hins vegar hin mjög brýna nauðsyn á að koma upp heimilum fyrir afvegaleidd börn, sem oft og tíðum einmitt hafa farið illa út úr lífinu á margan hátt og komizt á glapstigu vegna óreglu á þeirra heimilum og vegna framferðis foreldranna að því leyti. Ég tel því, að það sé mjög eðlilegt og sjálfsagt, að áfengisvarnasjóði og áfengiságóðanum sé ætlað að standa straum af slíkum óumflýjanlegum ráðstöfunum. Ég hef einnig takmarkað þetta við þessi verkefni vegna þess, að ég hef í minni till. tekið lægri upphæð af áfengiságóðanum heldur en hefur verið lagt til í till. hv. þm. Borgf. Stafar það ekki af því, að ég sé á móti því, að slíkri upphæð sé allri varið sem hann talar um, en ég taldi sennilegra, að um það mundi nást samkomulag, ef ekki yrði farið lengra í sakirnar en hér um ræðir.

Ég ætla svo ekki í bili að fara fleiri orðum um þessa till., en mig langar til þess að víkja að einum sérstökum þætti þessa máls nú í þetta sinn, þar sem, eins og hv. þm. Borgf. sagði, það er stór þáttur og ég vil segja jafnvel stærsti þáttur þessa áfengislagafrv., enda þótt af einhverjum ástæðum hafi verið lögð á það mikil áherzla af talsmönnum þessa máls að dulbúa það sem mest og reyna að læða því inn í frv. í alls konar gervum til þess, að því er bezt verður séð, að reyna að villa hv. þm. sýn og ekki hvað sízt að reyna að villa þjóðinni sýn um það, hvað þarna væri á ferðinni, en ég á í þessu sambandi við till. um bruggun sterks öls hér á landi til sölu innanlands. Henni hefur nú skotið upp aftur hér í hv. Nd., enda þótt hv. allshn. hafi sem betur fer orðið sammála um að mæla gegn því, að heimilað væri að brugga sterkt öl í landinu. Það hefur ekki verið enn mælt fyrir till., og mun ég því takmarka mig við að ræða um nokkur meginatriði; það gefst væntanlega tækifæri til þess, eftir að hv. frsm. hefur flutt sína ræðu til skýringar á till. En ég vil þó ekki ljúka þessu máli mínu svo nú, að ég minnist ekki á nokkur atriði, sem þar koma til greina.

Mér skilst, að því sé haldið fram, og það hlýtur að vera eina röksemdin, sem hægt er að halda fram til stuðnings því að selja hér áfengt öl, að áfenga ölið minnki drykkjuskap eða a.m.k. auki hann ekki. Það er engin önnur hugsanleg röksemd til fyrir því, sem réttlæti að leggja á það ofurkapp að brugga slíkt öl, og út frá því sjónarmiði held ég að verði að líta á málið, þangað til a.m.k. nánari skýring kemur á því.

Það liggja nú fyrir alveg augljósar tölur um það, að hér er um reginfirru að ræða. Sala á sterku öll dregur aldrei úr eða minnkar áfengisneyzlu. Þvert á móti um þau lönd, t.d. Norðurlöndin, þar sem hefur verið selt sterkt öl, og eins og t.d. í Danmörku, þar sem menn drekka um 4 millj. flöskur á dag af öli, er nú staðreyndin sú, að þar er áfengisnautn miklum mun meiri en hér á Íslandi; hún er meira en helmingi meiri á mann heldur en er hér á Íslandi, þessu öllausa landi. Í Danmörk er áfengisnautnin 2.92 lítrar af 100% alkóhóli á mann, en hér á Íslandi þó ekki nema 1.33 lítrar. Í Noregi er áfengisneyzlan 2.12 lítrar, eða miklum mun meiri en hér á Íslandi. Í Finnlandi, þar sem sala á sterku öll er byrjuð fyrir nokkru, hefur áfengisneyzla einnig sízt farið lækkandi og er nú 1.87 lítrar. Þetta leiðir augljóslega það í ljós, að það er hin mesta firra, að ætlandi sé, að bruggun sterks öls og sala þess hér mundi leiða af sér minnkaðan drykkjuskap, heldur þvert á móti. Af þeim sökum getur ekki verið stætt á þessari röksemd.

Af andstæðingum ölsins hefur verið á það bent, og það er óhrakið, að reynslan hefur hvarvetna sýnt það í öllöndum, að bæði unglingum og einnig vinnandi mönnum, verkamönnum, stafar mjög mikil hætta af sterku öli, og báðir þessir hópar neyta þess mjög mikið. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að alþýðusamtökin hér á Íslandi hafa snúizt mjög gegn þeirri hugmynd, að hér verði bruggaður sterkur bjór. Erlendis víða, eins og t.d. í Danmörk, er almennur drykkjuskapur oft alla daga hjá verkamönnum í þessum bjór, þannig að t.d. er þar þannig ástatt, — ég heyri, að einhver hv. þm. ussar, — en ég vil þá taka það fram, að það er þannig ástatt t.d. í skipasmíðastöðvum Burmeister & Wain, að þar er gert ráð fyrir, að hver verkamaður fái 5 flöskur á dag af öli, og beinlínis krafizt þess í kjarasamningum.

Ég held því, að þeirri staðreynd verði ekki í móti mælt, að hér er um mikilvæga og mikla hættu að ræða. Það liggja fyrir skýrslur um það, sem ég hef ekki tíma til að fara út í nú, að einmitt bjórneyzlan hefur í löndum eins og t.d. Þýzkalandi jafnvel miklu meiri hættu í för með sér heldur en neyzla vína, og ég hef ekki fundið við athugun á gögnum um þetta mál nokkrar þær upplýsingar, sem geti gefið manni von um það, að sala á sterku öll hér mundi draga úr drykkjuskap, heldur mæla allar röksemdirnar í öfuga átt. Þegar svo horfir málum, álit ég, að það sé fullkomið ábyrgðarleysi að ætla nú að fara í sambandi við þetta mál að leggja á það ofurkapp að ausa ölflóði einnig yfir okkar þjóð. Sannleikurinn er sá, að þó að slæmt sé ástand hér í áfengismálum með okkur bjórlausa, þá er eitt, sem víst er, að allar líkur benda til, að það yrði margfalt verra, ef bjórinn bættist einnig við. Og staðreyndin er nú sú, að þó að sé talað um ómenningu hér í áfengisnautn á Íslandi, þá er þó áfengisnautn miklum mun minni en á öðrum Norðurlöndum, sem er þó oft vitnað til um í sambandi við, að þar sé mikill menningarbragur á öllu framferði manna í sambandi við áfengisneyzlu.

Ég held því, að það sé ekki ástæða til þess nú, nema siður sé, og mundi ekki leiða af því neitt gott að fara að taka upp þessa nýju tegund áfengisnautnar hér á Íslandi, sem bjórinn er, hinn sterki og áfengi bjór, hvað sem hann er kallaður, hvort sem hann er kallaður óáfengur eða ekki í löggjöf; það skiptir ekki meginmáli. Fordæmi annarra þjóða gerir það ekki fýsilegt að vera að fara inn á slíkar brautir. Og mín skoðun er nú sú, að þótt ástand sé hér að mörgu leyti alvarlegt í áfengismálunum, þá séu þó í því margir ljósir blettir og að með heilbrigðum samtökum almennings og félagasamtaka, æskulýðssamtaka og annarra menningarfélaga og með skynsamlegu aðhaldi frá löggjöfinni sé hægt að koma því til leiðar, að hér verði mjög skapleg umgengni í þessum málum, þannig að það þurfi ekki að verða til vansa fyrir okkar þjóð og valda eins miklu tjóni, bæði fjárhagslega og í heilsu og hamingju einstaklinganna, eins og áfengisnautnin tvímælalaust hefur hér gert.

Ég sé, að fundartíminn er að þessu sinni á enda. Það voru mörg atriði, sem ég hefði gjarnan viljað á minnast, og ég býst við raunar í sambandi við þetta atriði um ölið, að mér gefist síðar tækifæri til þess, eftir að talað hefur verið fyrir þeirri tillögu, að koma þar á framfæri ýmsum fleiri upplýsingum í sambandi við það mál.