24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

12. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Það er aðeins út af þeirri athugasemd, sem hv. 8. landsk. (BergS) gerði hér um 2. brtt. mína, viðvíkjandi landhelginni, að ég vil taka fram, að þessi brtt. mín er flutt af ráðnum hug út frá því, að í henni er engu slegið föstu um fiskveiðalandhelgi vora. Þar er eingöngu talað um hið friðlýsta svæði innan ákveðinnar línu. Hitt er svo alkunnugt, að landhelgi í sambandi við tollgæzlu fer ekki saman við fiskveiðalandhelgi, og svo hefur það verið um langt skeið hér hjá okkur.

Það er þess vegna með minni till. siglt fram hjá þeirri hættu, sem hv. þm. benti á, gagnvart þeim þjóðum, sem við eigum nú í höggi við um landhelgi okkar. Með mínu orðalagi á þessu geta þeir ekki fengið neina fótfestu. Í till., eins og hún er orðuð í frv., er talað um m.a. tólf sjómílna fjarðarmynni, sem féll saman við þriggja mílna landhelgina á sínum tíma, en nú er þetta bil orðið samkvæmt okkar ákvörðun miklu lengra en tólf sjómílur, þannig að það mætti þá frekar segja, að einhver fótfesta fengist fyrir andófsmenn þeirrar landhelgi, sem við nú höfum tekið og við keppum að sjálfsögðu allir að að víkka mikið út frá því, sem enn er. Það er einmitt með þetta í huga, sem ég hef nú lagt til þessa breytingu. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta.