10.11.1953
Efri deild: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

6. mál, gengisskráning

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um að framlengja þau ákvæði, sem nú eru í lögum um verðlagsuppbætur á laun opinberra starfsmanna, til ársloka 1954, en að óbreyttu falla þau úr gildi í desembermánuði næsta ár. — N. er á einu máli um það, að ógerlegt sé að fella niður þessi ákvæði um verðlagsuppbætur til starfsmanna hins opinbera, og leggur því til, að frv. verði samþ. og þar með ákveðnar reglur settar um verðlagsuppbótina til loka ársins 1954.

Efni frv. gefur ekki tilefni til fleiri ummæla, ætla ég, og ég hef ekki fleira að segja heldur fyrir n. hönd, en sjálfur get ég ekki látið vera að vekja athygli hv. þm. á heiti þessa frv., sem ég vildi mega lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

„Frv. til l. um breyt. á l. nr. 16/1953, um breyt. á l. nr. 105/1951, um breyt. á l. nr. 117/1950, um breyt. á l. nr. 22/1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., og á l. nr. 9/1951, svo og l. nr. 70/1952.“

Ég ætla, að hv. þm. megi vera það ljóst af þessari fyrirsögn, að fullkomin þörf er á að steypa þeim lagaákvæðum, sem hér er vísað til;. saman í eitt. Og mér finnst það aðeins furðu gegna, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa hafizt handa um þetta mál. Lögin voru upprunalega smíðuð í flýti og á þeim stórkostlegir smíðagallar, og síðan hefur verið klambrað við þetta — ef ég mætti nota það orð — breytingum, eins og fyrirsögnin ber með sér. Ég álít, að það séu leiðinleg vinnubrögð, satt að segja, að afgreiða þau í þeirri mynd, sem þau eru, þótt ég fallist á það ásamt öðrum nm. að leggja til, að svo verði gert.