13.04.1954
Neðri deild: 93. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

209. mál, gin- og klaufaveiki

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ríkisstj. leyfir sér að flytja frv. hér á þskj. 852, sem er viðauki við lög um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. dm. verði ekki um of hræddir, þó að þeir sjái þessa geysilegu fyrirsögn, sem er á þessu frv., því að það mætti kannske líta út, þegar menn litu fljótlega á fyrirsögnina, eins og hér væri um frv. að ræða til þess að flytja inn gin- og klaufaveiki, sem hvergi þykja nú góðir gestir. En frv. þetta er heimild til handa ríkisstj. að leyfa innflutning á kjöti til landsins í apríl, maí og júnímánuði nú í ár.

Það er kunnugt, og hefur mjög verið um það rætt í blöðum og annars staðar, að kjötbirgðir væru mjög á þrotum, enda er það svo, að kjötbirgðir eru þrotnar svo að segja hér. Það mun hafa verið safnað saman til þess að gera því síðasta, sem fyrir er úti um land, til þess að eitthvert kjöt verði til nú um hátíðarnar hér í Reykjavík, og mun það þó án efa vera af skornum skammti. Það er sama, hvort um er að ræða dilkakjöt, nautakjöt frá í fyrra eða hrossakjöt, að birgðir allra þessara tegunda eru þegar algerlega á þrotum. Þetta stafar, eins og öllum hv. dm. er kunnugt, af því fyrst og fremst, að niðurskurði þeim, sem átt hefur sér stað til útrýmingar fjárpestunum, hefur nú verið lokið, og við erum nú að komast yfir harðasta atriðið í því sambandi. En hve kjötmagnið er miklu minna nú t.d. af dilkakjöti en verið hefur undanfarin ár, stafar af hinu góða árferði í fyrrasumar, þótt það þyki kannske nokkurt öfugmæli, en þó er það svo, því að það mun vera nærri sanni, að bændur í öllum héruðum þessa lands hafi svo að segja sett á hvert einasta gimbrarlamb, sem þeir áttu s.l. haust, og stafaði það af miklum heyskap og möguleikum til þess að fjölga fé á þann hátt. Þetta er mjög gleðilegt vegna búskapar okkar yfirleitt og þýðir það, að á næsta hausti verður miklu meira kjötmagn en s.l. haust af dilkakjöti og áreiðanlega svo mikið, ef engin ósköp koma fyrir í vor, sem við varla trúum að verði, þannig að um fjártjón verði að ræða, að nægilegt kjöt verður þá handa landsbúum og e.t.v. eitthvað meira.

Nú er það, eins og kunnugt er, framleiðsluráð landbúnaðarins, sem hefur með höndum yfirstjórn þessara mála, verðlagningu á kjöti innan þeirra takmarka, sem landslög ákveða, miðlun á kjöti og annað slíkt. Þetta mál um það, hvort leyfa ætti innflutning á kjöti nú vegna þess skorts, sem á því verður auðsjáanlega næstu 2–3 mánuði, hefur alllengi verið til meðferðar. Þar er margs að gæta. Framleiðsluráðið hefur fyrir sitt leyti fallizt á það og mælt með því, að leyfður yrði nokkur innflutningur á kjöti á þessu tímabili, af því að það hefur ekki getað bent á kjötbirgðir hér heima fyrir, sem hægt væri að nota. Og þótt það sé nú svo, að við höfum, og ekki sízt þegar kemur fram á vorið, marga matarholuna hér, sem hægt er að nota í stað stórgripakjöts eða dilkakjöts, eins og fugla, lax og margt og margt fleira, þá mun það þó varla þykja sæmilegt í nútímaþjóðfélagi, að ekki verði hægt að hafa eitthvert kjöt á boðstólum eitthvað fram undir þann tíma, sem sumarslátrun getur hafizt, og það er út frá þessu sjónarmiði, sem framleiðsluráð landbúnaðarins fyrir sitt leyti hefur viljað leyfa og jafnvel mæla með, að um kjötinnflutning væri að ræða, vill ekki sýna neina óþarfa stífni í þessu sambandi.

En hér kemur fleira til greina og þá m.a., hvort einhver hætta geti af því stafað, að þetta kjöt sé flutt inn. Við Íslendingar höfum allalvarlegar endurminningar um innflutning á búpeningi og pestum, sem því hafa fylgt. Nú er í l. um varnir gegn því, að alidýrasjúkdómar berist til landsins, að ekki megi flytja inn sláturfjárafurðir — hráar sláturfjárafurðir, eins og það er held ég nefnt - til landsins af ótta við það, að því geti fylgt einhver sjúkdómshætta. Sannleikurinn er nú náttúrlega sá, að það er svo margt, sem til landsins kemur nú með þeim öru samgöngum, sem sjúkdómshætta getur fylgt að einhverju leyti, eins og fjölmargt úr jurtaríkinu, umbúðir, hálmur og svo fjöldamargt annað.

Nú hafa í raun og veru verið þrír aðilar, sem starfað hafa að því að athuga, hvort samkomulag gæti náðst um till. um, að kjöt yrði flutt hér til landsins. Einn aðilinn er framleiðsluráð landbúnaðarins, eins og ég hef þegar nefnt. Annar er heilbrigðiseftirlitið, yfirdýralæknir landsins og rannsóknastöðin á Keldum, sá maður þar, sem aðallega fer með dýralæknismál. Og í þriðja lagi eru það svo þeir, sem hér í höfuðborginni koma fram fyrir hönd neytenda, og það eru kjötkaupmennirnir og þeir aðrir, sem verzla með þessa vöru og þykir að vonum leitt að hafa ekkert á boðstólum handa því fólki, sem þeir eru vanir að selja þessa dýru, en góðu vöru. Þetta mál hefur verið alllengi til meðferðar, eins og ég sagði áðan, en niðurstaðan af því hefur orðið sú, að það hefur náðst samkomulag milli allra þessara aðila — samkomulag um það, að ef vissum skilyrðum væri fullnægt, væri rétt að heimila ríkisstj. eða við skulum segja leyfa innflutning á einhverju kjötmagni þessa næstu mánuði. Og það, sem samkomulag hefur orðið um í þessu efni og ríkisstj. tekur sem skilyrði fyrir því, að kjötinnflutningur verði leyfður, er þetta í meginatriðum:

1) Að kjötið verði flutt inn frá Danmörku og þá frá Sjálandi. Þetta er ófrávíkjanlegt skilyrði af hálfu dýralæknanna og mun byggjast fyrst og fremst á því, að á Sjálandi í Danmörku hefur ekki verið um neina sjúkdóma að ræða nú um alllangt skeið, t.d. ekki þá hroðalegu gin- og klaufaveiki, sem er í fyrirsögn þessa frv., og í öðru lagi er svo talið, að þar sé einna auðveldast að rekja uppruna kjötsins til ákveðinna staða. Kerfi þeirra, Dananna, er svo ákveðið og öruggt, að það er alveg öruggt um það, að það er ekki vandi að kaupa smáslatta af kjöti og vita fyrir vist, hvaðan það er, hvort sem um svínakjöt eða nautakjöt er að ræða.

2) Að kjötið verði eingöngu flutt til Reykjavíkur og flutt þar á einn stað og læknisskoðað þar einnig. Í því sambandi hefur orðið samkomulag milli þessara aðila allra, að Sláturfélag Suðurlands tæki að sér kjötið, þegar það kæmi hingað, og það af þeim ástæðum, að það eitt hafi svo stóra vinnslustöð, að það geti annað þessu.

3) Að kjötið verði brytjað niður eða búið til smásöluverzlunar á annan hátt í húsakynnum Sláturfélags Suðurlands, þannig að allur úrgangur úr kjötinu verði á einum stað og verði dauðhreinsaður þar.

4) Að eingöngu verði flutt inn kjöt, sem er talið fyrsta flokks, algerlega fyrsta flokks eða úrvalsflokks frá heilbrigðislegu sjónarmiði.

5) Að kjötið verði flutt inn annaðhvort aðeins í eitt skipti eða a.m.k. alls ekki oftar en í tveim slöttum þetta stutta tímabil, sem hér er um að ræða.

6) Að yfirdýralæknirinn eða hans starfsmenn hafi sjálfir eftirlit með kjötinu, og svo er til ætlazt, ef af þessu verður, að annaðhvort yfirdýralæknirinn eða hans starfsmaður einhver, sem hann felur það, fari utan og verði við, þegar kjötið er keypt, og á þann hátt fylgist með því frá byrjun.

Ég taldi mér skylt að skýra hér frá því, hvernig mál þetta væri hugsað í framkvæmd, og ríkisstj. hefði aldrei fengizt til þess að leggja fram frv. um heimild til innflutnings á kjöti, nema það að öllu leyti væri í samráði við heilbrigðiseftirlitið, eins og gefur að skilja, og um leið, að það væri gert í samráði eða með samþykki framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ég skal taka það fram, að ef hið háa Alþingi fellst á að veita ríkisstj. þá heimild, er felst í þessu frv., þá mun ríkisstj. áreiðanlega nota hana mjög varlega. Hún mun, ef hún notar heimildina til innflutnings á kjöti, aðeins gera það að svo litlu leyti, að öruggur og nægur markaður verði fyrir það kjöt, sem fellst til fram að aðalsláturtíma í sumar. Allmikið af nautakjöti fellst til á þessu tímabili, og það mun áreiðanlega verða vakað yfir því, að það kreppi ekki að þeirri kjötverzlun um of. En hitt er þegar vitað, að það er búið að kaupa töluvert mikið af nautgripum, eldri og yngri, til slátrunar nú þegar, og því þegar sýnt, að það er ekki svo mikið af þeirri vöru á markaðnum, að það hlýtur, þótt það verði notað til hins ýtrasta, að verða verulegur skortur á kjöti.

Ég held, að það sé nú ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram varðandi þetta frv., sem hér liggur fyrir. Eins og ég tók fram áðan, þá er eitt atriði í þessum reglum, sem heilbrigðiseftirlitið, yfirdýralæknirinn og samstarfsmenn hans hafa sett, það, að kjötið verði eingöngu flutt til Reykjavíkur, enda mun svo ástatt, að víða úti um land eru enn smáslattar af kjöti, sem eitthvað endast þeim stöðum, ef ekki er alveg sópað um þeirra geymslur til Reykjavíkur og það mundi náttúrlega ekki verða gert, ef horfið væri að einhverjum innflutningi hingað, og mundi því þröngin verða minni, auk þess sem þeir frá heilbrigðissjónarmiði telja það miklu öruggara, að þessu kjöti sé ekki dreift víða út um land. Innflutningurinn mun því tengdur við Reykjavík og aðeins næstu nágrannastaði hennar, eins og Hafnarfjörð og e.t.v. Suðurnes að einhverju leyti.

Ef ekki væri nú svo langt komið á þingtímann og yfirleitt búizt við, að þessu þingi verði slítið á morgun, þá hefði að sjálfsögðu þessu frv. verið vísað til n. og athugað þar, en það liggur nokkuð í hlutarins eðli, að ef á að reyna að halda þá áætlun, þá er varla hægt, að þetta frv. fái venjulega afgreiðslu í n. Ég vildi því leyfa mér að mælast til þess f. h. ríkisstj., að hv. d. féllist á það, að frv. mætti fara nefndalaust gegnum þingið. Ég tel mig hafa skýrt það nokkuð rækilega, að svo sé hér um hnútana búið um eftirlit og aðferðir með þennan innflutning, ef hann verður leyfður, að það ætti að vera nokkuð óhætt að leggja þetta, eins og það nú horfir við, í vald ríkisstj., þar sem hún að sjálfsögðu skuldbindur sig um það að fylgja að öllu leyti þeim reglum, sem þegar hefur orðið samkomulag um í þessu sambandi.

Ég mun því ekki gera till. um n. að svo komnu og vildi leyfa mér að biðja hæstv. forseta að reyna að flýta þessu frv. hér í gegnum hv. d. eins fljótt og hann telur sér vera mögulegt að gera.