13.04.1954
Efri deild: 91. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

209. mál, gin- og klaufaveiki

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég bið hv. deild afsökunar á því, að ég var hér ekki, þegar 1. umr. fór fram, en það stóð yfir atkvgr. í Nd.

Ég þarf nú ekki að segja mörg orð um þetta frv., en þótt nafnið sé allsvakalegt, þá er nú efni þess tiltölulega meinlaust, en það er það, að heimilt verði fyrir ríkisstj. að láta flytja inn eitthvert magn af kjöti nú í apríl, maí og júnímánuði vegna þess, hve kjötbirgðir eru mjög þrotnar hér á landi. Og það stafar, eins og allir hv. alþm. vita, í fyrsta lagi af þeim niðurskurði á sauðfé, sem fram hefur farið undanfarin ár, en er nú því betur lokið, og hefur það að sjálfsögðu dregið mjög úr framleiðslu sauðfjárafurða, en sauðfjárkjöt eða dilkakjöt er, eins og við vitum, svo að segja eina kjötið, sem verulega þýðingu hefur hér hjá okkur til neyzlu. En annað — og það er nú gleðilegt hins vegar — gerir það að verkum, hve dilkakjötið er lítið nú, en það er, hve tíðarfarið var gott í fyrrasumar, svo að sá mikli heyafli, sem alls staðar var um allt land, gerði það að verkum, að bændur settu miklu meira á s.l. haust af lömbum en gert hefur verið um langt skeið áður. Má næstum því segja, að svo að segja hver gimbur, sem talin var lífvænleg, hafi verið sett á s.l. haust. Er því alveg víst, að um geysimikla framleiðsluaukningu verður að ræða á því ári, sem nú er um að ræða. En ástandið er þannig, að kjöt er svo að segja þrotið nú, jafnt hvort spurt er eftir dilkakjöti, nautgripakjöti eða hrossakjöti; það er allt á þrotum.

Ríkisstj. hefur ekki haft í sjálfu sér forgöngu um þetta mál. Það er framleiðsluráð landbúnaðarins, sem lögum samkvæmt hefur með að gera verðlagningu á kjöti eftir þeim reglum, sem ákveðið er hér í lögum, og um miðlun þess, og það er framleiðsluráðið, sem hefur fyrir sitt leyti mælt með því, að einhver innflutningur yrði leyfður á kjöti, til þess að ekki væri um algeran skort á því að ræða fram undir þann tíma, þegar sumarslátrun gæti hafizt. Og það eru í raun og veru þrír aðilar, sem að þessu hafa starfað, undirbúningi þessa máls. Það er í fyrsta lagi framleiðsluráð landbúnaðarins og í öðru lagi heilbrigðisyfirvöldin, yfirdýralæknir landsins og aðaldýralæknirinn á rannsóknastöðinni á Keldum, og svo í þriðja lagi eru það fulltrúar fyrir kjötbúðirnar hér í Reykjavík, sem vissulega hafa komið hér fram fyrir hönd neytenda með mjög ákveðnar óskir um það, að á einhvern hátt yrði útvegað eitthvert kjöt.

Þessir aðilar hafa komið sér saman um vissar reglur, á hvern hátt kjöt yrði flutt inn, og það hafa heilbrigðisyfirvöldin samþykkt. Fyrsta atriðið er það, að kjötið sé aðeins flutt frá einu landi og í gegnum einn aðila hér, sem ætlazt er til að sé framleiðsluráðið sjálft. Og dýralæknarnir hafa gert þá kröfu, að þetta yrði flutt frá Danmörku og þá frá þeim hluta Danmerkur, sem Sjáland nefnist, af þeirri ástæðu, að þeir telja það öruggast af öllum ástæðum, sérstaklega hve eftirlit sé þar öruggt og hægt sé að vita fyrir víst, úr hvaða landshluta kjötið kemur eða jafnvel frá hvaða búgörðum. Þá hafa þeir og krafizt þess, að kjötið yrði eingöngu flutt til Reykjavíkur og flutt þar aðeins á einn stað, eina vinnslustöð. Samkomulag hefur orðið um það, að sú vinnslustöð yrði hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem mun hafa hana stærsta hér, og þar verði kjötið búið til smásöluverzlunar og sent þaðan út í búðirnar, en allur úrgangur dauðhreinsaður. Að sjálfsögðu er þess krafizt, að hér verði aðeins flutt inn fyrsta flokks kjöt frá heilbrigðissjónarmiði skoðað og að þetta verði helzt flutt inn í einu lagi, sá innflutningur, sem leyfður verður, a.m.k. alls ekki meira en tvisvar, og að yfirdýralæknirinn eða heilbrigðiseftirlitið hafi yfirumsjón með þessu öllu.

Ríkisstj. hefur sannfærzt um það, að ef þessum till. yrði framfylgt, sem sjálfsagt er að öllu leyti, og þar á meðal annaðhvort yfirdýralæknirinn eða einhver af hans fulltrúum fari út og kaupi kjötið, þá sé ekki ástæða til þess að hafa á móti því, að kjötinnflutningur verði leyfður. Hins vegar er það náttúrlega mjög erfitt, að tvo til þrjá mánuði verði ekki um neitt kjöt að ræða hér, eins og t.d. í Reykjavík mundi verða. Út frá þessu sjónarmiði er það, sem ríkisstj. flytur þetta frv. Smáslattar eru enn af kjöti víðs vegar úti um land, sem mundu þó endast lengur, ef ekki yrði skrapað saman það lítið, sem þar er, til þess að flytja í kjöthungrið hér í Reykjavík. Af þeim ástæðum er því algerlega reiknað með því, að kjötið fari eingöngu hingað, enda eitt af þeim atriðum, sem dýralæknarnir leggja mikla áherzlu á.

Ég vil svo aðeins geta þess að lokum, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu nota þessa heimild, verði hún veitt, mjög varlega. Hún mun alls ekki leyfa meiri innflutning á kjöti en það, að öruggt sé, að það kjötmagn, sem fellur til hér, eins og alltaf er nokkuð á vorin og fram eftir sumri, af alls konar nautgripakjöti, hafi öruggan markað. En nú er nokkuð farið að ganga á þetta, því að það er vitað, að það hefur mjög verið sótzt eftir nautgripum til slátrunar hinar síðustu vikur, og er búið að smala töluvert af því, svo að það verður tiltölulega erfiðara að fá það hér eftir en oft hefur verið undanfarin ár.

Þetta var það nú, sem ég sérstaklega vildi taka hér fram. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta deildarinnar fyrir það, hvað fljótt hann hefur tekið þetta mál hér á dagskrá. Ef hér stæði ekki þannig á, að búizt er við, að þingi ljúki á morgun, þá hefði þetta frv. að sjálfsögðu farið til n., en hæstv. forseti hefur nú fengið það gegnum 1. umr. hér og víst engin till. komið um n., og er ég raunverulega þakklátur fyrir það.

Ég vil því aðeins leyfa mér að mælast til þess, að hv. d. vildi fallast á, að þetta frv. fengi að ganga áfram nefndarlaust hér í gegnum þingið.