13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þótt það komi ekki þessu frv. við, sízt beinlínis, þá hefur því verið blandað inn í umræðurnar, hvernig væri um eignarrétt á vestri Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár. Það var við 1. umr. málsins, að hv. þm. S-Þ. hafði það á orði, að breyting hefði orðið á eign þessa lands við ráðherrabréf, sem gefið var út fyrir mörgum árum. Ég sýndi nú fram á það þá, hvílík fjarstæða það væri, að eitt ráðherrabréf gæti breytt eignarheimildum. Til þess þarf a.m.k. lög og einna helzt lög um fjárnám, eins og hv. þm. ætti að vera ljóst. Það var einnig vikið að þessu atriði að nokkru leyti hér í gær, bæði af hv. þm. Str, og hv. þm. S-Þ. Það kom nú alveg fram í gær — og þarf ekki að fara fleiri orðum um það — m.a. af því, sem hv. þm. Str. sagði, og af kafla úr bréfi, sem hann hafði undirskrifað sem landb.- og kirkjumrh., að hann a.m.k. viðurkennir í því bréfi, að umrætt land sé eign Akureyrarkirkju, sem það og er. Nú heldur hv. þm. S-Þ. því fram, að landið sé orðið eign kirkjujarðasjóðs og að presturinn hafi fengið það að fullu bætt. Það mun nú ekki vera neins staðar nein heimild fyrir því, að landið sé eign kirkjujarðasjóðs, og þetta gamla ráðherrabréf, sem gefið var á sínum tíma út af Jónasi Jónssyni, er ekkert um það, heldur aðeins um það, að umboðið yfir þessu landi sé fengið hreppsstjóra Hálshrepps, ef ég man rétt. Og ég tel það mjög vafasamt, að það geti verið eign kirkjujarðasjóðs og eigi að meðhöndla sem slíkt, sökum þess að þessi eign veitti ýmsum mönnum ákveðinn rétt, sem ég sé ekki að sé hægt af þeim að taka öðruvísi en þá með fjárnámsheimild og komi fullar bætur fyrir. Það eru engar bætur til annarra en prestsins, þó að það hafi verið tekið tillit til þess í hans launum, að þessar heimatekjur eru fallnar burt. Það eru til fleiri með rétt til þess að reka sauðfé sitt í þetta land, og það getur ekki, að ég hygg, neitt ráðherrabréf afnumið slíkan gamlan rétt.

Þá vék hv. þm. S-Þ. að sýkingarhættunni, sem gæti af því stafað, að Eyfirðingar rækju fé sitt á Bleiksmýrardal, af því að Hrafnagilshreppur væri við jaðarinn á varnargirðingunum, eins og hann orðaði það. Hv. frsm. landbn. svaraði nú þessu: að Hrafnagilshreppur, Öngulsstaðahreppur og Þingeyjarsýsla austur að Skjálfandafljóti eru í sama hólfinu að því er sauðfjárveikivarnir snertir og engin trygging fyrir því, að fé gangi ekki yfirleitt saman innan þessa hólfs. Ég dreg það mjög í efa, að hættan sé mest við jaðarinn í þeim skilningi, sem hv. þm. talaði um, þ.e.a.s. við varnargirðingarnar yfir þveran Eyjafjörð. Ég gæti haldið, þó að ég sé ekki mjög kunnugur fyrir innan byggðirnar, að það gæti alveg eins komið fyrir, þótt það eigi ekki að vera, að fé úr Þingeyjarsýslu og Skagafirði hittist inni á öræfum, þótt náttúrlega eigi að verjast því, að svo sé.

Hv. þm. S-Þ. talaði um, að það gætu ekki nema fáir bæir rekið á hin miklu afréttarlönd inn af Fnjóskadal, sem tilheyra Fnjóskadal alveg ómótmælanlega. Ég get ekki fallizt á þetta. Mér finnst, að menn að vestanverðu í Fnjóskadal alllangt inn í dalinn gætu rekið austur fyrir ána, yfir brúna á Fnjóská og svo inn í dalina. Það er stuttur rekstur samanborið við það, sem það er að reka féð vestan úr Hrafnagilshreppi á Bleiksmýrardal. Og svo er ekki þar með sagt og mun aldrei hafa verið, að þó að þessi réttur Eyfirðinga til að reka í þetta land hafi verið fyrir hendi, að enginn Fnjóskdælingur geti rekið einnig vestan árinnar. Það mun hafa verið svo um aldir, að einhverjir Fnjóskdælingar hafa rekið í þetta land einnig, og svo mundi að sjálfsögðu enn geta orðið, þó að þessi réttur skerðist.

Hv. þm. minntist á það, að mér skildist, ef þetta frv. yrði samþ., þá bæri Eyfirðingum skylda til að girða fyrir þetta land. Það eru til sérstök lög um girðingar og girðingarskyldu, og mundi sjálfsagt verða farið eftir þeim. En frv. fer nú ekki fram á annað en það, að gamall réttur haldist um takmarkaðan tíma. Ef til vill þarf ekki á þessu að halda á þessum grundvelli nema næsta ár eða tvö ár t.d., og mundi það þá vera nokkuð hart, virðist mér, að skylda Eyfirðinga til þess að fara að girða og það að öllu leyti á eigin kostnað fyrir þennan afrétt. Hitt er allt annað mál, ef Eyfirðingar fengju þennan rétt til frambúðar og þetta landssvæði væri viðurkennt þeirra eign. Þá væri auðvitað sjálfsagt, að þeir girtu fyrir dalinn.

Hv. þm. minnist á það, að rn. hefði þótt vafasamt að veita Eyfirðingum sama rétt næsta eða næstu ár eins og á s.l. sumri. Rn. taldi, að að vísu væru heimildir til þess í núgildandi lögum um varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, en sú heimild væri ekki svo ótvíræð eins og lögin hljóða nú, að það vildi endurtaka sinn úrskurð frá í vor. Það kaus heldur að fá ótviræðari lagaheimild. Og frv. gengur ekki út á annað en það að gera þau lagaákvæði, sem fyrir eru, ótviræð í þessu efni, m.ö.o., að sú meining, sem er í 43. gr. þessara laga, komi ótvírætt fram. Þetta er þannig ekki neitt nýmæli.

Ég held það hafi verið algerður misskilningur, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að þetta mál, eins og það liggur hér fyrir hv. d., ætti að vera nokkurt dómsmál. Frv. fjallar aðeins um breytingu — og hana ekki stórvægilega — á þessum lögum, sem ég nefndi áðan, og hafi Alþingi haft rétt til þess að setja t.d. 43. gr. þeirra laga, þá hefur það án efa jafnmikla heimild til þess að samþykkja þetta lagafrumvarp. Hitt er annað mál, og ég býst víð, að það hafi vakað fyrir hæstv. ráðh., að hér ætti að fara að breyta eignarheimildum, — og býst ég við, að það gæti orðið dómstólamál. En þó að það hafi borizt í tal og hæstv. ráðh. sjálfsagt heyrt það, að um þetta væri rætt hér, þá liggur það ekki fyrir í frv. til samþykktar eða synjunar, svo að það getur ekki komið til mála, að Alþingi sé ekki bært um að setja þessi lagaákvæði, sem hér er farið fram á að setja, alveg eins og það setti lagaákvæði, sem gengu í sömu átt, með sauðfjársjúkdómalögun um. En það gæti svo sem komið til þess, að mál viðvíkjandi eignarrétti á Bleiksmýrardal gæti orðið dómstólamál, eignarrétti á dalnum sjálfum eða þessu landi sjálfu, og líka um rétt manna til að nota þetta land. Það er ákaflega einkennilegt, — það er nú skýrt tekið fram í stjórnarskránni, — að Alþingi getur ekki svipt menn eign eða ákveðnum réttindum með lögum, nema almenningsheill krefji og fullar bætur komi fyrir, en það er engu líkara en að sýslunefndir geti þetta með einfaldri breytingu á reglugerð, fjallskilareglugerð. Og það er vitanlega mjög athugandi, bæði fyrir löggjafarvaldið og jafnvel kannske dómstólana, hvort slíkt fær staðizt, að sýslunefndir megi og geti svipt menn kannske eign eða sama sem eign að minnsta kosti og réttindum, sem Alþingi er algerlega óleyfilegt að gera, — að sýslunefndir séu að þessu leyti voldugri en Alþingi.

Ég álít það þess vegna mjög vafasamt, að með þessu fjallskilareglugerðarákvæði hafi sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu haft nokkurn rétt til þess að svipta menn — og óhætt að segja sérstakt landssvæði — réttindum, sem það hefur haft í aldir. Ég dreg það mjög í efa. Og þetta gæti að sjálfsögðu orðið dómstólamál, eins og hæstv. dómsmrh. var að tala um, en lagafrv. kemur ekki nálægt þessu í raun og veru, og þess vegna er í sjálfu sér rangt að vera mikið að fjölyrða um þessa hlið málsins, því að hún liggur ekki fyrir, en þetta hefur nú borizt í tal í sambandi við frv.