19.11.1953
Neðri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., er komið frá Ed. og er flutt þar af hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Eins og hv. þdm. sjá, er hér um að ræða breyt. á 7. gr. laga um útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, og er breyt. í því fólgin, að ákveðið er, að einstökum jörðum eða upprekstrarfélögum skuli heimilt að nota til upprekstrar þau afréttarlönd, sem þeir hafa haft afnot af til þessa, svo lengi sem þessir aðilar eru sviptir sjálfir með aðgerðum sauðfjársjúkdómavarnanna aðgangi að eigin afréttarlöndum.

Mér þykir rétt að skýra örlítið nánar þau atvik, sem að því liggja, að þetta frv. er fram borið. En til þess er sú ástæða, að nú um mjög langt árabil hafa bændur í einum hreppi Eyjafjarðarsýslu, Hrafnagilshreppi, notað upprekstrarland á svokölluðum Bleiksmýrardal, sem tilheyrir Þingeyjarsýslu, en er eign Akureyrarkirkju. Þetta land hefur verið notað af þessum aðilum, eins og ég sagði, um mjög langt skeið til upprekstrar. Upprekstrarland Hrafnagilshrepps er mjög lítið, og auk þess bætist það við, að nú standa svo sakir, að þeir eru með sauðfjársjúkdómavörnunum hindraðir í því að nota stóran hluta af því upprekstrarlandi, sem þeir annars mundu hafa.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, er sú, að hreppsnefnd Hálshrepps í Þingeyjarsýslu hefur nú neitað um leyfi til þess, að þessir bændur úr Hrafnagilshreppi fái að nota þetta upprekstrarland, og þar með valdið því, að ef ekki verður um breytt, þá er augljóst, að þeir bændur, sem notað hafa þetta upprekstrarland, verða að drepa niður sitt sauðfé, því að þeir hafa engan aðgang að öðru landi. Það liggur ótvírætt fyrir, að bændur í Hálshreppi hafa ekki þörf fyrir þetta upprekstrarland, a.m.k. ekki á nokkurn hátt frekar en þeir hafa áður haft, og hafa þeir þó ekki hreyft andmælum við því, að landið væri notað af þessum bændum úr Hrafnagilshreppi.

Í fyrra var þetta vandamál leyst á þann veg, að landbrh. notaði heimild í 7. gr. laga um sauðfjársjúkdómavarnir til þess að úrskurða, að bændur í Hrafnagilshreppi hefðu heimild til að nota þetta land það sumar. Landbrh. telur hins vegar, að heimild sú, sem var í lögunum, sé svo hæpin, að það muni þurfa skýrari lagaákvæði til þess að gera það ótvírætt, að bændurnir hafi þennan rétt. Af þessum sökum er þetta frumvarp fram borið. Hér er ekki að því miðað á hinn minnsta hátt að skerða þau réttindi, sem bændur í Hálshreppi að undanförnu hafa haft til afréttarlanda, né að veita bændum úr Hrafnagilshreppi aukinn rétt, heldur er aðeins, eins og hv. þdm. sjá, með frv. gert ótvírætt, að meðan svo standa sakir, að þeir hafa ekki nein önnur úrræði til að bjarga sínu sauðfé til beitar á sumrin, þá hafi þeir rétt til þess að nota þetta sama land eins og þeir hafa notað það í marga undanfarna áratugi.

Af þessum sökum vildi ég leyfa mér að mega mjög vona það, að hv. d. gæti fallizt á þá skoðun, sem staðfest hefur verið í hv. Ed., að hér sé um að ræða tvímælalaust réttlætismál, sem eðlilegt sé og rétt að fá ótvíræða lagaheimild um.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en geri ráð fyrir því, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. landbn.