15.12.1953
Neðri deild: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta frv. á þskj. 133 á nokkrum fundum og orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþ. með þeirri breyt., að 13. gr. orðist um og orðist svo:

„Um greiðslu kostnaðar vegna hælisvistar fer eftir l. nr. 78 1936, um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.“

Í 13. gr. l. frá 1949 er ákveðið, að kostnaðurinn greiðist á sama hátt og fyrir sjúklinga á öðrum sjúkrahúsum ríkisins, en það er nokkuð óákveðið orðalag og segir ekki afdráttarlaust fyrir um það, hvernig þessi kostnaður skuli greiddur, og þess vegna leggur n. til, að gr. sé orðuð um eins og ég nú las.

Einn nm., hv. þm. A-Sk. (PÞ), áskilur sér rétt til að fylgja brtt. við þetta frv., ef hún skyldi koma fram.

Í l. nr. 55 25. maí 1949 er mælt svo fyrir, að sveifarfélög reisi og reki slík hæli sem hér er rætt um, en njóti til þess styrks frá ríkinu eftir l. um sjúkrahús. Reynslan hefur sýnt, að ekkert sveitarfélag hefur þó treystst til þess að ráðast í byggingu hælis á grundvelli þessara l. Okkur virðist bygging hælisins svo aðkallandi, að það magi ekki lengur dragast, sérstaklega þar sem nú þegar eru handbærar um 3 millj. kr. í gæzluvistarsjóði, en með þessu frv. er lagt til, að fé hans sé varið til þess að reisa og reka hæli fyrir þá sjúklinga, sem ætla má að þarfnist langrar hælisvistar.

Það er nú almennt viðurkennt, að þessir sjúklingar þurfi lækningu, sem oft er bæði vandasöm og tekur langan tíma og þarf auk þess góð ytri skilyrði, ef hún á að heppnast. Lækna greinir að vísu nokkuð á um aðferðir við lækningu þessara sjúklinga, en öllum þeim aðferðum, sem ég þekki, er það sameiginlegt, að nauðsynlegt er að eiga aðgang að hælisvist um lengri eða skemmri tíma fyrir mikinn hluta sjúklinganna. Lækningaaðferðir við þennan sjúkdóm eru tiltölulega nýjar, en eðli sjúkdómsins þannig, að búast má við, að alllangur tími líði þar til full reynsla fæst um ágæti þeirra. Þó er nú talið, að unnt sé að lækna 50–80% af þessum sjúklingum með viðeigandi meðferð.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál, en það er von okkar, að samþykkt þessa frv. með þeirri breyt., sem við leggjum til, megi verða til þess að flýta fyrir því, að þessir sjúklingar fái nauðsynlega umönnun og að þeim þeirra, sem unnt er, verði bjargað.