13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

,Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj 107, er þess efnis, að selja megi tvær jarðir, sem ríkissjóður á. Stendur hér í 1. gr. frv., að söluverð jarðanna fari eftir því, sem um semst, eða eftir mati tveggja dómkvaddra manna, ef samningar takast ekki. Ég hef litið svo á, að það vaki fyrir hv. flm. frv., að ef frv. verður samþykkt óbreytt, þá verði þessar jarðir ekki háðar því skilyrði að gerast að ættaróðali. Hins vegar er sýnilegt á þeim brtt., sem fram hafa komið á þskj. 137 og 136, að flm. þeirra till. ætlast til þess, að þær jarðir verði gerðar að ættaróðali, þótt þæri verði seldar eftir mati eða með sömu skilyrðum og gert er ráð fyrir upphaflega í frv. Það er því sýnilegt, að þessi ákvæði samrýmast ekki, og tekur hv. landbn. þetta væntanlega til athugunar við 3. umr., þar sem viðkomandi hv. flm. hafa lýst því yfir, að þeir taki till. aftur til 3. umr.

Ég hef hér á þskj. 157 borið fram brtt. Fyrst, að á eftir 2. tölul. komi ný málsgr., er orðist svo: Enn fremur heimilast ríkisstjórninni að selja jörðina Moshlíð á Barðaströnd ábúandanum, Reyni Hjartarsyni. — Og síðan nr. 2, að fyrirsögn frv. breytist: Frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jarðir í opinberri eigu. — Þessi till. mín er stíluð við frv. sjálft, og ber því að skilja hana svo, að ef hún verður samþykkt ásamt frv., þá fylgi ekki sú kvöð að gera jörðina að ættaróðali, heldur verði jörðin seld eftir mati tveggja dómkvaddra manna eða eftir samningum á milli kaupanda og seljanda. Það er mín skoðun, að það sé raunverulega ekki um neina sölu að ræða á ríkisjörðunum, ef það á að fylgja þessu ákvæði að gera jarðirnar að ættaróðali og jarðeigandi sé síðan skyldugur til þess að selja jörðina aftur, þegar hann hættir að uppfylla þá kvöð. Ég þekki það nokkuð af reynslu um einstaka jarðir, sem hafa gengið kaupum og sölum þannig, og fullyrði, að það hafi ekki verið náð þeim tilgangi með þessu ákvæði, sem löggjafinn á sínum tíma hefur ætlazt til. Ég þekki til dæmis um eina jörð í Barðastrandarsýslu, sem var seld fyrir 5000 krónur eftir fasteignamati, og fylgdu þessi ákvæði með. Síðan þegar eigandi jarðarinnar deyr og enginn úr ættinni er til þess að taka við, þá á að selja jörðina aftur, og þá verða ýmiss konar vandræði í sambandi við söluna. Það má ekki selja hluta ríkisins fyrir neitt annað en fasteignamat. Hins vegar átti ábúandi og eigandi ýmis mannvirki á jörðinni, og síðan eru mannvirkin seld og jörðin í heild eins og það væri á frjálsum markaði. Þetta vildi ég gjarnan að hv. n. athugaði, þegar hún afgreiðir þetta mál. Að selja manni eign með þeirri kvöð, að kaupandi hefur leyfi til þess að meðhöndla hana sem sína eign, á meðan hann lifir, og aðrir af hans ættingjum, en strax ef einhver annar á að taka við, má ekki ráðstafa henni, er raunverulega sama og selja hana ekki, þar sem þá eru um leið sett svo hörð skilyrði gagnvart byggingum á jörðinni, að það bókstaflega hamlar viðkomandi aðilum að gera nokkrar verulegar framkvæmdir eða breytingar á eigninni. Ég hef óskað eftir, að þessi till. mín yrði samþykkt, og það er vegna þess, að ábúandi jarðarinnar hefur sótt það mjög fast að fá jörðina keypta, en hann hefur nú lífstíðarábúð á jörðinni. Hann telur sig vera heftan að gera ýmsar framkvæmdir, sem hann vill ekki gera á annarra eign, þar sem hann hafi ekki nægilega tryggingu fyrir því að geta verið frjáls um sölu þeirra framkvæmda, úr því að hann má ekki selja jörðina sjálfa, og hefur þessi skoðun ekki einungis risið upp hjá honum, heldur og hjá fjöldamörgum öðrum bændum, — enda er það sýnilegt svo að segja um allt land, að þar sem bændurnir eru ekki að fullu ráðandi yfir jörðunum, er hægt að þekkja þær jarðir úr. Þar eru ekki sams konar framkvæmdir og þar sem bændurnir eiga jarðirnar kvaðalausar.

Ég hef rætt við hv. formann landbn. um þessa till. Sagði hann, að það væri sá ljóður á í sambandi við þetta mál, að þessi jörð ætti ekki neitt upprekstrarland. Þessi jörð er hjáleiga frá Brjánslæk, sem einu sinni var prestssetur, en meðferð landbrn. undanfarið og þeirra manna, sem fjalla um þau mál, er slík, að enginn prestur fæst til þess að sækja um brauðið. Það er búið að taka jörðina af prestinum og skipta henni milli kirkju og bónda. Skilst mér, að hann hafi fengið lífsábúðarrétt á jörðinni gegn öllum lögum og öllum rétti, landinu einnig skipt gegn lögum og rétti, húsið tekið handa bóndanum til íbúðar og þannig farið með allt prestssetrið, að það getur enginn þrestur látið sér detta í hug að fara á jörðina, og þetta mun þó vera ein af allra beztu jörðunum í Barðastrandarsýslu. Mér er kunnugt um, að það eru ýmsir prestar og ýmsir kandídatar, sem hafa viljað fara á þessa jörð nú í seinni tíð, en þegar þeir hafa kynnt sér ástandið á jörðinni og kynnt sér þá samninga, sem hafa verið gerðir í sambandi við núverandi ábúanda, hafa þeir allir horfið frá því og vilja heldur kjósa allt annað en það að eigá að ganga inn í þessa samninga, sem þar hafa verið gerðir.

Ég sé enga erfiðleika á því, að Moshlíð sé seld ábúandanum, þótt beitiland kunni að vera óskipt. Úr því má bæta með því að skipta beitilandi úr jörðinni Brjánslæk og láta það fylgja Moshlíð. Ef það er ekki hægt vegna aðstöðunnar, sem vel má vera, þá má gefa ábúanda eða kaupanda sama rétt til beitarlands í Brjánslækjarlandi eins og hann hefur sem ábúandi. Viðkomandi aðili mundi að sjálfsögðu sætta sig við það. En ég legg megináherzlu á það, að honum verði seld jörðin, m.a. vegna þess, að eins og nú stendur eru mjög litlar byggingar á jörðinni. Þetta er ungur bóndi, sem hugsar sér að byggja þarna upp, hefur ekki löngun til að byggja þar upp á ríkiseign, og það gæti orðið til þess, að jörðin færi aftur í eyði, ef hann gæti ekki fengið kauparéttinn elns og hann hefur óskað eftir.

Ég hygg, að þetta séu nægilegar skýringar fyrir hv. n. til þess að geta myndað sér hugmynd um það, hvort hún eigi að mæta þessum óskum ábúanda.