07.10.1953
Neðri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá var eitt af þeim fögru loforðum, sem hún gaf, að hún mundi nú fara að létta skatta á almenningi, og það lítur nú út fyrir, að við séum hérna að sjá fyrstu efndirnar í því sambandi. Það var tilkynnt af hálfu hæstv. ríkisstj., að nú væri loks komið svo vel fjárhag ríkisins, að nú væri hægt að létta að einhverju leyti á þeim þungu álögum, sem hvílt hafa á almenningi undanfarið. Maður hefði þess vegna getað búizt við að sjá nú eitt með því fyrsta, sem fram kæmi í þinginu, einhverja viðleitni til þess að efna þau loforð. Það er hins vegar alveg þvert á móti; það fyrsta, sem hæstv. ríkisstj. hér flytur fram, er framlenging á söluskattinum. Maður hefði kannske getað búizt við, fyrst hún var nú að minnast á, að ef til vill yrði það tekjuskatturinn, sem eitthvað ætti — að létta af, að maður hefði þá a.m.k. séð til þess að byrja með eitthvert frv., sem gengi í þá átt. ríkisstj. hefur ekki einu sinni haft svo mikið við. Ég veit ekki, af hverju það muni vera. Við eigum enn þá eftir að sjá, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér í sambandi við breyt. á tekjuskattinum. Kannske höfuðatriðið í þeim eigi að verða að létta byrðunum af herðum þeirra, sem bezt geta borið þær; kannske það sé hugmyndin með hennar frv. viðvíkjandi tekjuskattinum að fara að létta dálítið á þeim, sem ríkastir eru og tekjuhæstir í landinu. Hér kemur hins vegar fram frv., sem gengur beint í þá átt að halda áfram öllum þyngstu, óvinsælustu og verstu álögunum, sem nú hvíla á almenningi, söluskattinum.

Ég verð að segja, að það er nú nokkuð hart, meðan stjórnaryfirlýsingin er svona ný, að sjá þetta undireins. Það er auðséð, að hæstv. ríkisstj. þykist vera nokkuð viss um, að hún megi bjóða bæði fólkinu og sínum þingflokkum hvað sem er, eftir að hún er nú einu sinni sloppin út úr kosningunum og fer nú kannske ekki í kosningar svo fljótt aftur. En ég verð að segja, að ég get a.m.k. ekki látið þetta mál fram hjá fara við 1. umr. þess án þess að minna á þetta og lýsa yfir nokkurri undrun minni, þótt ég hafi nú ekki búizt við sérlega miklu af hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ríkisstj. hafði líka rætt um það í sinni yfirlýsingu, að hún mundi veita landsmönnum nokkru meira frelsi, m.a. frelsi til þess að geta byggt yfir sig — og mega það a.m.k. óáreittir af yfirvöldunum, án þess að yfirvöldin legðu sig í framkróka til að reyna að hindra menn í því. Það bólar ekki á því. Þvert á móti er farið undireins í málgagni hæstv. fjmrh. að tala um, að það sé nú helzt ekki hægt að gefa nokkurn skapaðan hlut eftir á neinum þeim höftum, sem nú hvíla á almenningi. Þegar húsnæðisleysið hérna í Reykjavík er þannig, að það hefur aldrei verið annað eins, þá sýnir hæstv. ríkisstj. ekki nokkra viðleitni í þá átt, í samræmi við bæði kosningaloforð sín og stjórnaryfirlýsingu, að leggja hér fram eitthvert frv. um að gefa mönnum meira frelsi til þess að mega byggja, svo að ég tali nú ekki um að reyna að einhverju leyti að gera það ódýrara fyrir menn heldur en verið hefur. Það bólar ekki á slíku, en viðleitnin til að halda við öllum verstu álögunum á almenningi er í fullum gangi. Mér finnst það sem sé ekki spá góðu, að þetta skuli vera fyrsta frv., sem kemur fram viðvíkjandi skattaálögunum, að verstu og ranglátustu álögunum eigi að viðhalda, þeim, sem þyngst hvíla á almenningi. Og mér finnst það nokkuð undarleg aðferð til að efna það, sem hæstv. ríkisstj. hafði lofað, að létta sköttunum.

Ég vil svo leyfa mér í sambandi við þetta frv. hæstv. ríkisstj. að minna enn einu sinni á það, þótt ég hafi gert það nokkuð oft, hver tilgangurinn er í l., sem hér er verið að framlengja, með þeirri tekjuöflun, sem talað er um í 1. gr. þessa frv. — 1. gr. þessa frv. hljóðar svo, að ákvæðin um tekjuöflun, sem sett eru í 3. kafla l. nr. 100 1948, skuli gilda til áramótanna 1954– 55. Af þessum l. stendur ekkert eftir. 1. og 2. kafli eru horfnir, þeir eru ekki lengur til. Og fyrirsögn þessa 3. kafla, sem hér um ræðir, er: „Um dýrtíðarsjóð“. — Þessi 3. kafli er sem sé um dýrtíðarsjóð, en 19. gr., sem mælir svo fyrir, að það skuli stofna sérstakan dýrtíðarsjóð, er felld úr gildi, ekki einu sinni með neinum lagaákvæðum, heldur stendur hér bara: Ákvæðin um tekjuöflun skulu gilda. — Sem sé, það skal klípa innan úr greinum, sem annars eru fallnar úr gildi, innan úr lögum og innan úr greinapörtum, sem annars eru fallnir úr gildi, ákveðin ákvæði, sem skulu standa áfram. Úr 3. kaflanum ú að fella burt allt, sem er tilgangur álaganna. Tilgangurinn með álögunum var að skapa dýrtíðarsjóð, og eftir 19. gr. skyldi honum varið til að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands. M.ö.o.: þessi söluskattur var lagður á til þess að berjast á móti dýrtíðinni, til þess að lækka dýrtíðina og til þess að standa undir fiskábyrgðinni. Núna á að framlengja þetta til þess að auka dýrtíðina, til þess að viðhalda dýrtíðinni, og án þess að gera nokkurt gagn í þá átt, sem miðað er við í þessum 3. kafla um dýrtíðina. Mér finnst nú, að það allra minnsta, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað gert, — og á það er búið að benda þing eftir þing, og það þessum sama hæstv. fjmrh., sem nú situr, — er að ganga a.m.k. þannig frá þessum lögum, að það sé ekki lögfræðilega til skammar. Það er ekki nokkur mynd að framlengja ár eftir ár lög, sem eru þannig, að það er verið að klípa út úr einstökum greinum einstök ákvæði og ekki tilgreint, hvaða ákvæði skuli gilda, bara að ákvæðin um tekjuöflun, sem selt eru í þessum kafla, skuli gilda. Þetta nær ekki nokkurri átt. Svona á ekki að ganga frá málum. Og þetta er búið að ávíta ríkisstj. fyrir af hálfu fjhn. þing eftir þing. Hæstv. fjmrh. hefur ekkert tillit tekið til þess, og það er auðséð af hverju. Fyrir almenning, þegar þetta er lesið upp, t.d. í útvarpinu, að ákvæðin um tekjuöflun, sem eru í 3. kafla laga um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, skuli gilda áfram, er það náttúrlega eins og hebreska. Almenningur skilur ekki nokkurn skapaðan hlut, hvað átt er við með þessu. Það er ágætt fyrir fjmrh. að láta lesa þetta upp í útvarpinu. Ef hins vegar væri þulið upp, hvað þetta gildir, hvað er verið þarna að leggja á — (Fjmrh.: Það stendur allt í Þjóðviljanum.) Já, kannske hæstv. fjmrh. vilji gera ráðstafanir til þess, að Þjóðviljinn verði lesinn í fréttatíma útvarpsins næst; það mundi ekki veita af því, ef almenningur á að skilja þau lagafyrirmæli, sem hæstv. fjmrh. ætlar að leggja fyrir þingið. Ég býst við, að það veitti ekki af slíkum skýringum. Einu sinni þótti höfðingjum þessa lands, þeim verstu, sjálfsagt að hafa sem flest á latínu, til þess að fólkið skildi það ekki. Þá þurfti að slást fyrir því að koma því yfir á íslenzku. Núna býst ég við, að það þurfi skýringar Þjóðviljans; hann þurfi að útfæra, hvað það þýðir á íslenzku, til þess að menn skilji hebreskuna í lagafyrirmælunum, ekki sízt þegar þau eru svo illa úr garði gerð eins og þessi. Svo kemur að vísu hérna á eftir 23. gr., þar sem sést, hvað er undanþegið söluskatti, en það er passað vel upp á að vera ekki að geta um það, á hvað hann leggist.

Ég skil það ósköp vel hjá hæstv. fjmrh., af hverju hann er svona hræddur við Þjóðviljann og hans skýringar á þessu. Hann vill helzt aldrei láta vita, á hvað söluskatturinn leggist, en hann kemst nú hins vegar ekki hjá því að láta fólk vita það, vegna þess að almenningur finnur það, svo að það er ekki yfir neinum skatti kvartað eins í landinu og þessum — og ekki aðeins kvartað yfir honum sjálfum og hvað hann sé óréttlátur og hvað hann sé þungur, heldur líka yfir því, hvernig hann er heimtur inn, því að mönnum er oft gert meira tjón með þeim harðstjórnarlegu aðferðum, sem beitt er við innheimtuna á honum, heldur en meira að segja með því að taka söluskattinn af mönnum. Ég held þess vegna, að hv. fjhn., sem þetta mál fer nú til, ætti að athuga það, hvort hugsanlegt væri að fá fram a.m.k. þá breyt. þarna á, áð þetta sé gert sæmilega skiljanlegt almenningi, þótt hitt væri náttúrlega höfuðatriðið, að fá sjálfan söluskattinn afnuminn, eða að minnsta kosti á öllum þeim nauðsynjavörum, sem hann leggst á.

Hinu er vert að muna eftir, um leið og þetta mál nú fer til n., að þegar þessi söluskattur var á lagður upphaflega, þá átti með honum að standa undir fiskábyrgðinni. Þessi söluskattur hefur árlega verið margfalt meiri en það, sem fiskábyrgðin var á nokkru ári og greiðslurnar vegna hennar. Hins vegar, þegar fiskábyrgðin var felld niður, sjómönnum og bátaútvegsmönnum til óbætanlegs tjóns, þá var þessum söluskatti haldið, þótt lofað hefði verið, að hann skyldi falla. Og það var ekki nóg með það. Söluskattinum var haldið, og síðan var bátagjaldeyrinum bætt þarna ofan á.

Það er eftirtektarvert núna, þegar hæstv. ríkisstj. kemur fram með frv. um að framlengja söluskattinn, að hún gætir þess ósköp vel að minnast ekki á þær álögur, sem eru alveg sérstaklega þungar á almenningi og aldrei koma hér fyrir þingið, nema þegar ég tala um þær, bátagjaldeyrinn, — álögur, sem hæstv. ríkisstj. leggur á og hefur lagt á undanfarin ár án nokkurra lagaheimilda, þannig að milli 100–200 millj. kr. hafa þegar verið teknar af almenningi, án þess að það sé nokkur lagabókstafur fyrir því, teknar með beinu broti á stjórnarskrá og lögum, og hæstv. ríkisstj. hefur aldrei treyst sér til þess að verja það. Hún kemur ekki fram með neinar till. um að framlengja það. Hún ætlar auðsjáanlega að reyna að halda í það. En ég býst við, að það eigi nú eftir að verða rætt hér í þinginu, hvernig þau mál horfa við, a.m.k. ætti hæstv. ríkisstj. að gefa hér skýringar á, hvernig stendur þá á því, að hún framfylgir ekki þeirri ólögmætu reglugerð, sem hún lét fjárhagsráð setja, hvað snertir allan útflutning á hraðfrystum fiski. Hvað lengi á það að viðgangast í landinu, að það viti enginn lengur, hvað séu lög og hvað séu reglur? Er tekið 50% núna og leyft að leggja 50% á andvirði alls þess hraðfrysta fisks, sem fluttur er út úr landinu sem stendur? Hvernig er með þann hraðfrysta fisk, sem núna er fluttur til Rússlands? Er ekki látið leggja bátagjaldeyri á þær vörur, sem koma inn fyrir hann? Og hvernig stendur á því? Ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. verði að gera betri grein fyrir, hvernig hún fer með fjármuni þjóðarinnar, heldur en þær greinargerðir, sem gerðar hafa verið undanfarið. Það er hart að koma nú eftir nýútgefin loforð um að létta sköttum af almenningi með till. um að framlengja söluskattinn, minnast ekki á bátagjaldeyrinn, sem settur var í staðinn fyrir það, sem áður átti að standa undir fiskábyrgðinni eða tryggja það sama og hún tryggði. Það er hart, að hæstv. ríkisstj. skuli yfirleitt ekki virða Alþingi þess lengur að standa fyrir sínu máli um álögurnar, sem hún leggur á almenning.

Ég mun við 2. umr. þessa máls gera brtt. viðvíkjandi þessu frv. Hins vegar álít ég, að það væri mjög æskilegt, til þess að nokkru greinilegar kæmi fram, hvað í þessu fælist, að fjhn., sem ríkisstj. nú hefur vissulega fulla velþóknun á allri saman, athugi þetta frv. lögfræðilega séð, þannig að það haldi ekki áfram hvað frágang snertir að vera eins hraksmánarlegt og það hefur verið hingað til frá hæstv. fjmrh., og sé gert þannig úr garði, í fyrsta lagi, að almenningur geti skilið það, og í öðru lagi, að það sé þinginn ekki lögfræðilega til skammar.